Í dag er þolmarkadagur jarðar. Það er sá dagur þar sem við höfum fullnýtt það sem má nýta af auðlindum jarðar á þessu ári. Það ríkti mikil óvissa um hvenær dagurinn rynni upp í ár vegna áhrifa Covid-19 og sjálf vissi ég ekki fyrr en í gær að hann væri í dag.
Það hittist svo vel á að í dag hafði ég akkúrat ætlað mér að hlaupa mína eigin leið í Reykjavíkurmaraþoninu til að styðja vinnustaðinn minn, Landvernd, sem vinnur að því að auka meðvitund og sporna gegn loftslagsáhrifum af mannavöldum. Tekjur Landverndar koma fyrst og fremst frá félögum sem greiða félagsgjöld. Stuðningur félaga er það sem heldur starfinu gangandi og er helsta ástæðan fyrir því að við getum veitt stjórnvöldum aðhald. Það var auðveld ákvörðun að nýta frídaginn í að hlaupa fyrir þann málstað sem ég brenn hvað mest fyrir.
Það er í raun magnað að spá í því hvaða áhrif Covid-19 hefur haft á loftslagsmálin. Við höfum flest þurft að hægja aðeins á okkur, vera meira heima og hlúa að fjölskyldunni. Við frestuðum eða aflýstum utanlandsferðum og ýmsum viðburðum og litum til nærumhverfisins. Meðal Íslendingurinn ferðaðist meira um landið sitt og studdi innlenda framleiðslu og þjónustu. En hvaða áhrif hafði þetta á heildarmyndina? Við sjáum að þolmarkadagurinn í fyrra var 1. ágúst og talið var að á þessu ári yrði hann ennþá fyrr – þess í stað var hann þremur vikum síðar.
Breytingar á lifnaðarháttum undanfarna mánuði koma ekki til af góðu, en við getum velt fyrir okkur hverju við gætum áorkað ef við myndum taka loftslagsvána jafn föstum tökum og Covid-19. Samkvæmt könnun Gallup vill 61% þjóðar að ríkisstjórn Íslands geri það. Við vitum að við getum þetta saman, það er enginn vafi um það. Við þurfum bara að gera það. Við þurfum að vera tilbúin til þess að gera breytingar á lífsháttum okkar en auk þess þurfum við að krefjast þess að stjórnvöld hlusti á vilja þjóðarinnar.
Það er sko af nógu af taka sem stjórnvöld gætu gert betur! Það væri framfaraskref að stórbæta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, að grípa til róttækra aðgerða, og gera gott betur en að uppfylla skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar, í stað þess að greiða háar upphæðir fyrir að standast þær ekki.
Spáum í loftslagsmálunum í dag. Gefum þeim það rými og þá umræðu sem nauðsynlegt er. Veltum fyrir okkur hvernig við getum haft áhrif og hvað við getum gert. Ég væri þakklát ef þið mynduð styrkja starfsemi Landverndar með því að gerast félagar eða heita á þá sem taka þátt frá samtökunum í Reykjavíkurmaraþoninu. Þakklátust yrði ég þó ef þið horfist í augu við loftslagsvána og grípið til nauðsynlegra aðgerða.
Höfundur er félagsfræðingur og starfar hjá Landvernd, náttúruverndarsamtökum.