Samsæriskenningar er samheiti yfir kenningar sem settar eru fram af þeim sem telja opinberar skýringar á atburðum ófullkomnar, vafasamar, ósannar eða alfarið rangar. Til að bregðast við reynir höfundur slíkra kenninga að setja fram aðrar kenningar sem hugnast honum betur. Þessar kenningar geta verið allt frá því að vera einfaldar yfir í það að snúast um heimsmynd okkar í sjálfu sér. Þeir sem setja fram kenningar sem þessar spinna oft net tenginga á milli ótengdra eða tengdra aðila sem eiga að hafa haft eitthvað með þá atburði að gera sem verið er að fjalla um hverju sinni.
Þeir sem halda um strengi brúðanna
Umræddar kenningarnar eru byggðar á atburðum sem eiga sér stoð í raunveruleikanum. Hér má nefna til dæmis kenninguna um heimsyfirráð Illuminati. En hvað er Illuminati og fyrir hvað standa þau…. hvað ætli að sé best að kalla þau?.... félagasamtök.
Þann fyrsta maí 1776 stofnaði Adam Weishaupt (1748–1830) fyrstu reglu Illuminati í skógi rétt fyrir utan Ingolstadt í Bæjaralandi sem er núna hluti af Þýskalandi. Með honum voru fimm stofnmeðlimir. Weishaupt þessi var afkomandi Gyðinga sem höfðu kristnast en hann hafði misst móður sína og föður ungur. Frændi hans kom því svo fyrir að hann gekk menntaveginn í skóla reknum af Jesúítum. Eftir að hann lauk námi varð hann prófessor í náttúruvísindum og guðfræði við háskólann í Ingolstadt. Weishaupt var á þeirri skoðun að trúfélög fullnægðu ekki þörfum upplýsts fólks. Hann var ekki trúlaus en var á þeirri skoðun að trúarbrögð kæfðu frjálsa hugsun og framfarir. Það er líklegt að kynni við Frímúrararegluna hafi haft áhrif á Weishaupt en hann ákvað þó að feta sínar eigin götur þar sem hann var ósammála sumum kennisetningum þeirra.
Í fyrstu voru meðlimir reglunnar að mestu nemendur Weishaupt en 1782 voru meðlimir reglunnar orðnir um 600 talsins og á meðal þeirra var hefðarfólk, stjórnmálamenn, læknar og lögfræðingar frá Bæjaralandi sem nú tilheyrir Þýskalandi. Þetta átti sér stað með þeim hætti að Weishaupt og hans menn yfirtóku hluta af Frímúrarareglunni í Munchen. Einn áhrifamesti meðlimur reglunnar var baróninn Adolph von Knigge og hann gekk til liðs við Weishaupt. Í lok árs 1784 voru meðlimirnir farnir að nálgast þriðja þúsundið og von Knigge lék stórt hlutverk í að auka við félagafjöldann.
Það var aldrei lognmolla í kringum félagsskapinn og það var ekki vel séð af ráðamönnum hversu margir félagar Illuminati voru í háum stöðum og menntamenn. Svo fór að þann 2. mars 1785 bönnuðu Karl Theodor, kjörfursti og hertogi af Bæjaralandi og ríkisstjórn hans öll leynifélög í landinu með lögum og þar á meðal var Illuminate. Þessi aðgerð virðist hafa verið náðarhöggið sem gerði það að verkum að félagsskapurinn leið undir lok.
Weishaupt varð að færa sig um set eftir að hann var bannfærður frá háskólanum í Ingolstadt. Hann kenndi heimspeki við háskólann í Göttingen þar sem hann bjó til dauðadags.
Þó að þetta hafi verið endalok Illuminati hefur félagsskapurinn lifað góðu lífi og verið efniviður í fjöldann allan af samsæriskenningum. Það hafa verið uppi vangaveltur hvort félagsskapurinn hafi komið eitthvað nálægt Frönsku byltingunni og Weishaupt á til að mynda, samkvæmt sumum kenningunum, að hafa hitt sjálfan Robespierre. Þetta er að öllum líkindum uppspuni. Enn eru sögusagnir uppi þess eðlis að Illuminati lifi góðu lífi og haldi mörgum málsmetandi stjórnmálamönnum og öðrum þeim sem hafa áhrif í heiminum í dag sem strengjabrúður séu. Það eru þó engar sannanir um tilvist þessa félagsskapar en sú staðreynd gerir það væntanlega enn meira spennandi fyrir bragðið að setja fram nýjar samsæriskenningar um félagsskapinn. Þeim hefur verið kennt um morðið á John F. Kennedy og fleira og fleira.
Kirkjan og reglan
Það er fjöldinn allur af félagasamtökum og jafnvel trúfélögum sem eru bendluð við samsæriskenningar. Hér munum við aðeins nefna Frímúrararegluna og Vísindakirkjuna. Frímúrarareglan hefur verið við líði síðan í lok 13. aldar. Í rauninni byrjaði reglan, eins og nafnið gefur til kynna, sem félagsskapur til að gæta hagsmuna múrara og standa vörð um samskipti þeirra við aðalsmenn. Í gegnum aldirnar hefur reglan breyst og þó að vitaskuld leynist einn og einn múrari á meðal meðlima reglunnar þá eru hún mun fjölskrúðugri en í fyrstu. Meðlimir reglunnar eru að því er best er vitað af öllum þjóðfélagsstigum og það má til sanns vegar færa að þeir sem eru í reglunni stofna til sambanda og vinskapar sem getur haft áhrif á það hvernig þetta fólk hagar sér í þeim stöðum sem það skipar. Mikið hefur verið rætt og ritað um Frímúrararegluna og þá sem eru félagar í henni. Eins og gerðist með Illuminati regluna hefur Frímúrarareglan verið bendluð við ýmsar samsæriskenningar í gegnum árin. Ólíkt Illuminati reglunni er Frímúrarareglan ennþá starfandi.
Vísindakirkjan er trúfélag sem byggir á skrifum vísindaskáldsagna höfundarins L. Ron. Hubbard. Vísindakirkjan var stofnuð af honum, konu hans Mary Sue Hubbard og John Galusha í Camden New Jersey árið 1953 á þeim tímapunkti hafði kirkjan verið starfandi í um eitt ár eða síðan 1952. Hubbard hafði þá dundað sér við að selja bækur sem tengdust efninu og 1953 skrifaði hann Helen O‘Brien sem þá stjórnaði félaginu og bað hana að rannsaka trúarlega vinkla á því sem þau voru að vinna með. Helen O‘Brien var ekki sama sinnis og Hubbard og sagði af sér en þrátt fyrir þetta lýsti hann yfir trúarlegu eðli samtakanna í skrifum sem voru send til félagsmanna. Fyrsta kirkjan var stofnuð árið 1954 í Los Angeles.
Hubbard sagði að yfirlýst markmið Vísindakirkjunnar væri að stuðla að þjóðfélagi án geðveiki, án glæpamanna og án styrjalda þar sem þeir sem hefðu getu gætu komist til metorða og æruverðugt fólk ætti möguleika á réttindum og að maðurinn hefði frelsi til að vaxa og ná hærri hæðum.
Hubbard var í raun stjórnandi kirkjunnar til 1966 þegar það hlutverk var fært til hóps stjórnanda. Þó að hann hefði enga beina tengingu við þennan hóp var hann samt sá sem var stjórnandi félagsskaparins og annarra tengdra hópa.
Þegar L. Ron. Hubbard lést árið 1986 tók David Micavige við stjórn Vísindakirkjunnar. Hann hafði verið yfirmaður Commodores sem var skilaboðaskjóða samtakanna. Hann tók við sem stjórnarformaður trúarlegrar tæknimiðstöðvar (Charman of the Board of the Religious Technology Centre) sem var félagasamtök sem höfðu með vörumerki, nöfn og tákn sem tengdust Vísindakirkjunni að gera. Þó að Religious Technology Center sé aðskilið frá Vísindakirkjunni sjálfri þar sem Herbert Jentzsch er talsmaður er Miscavige sá sem heldur um stjórnvölinn.
Kirkjan hefur verið gagnrýnd og sökuð um margt miður gott. Meðlimir hafa verið dæmdir fyrir að stela skjölum frá Bandaríkjastjórn. Einnig hafa félagar hennar verið dæmdir fyrir svindl, manndráp og þeir hafa einnig haft áhrif á vitni frönskum málaferlum.
Í sumum löndum er litið á Vísindakirkjuna sem fyrirtæki frekar en trúarsamfélag. Kirkjan hefur mikla stjórn á höfundarétti yfir merkjum, skrifum og kennisettningum kirkjunnar. Orðið Scientology sem og L. Ron Hubbard eru skráð vörumerki og vernduð sem slík.
Vísindakirkjan hefur á að skipa frægum einstaklingum. Þar má nefna John Travolta, Juliette Lewis, Giovanni Ribisi, Tom Cruise, Kirstie Alley og fleiri. En það verður að segjast að Kirkjan er umdeild og umlukin málum sem hafa kastað skugga á tilvist hennar. Ekki er vitað með vissu hversu margir aðhyllast kirkjuna sem einnig hefur verið sökuð um að vera sértrúarsöfnuður en á vefsíðu hennar eru um 16,000 meðlimir.
Í myrkum mána fjöllum
Fyrsta lending mannsins á tunglinu hefur verið rædd fram og til baka síðan fyrstu skrefin voru stigin þar og ekki bara af vísindamönnum heldur allra handa fólki sem hefur haft mikinn áhuga og skoðanir á þessari ferð og því sem gerðist.
Myndefni sem sent var út beint og tekið upp á meðan á ferðinni stóð, grjót af yfirborði mánans og mælitæki sem byggja á endurvörpun sem tunglið getur ekki sent frá sér sjálft, búnaður sem var skilinn eftir, svo sem skjálftamælir og speglabúnaður sem gerir fjarlægðarmælingar milli tunglsins og jarðarinnar mögulegar, allt rennir þetta stoðum undir að tunglferðin í Apolló 11 hafi í raun átt sér stað. Það er vitanlega oft gaman að taka hinn pólinn og taka málstað þeirra sem afneita tunglförinni þó að fullvel sé vitað að í vísindasamfélaginu er eining um það að ferðin hafi verið farin, en enn er verið að spá í þetta mikla framfaraskref, sem ekki hefur verið teljandi framhald á nema kannski upp á síðkastið undir stjórn auðkýfinga eins og Elon Musk sem stefnir að því að setja upp sjoppu á Mars. Þegar þeim sem efast um að ferðin hafi verið farin verður orðfátt söðla þeir um og leiða líkur að því að tunglfararnir hafi komist í kynni við verur frá fjarlægum plánetum. Það er spuninn sem alltaf kemur upp og er drifkraftur samsæriskenninga.
Heimildarmyndir og allra handa skrif hafa fjallað um þessa ferð og líkur leiddar að því að myndirnar frá lendingunni og tunglgöngunni sjálfri hafi verið teknar upp í myndveri á jörðu niðri. Skuggar geimfaranna og þeirra muna sem þeir komu fyrir á yfirborði mánans hafa einnig verið skoðaðir í þaula og ekki eru allir á eitt sáttir um það sem þar kemur fram.
Blóði drifin saga
Í gegnum söguna hafa menn fallið fyrir annarra hendi vegna ýmissa ástæðna en völd, fjármál, skoðanir og stefnumál hafa oftast nær verið ástæðan. Sum þessara atvika eru nokkuð ljós en önnur eru það ekki. Það er jú þannig með samsæri að þau fara oftast nær nokkuð leynt og eftir að þau eru yfirstaðin vilja þeir sem þátt í þeim tóku ekki endilega að það fari hátt. Þess ber einnig að geta að samsæri þurfa ekki endilega að snúast um morð.
Það er nokkuð ljóst að þegar hópur þingmanna í rómverska Senatinu árið 44 fyrir Krist stungu Júlíus Sesar 23 sinnum og drápu hann þar með, var ástæðan sú að þeim þótti hann hafa sankað að sér of miklum völdum og að lýðræðinu sem ríkti í Róm á þeim tíma væri ógnað vegna þess. Enn er verið að ræða um það hvað tilræðismönnunum og Júlíusi fór á milli á meðan hann dró sín síðustu andartök. William Shakespeare skrifaði, sem frægt er, leikrit sem studdist við þessa atburði en leikritið er skáldverk sem ekki aðeins byggir á staðreyndum heldur bætir ýmsu við til að auka hin dramatísku áhrif. Þó að leikritið hafi fullum fetum notað það að Sesar hafi sagt hin fleygu orð Et tu Brutus þegar honum varð ljóst að einn af hans mestu stuðningsmönnum og samverkamaður, væri einn af tilræðismönnunum þá er það enn umdeilt á meðal fræðimanna. En morðið á Júlíusi sem hafði fengið viðurnefnið Sesar varð ekki til þess að bjarga lýðræðinu í Róm. Upp úr þessu var háð borgarastyrjöld og þeir sem stóðu að morðinu á Júlíusi töpuðu og Brutus framdi sjálfsmorð í kjölfarið. Brutus þessi er einn af þeim sem taldir eru hafa svikið hvað mest í samskiptum sínum við samverkamenn sína. Hann hefur verið settur í sama flokk og Júdas Ískaríot sem sveik Jesú Krist í Getsemane garðinum forðum.
Morðið á Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar þann 28. febrúar 1986 er annað hápólitískt morð sem er sannanlega óupplýst enn þann dag í dag. Höfundur verður hér að staldra við því að nýlega var rannsókn á máli Olof Palme hætt. Morðinginn er talinn vera Stig Engstrom, grafískur hönnuður, sem var þekktur undir viðurnefninu „Skandia maðurinn". En Stig þessi framdi sjálfsmorð árið 2000.
Palme og Lizbeth konan hans höfðu farið í kvikmyndahús án þess að njóta verndar lífvarða. Þetta gerðu þau oft þar sem þrátt fyrir stöðu sína vildu þau lifa eins venjulegu lífi og frekast var unnt. Þau voru á heimleið um miðborg Stokhólms sem iðaði af lífi og þar var mikil mannmergð. Þar sem þau gengu eftir Sveavägen kom aðvífandi hávaxinn frakkaklæddur maður sem dró upp skammbyssu sem hann lagði að baki Palme og skaut einu skoti. Í ringulreiðinni sem skapaðist komst maðurinn í burtu og þó að vitnin hafi verið mörg hefur engum tekist að bera kennsl á morðingjann svo að óyggjandi sé. Palme féll á götuna og er líklegt að hann hafi látist samstundis. Það er í raun ótrúlegt að ekki hafi tekist að upplýsa þetta mál fyrr, ef niðurstaðan sem Svíar hafa komist að er sú rétta. Það er víst að þetta augnablik í sögunni hefur haft áhrif á marga sem upplifðu það þó að þeir hafi ekki verið á staðnum.
Palme var mikill áhrifamaður í sænskum stjórnmálum og áhrifa hans og skoðanna gætti langt út fyrir landamæri Svíþjóðar og gera líklega enn. Hann studdi áköll ríkja til sjálfstæðis og frægt er að hann var fyrsti erlendi stjórnmálamaðurinn sem heimsótti Kúbu eftir byltinguna. Hann var talsmaður þess að Suður Afríka legði af aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans og blökkumanna. Það var mjög umdeilt bæði innan Suður-Afríku og á heimsvísu. Palme var einnig atkvæðamikill í sænskum stjórnmálum og hann átti sér án efa óvini sem glaðir vildu hann feigan eins og kom á daginn.
Alexander Valterovich Litvinenko var fæddur 30. ágúst 1962 og var rússneskur flóttamaður sem flúði til Bretlands og bjó í London þangað til hann var myrtur 23. nóvember 2006. Hann hafði áður starfað fyrir rússnesku leyniþjónustuna FSB (Federal Security Service) sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi. Samkvæmt bandarískum diplómötum á Litvinenko að hafa, fyrstur manna kallað Rússland mafíuríki.
Það voru miklir umbrotatímar í Rússlandi á þessum tíma. Járntjaldið hafði fallið með miklum látum á milli 1989 og 1990. Næstu árin var Rússland að finna taktinn og Boris Yeltsin var veikur leiðtogi sem tók við af síðasta aðalritara kommúnista flokksins Michail Gorbachev. Vladimir Putin komst smátt og smátt til valda og er enn sá sem flestu ræður í Rússlandi.
Í nóvember 1998 sakaði Litvinenko og fleiri meðlimir FSB yfirmenn sína um morðið á milljónamæringnum Boris Berezovsky. Þessu var ekki tekið vel og var hann handtekinn í mars 1999 og sakaður um að hafa farið út fyrir valdsvið sitt með yfirlýsingum sínum. Hann var fundinn saklaus í nóvember en handtekinn aftur stuttu seinna en kærurnar gegn honum voru látnar niður falla árið 2000. Þegar þarna var komið flúði hann til London og fékk þar hæli fyrir sig og fjölskyldu sína. Þar starfaði hann sem ráðgjafi fyrir bresku leyniþjónustuna.
Litvinenko hélt áfram að gagnrýna rússnesk stjórnvöld á meðan hann bjó í London og skrifaði til dæmis tvær bækur, Blowing Up Russia: Terror from Within og Lubyanka Criminal Group, þar sem hann sakar rússnesku leyniþjónustuna um að hafa sprengt fjórar íbúðarblokkir sem hryðjuverkamönnum frá Tjetseníu var kennt um í þeim tilgangi að koma Vladimir Putin til valda. Hann sakaði Putin einnig um að skipa fyrir um morðið á blaðamanninum Önnu Politovskaya.
Fyrsta nóvember 2006 veiktist Litvinenko skyndilega og dó 22 dögum seinna. Rannsókn leiddi í ljós að banamein hans var eitrun af völdum hins geislavirka polonium-210 og er hann fyrsta þekkta fórnarlamb eitrunar af völdum þess efnis.
Eins og gefur að skilja varð uppi fótur og fit og margar kenningar voru uppi um hver tilræðismaðurinn var og hver hafi verið hvatamaður morðsins. Bresk rannsókn benti eindregið til þess að Andrey Lugovoy, sem áður hafði starfað fyrir rússnesku öryggisstofnunina FSO (Russia's Federal Protective Service), væri sá sem verknaðinn hafi framið. Bretar kröfðust þess að hann yrði framseldur en það var ekki gert vegna þess að samkvæmt rússnesku stjórnarskránni má ekki framselja Rússa til annarra landa. Þetta leiddi til versnandi samskipta á milli ríkjanna.
Marina, ekkja Litvinenko vann lengi vel ásamt líffræðingnum (biologist) Alexander Godfrab að rannsókn á málinu. Hún fékk því loksins framgengt að rannsóknarréttur (Coroner/public inquery) fjallaði um málið og þrátt fyrir að mjög erfitt hafi verið að finna sannanir sem væru nógu sterkar til að reka málið hófust málaferlin þann 27. janúar 2015, um tíu árum eftir að Litvinenko var myrtur. Rétturinn komst að því að morðið hafi verið framið af FSB og að öllum líkindum að skipun Vladimir Putin og Nikolai Patrushev sem var yfirmaður FSB á þessum tíma. Þann tíma sem þetta ferli tók var mikið rætt og ritað um dauða Litvinekos og það sem margir töldu vera samsæriskenningar reyndist vera rétt og er nú talið sannað. Þó svo sé þá eru þeir seku enn frjálsir ferða sinna og hafa ekki tapað þeim völdum sem þeir höfðu. Nýverið fór breyting á lögum um forseta Rússlands í gegnum Dúmuna. Þessi breyting gerir það að verkum að Putin getur setið á valdastóli til ársins 2036 ef hann kærir sig um.
Núvitund á netinu
Að setja fram samsæriskenningar svo og aðrar kenningar er mun auðveldara núna en áður. Með tilkomu netsins og þeirra miðla sem þar er boðið upp á geta einstaklingar eða hópar náð til milljóna án þess að þurfa að hreyfa sig spönn frá rassi. Nú er talað um falsfréttir og óáreiðalegar sögur sem fara á flug um netheima. Þessar fréttir og sögur eru oft þannig að fyrsti apríl virðist vera á hverjum degi. Það þarf að gæta sín vel við lestur á því sem birtist á samfélagsmiðlum og er sett fram sem heilagur sannleikur en reynist oft ekki eiga neina stoð í raunveruleikanum. Þó að yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna virðist oft vera fjarstæðukennt rugl koma þær frá honum og þess vegna er enn erfiðara að henda reiður á hvað er satt og hvað er logið.
Á meðan og áður en kosningabaráttan hófst fyrir síðustu kosningar í Bandaríkjunum flugu þær fréttir að óprúttnir erlendir aðilar væru að reyna að hafa áhrif á kosningabaráttuna í því augnamiði að styðja annan frambjóðandann og hindra framgang hins. Tölvupóstum var stolið frá Hillary Clinton og efni þeirra notað. Þessir tölvupóstar voru tengdir hennar persónu og ekki varðir eins og hefðin er hvað varðar opinberar persónur. Mikið var rætt um það að Rússar vildu fá Donald Trump kosinn og þess vegna voru netmiðlar notaðir af þeim til að rægja Clinton. Það hefur gengið illa að sanna þetta og þegar Trump hlaut kosningu voru þessar ásakanir rannsakaðar en ekkert kom út úr því og málið virðist hafa fjarað út. Nú eru kosningar á næsta leiti í Bandaríkjunum og það verður forvitnilegt að sjá og fylgjast með hvort það sama verði upp á teningnum. En svo er auðvitað hugsanlegt að allt þetta fár sem varð fyrir fjórum árum hafi bara verið samsæriskenning og þær ásakanir sem voru settar fram eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.
Covid-19 er pest sem hefur dreift sér um allan heim og dauðsföllunum og þeim sem eru smitaðir fjölgar dag frá degi. Sumum þjóðum hefur tekist betur en öðrum að hefta útbreiðslu faraldursins en þær þjóðir geta samt ekki leyft frjálsar ferðir á milli landa né heldur innanlands fyrr en plágan hefur verið kveðin niður á heimsvísu.
Nettröllin hafa ekki legið á liði sínu hvað varðar samsæriskenningar um Covid-19. Ein þeirra er sú að veiran sjálf hafi verið búin til af mönnum og að henni hafi hreint og beint verið sleppt út af tilraunastofunni til að valda sem mestum skaða. Kínverjum hefur verið kennt um þetta og þó að margt sé misjafnt hægt að segja um framgöngu þeirra þegar veiran kom fyrst upp í Wuhan héraði er það harla ólíklegt að veiran sé af manna völdum nema auðvitað að hún á að hafa átt upptök sín á matvælamarkaði þar sem afurðir dýra komu smitinu af stað. Flestir þeir vísindamenn sem að rannsókninni hafa komið eru sammála því að veiran sé ekki tilbúin. Þrátt fyrir það fljúga fréttir um að skáldsögur hafi spáð fyrir um þennan faraldur og að stjórnvöld í Kína hafi komið pestinni af stað til þess eins að klekkja á Bandaríkjunum og ná markaðsráðandi stöðu í heiminum. Ástralska ríkistjórnin sem hefur átt í miklum vandræðum með að kveða niður smit í landinu kallar nú eftir rannsókn á því hvernig veiran komst á flug og er hálfgert kalt stríð hafið á milli þeirra og stjórnvalda í Kína. Ástralir furða sig á því að kínversk stjórnvöld svara fyrirspurnum þeirra engu og þeir segja að símtölum og öðrum samskiptum sé hreinlega ekki svarað frá Peking.
Bandaríkjastjórn brást seint og illa við þegar smitin bárust þangað og eins og Trump er von og vísa hóf hann sína einka herferð og kenndi öllum nema sjálfum sér hvernig komið var. Hann hótaði að hætta að styðja WHO og lét síðan verða af því. Auðvitað hreytti hann ónotum í Kínastjórn. Bandaríkjaforseti sagði að pestin mundi fjara út snarlega og að þetta væri svo sannarlega stormur í vatnsglasi. Raunin er auðvitað önnur og við sem verðum vitni að þessu vitum ekki okkar rjúkandi ráð. Það má til sanns vegar færa að stjórnvöld á Íslandi hafi staðið sig nokkuð vel. Hitt er auðvitað annað mál að efnahagur þjóðarinnar hefur tekið mikla dýfu sem sér ekki fyrir endann á.
Það er eins og Covid-19 hafi sent okkur öll heim til þess að sitja í skammarkróknum um stund. Pestin atarna er ekki eina vandamálið sem við eigum eftir að þurfa að glíma við. Þeir sem til þekkja spá því að veira sem þessi eigi eftir að leika lausum hala aftur og enn sér ekki fyrir endann á þessu fári. Svo eru það loftslagsmálin sem banka upp á og lítið hefur verið gert til að leysa. Síðastliðinn vetur var mjög harður og mín samsæriskenning er sú að það veðravíti sem gekk yfir landið sé að minnsta kosti að hluta til af völdum gróðurhúsaáhrifa og hlýnunar jarðar. Við erum að upplifa heitustu ár sem mæld hafa verið. Heimskautin eru að bráðna með miklum hraða og skógar brenna í Bandaríkjunu, Ástralíu og hinn ótvírætt mikilvægi skógur við Amazon ánna hefur orðið skógareldum og miklu jarðraski af mannavöldum að bráð. Ekki sér fyrir endann á þessu en það ætti hugsanlega að vekja okkur að samfara minni notkun flugvéla, bíla og þeirri staðreynd að verksmiðjur spúa ekki eins mikilli mengun út í loftið og var áður en pestin kom til hefur gert það að verkum að íbúar stórborga hafa betra útsýni yfir borgirnar núna. Fjallasýnin til Himalajafjalla er mun betri og hreinni en hefur verið um langt skeið.
Stóra spurningin er hvað er til ráða og verður tekið til þeirra ráða?
Höfundur er kennari/kvikmyndagerðarmaður.