Í sjónvarpsfréttum RÚV 16. ágúst s.l. var viðtal við ungan menntaskólanemanda með þroskahömlun sem hefur verið meira og minna heima frá því COVID-19 faraldurinn hófst. Vegna þessa hefur hann farið á mis við menntun og ýmis önnur tækifæri allan þennan tíma og þar sem hann getur vegna fötlunar sinnar ekki verið einn heima hafa foreldrar hans þurft að vera þar hjá honum og hafa því misst úr vinnu og tapað verulegum tekjum. Staða þessa unga manns er alls ekki einsdæmi heldur saga allt of margra fatlaðra ungmenna og aðstandenda þeirra.
En þarf þetta virkilega að vera svona?
Nú stöndum við frammi fyrir því að aðgerðir vegna COVID19 verði viðvarandi, jafnvel um langa hríð; a.m.k. einhverja mánuði og hugsanlega einhver ár. Í því ljósi er mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum tryggt mannréttindi okkar viðkvæmustu hópa, eins og fatlaðra nemenda sem oft ekki geta, vegna fötlunar sinnar, nýtt sér fjarnám nema að litlu eða jafnvel engu leyti. Þau ungmenni eru auk þess háð aðstoð (sem þau eiga rétt á skv. lögum) í daglegu lífi sem alla jafnan er veitt í skólanum en ekki heima. Þegar sú aðstoð fellur niður verða foreldrar eða aðrir aðstandendur mjög oft að taka sér launalaust frí úr vinnu til að sinna því.
Nú heyrast þær fréttir að starfsemi starfsbrauta framhaldsskólanna, þar sem mörg fötluð ungmenni stunda nám, verði jafnvel takmörkuð að einhverju leyti þegar skólahald hefst í haust og stórum hluta nemenda verði gert að vera heima og stunda fjarnám og að einungis fáum nemendum starfsbrauta verði hleypt inn í skólana. Þetta er auðvitað afleitt og algerlega óskiljanlegt. Núgildandi sóttvarnarreglur eru þess eðlis að vel má mæta þeim innan skólanna, tryggja fjarlægðarmörk og kenna nemendum viðeigandi ráðstafanir eins og notkun andlitsgríma og handþvott. Þetta þarf að gera með viðeigandi hætti þannig að sem flestir geti tileinkað sér þetta og grípa þá til sérstakra ráðstafana varðandi þá nemendur sem ekki geta nýtt sér þetta. Svo er hægt að nýta betur húsnæði skólanna til að tryggja fjarlægðarreglur, einkum í ljósi þess að aðrir nemendahópar verða í fjarkennslu heima hjá sér.
Þegar kemur að því að finna lausnir sem duga til að við getum lifað saman með veirunni er mikilvægt að horfa til þess hvernig við verndum viðkvæmustu hópana. Það er ekki bara eðlilegt og mjög réttlætanlegt, heldur skýr skylda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fleiri mannréttindasamningum sem íslenskra ríkið hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað skorað á menntamálaráðherra, félagsmálaráðherra og Alþingi að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðum nemendum á öllum skólastigum þau mannréttindi að hafa tækifæri til náms til jafns við aðra og að taka tillit þarfa til sem þau hafa vegna fötlunar sinnar. Fjarnám hentar eðli máls samkvæmt mörgum mjög illa, t.a.m mörgum nemendum með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Jafnframt hafa samtökin ítrekað lagt til við ríkisstjórn og Alþingi að foreldrar og/eða aðrir aðstandendur sem þurfa að vera heima hjá fötluðum börnum og ungmennum sem ekki fá þá þjónustu sem þau eiga rétt á, vegna þess að skólar og/eða aðrir þjónustusstaðir eru lokaðir eða með takmarkaða þjónustu vegna sóttvarnarráðstafa í tengslum við COVID19, fái greiðslur. Stjórnvöld hafa ekki gert þetta nema að mjög litlu leyti og það er augljóslega mjög mikilvægt réttlætismál að þau geri þetta núna.
Landssamtökin Þroskahjálp skora hér með á menntamálayfirvöld og stjórnendur framhaldsskólanna að eyða þeirri miklu óvissu sem fatlaðir nemendur og foreldrar þeirra búa við um hvað gerist hjá þeim í haust og hafa eðlilega miklar áhyggjur af. Það geta þau gert með því að hverfa nú þegar frá öllum áformum um að skerða starfsemi starfsbrautanna og leita allra mögulegra leiða til að gera fötluðum nemendum kleift að mæta í skólann og koma þannig í veg fyrir að þeim verði mismunað um tækifæri til náms vegna fötlunar sinnar.
Höfundur er formaður Þroskahjálpar.