Í upphafi nýrrar Covid-bylgju er eðlilegt að lífleg umræða eigi sér stað um hvort rétt hafi verið að losa um ferðatakmarkanir til landsins þann 15. júní. Slík skoðanaskipti eru bæði eðlileg og nauðsynleg. Ekki til að finna sökudólga, heldur vegna þess að hún getur leitt til nauðsynlegs aðhalds og vandaðri ákvarðanatöku, í þágu alls almennings. Síðustu daga hafa nokkrir hagfræðingar lýst yfir miklum efasemdum um efnahagslegan ávinning af tilslökunum á landamærum. Þar á meðal Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Þórólfur Matthíasson og Gylfi Zoega. Þá hefur Kári Stefánsson dregið í efa að núverandi fyrirkomulag dugi til að lágmarka líkurnar á að faraldurinn gjósi upp innanlands að nýju. Loks hafa foreldrar og skólafólk lýst yfir áhyggjum af skólastarfi sem á að hefjast síðar í mánuðinum.
Það eru fjölmörg sjónarmið sem liggja til grundvallar gagnrýni á ákvörðun stjórnvalda fyrr í sumar.
Í greiningu fjármálaráðuneytisins og skýrslu Stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana var fyrst og fremst fjallað um áhrif veirunnar á ferðaþjónustuna. Nú geri ég hvorki lítið úr mikilvægi hennar eða þeim erfiðu aðstæðum sem margir sem vinna í ferðaþjónustu hafa þurft að þola. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að ný smit, sem örugglega má að einhverju leyti rekja til ferða til landsins, hafa verulega slæm áhrif á nær alla aðra atvinnustarfsemi í landinu. Ekki aðeins opinbera þjónustu, skólastarf og heilbrigðisþjónustu, heldur líka allt menningarlíf og aðrar atvinnugreinar sem þrífast á því að fólk geti komið saman og unnið saman. Skýrslan sjálf gaf reyndar nægt tilefni til að horft hefði verið breiðara yfir sviðið enda segir þar á einum stað: „Um leið er mikilvægt að hafa í huga að ef of geyst er farið getur komið dýrkeypt bakslag í baráttuna gegn veirunni hér innan lands og þá er betur heima setið en af stað er farið.“
Allar greiningar þurfa að sjálfsögðu að fela í sér samanburð á efnahagslegum áhrifum ólíkra leiða, ekki aðeins á einstakar atvinnugreinar heldur líka á áhrifum sem þær geta haft á líf almennings í landinu: heilsu fólks, efnahag, skerðingu á frelsi til venjubundins lífs, möguleika sjúklinga og eldri borgara til að hitta ástvini, andlega líðan fjölmargra og svo framvegis. Og ekki síst hvaða afleiðingar þær geta haft á möguleika barna og ungs fólks til að sækja skóla með eðlilegum hætti, mennta sig og búa sig undir lífið.
Við stöndum andspænis framtíð sem mun einkennast af gríðarlegum tæknibreytingum og þær munu eiga sér stað á áður óheyrðum hraða, störf munu hverfa og önnur verða til. Og þó það sé í sjálfu sér útilokað að spá um hvernig þróunin verður er öruggt að góð menntun verður lykillinn að því að við getum tekist á við þessar breytingar, stöndumst samkeppni við aðrar þjóðir og getum bætt áfram lífsgæði okkar. Hagrænn og félagslegur ávinningur af því að standa þéttan vörð um eðlilegt skólastarf kemur ef til vill ekki fram í næsta ársuppgjöri ríkissjóðs en skilar sér án alls vafa til lengri tíma litið. Ríkisstjórnin verður að horfa sérstaklega til þessara þátta við allar ákvarðanir sínar. Þröngir hagsmunir mega ekki ráða för. Það er einfaldlega of mikið í húfi.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.