Í umferðinni er gott að geta gengið að því að ljósin á gatnamótum hafa aðeins þrjá liti og þau hafa hvert um sig ákveðna og skýra merkingu. Ökumenn geta gengið að því vísu og þurfa ekki að velkjast í vafa um eitt né neitt. Grænt fær t.d. ekki breytta merkingu allt í einu.
Þessir þankar vöknuðu í huga mér þegar mér varð hugsað til stjórnarskrárinnar sem Stjórnlagaráð samþykkti og afhenti Alþingi og þjóðin lýsti almennri ánægju með í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og talaði þar mjög skýru máli. Hún gaf grænt ljós á þessa stjórnarskrá sem hlotið hefur lof þjóðarinnar og líka fræðimanna um víða veröld.
Liðin eru 8 ár, tvö kjörtímabil, og flestir stjórnmálamenn sem kjörnir hafa verið á þessu tímabili hafa í raun hegðað sér eins og þeir geti af einskæru sjálfdæmi breytt grænu ljósi í rautt.
Við þekkjum það vel að veðrið á Íslandi er óútreiknanlegt og sífelldum breytingum undirorpið en þegar leikreglur, lög og siðferði er orðið valkvætt þá er fjandinn laus.
Á skákborði og í fótbolta, svo dæmi séu tekin, gilda ákveðnar leikreglur eins og í umferðinni. Rautt er rautt, gult er gult og grænt er grænt.
Alþingismenn eru í raun margir eins og vatnslitir, þeim má blanda á alla vegu og ef menn missa sig algjörlega og fá blöndunaræði og tapa allri litasýn þá verður bara til einhver ljótur drullupollur sem dugar bara í skugga eða til að túlka eitthvað ljótt og óspennandi.
Þegar alþingismenn leggjast gegn þjóðarvilja eru þeir orðnir sem prinsipplausir og „gagnslausir gutlarar“ sem samtvinna lygar, svo vitnað sé í Hina helgu bók, orðnir sem ljótur og óspennandi drullupollur, sem dugar bara til að mála skugga.
Nú er kominn tími til að hreinsa til. Þjóðin þarf hreint vatn og óblandaða liti, þar sem hver litur hefur sína merkingu og enginn snarbremsar á grænu og stöðvar alla umferð og segir:
Fyrir mér var ljósið rautt! Ég ræð!
Stjórnarskráin er á grænu ljósi skv. meirihluta þjóðarinnar og nú hafa yfir 17.500 manns skrifaðu undir áskorun um að hún verði lögfest.
Ríkisstjórn og Alþingi!
Það logar grænt ljós!
Sjáið þið það ekki!
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur.