Það er gömul saga og ný að rekstur Icelandair Group („Icelandair“) er mikið á milli tannana á fólki. Umtalið virðist hafa farið stigvaxandi með risi og falli WOW air, 737 MAX vélunum og svo síðast, en ekki síst, COVID-19. Allir hafa sína skoðun eða eiga frænku eða frænda sem telur sig vita allt um þessi mál. Blaðamenn skrifa vandaðar greinar um félagið og reglulega eru tekin viðtöl við sérfræðinga um stöðu og framtíðarhorfur þess.
Icelandair virðist hafi fengið sæti við borðið á kaffistofum þjóðarinnar. Í ljósi núverandi ástands, legu landsins og vaxandi mikilvægi ferðaþjónustunnar á undanförum árum kemur þetta væntanlega fáum á óvart. Þetta er að sama skapi mjög jákvætt, að mati undirritaðs. Málefnalegar umræður um rekstur fyrirtækja geta verið mjög gagnlegar fyrir þau sjálf, fjárfesta og viðskiptavini þeirra, sem og hollar fyrir samfélagið í heild sinni.
Það er, aftur á móti, ákveðið áhyggjuefni hversu tómlegt er um að litast á kaffistofunni. Eins og huglægar sóttvarnaraðgerðir hafi ríkt um fjölda rekstrartengdra umræðuefna sl. áratuginn: Engin fyrirtæki inn á kaffistofuna, en takmörkuð undanþáguheimild fyrir flugfélög. Sjaldan heyrir maður „venjulegt“ fólk tala um rekstur fyrirtækja, nema þá helst ef þeim verður á í messunni. Slíkt umtal er vissulega hollt og veitir nauðsynlegt aðhald, en nokkuð sérkennilegt eitt og sér. Eins og ef fólk talaði bara um íþróttir þegar einhver gerði mistök á stórmóti, hrækti framan í dómara eða félli á lyfjaprófi.
Hvað er gott með kaffinu?
En hvað er það sem aðgreinir Icelandair frá öðrum fyrirtækjum að þessu leyti? Skýringin liggur í augum uppi. Icelandair er almenningshlutafélag og skuldbundið til að starfa með afar gagnsæjum hætti. Það er borðleggjandi að almenningshlutafélög búi við slíkt umtal. Eða hvað? Sama virðist ekki eiga við um önnur almenningshlutafélög, sem fá lítið pláss í almennri umræðu.
Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2020 voru viðskipti með hlutabréf Icelandair um fjórðungur allra viðskipta í Kauphöllinni, mælt í fjölda. Þegar litið er til hlutfalls af veltu nam það einungis 3%. Viðskiptin eru mörg, en að jafnaði talsvert minni en gengur og gerist á markaðnum (nánar tiltekið einn tíundi af miðgildisstærð viðskipta). Fleiri, en smærri, viðskipti benda til þess að einstaklingar séu orðnir nokkuð atkvæðamiklir í viðskiptum með þetta eina félag. Önnur almenningshlutafélög komast ekki inn á kaffistofuna, a.m.k. ekki með þeim hætti að það endurspeglist í viðskiptum á markaði.
Yfirstandandi heimsfaraldur skýrir þetta mögulega að einhverju leyti, en Icelandair er sem stendur að vinna að því að styrkja lausafjárstöðu sína, m.a. með því að efna til hlutafjárútboðs, til þess að takast á við þær áskoranir sem fylgja langvarandi ferðatakmörkunum á heimsvísu. Það er, aftur á móti, illa fyrir okkur komið ef fólk og fjölmiðlar fá ekki áhuga á rekstri fyrirtækja nema framtíð þeirra sé ógnað. En staðan sem er komin upp í ferðaþjónustunni er holl áminning, engu að síður. Rekstur og fjármögnun fyrirtækja skiptir okkur öll miklu máli – svo það er eins gott að við skiptum okkur af.
Önnur skýring kann að vera sú að Icelandair þyki einfaldlega meira spennandi en önnur almenningshlutafélög. Blaðamaðurinn Sigurður Már Jónsson gerði það að umtalsefni í nýlegum pistli að skortur væri á „skemmtilegum“ fyrirtækjum í Kauphöllinni. Fyrirtækjum í áhugaverðum rekstri og með djörf áform. Í pistlinum taldi hann fyrst og fremst til fyrirtæki í tækni og nýsköpun, en sama gæti mögulega átt við um flugfélög. Flugrekstur er sveipaður ákveðnum töfraljóma, fólk tengir við flugfélög, þekkir þau, flýgur sjálft með þeim og hefur sterka skoðun á þeim. Fjárfestingu í flugfélögum getur fylgt áhætta. Ákveðin spenna, sem almennir fjárfestar leita gjarnan uppi, ólíkt því sem margir virðast halda, í bland við aðrar áhættuminni fjárfestingar.
Fika, ølstofur og saunur
Til þess að kanna nánar hvaða eiginleikum fyrirtæki þurfi að vera gædd til að eiga upp á pallborðið hjá almenningi er hægt að rýna í viðskiptagögn frá öðrum kauphöllum Nasdaq á Norðurlöndunum. Það eru reyndar ekki til opinberar upplýsingar um samsetningu fjárfesta á Norðurlöndunum svo ég viti til, en með því að taka saman og greina viðskipti stærstu net-fjárfestingarbanka Norðurlandanna, Avanza og Nordnet (hér eftir „netbankarnir“, til einföldunar), sem gera fyrst og fremst út á viðskipti einstaklinga, má mögulega greina ákveðnar vísbendingar um eftirspurn almennings.
Þegar rennt er yfir lista yfir félögin sem netbankarnir áttu mest viðskipti með á árinu 2019 má sjá mörg kunnugleg nöfn. Þekkt vörumerki eins og Volvo, Ericsson, H&M og Nokia, líftæknifyrirtæki eins og AstraZeneca og Novo Nordisk, tæknifyrirtæki eins og Fingerprint Cards og PowerCell Sweden, stærstu banka og fjármálafyrirtæki Norðurlandanna og Investor AB, fjárfestingarfélag sem er yfirleitt kennt við Wallenberg fjölskylduna.
Þegar listinn er skoðaður í heild sinni má sjá að fyrirtækin eru af ýmsum stærðum og gerðum og virðist heildarmyndin ekkert ósvipuð þeirri sem fæst þegar viðskipti annara fjármálafyrirtækja eru skoðuð. Öflug stórfyrirtæki sem fólk þekkir vel í bland við spennandi nýsköpunarfyrirtæki. Það er stundum talað um að fyrirtæki þurfi að stefna á mikinn vöxt og/eða vera með sterk tengsl við samfélagið sem þau starfa í ef þau ætla að höfða til almennra fjárfesta. Viðskipti netbankanna virðast passa vel við þetta.
Netbankarnir koma að um 6% af hlutabréfaviðskiptum á Norðurlöndunum (utan Íslands). Þegar kannað er hvernig það skiptist niður á atvinnugreinar má sjá að hlutdeildin er yfirleitt á bilinu 4 – 9%. Hún er þó lægri í fasteignafélögum (3%), tryggingafélögum (2%), veitufyrirtækjum (2%) og matvæla- og tóbaksframleiðendum (2%), en hærri í félögum sem starfa við ferðaþjónustu og tómstundir (16%) eða fjölmiðlun (14%). Icelandair fellur einmitt í þann fyrrnefnda. Þar er vissulega að finna „skemmtileg“ fyrirtæki, í bókstaflegum skilningi. Fyrirtæki sem eru mörg hver rekin til þess eins að skemmta fólki. Þar á meðal eru ýmis tölvuleikjafyrirtæki í bland við fyrirtæki sem margir íslenskir ferðalangar þekkja vel, eins og Tivoli og Parken Sports & Entertainment.
En það er rétt að halda því til haga að þetta eru hvorki mörg félög né afgerandi munur. Heilt á litið virðist sem fyrirtæki úr öllum atvinnugreinum komi til talsins í sænskum fika boðum, dönskum ølstofum og finnskum saunum. En sum þeirra þykja augljóslega meira spennandi en önnur.
„When you‘re curious, you find lots of interesting things to do“ – Walt Disney
Breitt áhugasvið viðskiptavina netbankanna er reyndar nokkuð fróðlegt eitt og sér. Enn fremur þegar viðskipti eru greind eftir stærð viðkomandi fyrirtækja. Um 65% viðskipta netbankanna eru með hlutabréf stórfyrirtækja, á móti 35% með hlutabréf smárra og meðalstórra fyrirtækja og fyrirtækja á First North markaðnum (sem er markaður fyrir vaxtarfyrirtæki). Hjá öðrum fjármálafyrirtækjum eru aftur á móti 91% viðskipta með hlutabréf stórfyrirtækja og 9% með önnur.
Þetta er nokkuð afgerandi vísbending um að fjármagn sem miðlað er í gegnum stofnanafjárfesta leiti frekar í hlutabréf stórfyrirtækja heldur en þegar einstaklingar taka sjálfir ákvörðun um fjárfestingar. Fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki getur slíkt skipt sköpum.
Í því samhengi er einnig áhugavert að skoða hvernig fyrirtæki almenningur virðist þykja spennandi – en ekki endilega öðrum fjárfestum. Fyrirtæki sem talsverð velta er með á markaðnum, yfir 100 milljónir evra á ársgrunni, sem er að megninu til komin vegna viðskipta almennings.
Efst á blað raðast fyrirtæki eins og Crunchfish: sem þróar búnað og tækni í tengslum við viðbótarveruleika (e. augmented reality), SaltX Technology: sem notar nanó-tækni til að finna betri leiðir til að varðveita orku, Savosolar: sem þróar sólarorkulausnir, Cyxone: líftæknifyrirtæki sem þróar lausnir til að bæta líf fólks með sjálfsnæmissjúkdóma, Diamyd Medical: sem vinnur að meðferðum við sykursýki, SpectrumOne: sem þróar lausnir til að hjálpa fyrirtækjum að vinna og greina gögn, SpectraCure: sem vinnur að meðferðum við blöðruhálskirtilskrabbameini og Triboron International: sem þróar tækni til að draga úr útblæstri CO2. Í tilvikum þessara fyrirtækja voru netbankarnir með um eða yfir 70% hlutdeild í hlutabréfaviðskiptum árið 2019. Hlutdeild almennings var því án efa hærri, þar sem venjulegt fólk á einnig viðskipti í gegnum aðra banka en þessa tvo.
Sitt sýnist hverjum um það hvers konar rekstur væri æskilegt að efla hér á landi, en að mínu mati er starfsemi eins og áðurnefnd fyrirtæki stunda ágætis grunnur. Fyrirtæki sem eru í spennandi nýsköpun, fyrirtæki sem geta vonandi vaxið og skapað ný störf, fyrirtæki sem eru að vinna að því að gera heiminn betri.
Að koma fyrirtækjum og fjárfestingum inn á kaffistofuna snýst ekki bara um að finna nýja hluti til að tala um, heldur einnig að brúa bilið milli almennings og atvinnulífsins og skapa mikilvæga lífæð fyrir fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem eru meira og minna í nýsköpun.
Hvert er vandamálið?
Það virðist sem talsverð eftirspurn gæti verið eftir ákveðinni gerð almenningshlutafélaga, sem Sigurður Már kallar „skemmtilegu fyrirtækin“. Þetta eru góð tíðindi fyrir eigendur og stjórnendur slíkra fyrirtækja, sem þurfa mörg hver á fjármagni og auknum sýnileika að halda, og hvatning fyrir frumkvöðla framtíðarinnar.
En slík fyrirtæki leita ekki á markaðinn að sjálfu sér. Við þurfum að virkja varaliðið í stríðinu við stöðnun og einsleitni í atvinnulífinu. Koma fjármálum og rekstri aftur inn á kaffistofurnar og skapa hvata fyrir einstaklinga til að fjárfesta með beinum hætti í hlutafé spennandi fyrirtækja. Það er frábært að fólk láti sig rekstur Icelandair varða, en við megum ekki láta þar við sitja. Ég hef mínar hugmyndir um hvað þurfi til, og er meira en til í kaffibolla með öllum sem vilja ræða þessi mál.