Hér áður fyrr stundaði ég hlaup. Nokkrum sinnum í viku reimaði ég á mig hlaupaskóna og lagði af stað. Um helgar fór ég yfirleitt lengra, allt upp í 20 km. Það var öðruvísi en að hendast út og hlaupa fimm km fremur hratt. Ég þurfti að vera í sérstökum skóm, réttum sokkum, passa að fötin nudduðust hvergi, hafa borðað hæfilega og umfram allt, flýta mér hægar. Ef ég lagði af stað á sama hraða og í styttri hlaupunum var ekkert víst að ég kæmist í mark. Því var grundvallaratriði að vita hvað ég ætlaði langt áður en ég lagði af stað. Núna líður mér eins og við séum í löngu hlaupi sem við höfum ekki hugmynd hvar endar. Við lögðum af stað af illri nauðsyn og þurfum að halda áfram að hlaupa, illa skóuð og með tóman maga.
Kórónaveiran sem hrellir okkur þessa dagana kom okkur flestum að óvörum og henni er erfitt að verjast. Kannski er það jafnvel ómögulegt, úr því sem komið er. Heimsbyggðin bíður eftir bóluefni sem enginn veit í raun með nokkurri vissu hvenær verður tilbúið og við getum ekki hugsað þá hugsun til enda að kannski takist aldrei að búa það til. Þessa dagana heyrum við að við verðum að læra að lifa með veirunni. Við vorum svo sem búin að heyra það áður en sennilega vildum við ekki heyra það. Við vildum vera í stuttu hlaupi, kannski sjö kílómetra, í sól og blíðu eftir vinnu á þriðjudegi, ekki endalausu últramaraþoni um fjöll og firnindi. Við stóðum okkur svo vel að við vildum verðlaun. Frelsi, vinafundi, bjartar sumarnætur og kokteila, útilegur eða góða hóteldíla, Stuðlagil og Vestfjarðatúr. En nú er fríið búið og veiruskrattinn kominn aftur á kreik.
Í raun var algjörlega fyrirsjáanlegt að það kæmi bakslag. Í lokuðu mengi væri hægt að halda landinu veirufríu, allavega fræðilega, en við lifum ekki í lokuðum heimi. Hingað kemur fólk og hefur raunar komið allan tímann sem veiran hefur verið á kreiki. Það komu bara fáir og þau sem komu þurftu að fara í tveggja vikna sóttkví. Og þannig náðum við að vinna bug á veirunni um stundarsakir og hófum „fríið“.
Þau sem ráða eru ekki öfundsverð. Þetta er ekki auðvelt verkefni og upplýsingar hafa stundum verið af skornum skammti. Framan af fannst mér íslensk stjórnvöld gera vel í því að leyfa fagfólki á sviði sóttvarna, heilbrigðismála og almannavarna að ráða ferðinni. En það er alveg ljóst að það er ekki hægt endalaust. Við öll verðum að taka ákvarðanir um hvernig við viljum hafa þetta. Sóttvarnarlæknir sagði réttilega á einum af upplýsingafundinum að það væri stjórnvalda að ákveða hvaða hagsmunir vegi þyngst. Stjórnvöld starfa í umboði almennings, þingmenn og ráðherrar eru fulltrúar okkar hinna, kjörin til að standa vaktina og taka ákvarðanir um þjóðarhag. En kjósendur greiddu þeim atkvæði í síðustu kosningum út frá þeim málefnum sem voru rædd og boðuð haustið 2017 þegar kosningarnar fóru fram. Þá var engin hættuleg kórónuveira á ferli og ekki til umræðu að loka eða opna landið fyrir ferðamönnum. Umboð stjórnvalda til ákvarðanatöku um þessi mál, og þar með framtíð okkar allra, er því fremur veikt. Það kaus enginn VG, Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn vegna stefnu þeirra flokka í sóttvörnum. Eftir hrunið gjörbreyttust allar forsendur, ríkisstjórnarflokkarnir slitu samstarfi og boðað var til kosninga. Þetta er aðeins öðruvísi núna enda ekki hægt að kenna neinum einum um þessa veiru en það breytir því ekki að umboðið er veikt og leiðin framundan að mestu órædd.
Ég er alþjóðasinni, ég trúi á samtal og samskipti allskonar fólks og ólíkra þjóða og fyrir nokkrum mánuðum hefði ég aldrei trúað því að mér fyndist koma til greina að hefta för fólks inn í landið verulega. En þetta eru ekkert venjulegir tímar. Víða er gripið til orðræðu stríðsátaka þegar rætt er um veiruna og varnir gegn henni. Í sjálfu sér erum við á stórhættulegum stað og það er býsna stutt úr þeirri orðræðu lokunar, hafta og stríðsógnar sem nú heyrist yfir í útlendingaandúð og einangrunarhyggju og það óttast ég. Mér finnst erfitt að tala um auknar lokanir á landinu okkar sem alþjóðasinni – hingað til hefur slíkt ekki farið saman í mínum huga og ég er sannfærð um að ef mannkynið á að ná að vinna bug á veiruskrattanum þá þarf meiri alþjóðlega samvinnu en ekki minni. Hins vegar verðum við að minnka allt ráp og snertingar, það á líka við á milli sýktra svæða, til dæmis landa.
Við vitum í raun ekkert hvernig heimurinn verður eftir fjögur, fimm ár. Það eina sem er víst er að hann verður breyttur og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að þær breytingar verði til góðs. Að heimurinn komi skárri og heilbrigðari út úr þessu en hann var fyrir. Að jöfnuður verði meiri, losun kolefna minni og sem flest okkar heil á líkama og sál. Og þá verðum við líka að geta horfst í augu við að margt sem við höfum vanið okkur á er tómt rugl og skaðlegt plánetunni okkar, svo sem verslunarferðir til útlanda.
Nú er ekki tíminn til að sitja með hendur í skauti og vona að þetta reddist en umræðu um framtíðina hefur sárlega skort. Ekki bara umræðu um næstu skref og veturinn framundan heldur framtíðina eins og hún leggur sig. Það bætti ekki ástandið að þingið var vart starfandi seinni hluta vetrar og í vor þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir. En loksins er eitthvað að gerast og umræðan að fara af stað, reyndar ekki um framtíðina, heldur næstu vikur og mánuði og þá ólíku leiðir sem okkur bjóðast.
Ég held að við getum flest verið sammála um að þrýstingur frá talsmönnum ferðaþjónustunnar hafi verið áberandi í vor. Það er ekkert skrítið enda ljóst að á þá atvinnugrein hallaði mikið í því ástandi sem þá ríkti. Og talsmaður ferðaþjónustunnar er í vinnu við einmitt það, að beita stjórnvöld þrýstingi og það er ekkert óeðlilegt að hann geri það. Það er hins vegar ekki hlutverk almennilegra stjórnvalda að kokgleypa hvað sem er.
Ég held að ég sé ekkert ein um að hafa það á tilfinningunni að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið teknir fram fyrir hagsmuni almennings og við þessu var varað. Þann 4. júní s.l. sagði Gylfi Zoëga í fréttum: „Og það má alls ekki gerast eins og hefur gerst svo oft í sögunni hér að hagsmunir fárra verði til þess að fleiri séu settir í hættu. ... Þetta eru svona almannagæði að geta búið í landi þar sem að er ekki farsótt, þar sem að fólk getur mætt í vinnu, farið út að borða, það getur hist. Og þessi almannagæði eru svo mikilvæg að maður má passa sig að gera ekkert sem að stefnir þeim í voða.“ Það er eitthvað undursamlegt við það að hagfræðingur geti orðað hlutina svona fallega.
Staðreyndin er sú að stjórnvöld hafa farið í töluverðar æfingar til að opna landið fyrir ferðamönnum sérstaklega án þess að sú áætlun gangi sérlega vel upp eða dæmið hafi verið reiknað til enda eins og ýmsir hagfræðingar hafa bent á síðustu daga. Þá blasir við að sú áætlun um skimun ferðamanna sem lagt var upp með gekk ekki upp enda hafði ríkið ekki getu til að framfylgja henni og það eitt og sér er algjörlega óásættanlegt. Þá á eftir að nefna peningana í öskurherferðina sem er sérstaklega ætlað að laða fleiri ferðamenn til landsins. Fleiri ferðamenn en við getum skimað.
Á Íslandi höfum við sérstakan ráðherra ferðamála. Það hefur ekki alltaf verið þannig, það var pólitísk ákvörðun að innan atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins ætti að vera ráðherra ferðamála og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var fyrst allra skipuð í það embætti í janúar 2017 þótt málefni ferðaþjónustunnar hafi auðvitað ratað á borð stjórnvalda oftar og fyrr. Þórdís er reyndar líka ráðherra iðnaðar og nýsköpunar. Engu að síður er það aðallega ferðamálin sem nú eru í umræðu, þrátt fyrir að tvö kísilver sem bæði hafa kostað skattgreiðendur stórfé með ívilnunum, jarðgöngum og fleiru hafi strandað úti í móa, stór álver hóti að loka og að það sem við þyrftum helst að ræða sem mest þessa dagana sé nýsköpun og frumkvöðlastarf. Hvers konar atvinnulíf viljum við hér til framtíðar, 4. Iðnbyltinguna og það allt. Allt heyrir þetta undir hennar ráðuneyti. Og við vitum ekki hvort ferðaþjónusta verði með sama sniði og fyrir kófið eftir einhver ár né höfum við spurt okkur hvort það sé æskilegt.
Kófið skyggir á allt annað og það eina sem við heyrum í ráðherranum er um ferðamál. Um mánaðarmótin sagði hún „ásættanlega áhættu að opna landið“ og í grein í Morgunblaðinu um liðna helgi að þeir hagfræðingar sem gagnrýnt hafa opnun landsins fyrir ferðamönnum séu ekki sérfræðingar í sóttvörnum og að hún viti ekki um neinn sem ætli hringinn í október.
Þeirri grein hefur nú verið svarað og ég verð að viðurkenna að mér finnast rök Gylfa Zoëga enn og aftur vega mun þyngra en rök ráðherrans um að ríkissjóð vanti peninga og því þurfum við ferðamenn. Fyrst hægt var að selja ferðamönnum það að það væri góð hugmynd að fara til Íslands að vetri til þá skil ég ekki af hverju ekki er hægt að telja Íslendingum trú um það líka. Nema það sé alls ekki góð hugmynd. Og velferð þjóðarinnar getur ekki byggst á því að einhver keyri hringinn í október.
Það er alveg ljóst að ólík sjónarmið og hagsmunir takast á og sviðsmyndin er ekkert endilega einföld. Við getum endalaust stillt upp ólíkum hagsmunum sem ekki fara saman. Í málflutningi sínum hefur Gylfi dregið upp mynd af nokkuð frjálsu og öruggu þjóðfélagi þar sem við getum sótt skóla og vinnu, ferðast um landið og hitt vini og fjölskyldu á móti hagsmunum ferðaþjónustunnar. Auðvitað er þetta einföldum. Sumir eiga t.d. fjölskyldu og vini í öðrum löndum og meiri höft eru eins og fleygur í slík sambönd. Íslendingar búsettir í útlöndum geta ekki bæði farið í tveggja vikna frí á Íslandi og tveggja vikna sóttkví til að komast inn í landið.
Eitt af því sem nefnt hefur verið sem rök fyrir meiri opnun er einmitt að sú skiljanlega þörf fólks til að koma og vera með fjölskyldunni þegar eitthvað bjátar á. Við viljum auðvitað að ástvinir í útlöndum geti komið þegar alvarleg veikindi, slys eða andlát ber að höndum og verið með þeim sem eiga um sárt að binda. Það gleymist í umræðunni að í vetur var heimsóknarbann á sjúkrastofnanir og samkomubann sem miðaðist við tuttugu manns. Fjöldi fólks veiktist alvarlega og einhverjir dóu án þess að þeirra nánustu gætu heimsótt þá á spítala eða verið með þeim á dánarbeði. Aðrir kusu að leggjast ekki inn þrátt fyrir þörf og lífsgæði margra voru skert þegar aðgerðum og rannsóknum var frestað.
Því hefur verið haldið fram að ekki sé hægt að halda landinu lausu við veiruna til lengdar og það getur vel verið rétt. Engu að síður tókst Nýja Sjálandi sem líka er nokkuð afskekkt eyja það í hundrað daga þótt hún hafi nú skotið upp kollinum þar aftur. Nýsjálendingar eru um fimm milljónir en við bara ríflega þrjúhundruð þúsund. Af hverju ætti það ekki vera hægt hér líka? Og ættum við að reyna það eða er það „ásættanleg áhætta“ að ungt fólk liggi lífshættulega veikt á spítala, skólahald sé í hættu, menningarstofnanir leggi upp laupana og elsta fólkinu okkar sé haldið í einangrun?
Í stóra samhenginu er undarlegt að horfa á ráðherra ríkisstjórnarinnar tala fyrir hagsmunum síns málaflokks eins og hann sé í algjöru tómarúmi og hafi litla sem enga snertifleti við samfélagið í heild. Mér komu í hug orð Þórunnar Sveinbjarnardóttur í skýrslu rannsóknarnefnar Alþingis um bankahrunið: „Á stundum hefur mér fundist að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands séu eins og 12 trillukarlar sem hittast í kaffi tvisvar í viku, bera saman aflabrögð og horfur, standa saman gegn utanaðkomandi áreiti eða ógnunum en eru jafnframt í samkeppni innbyrðis um aflanna.“ Þannig virðist tekjuöflunarleiðangur ferðamálaráðherrans ekki endilega henta heilbrigðiskerfinu né heldur skólakerfinu eða samfélaginu yfir höfuð. Það eru aðrir ráðherrar sem eru með þau mál á sinni könnu. Hér vantar allt samtal og samráð við okkur öll, ekki bara háværasta hagsmunahópinn. Mér finnst núverandi stjórnvöld ekki hafa umboð til að taka frekari ákvarðanir um leiðina áfram án undangenginnar lýðræðislegrar umræðu og jafnvel kosninga. Framtíð okkar er ekki einkamál einstakra ráðherra eða hagsmunafélaga.