Bókin Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness kom út í New York árið 1946 í þýðingu Englendingsins J. A. Thompson, en þýðing hans á verkinu hafði komið út í London ári áður. Bókaforlagið Random House, eitt stærsta og öflugasta útgáfufyrirtæki Bandaríkjunum, gaf Sjálfstætt fólk út.
Salka Valka hafði komið út í Englandi og í Bandaríkjunum í þýðingu F. H. Lyon tíu árum fyrr, árið 1936, en náði ekki mikilli útbreiðslu. Sjálfstætt fólk sló hins vegar í gegn í Ameríku og seldist í nær hálfra milljóna eintaka á hálfum mánuði. Bókin varð síðan bók mánaðarins hjá hinum öfluga bókaklúbb, „Book of the Month Club”.
Faðir minn hóf framhaldsnám í Bandaríkjunum árið 1947 og varð sér út um eintak af Sjálfstæðu fólki á ensku og prýddi sú bók bókahilluna á heimili mínu. Þegar mér var sagt frá því, að bókin hefði verið metsölubók í Bandaríkjunum, varð ég viss um, að Nóbelsskáldið okkar væri frægur rithöfundur í Ameríku.
Fyrst eftir að ég kom til New York árið 1977, rúmum 30 árum eftir útgáfu Sjálfstæðs fólks þar, leitaði ég, í þeirri góðu trú að Halldór væri þekktur höfundur þar í landi, að bókum eftir hann í hinum mörgu góðu bókabúðum, sem þá prýddu New York borg.
En þar var enga bók eftir Halldór Laxness að finna. Mér fannst það miður, en sannfærði mig um að það væri auðvitað ekki gulltryggt að rithöfundar, sem hljóta bókmenntaverðlaun Nóbels verði heimsfrægir. Það vita þeir, sem hafa litið á skrána yfir Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, en þar er að finna fjölda höfunda, sem fæstir kannast við.
Ég komst þó nýlega að því, að skýring mín á því af hverju verk Halldórs voru hvergi að finna í bókabúðum New York borgar, var ekki eins einföld og ég hafði talið mér trú um. Þetta uppgötvaði ég við lestur greinar dótturdóttur Halldórs, Auðar Jónsdóttur, „Kaldir stríðs klækir í fjármálaráðuneytinu”, sem birtist í Kjarnanum 11. júní, 2020.
Í greininni fjallar Auður um mál Þorvalds Gylfasonar hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands. Þorvaldi bauðst að gerast ritstjóri fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review, sem er gefið út sameiginlega af fjármálaráðuneytum Norðurlandanna. Þorvaldur var reiðubúinn að taka við stöðunni, en ráðning hans var háð samþykki embættismanna í öllum fjármálaráðuneytum á Norðurlöndunum.
Til að gera langa sögu stutta, þá var íslenska fjármálaráðuneytið andsnúið því að Þorvaldur fengi starfið, og var ein af ástæðum fyrir þessari andstöðu pólitísk virkni og pólitískar skoðanir Þorvalds.
Sama sagan
Þessi framganga íslenskra yfirvalda varðandi ráðningu Þorvalds til starfa hjá erlendu fræðatímariti minnti Auði á þann andbyr, sem móðurafi hennar Halldór Laxness mætti frá ráðamönnum eftir að Sjálfstætt fólk varð að metsölubók í Bandaríkjunum árið 1946. Í grein sinni styðst Auður við upplýsingar, sem komu fram í ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson, sem kom út árið 2004.
Yfirmenn Trimbles í Washington DC voru í fyrstu tregir til að sinna þessu verki, en að lokum var málið kannað og fékk bandaríska sendiráðið á Íslandi yfirlit yfir höfundarlaun Halldórs fyrir Sjálfstætt fólk. Einnig fékk bandaríski útgefandi Halldórs fyrirspurnir um hann frá bandarísku leyniþjónustunni FBI. – Halldór komst síðan í kast við íslensk skattaryfirvöld vegna málsins, og var honum hótað með því, að húseign hans og bílarnir hans tveir, yrðu boðin upp, ef hann greiddi ekki hina meintu skattaskuld.
Þessi framganga íslenskra yfirvalda varpaði rýrð á mannorð og heiðarleika Halldórs Laxness í Bandaríkjunum og dró úr útgáfum á verkum hans þar í landi.
Íslenskar heimsbókmenntir
Þegar ég fór í gegnum gamlar bækur í bókahillunum mínum í kófinu, rakst ég á bók um Halldór Laxness, sem ég erfði eftir íslenska konu hér Vestra, en aldrei litið í.
Bókin, sem kom út árið 1962, heitir einfaldlega „Halldór Kiljan Laxness” og er eftir Kristján Karlsson bókmenntafræðing. Tilgangur Kristjáns með bókinni var að kynna Nóbelsverðlaunahafann íslenska sem heimsmann. Fremst í bókinni er inngangur bæði á íslensku og á ensku, þar sem helstu einkennum á ritverkum Halldórs er lýst. Kristján færir rök fyrir því, að þó verk Halldórs eigi sér djúpar rætur í íslenskri sögu og menningu, þá höfði þau til lesenda um allan heim. Saga þeirra geymi hin algildu sannindi þjóðsögunnar og er þar af leiðandi öllum heiminum opin bók.
Myndir úr lífi skáldsins
Megin uppistaða bókar Kristjáns eru svipmyndir úr lífi Halldórs. Nokkrar af þeim eru teknar á Íslandi og sýna hann, húsið hans og fjölskyldu, en flestar myndanna eru af heimsmanninum Halldóri á erlendri grund. Þar er meðal annars mynd af honum ungum í Los Angeles, á göngu með Auði á götu í Flórens, með mektarmönnum á Indlandi og í Belgíu, í verksmiðju í Rússlandi, með íslenskum hefðardömum á Hotel d’Angleterre í Kaupmannahöfn. Þar er líka mynd að finna af honum kampakátum í Finnlandi, en flestar myndanna eru teknar í Svíþjóð.
Ein þeirra sýnir Halldór með símtól í hendi, sem var tekin á því augnabliki sem hann fékk eina eftirsóttustu símhringingu rithöfunda heimsins, símhringinguna frá Nóbelsverðlaunanefndinni, þar sem honum var tilkynnt að hann hefði hlotið Bókmenntaverðlaun Nóbels. Halldór var þá staddur í Gautaborg. Flestar myndanna, eða átta alls, eru frá afhendingu verðlaunanna í Stokkhólmi í desembermánuði 1955.
Skrá um bækur Halldórs á erlendum málum
Aftast í bókinni er skrá um bækur Halldórs á erlendum málum eftir Harald Sigurðsson, en árið 1962 höfðu verk eftir Halldór komið út á 27 tungumálum í 29 löndum. – (Í dag hafa bækur Halldórs verið þýddar á 43 tungumál.)
Norðurlöndin eru þar, að vonum, efst á blaði. Flest verka hans höfðu verið þýdd á dönsku, eða 21, 14 á sænsku, en átta á norsku og finnsku.
Átta verk eftir hann höfðu verið þýdd á þýsku, fimm á hollensku, þrjú á grísku, tvö verk höfðu komið út í Frakklandi, eitt á Spáni, önnur tvö í Argentínu.
Í Asíu höfðu bækur Halldórs verið gefnar út í fjórum löndum, tvær í Kína, ein í Tyrklandi, ein í Indlandi og ein í Japan. Á Indlandi kom bók Halldórs út á ensku og einnig út á tungumáli, sem þá hét Oriya, en heitir Odia í dag, og er talað í Odisha héraðinu á austurströnd Indlands, en þar búa um 35 milljónir manna.
Voru bestu vinir Íslands bestu vinir Halldórs Laxness?
Í ljósi þess hversu útbreidd verk Halldórs voru árið 1962, er það afar athyglisvert hversu fá verk Halldórs voru á máli aðal bandamanna Íslands á þessum tíma, stórveldanna tveggja Bretlands og Bandaríkjanna, en tunga þeirra enskan, er þriðja mest talaða tungumál heims.
Árið 1962 höfðu alls fimm verk eftir hann komið út á ensku. Eitt þeirra, Ungfrúin góða og húsið, var gefið út á Íslandi árið 1959. Gerpla kom út í Bretlandi árið 1958 og Atómstöðin árið 1961. Og eins og áður sagi kom bæði Salka Valka (árið 1936) og Sjálfstætt fólk (1946,1947) út í Englandi og í Bandaríkjunum.
Brekkukostsannáll var gefin út í Bandaríkjunum árið 1967 og Heimsljós árið 1969. Þær voru gefnar út af minni útgáfufyrirtækjum en Random House og árið 1977 prýddu þessar útgáfur ekki bókahillur í helstu bókabúðum New York borgar.
Upp úr miðjum tíunda áratugnum var áhuginn á verkum Halldórs endurvakinn þar í Bandaríkjunum. Sjálfstætt fólk var endurútgefin árið 1997, ári áður en Halldór lést. Vintage gaf bókina út, en Vintage er hluti af Random House útgáfusamsteypunnar, sem gaf bókina upphaflega út árið 1946. – Og þótt nýja útgáfan hafi fengið lofsamlega dóma í blöðum Vestra, þá náði hún aldrei því flugi sem fyrsta útgáfan gerði árið 1946.
Ekki markaðslögmál heldur valdatafl
Eftir að hafa kynnt mér söguna á útgáfum verka Halldórs í Bandaríkjunum varð mér ljóst, að það voru ekki markaðslögmál, sem réðu því að eitt stærsta og öflugasta bókaforlag Bandaríkjanna hélt ekki áfram að gefa bækur Halldórs út eftir að fyrsta verk hans, sem þeir gáfu út, hafði verið metsölubók. Því réði greinilega ráðabrugg bandarískra og íslenskra valdamanna, manna sem voru ekki sáttir við stjórnmálaskoðanir Halldórs og óttuðust að hagnaður hans af sölu Sjálfstæðs fólks rynni í vasa pólitískra andstæðinga þeirra, - Já, máttur valdsins og þöggunarinnar er mikill.
Fyrirgefning syndanna
Árið 1955, átta árum eftir að sendiherra Bandaríkjanna fór þess á leit í samráði við íslensk yfirvöld, að bandarísk yfirvöld rannsökuðu skattamál Halldórs Laxness í Bandaríkjunum, hlaut Halldór Laxness Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, fyrsti og eini Íslendingurinn, sem hefur hlotið það hnoss og hefur hann verið þjóðarstolt Íslendinga æ síðan.
Í bók Kristjáns Karlssonar um Halldór er að finna mynd af gestum í veislu á Bessastöðum, sem þáverandi forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson og kona hans Dóra Þórhallsdóttir, héldu Halldóri til heiðurs, eftir að hann kom heim með Nóbelsverðlaunin í farteskinu.- Eins og sjá má á myndinni, sat Bjarni Benediktsson veisluna, en hann var dóms-og menntamálaráðherra á þeim tíma. – Bjarna og Halldóri var þá orðið vel til vina og þegar Bjarni lést árið 1970, skrifaði Halldór minningargrein um vin sinn Bjarna Benediktsson.
Höfundur er mannfræðingur.