Heimsmaðurinn Halldór Kiljan Laxness, sem aldrei varð frægur og ríkur í Ameríku

Inga Dóra Björnsdóttir telur að ljóst að það hafi ekki verið markaðslögmál sem réðu því að bækur Nóbelsskáldsins hættu að koma út í Bandaríkjunum á sínum tíma, heldur ráðabrugg valdamanna sem voru ekki sáttir við stjórnmálaskoðanir Halldórs Laxness.

Auglýsing

Bókin Sjálf­stætt fólk eftir Hall­dór Lax­ness kom út í New York árið 1946 í þýð­ingu Eng­lend­ings­ins J. A. Thomp­son, en þýð­ing hans á verk­inu hafði komið út í London ári áður. Bóka­for­lagið Random Hou­se, eitt stærsta og öfl­ug­asta útgáfu­fyr­ir­tæki Banda­ríkj­un­um, gaf Sjálf­stætt fólk út. 

Salka Valka hafði komið út í Englandi og í Banda­ríkj­unum í þýð­ingu F. H. Lyon tíu árum fyrr, árið 1936, en náði ekki mik­illi útbreiðslu. Sjálf­stætt fólk sló hins vegar í gegn í Amer­íku og seld­ist í nær hálfra millj­óna ein­taka á hálfum mán­uði. Bókin varð síðan bók mán­að­ar­ins hjá hinum öfl­uga ­bóka­klúbb, „Book of the Month Clu­b”. 

Faðir minn hóf fram­halds­nám í Banda­ríkj­unum árið 1947 og varð sér út um ein­tak af Sjálf­stæðu fólki á ensku og prýddi sú bók bóka­hill­una á heim­ili mínu. Þegar mér var sagt frá því, að bókin hefði verið met­sölu­bók í Banda­ríkj­un­um, varð ég viss um, að Nóbels­skáldið okkar væri frægur rit­höf­undur í Amer­ík­u. 

­Fyrst eftir að ég kom til New York árið 1977, rúmum 30 árum eftir útgáfu Sjálf­stæðs fólks þar, leit­aði ég, í þeirri góðu trú að Hall­dór væri þekktur höf­undur þar í landi, að bókum eftir hann í hinum mörgu góðu bóka­búð­um, sem þá prýddu New York borg. 

En þar var enga bók eftir Hall­dór Lax­ness að finna. Mér fannst það mið­ur, en sann­færði mig um að það væri auð­vitað ekki gull­tryggt að rit­höf­und­ar, sem hljóta bók­mennta­verð­laun Nóbels verði heims­fræg­ir. Það vita þeir, sem hafa litið á skrána yfir Nóbels­verð­launa­hafa í bók­mennt­um, en þar er að finna fjölda höf­unda, sem fæstir kann­ast við. 

Ég komst þó nýlega að því, að skýr­ing mín á því af hverju verk Hall­dórs voru hvergi að finna í bóka­búðum New York borg­ar, var ekki eins ein­föld og ég hafði talið mér trú um. Þetta upp­götv­aði ég við lestur greinar dótt­ur­dóttur Hall­dórs, Auðar Jóns­dótt­ur, „Kaldir stríðs klækir í fjár­mála­ráðu­neyt­in­u”, sem birt­ist í Kjarn­anum 11. júní, 2020. 

Í grein­inni fjallar Auður um mál Þor­valds Gylfa­sonar hag­fræði­pró­fess­ors við Háskóla Íslands. Þor­valdi bauðst að ger­ast rit­stjóri fræða­tíma­rits­ins Nor­dic Economic Policy Revi­ew, sem er gefið út sam­eig­in­lega af fjár­mála­ráðu­neytum Norð­ur­land­anna. Þor­valdur var reiðu­bú­inn að taka við stöð­unni, en ráðn­ing hans var háð sam­þykki emb­ætt­is­manna í öllum fjár­mála­ráðu­neytum á Norð­ur­lönd­un­um. 

Til að gera langa sögu stutta, þá var íslenska fjár­mála­ráðu­neytið andsnúið því að Þor­valdur fengi starf­ið, og var ein af ástæðum fyrir þess­ari and­stöðu póli­tísk virkni og póli­tískar skoð­anir Þor­valds. 

Sama sagan 

Þessi fram­ganga íslenskra yfir­valda varð­andi ráðn­ingu Þor­valds til starfa hjá erlendu fræða­tíma­riti minnti Auði á þann and­byr, sem móð­ur­afi hennar Hall­dór Lax­ness mætti frá ráða­mönnum eftir að Sjálf­stætt fólk varð að met­sölu­bók í Banda­ríkj­unum árið 1946. Í grein sinni styðst Auður við upp­lýs­ing­ar, sem komu fram í ævi­sögu Hall­dórs Lax­ness eftir Hall­dór Guð­munds­son, sem kom út árið 2004. 

Auglýsing
Þar kemur fram að árið 1947 hafi William Trimble, banda­ríski sendi­herr­ann á Íslandi, lýst áhyggjum sínum yfir mál­flutn­ingi Hall­dórs, en Hall­dór var hallur undir sós­í­al­isma og ­deildi hart á erlenda her­setu á Íslandi. 16. júní, 1947 sendi Trimble skeyti merkt trún­að­ar­mál til yfir­manna sinna í banda­ríska utan­rík­is­ráðu­neyt­inu og seg­ist hafa rætt málið við Bjarna Bene­dikts­son og hafi utan­rík­is­ráð­herr­ann sagt að hann myndi mjög gjarnan vilja fá að vita hvað Hall­dór væri búinn að fá í höf­und­ar­laun fyrir Sjálf­stætt fólk í Banda­ríkj­un­um. Í skeyt­inu sagði Trimble að herra Bene­dikts­son hafi sagt, að hann lang­aði sér­stak­lega til að vita hvaða meðal mán­að­ar­greiðslur herra Lax­ness hefði fengið það sem af var árinu 1947. Þessar upp­lýs­ing­ar, sagði hann, yrðu afar gagn­legar rík­is­stjórn Íslands í til­raunum sínum til að finna þá sem helst frjá­mögn­uðu Komm­ún­ista­flokk Íslands. 

Yfir­menn Trimbles í Was­hington DC voru í fyrstu tregir til að sinna þessu verki, en að lokum var málið kannað og fékk banda­ríska sendi­ráðið á Íslandi yfir­lit yfir­ höf­und­ar­laun Hall­dórs fyrir Sjálf­stætt fólk. Einnig fékk banda­ríski útgef­andi Hall­dórs fyr­ir­spurnir um hann frá banda­rísku leyni­þjón­ust­unni FBI. – Hall­dór komst síðan í kast við íslensk skatt­ar­yf­ir­völd vegna máls­ins, og var honum hótað með því, að hús­eign hans og bíl­arnir hans tveir, yrðu boðin upp, ef hann greiddi ekki hina meintu skatta­skuld. 

Þessi fram­ganga íslenskra yfir­valda varp­aði rýrð á mann­orð og heið­ar­leika Hall­dórs Lax­ness í Banda­ríkj­unum og dró úr útgáfum á verkum hans þar í land­i. 

Íslenskar heims­bók­menntir

Þegar ég fór í gegnum gamlar bækur í bóka­hill­unum mínum í kóf­inu, rakst ég á bók um Hall­dór Lax­ness, sem ég erfði eftir íslenska konu hér Vestra, en aldrei litið í.

Bók­in, sem kom út árið 1962, heitir ein­fald­lega „Hall­dór Kiljan Lax­ness” og er eftir Krist­ján Karls­son bók­mennta­fræð­ing. Til­gangur Krist­jáns með bók­inni var að kynna Nóbels­verð­launa­hafann íslenska sem heims­mann. Fremst í bók­inni er inn­gangur bæði á íslensku og á ensku, þar sem helstu ein­kennum á rit­verkum Hall­dórs er lýst. Krist­ján færir rök fyrir því, að þó verk Hall­dórs eigi sér djúpar rætur í íslenskri sögu og menn­ingu, þá höfði þau til les­enda um allan heim. Saga þeirra geymi hin algildu sann­indi þjóð­sög­unnar og er þar af leið­andi öllum heim­inum opin bók. 

Myndir úr lífi skálds­ins

Megin uppi­staða bókar Krist­jáns eru svip­myndir úr lífi Hall­dórs. Nokkrar af þeim eru teknar á Íslandi og sýna hann, húsið hans og fjöl­skyldu, en flestar mynd­anna eru af heims­mann­inum Hall­dóri á erlendri grund. Þar er meðal ann­ars mynd af honum ungum í Los Ang­el­es, á göngu með Auði á götu í Flór­ens, með mekt­ar­mönnum á Ind­landi og í Belg­íu, í verk­smiðju í Rúss­landi, með íslenskum hefð­ar­dömum á Hotel d’Anglet­erre í Kaup­manna­höfn. Þar er líka mynd að finna af honum kampa­kátum í Finn­landi, en flestar mynd­anna eru teknar í Sví­þjóð. 

Ein þeirra sýnir Hall­dór með sím­tól í hendi, sem var tekin á því augna­bliki sem hann fékk eina eft­ir­sótt­ustu sím­hring­ingu rit­höf­unda heims­ins, sím­hring­ing­una frá Nóbels­verð­launa­nefnd­inni, þar sem honum var til­kynnt að hann hefði hlotið Bók­mennta­verð­laun Nóbels. Hall­dór var þá staddur í Gauta­borg. Flestar mynd­anna, eða átta alls, eru frá afhend­ingu verð­laun­anna í Stokk­hólmi í des­em­ber­mán­uði 1955. 

Skrá um bækur Hall­dórs á erlendum málum

Aft­ast í bók­inni er skrá um bækur Hall­dórs á erlendum málum eftir Har­ald Sig­urðs­son, en árið 1962 höfðu verk eftir Hall­dór komið út á 27 tungu­málum í 29 lönd­um. – (Í dag hafa bækur Hall­dórs verið þýddar á 43 tungu­mál.)

Norð­ur­löndin eru þar, að von­um, efst á blaði. Flest verka hans höfðu verið þýdd á dönsku, eða 21, 14 á sænsku, en átta á norsku og finnsku. 

Átta verk eftir hann höfðu verið þýdd á þýsku, fimm á hol­lensku, þrjú á grísku, tvö verk höfðu komið út í Frakk­landi, eitt á Spáni, önnur tvö í Argent­ín­u. 

Auglýsing
Bækur eftir Hall­dór höfðu verið gefnar út í flestum Aust­an­tjalds­lönd­un­um; sjö á tékk­nesku, sex á rúss­nesku, fimm á pólsku, fjögur á slóvakís­ku, þrjú á ung­versku, rúm­ensku og sló­vensku, tvö á búl­gör­sku, eist­nesku og lett­nesku, og loks eitt á lit­háísku, eitt á serbnesku og eitt á úkra­ínsku. 

Í Asíu höfðu bækur Hall­dórs verið gefnar út í fjórum lönd­um, tvær í Kína, ein í Tyrk­landi, ein í Ind­landi og ein í Jap­an. Á Ind­landi kom bók Hall­dórs út á ensku og einnig út á tungu­máli, sem þá hét Ori­ya, en heitir Odia í dag, og er talað í Odisha hér­að­inu á aust­ur­strönd Ind­lands, en þar búa um 35 millj­ónir manna. 

Voru bestu vinir Íslands bestu vinir Hall­dórs Lax­ness?

Í ljósi þess hversu útbreidd verk Hall­dórs voru árið 1962, er það afar athygl­is­vert hversu fá verk Hall­dórs voru á máli aðal banda­manna Íslands á þessum tíma, stór­veld­anna tveggja Bret­lands og Banda­ríkj­anna, en tunga þeirra enskan, er þriðja mest tal­aða tungu­mál heims. 

Árið 1962 höfðu alls fimm verk eftir hann komið út á ensku. Eitt þeirra, Ung­frúin góða og hús­ið, var gefið út á Íslandi árið 1959. Gerpla kom út í Bret­landi árið 1958 og Atóm­stöðin árið 1961. Og eins og áður sagi kom bæði Salka Valka (árið 1936) og Sjálf­stætt fólk (1946,1947) út í Englandi og í Banda­ríkj­un­um. 

Brekku­kostsann­áll var gefin út í Banda­ríkj­unum árið 1967 og Heims­ljós árið 1969. Þær voru gefnar út af minni útgáfu­fyr­ir­tækjum en Random House og árið 1977 prýddu þessar útgáfur ekki ­bóka­hillur í helstu bóka­búðum New York borg­ar. 

Upp úr miðjum tíunda ára­tugnum var áhug­inn á verkum Hall­dórs end­ur­vak­inn þar í Banda­ríkj­un­um. Sjálf­stætt fólk var end­ur­út­gefin árið 1997, ári áður en Hall­dór lést. Vin­tage gaf bók­ina út, en Vin­tage er hluti af Random House útgáfu­sam­steypunn­ar, sem gaf bók­ina upp­haf­lega út árið 1946. – Og þótt nýja útgáfan hafi fengið lof­sam­lega dóma í blöðum Vestra, þá náði hún aldrei því flugi sem fyrsta útgáfan gerði árið 1946. 

Ekki mark­aðslög­mál heldur valda­tafl

Eftir að hafa kynnt mér sög­una á útgáfum verka Hall­dórs í Banda­ríkj­unum varð mér ljóst, að það voru ekki mark­aðslög­mál, sem réðu því að eitt stærsta og öfl­ug­asta bóka­for­lag Banda­ríkj­anna hélt ekki áfram að gefa bækur Hall­dórs út eftir að fyrsta verk hans, sem þeir gáfu út, hafði verið met­sölu­bók. Því réði greini­lega ráða­brugg banda­rískra og íslenskra valda­manna, manna sem voru ekki sáttir við stjórn­mála­skoð­anir Hall­dórs og ótt­uð­ust að hagn­aður hans af sölu Sjálf­stæðs fólks rynni í vasa póli­tískra and­stæð­inga þeirra, - Já, máttur valds­ins og þögg­un­ar­innar er mik­ill.

Fyr­ir­gefn­ing synd­anna

Árið 1955, átta árum eftir að sendi­herra Banda­ríkj­anna fór þess á leit í sam­ráði við íslensk yfir­völd, að banda­rísk yfir­völd rann­sök­uðu skatta­mál Hall­dórs Lax­ness í Banda­ríkj­un­um, hlaut Hall­dór Lax­ness Nóbels­verð­launin í bók­mennt­um, fyrsti og eini Íslend­ing­ur­inn, sem hefur hlotið það hnoss og hefur hann verið þjóð­arstolt Íslend­inga æ síð­an. 

Í bók Krist­jáns Karls­sonar um Hall­dór er að finna mynd af gestum í veislu á Bessa­stöð­um, sem þáver­andi for­seti Íslands, Ásgeir Ásgeirs­son og kona hans Dóra Þór­halls­dótt­ir, héldu Hall­dóri til heið­urs, eftir að hann kom heim með Nóbels­verð­launin í fartesk­in­u.- Eins og sjá má á mynd­inni, sat Bjarni Bene­dikts­son veisl­una, en hann var dóms-og mennta­mála­ráð­herra á þeim tíma. – Bjarna og Hall­dóri var þá orðið vel til vina og þegar Bjarni lést árið 1970, skrif­aði Hall­dór minn­ing­ar­grein um vin sinn Bjarna Bene­dikts­son. 

Höf­undur er mann­fræð­ing­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar