Hún var athyglisverð fréttin sem birtist í Kjarnanum 8. september síðastliðinn þar sem kom fram að Samherji hefði, með sjónvarpsþætti sínum um Cape Cod, leiðrétt ásakanir úr Kveik sem aldrei hefðu verið settar fram.
Mér var bent á að fréttamenn Kveiks hefðu deilt þessari frétt á samfélagsmiðlum og þannig lýst velþóknun sinni á efni hennar. Í þætti Samherja voru dregnar saman þrjár helstu ásakanirnar úr þætti Kveiks frá 26. nóvember 2019 og þeim svarað. Í fyrsta lagi að Samherji hafi átt félagið Cape Cod. Í öðru lagi að peningar frá Namibíu hafi streymt til Cape Cod og þeir verið „þvegnir“ og í þriðja lagi að DNB hafi á endanum fundist þetta óþægilegt og lokað á viðskipti Cape Cod.
Fréttamenn Kveiks fullyrða nú að þeir hafi aldrei sett þessar ásakanir fram. Það er með nokkrum ólíkindum. Var þá upplifun okkar, stjórnenda og starfsfólks Samherja og fjölmargra annarra sem horfðu á Kveik, bara eintómir hugarórar? Vorum við ímynda okkur það sem við sáum og heyrðum? Þá er ekki nema von að menn spyrji, um hvað var eiginlega þessi Kveiksþáttur, þar sem fjallað var um Cape Cod, ef hann fjallaði ekki um þau atriði sem Samherji vildi leiðrétta?
Útúrsnúningar og eftiráskýringar
Þegar grannt er skoðað er ljóst að það eru útúrsnúningar og eftiráskýringar að halda því fram að áðurnefndar ásakanir hafi ekki komið fram í Kveik.
Á tveimur stöðum í þættinum er ýjað sterklega að því eða sagt beint út að Samherji hafi verið talinn eigandi félagsins Cape Cod, sem hann er ekki og hefur aldrei verið, enda er félagið í eigu þýsku starfsmannaleigunnar JPC Shipmanagement.
Á mínútu 18:05 í þætti Kveiks kemur þetta fram: „Horft er á það sem virðast vera veikar varnir og aðgerðir norska ríkisbankans DNB við peningaþvætti.“ Alls kemur orðið „peningaþvætti“ fjórum sinnum fyrir í þeim hluta þáttarins þar sem Cape Cod er til umfjöllunar.
Í þættinum er fjallað um athugun sem norski bankinn DNB gerði á móðurfélagi Cape Cod. Á mínútu 19:18 er eftirfarandi fullyrt: „Gögnin benda til að eftir þessa skoðun hafi bankinn áfram leyft milljörðum að flæða um reikninga félaganna tveggja.“
Á mínútu 21:28 er Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður, í mynd og segir eftirfarandi: „Yfirlit yfir bankaviðskipti Samherja sýna að milljarðar flæddu frá félögum tengdum útgerðarrisanum til Cape Cod. Og, ekki bara til félagsins til að standa straum af launagreiðslum, heldur hafa fjármunir einnig borist Samherjafélögunum frá Cape Cod.“
Strax á eftir koma fram fullyrðingar um greiðslur frá félögum Samherja á Kýpur til Cape Cod og norska bankanum DNB hafi „þótt þetta óþægilegt“ og lokað reikningum Cape Cod af þeim sökum. Þess var hvergi getið í Kveik að norski bankinn DNB hafi gert áðurnefnda athugun vegna millifærslna til Rússlands og Úkraínu, til að greiða þarlendum skipverjum sem störfuðu í útgerðinni í Namibíu, því á þessum tíma var Rússland á válista. Þetta kom ekki fram í Kveik því Aðalsteinn Kjartansson sleit upplýsingar í skjalinu frá DNB úr samhengi og birti aðeins þær upplýsingar, hluta úr setningu, sem þjónuðu sögunni. Ég veit auðvitað ekki hvers vegna framsetningin var með þessum hætti en eins og ég nefndi í þættinum okkar þá kemur tvennt til greina, illvilji eða yfirsjón.
Þættinum afneitað
Í ljósi framangreindra atriða velti ég því fyrir mér hvort blaðamaður Kjarnans hafi yfir höfuð horft á Kveiksþáttinn frá 26. nóvember 2019 og þátt Samherja eða hvort hann hafi verið sofandi þegar hann gerði það.
Það sem stendur eftir er að Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur núna tvívegis á innan við ári dregið í land eða hreinlega afneitað þeim fullyrðingum sem hann setti fram í Kveik. Menn hljóta eðlilega að spyrja sig hvort hann standi í dag við eitthvað af því sem sagt var í þættinum.
Er ekki eðlileg krafa að Aðalsteinn geri nýjan þátt þar sem hann á skýran hátt setur fram þær ásakanir sem mjög margir töldu vera í Kveik en var greinilega byggt á misskilningi?
Höfundur er forstjóri Samherja hf.