Íslenskir drengir eiga í ýmiss konar vandræðum. Þeir glíma frekar en stúlkur við hegðunarörðugleika, athyglisbrest og lesblindu á skólaárum sínum. Við lok grunnskóla getur um þriðjungur drengja ekki lesið sér ánægju og mun færri karlar ná að ljúka háskólanámi en konur. Einnig eru geðheilbrigðis vandamál fleiri hjá körlum en konum. Hvers vegna er þetta svona og hvernig getum við sem samfélag betur stutt við bakið á drengjunum okkar?
Líðan og viðhorf foreldra móta barn í frumbernsku
Þekkt er að fyrstu árin í lífi barns, árin sem engin man, eru hvað mest mótandi fyrir líf hins fullorðna einstaklings. Upplifanir barnsins á fyrstu æviárum þess, meðan heilinn er í örum vexti, hafa mikil áhrif á þroska þess. Þótt skapgerðareiginleikar og erfðafræðilegir þættir geti einnig haft áhrif er helstu orsakir hegðunarvanda að finna í þroskaferli barnsins og samskiptum þess við foreldra. Sem dæmi má taka að andleg eða líkamleg veikindi foreldris í frumbernsku hafa mikil áhrif á barn, sem er þá í meiri hættu varðandi það að þróa tilfinninga-og hegðunarvandamál síðar á ævinni. Þetta er óháð því hvort það sé móðir eða faðir sem séu veik.
Andlegt ójafnvægi foreldra smábarna hefur þannig töluverð áhrif á hamingju og velferð einstaklinga í samfélaginu okkar. Þessa tilgátu hafa áralangar rannsóknir staðfest. Tilfinningalíf para er hinn raunverulegi grunnur að þroska barns, en ósætti og óvild milli foreldra getur haft varanleg neikvæð áhrif á líðan síðar meir.
Þessi frumbernsku áhrif eiga auðvitað jafnt við um bæði kynin, en til að flækja málin enn frekar er það staðreynd að kynin eru mis viðkvæm fyrir neikvæðum þroska áhrifum í frumbernsku. Drengir fæðast mælanlega minna þroskaðir en stúlkur og sýna fyrr en stúlkur neikvæð þroskaviðbrögð við tilfinningalega flóknum heimilisaðstæðum. Áberandi dæmi um viðkvæmni karlkynsins er að glími móðir við þunglyndi bregst drengur fyrr við því og á sýnilegri hátt en ef um stúlku er að ræða.
Drengbörn og stúlkubörn eru nefnilega líffræðilega ekki eins. Þekkt er að stúlkur þroskast hraðar á táningsárum, en þetta ferli er frá byrjun ójafnt. Nýfædd stúlka er lífeðlisfræðilega jafn þroskuð og 4-6 vikna gamall drengur. Eirðarleysi er algengara meðal drengja en stúlkna sem er ein ástæða þess að þeir eru erfiðari í umönnun. Við fæðingu gera piltbörn þar af leiðandi enn meiri kröfur til foreldra sinna. Ef feður og mæður geta ekki mætt þessum kröfum er hætt við drengir verði enn verr settir. Slíkt má líta á sem þroskaskerðingu strax í frumbernsku. Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna að þegar þroski barns er undir meðallagi fyrsta æviárið er líklegra að barnið dragist enn meira aftur úr næstu árin, en að það nái þeim sem fóru betur af stað. Barnið getur því átt erfitt með að njóta skólagöngu strax í leikskóla.
Rannsóknir hafa sýnt að fullorðnir hegða sér ómeðvitað ekki eins gagnvart stúlkum og drengjum. Stúlkur njóta að jafnaði meira atlætis hvað varðar tilfinninga- og málþroska á meðan að drengjum er frekar kennt að herða sig eða harka af sér í mótlæti.
Samfélagsleg mýta segir að karlkynið sé sterkara en kvenkynið, en það á í raun aðeins við um vöðvastyrk. Líffræðilegir og menningarlegir þættir rekast hér á með þeim afleiðingum að samfélagið gerir ráð fyrir að tiltölulega óþroskaðir og viðkvæmir litlir drengir búi yfir eiginleikum karlmanna og verði fljótt færir um að sjá um sig sjálfir. Afleiðingar þessarar menningarblindu eru að drengir fá hugsanlega minni athygli og umönnun sem ungabörn en stúlkur þótt þeir þurfi jafn mikið - ef ekki meira - á því að halda.
Menn eru í verri byrjunarstöðu til að verða góðir uppalendur
Ein afleiðing af hinum samfélagslega mótaða mun á uppeldi drengja og stúlkna kemur fram í því að almennt séð á karlkynið erfiðara með að lýsa tilfinningum sínum í orðum. Það eykur enn á erfiðleikana fyrir verðandi feður, sem ekki búa að leiðsögn eigin feðra. Það að feður fái ekki skipulega lögbundna fræðslu og geðheilbrigðisþjónustu með tilkomu föðurhlutverksins hefur ekki aðeins alvarlegar afleiðingar fyrir ungbörn og karlmenn heldur einnig fyrir velferð mæðra, kvenna og þannig samfélagsins í heild. Konur sitja allt of oft uppi með þungann af uppeldisábyrgðinni.
Vandamálið er að náttúrulegir eiginleikar feðra fá ekki að njóta sín til fulls. Ef við gerðum hér bragarbót, þá gætum við orðið fyrst þjóða til að viðurkenna viðkvæma geðheilsu drengja. Vísindamenn í níu löndum söfnuðu saman tiltækum upplýsingum frá árabilinu 1961-2017 um hvernig feðrum leið gagnvart geðheilbrigðisþjónustunni sem þeim bauðst þegar þeir urðu pabbar í fyrsta sinn. Í ljós kom að enginn munur er á Svíum og Asíubúum hvað þetta varðar. Svarið var alls staðar hið sama: Engin lögbundin eða skipuleg þjónusta í boði.
Það er mótsagnakennt, en þótt fáir þræti fyrir að þjóðfélagið sé enn óhæfilega karllægt, ekki síst hin efstu lög þess, þá er kannski um leið svo komið að opinbera kerfið sinni þörfum mæðra og stúlkna betur en feðra og drengja á þessu örlagaríka æfiskeiði.
Karlar vilja styðja – hjálpum þeim að gera það vel
Feður hafa engu minni þörf fyrir fræðslu og aðstoð með tilkomu foreldrahlutverksins en mæður. Vitað er að þótt bæði kynin geti verið óörugg og hafi mögulega ekki fengið fræðslu og aðstoð sem verndar geðheilsu þeirra og barnsins er móðirin að öllu jöfnu af líffræðilegum og samfélagslegum ástæðum betur til þess fallin að annast ungbarnið en faðirinn. Auk þess fá mæður mun meiri stuðning á meðgöngu en feður, saman ber hina íslensku hefð um mæðravernd en ekki foreldravernd.
Aðgerðarleysi á sviði foreldrafræðslu leiðir því oftar en ekki af sér að konan sér meira um umönnunina. Þannig viðhaldast hefðbundin kynhlutverk eldri kynslóða. Jafnréttisfræðsla er viðurkennd aðferð til að breyta þessum hugsunarhætti. Þar kemur feðrafræðsla til sögunnar.
Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, einn af okkar helstu vísindamönnum í jafnréttismálum, hefur ítrekað bent á að á síðustu árum hefur þátttaka íslenskra feðra í umönnun barna aukist verulega. Hann hefur einnig vakið athygli á að á sama tíma hefur lítið sem ekkert verið gert til að sinna þörfum þeirra fyrir fræðslu og aðstoð í hlutverki sem er töluvert breytt frá tímum fyrri kynslóða.
Þessu getum við breytt. Fyrsti hlutinn væri fræðsla og aðstoð á meðgöngu. Feður jafnt sem mæður þurfa að finna fyrir öryggi í foreldrahlutverkinu til að geta sýnt börnum sínum stuðning og ástríki í uppeldinu. Verðandi feður þurfa einnig fræðslu, annars er hætt við að þeir sæki útrás fyrir eðlilega hræðslu og óöryggi gagnvart hinu nýja hlutverki t.d. í meiri vinnu. Ef við gefum feðrum öryggi í að annast barn sitt í frumbernsku líður þeim betur við umönnunina og sækjast mögulega meira eftir þeirri vellíðan.
Feður og mæður eru fyrstu og mikilvægustu kennarar í lífi barna. Gerum það almennt að báðum foreldrum sé boðin fræðsla um foreldrahlutverkið. Besta forvörnin í geðheilbrigðismálum er að foreldrar séu vel í stakk búnir til að til að takast á við foreldrahlutverkið. Í gegnum uppeldishæfni foreldra er hægt að hafa varanleg áhrif á gæði þjóðfélagsins okkar. Við bætum líkamlegt og andlegt heilbrigði ungs fólks og aukum jafnrétti karla og kvenna.
Við Íslendingar gætum orðið fyrsta þjóðin til að hafa persónustyrk og tilfinningaúthald til að hlúa að heilbrigði drengja allt frá getnaði og sýna í verki væntumþykju og virðingu fyrir tilfinningum þeirra og draumum.
Höfundur er fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.