Seðlabankinn tilkynnti eftir lokun markaða í dag að hann sé reiðubúinn að selja allt að 240 milljónir evra það sem eftir lifir árs eða sem nemur 5,5% af óskuldsettum forða bankans. Þessi tilkynning kemur í kjölfarið á því að birt var í Markaðnum í dag að lífeyrissjóðirnir hyggist ekki framlengja samkomulagi sínu við Seðlabankann um að kaupa ekki gjaldeyri þegar það rennur út þann 17. september.
Ég tel að ástæðan fyrir því að Seðlabankinn sé tilbúinn að fara í þessa aðgerð sé tvíþætt. Annars vegar vill bankinn stuðla að stöðugu verðlagi og hins vegar draga úr óhóflegum skammtímasveiflum í gengi krónunnar eins og bankinn hefur orðað það. Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi talaði Seðlabankastjóri um að gengi krónunnar væri undir jafnvægisgengi sínu. Í rammagrein 3 í 2. hefti Peningamála árið 2016 er farið yfir hvernig meta má jafnvægisraungengi út frá ytri sjálfbærni þjóðarbúskaparins. Þar er jafnvægisraungengið skilgreint sem það raungengi krónunnar sem tryggir að nægilegur afgangur sé af viðskiptum við útlönd til þess að hrein erlend staða sem hlutfall af landsframleiðslu haldist óbreytt til lengdar. Slíkt mat er auðvitað alltaf óvissu háð eins aðalhagfræðingi Seðlabankans hefur verið tíðrætt um; og krefst þess að viðkomandi gefi sér einhver jafnvægisgildi helstu hagstærða.
Þetta mat byggir á því að vegna uppgangs ferðaþjónustunnar hefur mikill viðskiptaafgangur síðustu ára bætt hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins til muna. Þrátt fyrir að litið sé fram hjá áhrifum falls bankanna hefur hún farið úr því að vera neikvæð um nánast 190% af landsframleiðslu árið 2007 í það að vera jákvæð um 29% af VLF nú á öðrum fjórðungi. Af skilgreiningunni á jafnvægisraungengi að ofan er því ljóst að þar sem hreina erlenda staðan hefur batnað til muna að þá hefði raungengi krónunnar þurft að vera sterkara til að hrein erlend staða sem hlutfall af landsframleiðslu héldist óbreytt til lengdar. Auk þess er alltaf horft til langs tíma við mat á jafnvægisraungengi og miðað við spá Seðlabankans um að það verði viðskiptaafgangur upp á tæplega 4% af landsframleiðslu á næsta ári þá er skerðing gjaldeyristekna þjóðarbúsins tímabundin. Þar af leiðandi getur Seðlabankinn beitt forðanum án þess að víkja frá stefnunni um að vinna gegn óhóflegum skammtímasveiflum en Seðlabankastjóri undirstrikaði að skammtímasveiflur gætu náð yfir marga mánuði.
Það er ljóst að næstu mánuðir á gjaldeyrismarkaði verða mjög áhugaverðir en raungengi krónunnar í ágúst var 12% undir síðasta mati Seðlabankans á jafnvægisraungengi krónunnar. Hversu mikil áhrif mun það hafa á inngripastefnuna og hversu marga mánuði getur skammtímasveifla staðið yfir?
Höfundur er hagfræðingur.