Þankar um bókina Sapiens A Brief History of Humankind eftir Yuval Noah Harari.
Höfundur bókarinnar Sapiens hefur vakið mikla athygli á síðustu árum. Bókin hefur selst í milljónum eintaka. Ég las hana á ensku. Hér er ekki um neinn bækling að ræða heldur tæplega 500 síðna doðrant.
Nú er hún komin út hjá Forlaginu og ber heitið Sapiens, Mannkynssaga í stuttu máli, í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.
Fyrstu kaflarnir eru virkilega skemmtilegir og skrifaðir af frjóum huga. Ég naut þess að lesa fyrri helming bókarinnar og rúmlega það en þá fann ég að farið var að dofna dálítið á höfundi. Hver heldur stíl og kyngimagni í gegnum 500 síður?
Mig fór fljótt að gruna að hann ætti einhverra harma að hefna. Ég skynjaði undirtón sem gaf til kynna fordóma á vissum sviðum. Og þegar slíkt kemur fram í máli höfunda sannast það að enginn er fordómalaus og enginn er heldur algjörlega, hundrað prósent, hlutlægur. Homo sapiens, hin vitiborna manneskja, við öll, höfum þann djöful að draga að þurfa að reita arfa alla daga, hver úr sínum sinnisgarði.
Mig fór snemma að gruna að honum líkaði ekki við kirkju og kristni og það kann að vera vegna þess að hann er alinn upp sem Gyðingur. Hann er sagður á vefnum vera „secular“ Gyðingur sem merkir að hann hafi ekki fengið strangtrúaruppeldi. Hann er þá kannski Gyðingur eins og margir Íslendingar eru kristnir án þess að fara mikið í kirkju eða lesa Biblíuna.
Á vefnum fann ég svo umfjöllun um að hann væri samkynhneigður.
Þetta tvennt gefur til kynna að hann kunni að hafa fóstrað með sér fordóma í garð kirkju og kristni sem hvílir á tveimur stoðum, trú hans annars vegar og kynhneigð hins vegar.
Tilvitnun í frumútgáfuna styður mál mitt. Á bls. 370 í útgáfu Vintage sem er hluti Penguin Random House 2011 segir m.a.:
„Some religions, such as Christianity and Nazism, have killed millions out of burning hatred.“
Ég verð að viðurkenna að það þarf ögn útvíkkað ímyndunarafl, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, til að spyrða þessi tvö fyrirbrigði saman og gera þau bæði að trúarbrögðum sem myrt hafi fólk í stórum stíl í brennandi hatursæði.
Í íslensku þýðingunni hljóðar tilvitnunin svo:
„Sum trúarbrögð, til dæmis kristni og nasismi, hafa orðið milljónum mann að bana af logandi hatri.“ (s. 357)
Við augum blasir að nasisminn fór fram með miklum gaura- og djöfulgangi og drap fólk í milljónavís. Nasisminn óx upp í Þýzkalandi sem mótað er af kaþólsku kirkjunni og síðar siðbót Lúthers. Landið má því skilgreina sem kristið land. En kristnin í Þýzkalandi var aldrei hundrað prósent fylgjandi Hitler og hans hirðmönnum en það afsakar hins vegar ekki glæpina. Að kristnin (Christianity), hafi staðið að morðunum með beinum hætti og samþykktum sínum, stenst varla fræðilega skoðun og hér finnst mér fræðimaðurinn fara offari. Engar heimildir eru um að kirkjuþing, biskupafundir eða prestastefnur, innan kaþólsku kirkjunnar eða meðal mótmælenda, hafi setið á fundum og skipulagt helförina.
Hitt er líklegra að fólk, einstaklingar, hafi sogast inn í nasismann vegna blekkingarleiksins sem var í gangi af hálfu nasistaflokksins, vegna þess að hjól atvinnulífsins tóku aftur að snúast undir stjórn Hitlers og efnahagur vænkaðist hjá almenningi. Það sáu ekki allir í gegnum lygavefinn. Þótt ólíku sé saman að jafna þá skiptist til dæmis fólk í heiminum í tvö horn þegar kemur að afstöðunni til hlýnunar jarðar. Hluti manna kennir mannkyni um en hinn hlutinn náttúrunni og vill alls ekki láta hana njóta vafans. Hitt dæmið um blinda eftirfylgni er hvernig kristnir hægri menn fylkja sér undir merki Trump forseta. Þeir neita að sjá að maðurinn er að margra áliti, siðlaus lýðskrumari, dóni og vafasamur pappír, skítseiði, hvar sem á hann er litið.
Söguskoðun einstaklinga er stundum þröng og mótuð af persónulegri upplifun á langri eða stuttri ævi viðkomandi.
Sagan geymir vissulega dæmi um róstur, illvirki og stríð innan kristinna samfélaga og í sumum tilfellum áttu sér stað stríð beinlínis á trúar- eða játningalegum forsendum. Í Frakklandi myrtu kaþólikkar t.d. mótmælendur í stórum stíl og þeir sem komust af flúðu margir til Ameríku. Þessi mótmælendur voru Húgenottar eða kalvinistar.
Deilurnar á Norður-Írlandi eru mörgum í fersku minni, deilurnar á milli kaþólskra og mótmælenda. En skoðum þær aðeins nánar. Deilurnar sem stóðu hæst á árunum 1968-1998, snerust um það hvort Norður-Írland ætti að tilheyra breska konungsveldinu eða írska lýðveldinu. Meirihluti íbúanna, mótmælendur, voru sambandssinnar (unionists/loyalists) og vildu tilheyra breska konungsveldinu en minnihlutinn, kaþólskir, vildu tilheyra írska lýðveldinu. Var deila byggð á trúarskoðunum eða pólitík? Ég hallast að því að þetta hafi snúist um pólitík öðru fremur en það vill svo til að skoðanirnar skiptust þannig að þær féllu hvor að sinni deild kristninnar. Skoðanir á því hvort tiltekið svæði eigi að tilheyra einu ríki eða öðru hljóta að snúast um pólitík, ekki trúmál.
Dómharka
Snúum okkur um stund að öðru máli. Í samtímanum ber nokkuð á dómhörku gagnvart fólki fyrri tíðar. Nærtækast er að benda á hópa sem um þessar mundir steypa styttum af stalli í Bandaríkjunum og víðar í nafni mannréttinda. Afstaða fólks tekur líklega mið af þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir en mikið virðist skorta á að gagnrýnendur reyni að setja sig í spor fólks fyrri alda. Getum við hugsað eins og Alexander mikli, Júlíus Sesar, Karl Marx, Freud, Voltair?
Á Íslandi er oft vitnað til harðra dóma yfir körlum og konum á 17. öld. og dómskerfið og kirkjan dregin til ábyrgðar á aftökum karla og kvenna með öxi eða sekk í hyl. Eigum við að fullyrða að kristnin hafi stundað þau manndráp? Verðum við ekki að horfast í augu við að á öllum tímum flækist vel meinandi fólk í allskonar dómhörku, fordóma og djöfulskap? Og embættismenn undir konungsvaldi, hvað gátu þeir svo sem gert þegar dómar féllu? Ef þeir hefðu óhlýðnast eða dæmt á annan veg, beið þeirra sjálfra öxin eða gálginn. Við getum barið okkur á brjóst sem aldrei höfum lent í viðlíka siðklemmu.
Nú er kominn til sögunnar hinn svonefndi pólitíski rétttrúnaður sem leyfir helst engin blæbrigði skoðana. Allir skulu hugsa og hegða sér á sama hátt ella vera útskúfaðir og jafnvel réttdræpir.
Auðvelt er jafnan að dæma aðra. Prófaðu að benda með vísifingri frá þér á aðra manneskju. Þumallinn víkur sér þá gjarnan undan en hinir fingurnir þrír benda allir á brjóst þitt. Mundu það ætíð er þú dæmir.
Vond spyrða
Harari spyrðir saman kristni og nasisma og ákærir hvort tveggja um dráp á milljónum manna. Vert er að minna á að kristnin er ekki einsleitur hópur. Hann skiptist í stórum dráttum í kaþólska og mótmælendur. Kirkjan sem þróast hafði frá Kristi sem hreyfing almúgafólks breiddist út og varð öflugri og öflugri. Að lokum lagði hún Rómaveldi að velli. Af henni hrutu brot sem urðu að sértrúarhópum eða sektum. En kirkjan var að segja má ein og óskipt fram til ársins 1054 en þá klofnaði hún í tvær deildir, vestur og austur. Sú fyrrnefnda með höfuðstöðvar sínar í Róm en hin í Konstantinópel sem nú ber heitið Istanbúl. Jafnan er talað um kaþólsku kirkjuna í vestri og hina ortódoxu eða réttrúnaðarkirkjuna í austri. Klofningurinn átti sér stað tveimur árum fyrir vígslu Ísleifs Gissurarsonar í Þýzkalandi, fyrsta biskups Íslands, sem vígður var árið 1056 í Brimum (Bremen) af Aðalberti erkibiskupi.
Kirkjan klofnaði svo aftur 1517 vegna mótmæla Marteins Lúthers. Mótmælendur skiptast að meginstofni í tvær deildir: Lútherana og kalvinista. Norðurlöndin og Þýzkaland eru lúthersk en Sviss, Holland og Skotland eru helstu löndin sem kalla má kalvínsk og svo eru mikil kalvínsk áhrif í Bandaríkjunum. Þegar Max Weber bjó til hugtakið „the protestant work ethic“ þá átti hann kannski einkum við hin kalvínsku lönd sem hafa fóstrað upp þjóðfélög dugnaðar, sparnaðar og ráðdeildar. Öll könnumst við t.d. við sögur af séðum Skotum!
En lúthersku löndin ásamt hinum kalvínsku, þ.e. mótmælendur, eru á margan hátt í fararbroddi í heiminum hvað varðar mannréttindi, þjóðfélagslegt réttlæti og jafnrétti, svo aðeins nokkur gildi séu nefnd. Heimurinn öfundar þessi lönd af mannréttindum og almennum lífsgæðum og þangað streyma flóttamenn.
Þá má nefna baptista sem eru stór grein af mótmælendatrúnni og af þeirri grein eru hvítasunnumenn og fleiri deildir sem gjarnan eru bókstafstrúar og með fyrirvara á vísindum og þekkingu sem þeim finnst stangast á við texta Biblíunnar.
Af þessari samantekt sést að kristnin er ekki ein.
Íslenska þjóðkirkjan hefur verið lúbarin af mannréttindapostulum á liðnum misserum vegna þess að hún var t.d. að þeirra áliti svifasein að setja fram stefnu sína í málefnum samkynhneigðra. En hún var þó ein af fyrstu kirkjudeildum í heiminum sem gerði slíkt. Sú merka kirkja Church of England með erkibiskupinn af Kantaraborg í broddi fylkingar hefur ekki enn tekist að útkljá þetta mál og ekki heldur hvað varða vígslu kvenna. Afstöðu kaþólsku kirkjunnar þekkjum við og í Rússlandi er tónninn gefinn af Orþódoxu-kirkjunni. Kirkjudeildir eru engar smájúllur, þær eru stór skip, sem ekki verður snúið á punktinum. Munum það!
Fræðilegar kröfur
Harari skortir ekki prófgráður. Hann er með doktorsgráðu í sögu frá ekki ómerkari skólastofnun en Oxfordháskóla og svo er hann fyrirlesari við Hebrew University í Jerúsalem. Hann gagnrýnir kristnina og segir hana morðóða. Hvað skyldi hann segja um landnám Gyðinga, kúgun, ofbeldi og dráp á Palestínumönnum?
Í Ísrael hafa ekki allir íbúar sömu réttindi. Þar er við lýði aðskilnaðarstefna. Sögu heyrði ég af svörtum Gyðingum frá S-Afríku sem fóru í langþráða pílagrímsferð til Ísraels á okkar tímum en urðu forviða er þeir upplifðu trúar- og félagslega aðskilnaðarstefnu (apartheid) sem þar er rekin af stjórnvöldum með dyggum stuðningi Gyðinga og „kristinna“ bókstafstrúarmanna í Bandaríkjunum.
Harari er flinkur höfundur en hver getur haldið endalausum dampi án þess að skjátlast í nokkru atriði? Nú eru komnir út tveir doðrantar til viðtótar eftir hann: Homo Deus (2015) og 21 Lessons for the 21st Century (2018) og nokkrar bækur skrifaði hann á undan þessum þremur sem hér hafa verið nefndar. Harari er í tízku og þess vegna hamast útgefendur við að gefa út meir og meir. En hefur höfundurinn endalaust meira að segja eða er hann bara orðinn þræll markaðshyggjunnar sem vill hala inn meiri og meiri peninga á sömu hugsun, sömu bókinni, sama efninu, enda þótt titillinn sé nýr?
Hefur hann tíma til að skrifa þetta allt sjálfur eða er hann bara tannhjól í markaðsvél þar sem hópur skríbenta vinnur og skrifar bækurnar að stórum hluta fyrir hann?
Akur og arfi
Ég get horft í gegnum fingur mér við Harari vegna þessara fordóma en vænti þess að hann tali ekki á sama hátt í framtíðinni undir prófgráðunni doktor í sögu frá Oxford eða sem Gyðingur og vel meinandi manneskja.
Kristnin á sína sögu þar sem ljós og skuggar kallast á enda er saga hennar saga fólks, saga breyskra einstaklinga, eins og mín og þín, saga sigra og niðurlægingar, saga stórra hugmynda, þar sem finna má dæmi um skammsýni og fordóma í garð annarra. Saga Gyðinga, múslima, búddista, hindúa og annarra trúarhreyfinga, geymir svipuð dæmi um fordóma og ofbeldi, sem minnir okkur á að vandi okkar allra er brotalömin í okkur öllum, sem gyðing/kristin guðfræði kallar synd og merkir geigun, það að missa marks í lífsleiknum.
Vörumst fordóma og höldum áfram að reita arfann úr eigin garði. Því verkefni lýkur aldrei hjá Homo sapiens meðan hann dregur lífsandann og hugsar á þessari jörð.
Reynum að finna akur án arfa. Hann er ekki til. Dæmum ekki akurinn út frá einu arfalaufi eða tveimur.
Ég ætla ekki að dæma bókina Sapiens út frá einni tilvitnun, sem ég tel mig hafa hrakið og skilgreint sem fordóma. Ég las bókina sem áhugaverða greiningu á sögu mannkyns og hafði mikla ánægju af, enda þótt athyglin hafi dofnað ögn í síðari hluta bókarinnar.
Ég er kristinn maður og hef kristna lífssýn og trúi því að ekki sé að finna fegurri hugmyndafræði í heimi hér en hina kristnu.
Kristnir í Róm voru m.a. kallaðir guðleysingjar, ateistar, vegna þess að þeir trúðu ekki á guðagallerí Rómverja, ekki heldur á tröll, forynjur eða drauga. Kristnin er nefnilega trú skynseminnar, trú á einn Guð, sem er yfir öllu og í öllum, en hafnar goðmögnum í eða á jörðu, í himintunglum eða víddum geims og alheims.
Á BBC var nýlega varpað út þætti með yfirskriftinni: The Return of the Heathens, sem þýða mætti: Heiðingjarnir hafa snúið aftur. (Það freistaði mín að þýða „Heiðingjarnir hafa gengið aftur“!) Þátturinn er um ásatrúna á Íslandi, sem Íslendingar lögðu af fyrir 1100 árum. Orðið heiðingi er skilgreint svo í íslenskri orðabók: heiðing/i. m (-ja, -jar). 1. (ókristinn maður). heathen, pagan. 2. (trúleysingi). atheist.
Í þættinum segir Hilmar Örn, allsherjargoði, að trú hans hafi verið ríkjandi á Norðurlöndum og Bretlandseyjum um eða fyrir landnám Íslands en kristnin hafi eyðilagt arf þeirra sem að mestu var fólginn í ljóðum og kvæðum. Kristni barst til Bretlandseyja á 1. öld en var orðin útbreidd á 6. öld og hún náði yfirhöndinni með sínum góðu gildum og hjátrúarlausu hugmyndum um líf og heim. Hefði kristni ekki borist til Íslands, sem hafði með sér ritmenninguna, stafrófið og formleg fræðimennsku, sem átti rætur í evrópskum, kristnum háskólum, hefði ásatrúin þurrkast út. Það var kristnin sem skráði sögu ásatrúarinnar. Snorri var kristinn höfundur og átti alla sína kunnáttu að þakka kristinni menningu og fræðastarfi. Gleymið því ekki, ásatrúarmenn!
Í arfi norrænna manna er margt að finna, bæði speki og lífssýn sem er fögur og hrein, en einnig margskonar hugmyndir, sem engan veginn geta samrýmst kristni eða húmanisma, t.d. hugmyndir um hefnd og annan djöfulskap.
Ásatrúarmenn geta vel haldið í heiðri góðum gildum og vísdómi fólks sem þróaðist um aldir, en hugarheimi forfeðranna innan þeirrar trúar, sé allt tekið með, verður að kasta fyrir róða að stórum hluta. En allar góðar og fagrar hugmyndir um heiminn eiga fullan rétt á sér og víst er að fegurðar gætir innan allra trúarbragða. Varðveitum hið góða, fagra og fullkomna, en látum hitt liggja á milli hluta. Ásatrúarmenn sem ég þekki eru allir vænar manneskjur sem ég get treyst.
Lokaorð
Fögnum þeim sigrum sem mannkynið hefur öðlast í aldanna rás og ekki síst því sem sameinar okkur í dag eins og til að mynda birtist í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Barnasáttmálanum og fleiri samþykktum þjóða heims. Þeir sáttmálar bera þess nefnilega allir merki að vera sprottnir úr kristnum jarðvegi vestrænnar hugsunar, sem ég hef fjallað um áður í grein minni Kirkja og kristni í ólgusjó en þar ræddi ég um Hugsanafljótið sem er grunnur og uppspretta alls hins besta og dýrmætasta í vestrænni menningu.
Homo Sapiens, hefur áorkað miklu og enn er hann á ferð, hugsandi um lífið og tilveruna
Megi Harari og Homo Sapiens – okkur öllum – farnast vel á ökrum heims, þar sem arfi mun án efa finnast um ókomna framtíð, verða reittur „og í eld kastað“.
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur.