Í vikunni var tekið útvarpsviðtal á Bylgjunni við Ólaf Hand og lögmann hans þar sem fjórir karlmenn ræddu saman um það hversu ósanngjarnt það er að vera fundinn sekur af dómstólum en vera saklaus þannig að orðsporið bíður hnekki. Ólafur og lögmaður hans vilja að menn eigi heimtingu á skaðabótum þegar þeir eru dæmdir sekir í héraðsdómi en síðan sýknaðir í Landsrétti, ef mönnum finnst sýknudómurinn ekki fullnægjandi málalok. DV fjallaði um málið og þar kemur meðal annars fram að Landsréttur hafi metið það svo að ekki hafi staðið „steinn yfir steini“ í fyrri sakfellingu héraðsdóms.
Hér má gera nokkrar athugasemdir. Menn eru auðvitað ekki dæmdir saklausir. Þeir eru sýknaðir af tilteknum ákæruatriðum. Hvers vegna eru menn sýknaðir? Vegna þess að ef sekt er ekki hafin yfir rökstuddan vafa er rétt að sýkna þá. Tilgangurinn með rannsókn máls er ekki að sakfella saklaust fólk, við erum öll sammála um það og þess vegna tekur meðferð sakamála mið af þessari forsendu.
- Sýknudómur felur ekki nauðsynlega í sér að eitthvað hafi ekki átt sér stað.
- Sýknudómur yfir ákærðum jafngildir heldur alls ekki saknæmri háttsemi brotaþola eða annarra málsaðila.
- Sýknudómur á áfrýjunarstigi jafngildir allra síst spillingu innan lögreglunnar.
Umfjöllun fjölmiðla um dóminn sem gildisdóm yfir málsaðilum gefur ranga mynd af því hvernig réttarkerfið starfar. Mannorð og mannkostir sýknaða voru ekki til ákvörðunar fyrir dómi, þaðan af síður áfellisdómar yfir meintum brotaþolum, móður og barni. Samt finna fjölmiðlar tilefni til að fjalla um málið endurtekið líkt og dómsniðurstaða sé gildismat um eitthvað annað. Fjölmiðlar gerast meðhöfundar sýknaða að annarri sögu þar sem ákærði er þolandinn.
Til samtakanna Lífs án ofbeldis leita margar konur sem hafa sætt ásökun barnsfeðra í sjónvarpi eða í öðrum fjölmiðlum um tálmun, brot á rétti föður til umgengni við börn og oft um ýmis önnur brot. Þeir barnsfeður sem fá sviðsljósið eru oft valdamiklir og jafnvel þjóðþekktir, hafa stórt tengslanet, viðkunnanlega ásýnd út á við og eiga eitt sameiginlegt; börn þeirra og barnsmæður hafa reynt að verja sig gegn yfirgangi og stjórnsemi þeirra. Leikarar, athafnamenn í viðskiptalífinu og fleiri áberandi menn sem eiga vinsæla vini hafa notað félagslegt vald sitt til að skamma barnsmæður sínar opinberlega, rýra siðferðisgildi þeirra með harkalegri orðræðu, neikvæðum staðalmyndum um konur og ásökun um lygar. Þá eru þær iðulega sakaðar sjálfar um ofbeldi.
Það er ekki endilega raunhæft val fyrir konu í þessum sporum að verja sig gegn slíkum ásökunum á opinberum vettvangi. Þær halda sinni hlið og barnanna frá sviðsljósinu til að vernda börnin, starfs síns vegna og stundum vegna yfirvofandi ógnar um frekara ofbeldi. Þögnin getur orðið bjargráð í ómögulegum aðstæðum og stundum afarkostur ef móðir setur friðhelgi barna í forgang. Þögn, ekki vegna þess að þær hafi eitthvað að fela heldur vegna þeirrar veigamiklu ábyrgðar sem þær bera.
Móðir í þessari stöðu er að annast börn sem búa við afleiðingar ofbeldis og reynir allt til að takmarka það áreiti og álag sem þau verða fyrir. Hún vill fyrst og fremst hlúa að velferð þeirra í þeim þrúgandi aðstæðum sem fjölskyldan býr við. Sjálf glímir hún oft við áfallastreitu eftir ofbeldi, bæði í sambandinu með barnsföðurnum en ekki síður vegna framkomu hans og samfélagsins gagnvart henni eftir skilnað. Ef minning kviknar um ofbeldið eða eitthvað sem tengist erfiðum atvikum getur það kallað fram þungbæra líðan. Þegar ofbeldið er alltaf yfirvofandi fylgir því ótti, ný árás kveikir einkenni doða, hún nær ekki að einbeita sér, verður annars hugar og viðskila við stað og stund, tilfinningarnar verða yfirþyrmandi og hugsunin flöktandi. Sumar konur gráta mikið, aðrar fá mikinn kvíða og líkamleg einkenni. Margar þessara kvenna eiga erfitt með að ræða um það sem er að gerast, stirðna upp og stama, orðin koma öfugt út úr þeim og þær eins og detta út. Eitt einkenni áfallastreitu er að reyna að forðast að upplifa sársaukafullu minningarnar og tilfinningarnar. Þessar mæður hafa því ekki alltaf andlegt svigrúm til að ná fyllilega utan um ofbeldið sem þær verða fyrir, áfellast sig sjálfar fyrir að vera í aðstæðunum og geta upplifað að þær hafi brugðist börnunum sínum. Opinber smánun á borð við þá sem hér er lýst getur framkallað sára og djúpstæða skömm, sem afleiðingu af því að vera hafnað, útskúfuð, stimpluð og brennimerkt. Mannleg viðbrögð eru að vilja fara í felur, draga sig í hlé, setja hendur fyrir andlit, stífna upp og þagna.
Það sem allar þessar mæður eiga þó sameiginlegt er mikil þrautseigja. Líðan og ástand barna eftir ofbeldið og langvarandi ásókn föður er oft mjög alvarlegt. Dæmi eru um að börnin séu lögð í einelti í skóla fyrir að eiga „rugluðu foreldrana“ og að þau þurfi að skipta um skóla. Vinirnir vilja ekki koma í heimsókn. Börnin setja sig jafnvel sjálf í samband við föður sinn sem hafnar samskiptum við þau en fer þess í stað í fjölmiðla og tjáir sig um sína erfðileika þar. Það er napurlegt að segja frá því að nokkur börn á aldrinum 10-14 ára, sem eru í þessum sporum, glíma við alvarleg andleg veikindi, eru endurtekið í sjálfsvígshættu, stunda sjálfskaðandi hegðun og segjast vilja deyja. Lífið fyrir þessi börn er stundum óbærilegt þegar fjölskyldunni er haldið í heljargreipum ofbeldismanns árum saman og samfélagið tekur þátt í því. Ekkert barn á skilið að vera í þessum aðstæðum. Þessar fjölskyldur eiga ekki skjól. Skömmin er slík að hún læðist alls staðar inn. Vinnustaðinn, skólann, stórfjölskylduna. Mæðurnar geta ekki einu sinni farið í Blómaval án þess að eiga von á því að einhver hitti á þær og helli sér yfir þær. Þær geta ekki borðað í mötuneytinu í vinnunni eða fengið frið á eigin heimili því fólkið í blokkinni trúir því að þær séu vondar. Samstarfskona skellir hurð í andlitið og öskrar. Þær fá ekki atvinnutækifæri. Þeim er haldið úti í horni. Fjölskylda, vinir og opinberar persónur vilja ekki láta sjá sig á myndum með þeim. Frægu vinirnir skrifa athugasemdir undir stöðuuppfærslur barnsfeðranna á samfélagsmiðlum, fyrir allra augum, svo að hann fái örugglega sinn stuðning. Hún er að reyna að halda sér á floti. Hún er búin að fara í ótal sálfræðitíma til að vinna úr þessum áföllum en það stoðar lítið þegar þau hætta ekki að dynja á henni.
Þær eru með önnur börn en þessara barnsfeðra á heimilinu, jafnvel ung börn. Sumar eru ófrískar eða með barn á brjósti og þola illa streituna sem fylgir álaginu. Að minnsta kosti tvö nýleg dæmi eru þar sem konur hafa fengið samdrætti og hríðar langt fyrir settan dag vegna álagsins af áframhaldandi ásökunum og meiðandi ummælum sem dynja á þeim opinberlega. Tilhugsunin um berskjöldun frammi fyrir alþjóð til þess eins að skapa ofbeldismanninum nýtt árásartækifæri er þeim of þungbær. Það er engin sýnileg undankomuleið úr þessum aðstæðum. Þegar hér er komið er þögnin ekki að vernda þær eða börnin, en hún er lamandi og að rjúfa hana getur virst óyfirstíganlegt. Hvernig byrjar annars frásögnin hennar þegar hann er búinn að semja söguna og í þeirri sögu er hún sekur lygari, hann saklaust fórnarlamb og börnin aukaatriði? Á hún að hefja meiðyrðamál þegar hún ber alla ábyrgð og hann hefur eintóman rétt í augum samfélagsins?
Þessir karlar nýta tengslanet sitt og virðast hafa óþrjótandi orku og stundum fjármuni til að verja sig og ímynd sína. Á sama tíma skeyta þeir litlu um hvort börnin líði fyrir aðför að heimili þeirra og móðurfjölskyldu og saka jafnvel börnin opinberlega um lygar. Þeir virðast eiga óheftan aðgang að frjálsri tjáningu um sínar skoðanir í fjölmiðlum en þegar barnsmóðirin í sama máli velur friðhelgi fjölskyldu sinnar er hún látin bera hallann af því í umfjöllun að hafa ekki tjáð sig. Þetta telst víst innan siðlegra marka í íslenskri blaðamennsku. Það er vissulega rétt sem lögmaður Ólafs Hand segir, það er mjög íþyngjandi að vera ranglega sakaður um eitthvað, „sérstaklega í þessum gapastokks-kommentakerfisheimi sem við búum í hér á landi“. En það eru ekki menn með sýknudóma og nægt pláss í ljósvakamiðlum sem bera þungann af þessum áfellisdómum samfélagsins, er það?
Gabríela Bryndís Ernudóttir er starfandi sálfræðingur og ein talskvenna samtakanna Líf án ofbeldis.
Sigrún Sif Jóelsdóttir starfar við rannsóknir sem verkefnastjóri hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er ein talskvenna Lífs án ofbeldis.