Fjárfesting í menntun er okkur öllum til hagsbóta til lengri tíma því rannsóknir, menntun og nýsköpun eru grundvöllur þess að þjóðin geti verið samkeppnishæf öðrum þjóðum. Stúdentar eru því bókstaflega framtíðin. Við furðum okkur þar af leiðandi á því viðmóti sem stúdentar hafa mætt varðandi kröfu sína um atvinnuleysisbætur handa stúdentum í námshléum, svo sem yfir sumartímann, sem kom til vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Stúdentar áttu þann rétt í áratugi, allt til 1. janúar 2010. Ef við myndum snúa aftur til þáverandi kerfis gæti vinnandi námsfólk einfaldlega sótt sér þann rétt sem það hefur áunnið sér með greiðslu atvinnutryggingagjalds af launum þeirra, ef það þarf að takast á við atvinnuleysi.
Atvinnulaust námsfólk utan atvinnuleysistryggingakerfisins
Á Alþingi er til umræðu frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Í frumvarpinu er að finna átakið Nám er tækifæri sem á að heimila atvinnulausum að fara í nám án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Hér er verið að tala um fólk sem kemur af vinnumarkaði og fer í nám. Það er ekki verið að tala um núverandi stúdenta, sem misstu störfin sín í vor og höfðu ekkert fjárhagslegt öryggisnet, og hafa það ekki ennþá skyldi verða bakslag eða aðrar sambærilegar áskoranir í framtíðinni. Það er að sjálfsögðu ótrúlega mikilvægt að komið sé til móts við þau sem eru að horfa fram á atvinnuleysi og tökum við því ávallt fagnandi að fólk geti sótt nám. Á sama tíma vekur undrun að krafa stúdenta, sem hefur verið skýr frá fyrsta degi, mæti alltaf lokuðum dyrum því það er talið of vandasamt að fara í stórar kerfisbreytingar. Frumvarpið sýnir okkur þó að það sé gerlegt. Það má túlka sem svo að krafa stúdenta sé marktæk en hópurinn sem leggur hana fram, stúdentar, sé ekki stjórnvöldum marktækur.
Frumvarpið byggir á tillögum samhæfingarhóps um aðgerðir vegna mennta- og vinnumarkaðsmála, settur á fót af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Félags- og barnamálaráðuneytinu. Það er hópur sem Landssamtök Íslenskra stúdenta (LÍS) og Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) sitja í og það skal vera skýrt að báðar hreyfingar hafa talað máli stúdenta á þeim vettvangi og skilað af sér fjölda athugasemda. Það er óskiljanlegt hvers vegna stúdentar eru látnir standa í eilífum vítahring þar sem jafnvægið milli náms og vinnu er óútreiknanlegt.
Barátta stúdenta síðan í vor
Í mars var strax ljóst að meginþorri stúdenta væri þegar í erfiðri fjárhagsstöðu sökum faraldursins og að margir yrðu atvinnulausir yfir sumarið. Samhliða atvinnuleysisbótum fyrir stúdenta yfir sumarið kallaði SHÍ eftir afnámi skrásetningargjalds Háskóla Íslands og breytingum á úthlutunarreglum LÍN. Atvinnuleysisbætur voru það úrræði sem myndi grípa allt námsfólk sem ekki kæmist að í vinnu og þótti SHÍ það sjálfsagður réttur þar sem af launum stúdenta er greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð, sem nemur 1.35% af laununum þeirra, eins og hjá öllum vinnandi landsmönnum samkvæmt 3. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990. Atvinnuleysisbótakrafa stúdenta hefur ekki undir neinum kringumstæðum snúist um að stúdent sem ekki hefur þörf á að sækja sér fjárhagsaðstoðar geti gert svo frjálslega. Atvinnuleysisbætur eru ætlaðar þeim sem missa vinnuna sökum samdráttar á vinnumarkaði eða uppsagna eða annarra sambærilega ástæðna og neyðast þar með til að leita sér fjárhagsaðstoðar. Það raungerðist í vor þegar hundruðir urðu atvinnulausir sökum samdráttar á vinnumarkaði vegna kórónuveirufaraldursins, og hafði námsfólk ekkert öryggi að sækja í.
SHÍ setti af stað kannanir til að fá tilfinningu fyrir stöðu stúdenta á vinnumarkaði þar sem engin opinber gögn eru til um atvinnuleysi námsfólks á Íslandi. Sú fyrsta frá 22. mars og sú seinni frá 6. apríl sýndu 40% atvinnuleysi. Í millitíðinni sendu aðrir háskólar út kannanir til sinna nemenda sem sýndu enn verri stöðu, eða 50% atvinnuleysi í HR og 65% í LHÍ. Þær gáfu til kynna mikið atvinnuleysi, námsfólk var að missa sumarstörf sem því hafði verið lofað og útlitið var ekki gott. Þá settu stjórnvöld milljónir í nýsköpunarsjóð, sumarnám og sumarstörf. SHÍ hefur tekið skýrt fram að sumarstörfin voru gleðiefni, enda hluti þeirra aðgerða sem SHÍ krafðist í fyrstu tillögum sínum.
Nokkur starfanna voru kynnt 26. maí en ekki var byrjað að ráða fyrr en um miðjan júní. Alla jafna eru stúdentar byrjaðir að vinna á þeim tíma enda nýta þeir sumarið vel til að eiga fyrir bæði sumrinu sjálfu og skólaárinu, því lánasjóðurinn lánar einungis fyrir 9 mánuði ársins. Í ljós kom að störfin væru einungis fyrir tvo mánuði en ekki þrjá sem þýðir að þau voru í rauninni mun færri en 3.400 og þýddi að stúdentar yrðu enn atvinnulausir þriðjung sumarsins. Þetta er reiknað samkvæmt frumvarpi til fjárukalaga, bls. 32.
Þriðja könnunin var unnin af SHÍ í samstarfi við LÍS og yfirlesin og send út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þann 14. maí og stóð yfir til 26. maí. Niðurstöður hennar sýndu 38.9% atvinnuleysi en markmiðið með henni var að fá tilfinningu fyrir stöðu stúdenta í maí. Á lokadegi könnunarinnar var opnað fyrir umsóknir í störf hjá Vinnumálastofnun og ákvað ráðuneytið að senda út fjórðu könnunina, í þetta sinn úrtakskönnun á vegum Maskínu og í samstarfi við bæði SHÍ og LÍS. Sú könnun nær yfir tímabilið u.þ.b. 29. maí til 11. júní en niðurstöðurnar hennar hafa enn ekki verið gerðar opinberar, þrátt fyrir beiðni SHÍ. Markmiðið með þeirri könnun var að kortleggja enn betur stöðuna.
Fullyrt um þarfir námsfólks
Félags- og barnamálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu þann 16. júní þar sem kom fram að ekki væri þörf á að skapa fleiri störf fyrir stúdenta. Þá sagði í tilkynningunni: „Því er ljóst að staða námsmanna á vinnumarkaði er umtalsvert betri en forystufólk námsmanna hefur talið hingað til, en alls er um 500 störfum, sem búin voru til í tengslum við átakið, óráðstafað og líkur á því að þeim fjölgi nokkuð þegar vinnu við umsóknir um störf hjá opinberum stofnunum lýkur.“
SHÍ stóð ekki á sama enda ekki búið að opinbera gögn úr fjórðu könnuninni sem Maskína framkvæmdi. Hafi ráðuneytið verið svo fullvissað um að ástæða þess að störfin fylltust ekki væri því allt námsfólk væri komið í vinnu, hefði mátt sýna fram á það með því að birta niðurstöðurnar. Aðeins í gegnum þær tölur hefðum við getað metið hvaða hópa störfin gripu eða gripu ekki. Viðbúið var að hlutfall atvinnulausra stúdenta í júní væri minna en í maí, enda búið að opna fyrir umsóknir í sumarstörfin þegar Maskínu könnunin er framkvæmd. Flest störfin voru hins vegar miðuð að fólki í rannsóknartengdum verkefnum, hjá opinberum stofnunum og ráðuneytum, og krafði það umsækjendur oft og tíðum um að hafa verið búin að ljúka 1-2 árum í ákveðnu fagi í háskóla. Þau voru ekki hönnuð fyrir allt námsfólk, svo sem framhaldsskólanema, 18 ára og eldri, listnema og fleiri hópa. Af fjölda skráninga í sumarnám mátti að auki draga þá ályktun að stúdentar hafi frekar kosið að fara í nám í eitt misseri til viðbótar heldur en að taka áhættuna og bíða þar til um miðjan júní eftir starfi. Réttilega svo, það er ekki hægt að bíða í meira en mánuð eftir að fá kannski eða kannski ekki starf. Úrræði stjórnvalda voru nefnilega á þá leið að stúdentar voru að hefja störf 15. júní en höfðu flest lokið prófum 8. maí.
Vandamálið var því ekki að skortur væri á námsfólki til að manna sumarstörfin, heldur var framboðið ekki nægilegt í þeim skilningi að það hentaði þeim stóra hópi sem námsfólk myndar, bóknemar, iðnemar, listnemar o.s.frv. Töfin á að birta niðurstöður fjórðu könnunarinnar gefa ekki góð fyrirheit um hver staða stúdenta hafi í raun verið í sumar. Fyrirsláttur Félags- og barnamálaráðuneytisins um að störf hafi verið óþarfi gefur það heldur ekki.
Félags- og barnamálaráðherra sagði eftirminnilega í Silfrinu að stúdentar gætu ekki fengið pening fyrir að „gera ekki neitt“. Staða stúdenta á Íslandi í íslensku menntakerfi er þannig að yfirgnæfandi meirihluti stúdenta vinnur með námi nú þegar. Stúdentar eru bæði námsfólk og vinnuafl þessa lands. Ofuráhersla stjórnvalda á að virkja stúdenta gefur í skyn að það að vera í 100% námi og vinnu allan ársins hring til að eiga fyrir sér og sína sé ekki nóg virkni.
Skörun atvinnuleysistryggingakerfisins og námslánakerfisins
Stúdent er ekki heimilt að vera í fleiri en 10 einingum, samhliða vinnu, til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum missi hann vinnuna. Á sama tíma má stúdent ekki vera í minna en 22 einingum til að geta tekið námslán hjá Menntasjóði námsmanna. Hér skiptir engu máli hvort stúdent sé í námi og hlutastarfi eða í 100% vinnu og námi með. Stúdent sem missir vinnuna, og þar með tekjur sínar, hefur engan rétt á bótum einfaldlega vegna þess að hann er í námi. Í frumvarpinu á þingi er lagt til að hækka einingaviðmiðið úr 10 í 12 einingar hjá Vinnumálastofnun en bilið milli kerfanna væri samt bersýnilega enn of stórt. Tillagan er byggð á því að námsfólk á háskólastigi sé almennt í 6 eininga námskeiðum. Það er hins vegar allur gangur á einingafjölda eftir námsleiðum auk þess að fullt nám miðast við 30 einingar. Þessi breyting veitir stúdentum ekki frekara svigrúm en fyrir 1-2 námskeiðum.
Helstu mótrökin gegn atvinnuleysisbótakröfu stúdenta eru þau að námslánakerfið eigi að grípa námsfólkið. Þann 10. júní sl. varð Menntasjóður námsmanna að lögum og þó að SHÍ telji heildarendurskoðun námslánakerfisins jákvætt og tímabært skref þá harmar það tilhögun grunnframfærslu framfærslulána sem og sjálfbærnishugsjón sjóðsins. Framfærslulánin duga stúdentum ekki og neyðast þeir því til að vinna samhliða námi til að framfleyta sér. Aftur á móti skerðast lánin þéni þeir tekna umfram frítekjumarkið og þar með skapast vítahringur þar sem stúdentar verða að vinna meira til geta séð fyrir sér og sínum. Tilhögun framfærslulána er falið sjóðstjórn án skýrra fyrirmæla um endurskoðun milli ára og benti SHÍ á að þannig væri engin krafa gerð til hennar um að ráðast í breytingar væri þess þörf. SHÍ batt þó vonir við að stjórn gripi til aðgerða við gerð nýrra úthlutunarreglna Menntasjóðsins. Í nýjum úthlutunarreglum er hækkun grunnframfærslu þó ekki að finna. Önnur aðgerð sem SHÍ krafðist í úthlutunarreglunum var fimmföldun á frítekjumarki Menntasjóðsins (þá LÍN), svo auðveldara yrði fyrir fólk að komast af vinnumarkaði og í nám. Fimmföldunin gagnast ekki þeim sem hafa verið í námi sl. 6 mánuði, en var það úrræði sem Mennta- og menningarmálaráðherra féllst á.
Þörf á stöðugri baráttu námsfólks
Líkt og fram hefur komið voru stúdentar útilokaðir frá rétti til atvinnuleysisbóta í námshléum þann 1. janúar 2010 eftir að Alþingi samþykkti lagafrumvarp um breytingar þess efnis. Þá hefði eflaust verið ráð að breyta fyrirkomulaginu í heild sinni þannig að atvinnutryggingagjald af launum stúdenta væri ekki að renna í sjóð sem stúdentar mega ekki sækja í. Ef miðað er við tölur frá EUROSTUDENT VI, samevrópskri könnun á stöðu stúdenta, vinna 70% námsfólks samhliða námi, í 50% starfi að meðaltali og tæplega 90% námsfólks vinnur fullt starf að sumri. Sé þetta fólk allt á lágmarkslaunum, skv. samningum SGS og SA frá 2010 til dagsins í dag, nema atvinnutryggingagjöld þess hóps sem runnið hafa í atvinnuleysistryggingasjóð yfir 3,5 milljarða króna síðastliðin 10 ár. Samkvæmt Eurostudent vinna stúdentar þó að meðaltali 26 klst. á viku með námi sem er nær 70% starfshlutfalli og eru 3,5 milljarðar því mjög varlega áætluð upphæð. Það gæti ekki verið skýrar að atvinnutryggingagjöld vinnandi stúdenta skapa milljarða af tekjum atvinnuleysistryggingasjóðs og því fráleitt að þeir hafi verið án réttinda úr sjóðnum í áratug.
Í svokölluðu hlutabótaleiðinni sem var lögð fram á þingi 17. mars fólst m.a. að einstaklingur yrði að halda 50% starfshlutfalli og lækka um a.m.k 20% til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda útaf samkomubanninu og kórónuveirufaraldrinum. SHÍ sendi frá sér umsögn og sagði að 50% viðmiðunar starfshlutfallið væri of hátt fyrir stúdenta, sem eru margir í hlutastarfi með námi og ná augljóslega ekki upp í það starfshlutfall. Stúdentum til mikillar ánægju var hlutfallið lækkað úr 50% í 25% og sérstakri málsgrein var bætt við frumvarpið sem tók mið af stúdentum í samræmi við athugasemdir SHÍ. Þetta var samþykkt á þingi 19. mars og átti að vera í gildi til 1. júní. Hlutabótaleiðin var framlengd 29. maí og viðmiðunar starfshlutfallið var hækkað úr 25% í 50%. SHÍ gagnrýndi hækkunina, alveg eins í fyrstu umferð, enda voru stúdentar ekkert líklegri á þeim tímapunkti til að ná upp í 50% starfshlutfall frekar en í mars. Ráðið sendi frá sér umsögn 26. maí sem litið var framhjá.
SHÍ krafðist þess að 75.000kr skrásetningargjald HÍ yrði afnumið fyrir skólaárið 2020-2021. Stjórnvöld brugðust við með því að boða þess í stað greiðsludreifingu, en stúdent sem sér ekki fram á að mæta útgjöldum sínum og á erfitt með að sjá fyrir fjölskyldu sinni á ekkert auðveldara með að greiða 75.000 kr í nokkrum greiðslum, til þess að stunda nám. Þess má geta að stúdent þarf að greiða gjaldið að fullu jafnvel þó hann sé aðeins í einu námskeiði, t.d. að klára 8 eininga lokaritgerðina sína. Þá er vert að hafa í huga þá ótrúlegu staðreynd að námslánakerfið á Íslandi lánar ekki fyrir skrásetningargjöldum í opinbera háskóla og því geta þau sem vilja stunda nám í Háskóla Íslands ekki fengið lánað fyrir því. Háskóli Íslands tók á það ráð að framlengja greiðslufrestinn á skrásetningargjaldinu og bjóða einnig upp á greiðsludreifingu. Raunar hefur Háskólinn tekið mikið mið af áhyggjum stúdenta, til að mynda brást hann við beiðni SHÍ um að koma til móts við fjárhagsvanda stúdenta á stúdentagörðunum með því að ráðstafa fjármagni í sérstakan sjóð. Viðbrögðin hafa verið til fyrirmyndar.
Starfskraftar framtíðarinnar
Stjórnvöld sem stæra sig af því að búa í velferðarríki með fyrirmyndar menntakerfi og námslánakerfi sem tryggir jafnrétti til náms hafa verið í mikilli mótsögn við sig sjálf. Stúdentar eru vinnandi fólk í orðsins fyllstu merkingu og það ber að veita þeim öryggið sem þeir eiga allan rétt á. Stúdentar leggja atvinnuleysistryggingasjóði lið með þeirra vinnuframlagi. Það er staðreynd og því mun krafa SHÍ um að tryggja eigi stúdendum rétt til atvinnuleysisbóta standa óhögguð.
Nám er, eins og við vitum öll, 100% vinna. Stúdentar ættu að geta stundað það óáreitt og áhyggjulaus, hins vegar er raunveruleiki þeirra allt annar. Aðgerðir stjórnvalda er hægt að greina í ákveðið mynstur þess að stúdentar séu ekki fjárfestingarinnar virði og eru því utanskilin og látin falla milli kerfa, þrátt fyrir að vera starfskraftar framtíðarinnar. Það er svo sannarlega hægt að fara í kerfisbreytingar, það þarf aðeins vilja til. Við erum í slæmum málum ef ráðherra félags- og barnamála telur námsfólk og börn þeirra ekki eiga réttindi sín skilið og stöndum enn verri fæti ef ráðherra okkar málaflokks er ekki með okkur í liði.
Höfundur er forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.