Góð málefni: Enn eitt fórnarlamb COVID

Eikonomics tekur saman áhrif COVID-19 á áheit til keppenda í Reykjavíkurmaraþoninu og það tekjufall sem góðgerðafélög virðast ætla að verða fyrir sökum þess að ekki er hlaupið í ár. Hann er líka með lausnina.

Auglýsing

Fyrir 16 árum tók ég í fyrsta skipti á ævi minni þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hljóp reyndar ekki maraþon, heldur 10 kílómetra. Það var þó meira en nóg, afrek mitt árið 2004 var ekki tíminn heldur að klára hlaupið, án þess að enda á gjörgæslu. Það árið var hlaupið minna í sniðunum og kláruðu 1.778 manns eina af fjórum vegalendum sem í boði voru (7km, 10km, hálft og heilt).

Síðan hefur hlaupið vaxið, eins og illgresið í blómapottunum á svölunum mínum. Í fyrra tók ég aftur þátt og hljóp 10 kílómetra, formið var betra og ég fékk að vera 45 mínútna héri. Það árið tóku 10.477 sálir þátt í einum af viðburðunum fjórum sem í boði voru (3km, 10km, hálft og heilt). Einhverjir þeirra sem hlupu með mér skriðu í mark á undir 45 mínútum, sem ég leyfi mér að taka smá heiður af.

8.699 viðbótar þátttakendur er mikið afrek fyrir mótshaldara og hvalreki fyrir góðgerðarfélög, sem sáu vaxandi hóp hlaupara og hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Hlaupið er nú einn helsti fjáröflunarvettvangur margra góðra málefna. Í fyrra höfðu einstaklingar safnað hvorki meira né minna en 110 milljón krónum til góðra málefna daginn fyrir rásdag, þegar söfnuninni var lokið höfðu einstaklingar safnað 41 milljón til viðbótar og í heildina söfnuðu einstaklingar og hópar 167 milljónum[1].

Auglýsing

(Ástæðan fyrir því að ég tala um söfnun einstaklinga daginn fyrir hlaup hefur að gera með það að ég hef safnað þessum gögnum síðustu ár, en aðeins fyrir einstaklinga en ekki hópa og ekki að hlaupinu loknu.)

Frjáls framlög

Málefnin sem fólk hefur safnað fyrir í gegnum tíðina eru af ýmsum toga. Daginn fyrir rásdag í fyrra höfðu einstaklingar safnað 10,3 milljón fyrir Ljósið, félag sem veitir fólki sem fengið hefur krabbamein endurhæfingu. 4,3 milljónir höfðu safnast fyrir Kraft, félag sem veitir ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein stuðning og 3,6 milljónir höfðu safnast fyrir Einstök börn, félag sem styður við börn með sjaldgæfa sjúkdóma. 3,7 milljónir höfðu safnast fyrir vökudeild Barnaspítala Hringsins.

Ég er ekki að gráta, heldur var ég að skera lauk[2].

En nú hefur verið hætt við hlaupið í ár. Ástæðan fyrir því er þó réttlætanleg, ekki viljum við hrúga tíu þúsund manns saman á tímum Covid – það gæti endað illa.

Þó veiran hafi áhrif á okkur öll þá hefur hún hvað mest áhrif haft á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Gamalmenni og fólk með veikt ónæmiskerfi urðu oft mjög veik eða jafnvel létust út af veirunni. Fólk sem vinnur láglaunastörf (sérstaklega í ferðamannageiranum) töpuðu tekjum. Gamalmenni á elliheimilum og öðrum stofnunum fengu ekki heimsókn lengur frá vinum og vandamönnum – sem líklega hefur hraðað hrörnun og í öllu falli haft neikvæð áhrif á vellíðan þeirra. Svo ekki sé minnst á fólk með alvarlega sjúkdóma, sem oft enduðu í algerri einangrun.

Heildar söfnunarupphæð einstaklinga á hlaupastyrkur.is; mikið minna hefur safnast í ár en á sama tíma í fyrra, fyrir fjögur af vinsælustu góðgerðarfélögunum.


Minna rennur í vasa góðgerðarfélaganna

Í ár hefur söfnunin ekki gengið eins vel og í fyrra. Þó hafa safnarar staðið sig jafnvel í ár; samkvæmt síðustu tölum er meðaláheiti í ár rúmleg 18 þúsund krónur, eins og í fyrra. En mun færri hafa skráð sig í hlaupið og fyrir vikið hefur ekki eins mikið safnast. Daginn fyrir rásdag í fyrra höfðu einstakir hlauparar safnað 110 milljónum en í ár hafa þeir safnað 44 milljónum, sem er vissulega góður árangur, þó vondar fréttir fyrir sömu viðkvæmu hópa samfélagsins og veiran leikur hvað gráast.

Heildar söfnunarupphæð einstaklinga á hlaupastyrkur.is; samanlagt hefur mikið minna safnast í ár en á sama tíma í fyrra.

Óæðri vara

Þegar harðna fer á dalnum dregur úr útgjöldum einstaklinga til góðra málefna. Helsta ástæða þess er að sjálfsögðu sú að þegar fólk á minni pening þá getur það ekki gefið eins mikið til góðra málefna. Einnig má færa rök fyrir því að í útgjaldamengi okkar – sem inniheldur allt það sem við viljum og getum keypt fyrir peningana okkar – séu góðgerðarmál óæðri vara.

Óæðri vörur eru, í hagfræðilegum skilningi, vörur sem við neytum meira af þegar við eigum minni pening. Til að mynda þegar ég var í háskóla keypti ég mikið af ódýrasta pastanu í Bónus. Þegar ég fór að vinna þá dróg ég úr neyslu á ódýru pasta – og skipti yfir í lífrænt ferskt pasta. Það gerir ódýrt Bónus pasta að óæðri vöru og ferskt pasta að venjulegri vöru.

Að sama skapi, þegar ég var í háskóla gaf ég ekki mikið til góðgerðarmála. Og mældust fjárútlát mín til þeirra sem aukastafir í prósentum tekna minna. Eftir að ég fór á vinnumarkað jukust tekjur mínar og nú gef ég heilar prósentutölur af tekjum mínum til verðugra málefna. 

Eða allavega gerði ég það. Í dag er ég kominn í langt feðraorlof – sem að mestu ég fæ ekki greitt fyrir og er ég því ekki eins vel settur fjárhagslega og áður. Fyrir vikið er ég ekki eins örlátur og þegar peningar komu inn á reikninginn í hverjum mánuði. Því er ég lifandi sönnun þess að gjafir til góðra málefna séu óæðri vara.

(Óæðri vara þýðir þó ekki að hún sé ekki eins merkileg og aðrar vörur, að sjálfsögðu eru gjafir til verðugra málefna langt um æðri flestum öðrum vörum í bókstaflegri, en ekki hagfræðilegri, merkingu orðsins.)

Minnkandi jaðarnyt peninga

Tekjulægstu einstaklingar samfélagsins fá hvað mest út úr hinni svokölluðu jaðarkrónu. Jaðarkróna er fræðiheiti sem þýðir einfaldlega „næsta króna“. Hugtakið lýsir þeirri viðbótar gleði sem einstaklingur fær úr næstu krónu sem hann þénar.

Hagfræðingar eru allir sammála um það að jaðarnyt falli almennt með auknum auði. Og ég meina allir. Meira að segja Milton Friedman og Karl Marx hefðu ekki deilt um þá staðreynd[3].

Góðgerðarfélög eru því hönnuð til þess að hámarka samfélagslega hamingju. Þau fá peninga frá þeim sem ekki verða fyrir miklum lífsgæðaskaða við tekjutap og færa þá til þeirra sem fá talsvert aukin lífsgæði úr sömu summu. Í fyrra var fullt af fólki sem ekki var með ofurlaun sem gaf til góðra málefna. Í núverandi efnahagsástandi er jaðarkróna margra þeirra of verðmæt og það getur ekki lengur gefið eins mikið og áður. Rétt eins og ég í mínu feðraorlofi.

Þó er enn slatti af Íslendingum sem geta gefið, án þess að finna mikið fyrir því.

Lausnin liggur hjá þeim sem mest eiga

Þó hart sé í ári hjá mörgum er þó fullt af fólki sem á heilan helling af peningum. Í fyrra áttu 238 fjölskyldur milli sín 260 milljarða króna. Eða rúmlega milljarð hver, að meðaltali. Þessar fjölskyldur gætu stoppað í gatið sem kemur til með að myndast í fjáröflun þessara verðugu góðgerðarfélaga.

Líklega hafa þessar fjölskyldur tapað einhverju á Covid. En þó maður tapi einhverju af milljarði, þá á maður enn slatta af milljónum. Því hvet ég ríkustu fjölskyldur landsins til þess að ganga í málið og sjá til þess að, í það minnsta, safnist eins mikið í ár og í fyrra. Nei, ég hvet þær til þess að sjá til þess að meira safnist – Ljósið, Kraftur, Einstök Börn og Barnaspítali Hringsins hafa, ef eitthvað er, meira við peningana að gera núna en í fyrra.

Hin einfalda kenning hagfræðinnar um minkandi jaðarnyt krónunnar segir okkur það að þeir sem eiga milljarð og gefa eina miljón verða ekki fyrir miklum gleðimissi, allavega ekki af því að láta af hendi eina miljón eða svo (eða tvær, eða tíu). En gleði og lífsgæði veikra barna, krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra geta stórbatnað við að fá auka miljón (eða tvær eða tíu).

Einnig fylgir því oft mikil gleði að gefa – því gæti þessi rýrnun í eignastofni þeirra sem hafa það svo gott aukið á lífsgæði og gleði þeirra sem gott hafa það, þegar upp er staðið.

Síðasti dagur til að heita á hlaupara er á þriðjudaginn (25. ágúst).

Því segi ég: Kæru milljónamæringarnir, hugsið um jaðarnytin; hámarkið hamingju samfélagsins á þessum glötuðu tímum og styðjið þá sem mest á því þurfa að halda. Þannig getið þið sofið vært, vitandi það að þið búið í betri heimi[4].

Punktar höfundar:

[1] Þar sem þessi grein birtist á „rásdag“ notast ég við tölur deginum fyrir hlaupið. Því eru þær aðeins lægri en lokatölur, sem finna má hér.)


[2] Ég sagði ósatt. Ég var ekki að skera lauk
.


[3] Reyndar færði Milton Friedman einu sinni fyrir því rök að þeir ríkustu upplifðu aukin jaðarnyt úr peningum. En í grunninn trúði Friedman því að fátækustu hópar samfélagsins fengju mest út úr jaðarkrónunni, meira segja svo að hann lagði til að láglaunaðasti hópur samfélagsins greiddi „neikvæðan tekjuskatt“, þ.e.a.s. fengju viðbótar laun frá ríkinu – halló Milton Marx!

[4] Ég hvet reyndar alla sem geta til þess að leggja sitt af mörkum, molar gera gómsæta Semmelknödel.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiEikonomics