Árið 1900 voru íbúar Árneshrepps 444.
1918 voru þeir orðnir 523.
523 var einu sinni póstnúmer í Árneshreppi, það er ekki lengur til en þá voru þar þrjú póstnúmer.
Nú er þar bara eitt, 524.
Árið 1940 bjuggu 524 í Árneshreppi og hafa aldrei verið fleiri, hvorki fyrr né síðar.
Árið 2000 voru íbúarnir um 80.
Þar búa nú, allt árið, innan við 20 manns.
Hvernig snýr maður svona þróun við og er það yfir höfuð hægt?
„Þjóðfélag sem á samfélag á borð við Árneshrepp í Strandasýslu er auðugt. Sveitarfélagið hefur algjöra sérstöðu hér á landi.“
Þannig eru upphafsorð þingsályktunartillögu sem lögð var á Alþingi tvisvar sinnum á árunum 2001-2003. Þar segir enn fremur: „Mestu skiptir að íbúarnir fái notið staðarkostanna, sem augljóslega snúa að sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu, en einnig að efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri sérstöðu sem óumdeilanlega er fyrir hendi í Árneshreppi.“
Á þessum orðum sést glöggt að viljann til að snúa þessari þróun við hefur líklega aldrei skort. Kveikjan að þingsályktunartillögunni er samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar sem gerð var haustið 1996 og snéri að verndun menningararfs og menningarminja auk náttúruverndar og mengunarvarna.
Í kjölfar þeirrar samþykktar fór af stað vinna sem leidd var af Landvernd þar sem unnið var náið með íbúum Árneshrepps og leitað leiða til að viðhalda byggð í hreppnum. Því að, eins og segir í fylgiskjali þingsályktunartillögunnar, „það er augljóst að of seint er að hugsa um varðveislu menningar á svæðum, sem þegar eru komin í eyði, horfin menning verður aldrei endurvakin. Því verður að hefjast handa, þar sem mannlíf er ennþá fyrir hendi“.
Í vinnu Landverndar og íbúa Árneshrepps kom skýrt fram að til að efla byggð þar þyrfti að styrkja grunnatvinnuvegi svæðisins; landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu ásamt því að bæta samgöngur. Málið fékk góðan hljómgrunn og í kjölfarið kom fyrrgreind þingsályktunartillaga sem tók undir alla þessa þætti. Henni var vel tekið á þingi.
Síðan hefur lítið gerst.
Síðsumars 2020 var haldið íbúaþing í Árneshreppi. Niðurstaða þess þarf ekki að koma neinum á óvart, hún var nánast samhljóða niðurstöðum þeirrar 20 ára gömlu vinnu sem vísað var í hér að framan. Að auki hafði reyndar bæst við þrífösun á rafmagni. Á því síðast talda er til augljós lausn, hún liggur hjá Orkubúi Vestfjarða sem er reyndar langt komið með að tengja þriggja fasa rafmagn í hreppinn, upp á vantar einungis um 50 kílómetra kafla, sorglega lítill þröskuldur það.
Efling ferðaþjónustu á svæðinu hefur á undanförnum áratugum verið veruleg og enn er mikið af ónýttum tækifærum. Hægar hefur gengið í því að efla hinar tvær undirstöðu atvinnugreinar svæðisins og ljóst að þar eru einnig verulega vannýtt tækifæri.
Og svo eru það samgöngur. Þeir vegakaflar sem á annað borð hafa fengið að verma vegaáætlun dvelja þar ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, án þess að komast nokkru sinni á dagskrá. Aðrir komast ekki einu sinni á blað. G-reglan, sem Árneshreppur eitt sjálfstæðra sveitarfélaga þarf að beygja sig undir, veldur þriggja mánaða lokun vegarins á vetri hverjum. Lái mér hver sem vill, mér finnst þetta ekki boðlegt.
En í hverju felst þessi sérstaða Árneshrepps sem allir hlutaðeigandi virðast einróma sammála um?
Ári eftir að norræna ráðherranefndin setti saman samþykkt sína, sumarið 1997, fór ég að taka á móti ferðamönnum í hreppnum. Síðan eru liðin 23 ár og á hverju einasta þeirra hef ég fengið tækifæri til að fylgjast með og taka þátt í upplifun ferðamanna af svæðinu.
Í fyrstu átti ég erfitt með að sjá það sem þeir sáu, skilja upplifun annarra á mínum eigin hversdegi, en var afskaplega forvitin að kíkja í þann spegil. Myndin sem við mér blasti er sannarlega engu lík. Stórbrotin náttúran, mannlífið og sagan sem fléttast svo fallega saman og mynda einhvern galdur mitt í allri kyrrðinni er eitthvað sem ekki er hægt að útskýra.
Þorsteinn Matthíasson rithöfundur og kennari leitaðist eitt sinn við því að lýsa upplifun sinni af Árneshreppi og hún var á þessa leið: „Sú stórbrotna landsýn sem hvarvetna mætir auga þess sem þar fer um grónar götur, vekur upp þá vissu að í þessu umhverfi hafi búið fólk stórt að allri gerð.
Fólk sem kunni vel þá list að eiga í samskiptum við gjöfula náttúru, og mætti með skapfestu og hugarró vá og vetrarhríðum, en kaus að þreyja þorrann og góuna til næsta sólmánaðar.“
Hugsanlega er þetta sannasta lýsingin á því hvernig forfeður mínir og aðrir sveitungar komust af í gegnum aldirnar. Og kannski gefa þessi orð ofurlitla innsýn í líf Árneshreppsbúa, bæði þá og nú því hvernig sem öðru framvindur, þróast og breytist, er það þessi nánd manns og náttúru sem spilar stærstan þátt í upplifun þeirra sem sækja Árneshrepp heim. Að hafa ósnortin víðerni því sem næst í bakgarðinum er tilfinning sem erfitt er að orða, hana þarf einfaldlega að upplifa. Og upplifunin er svo sterk að gestir okkar sækja í hana aftur og aftur.
Í þessu felst auður Árneshrepps og hann þurfum við að varðveita. Það verður ekki gert nema náttúran njóti verndar, atvinnuvegir verði styrktir og samgöngur bættar.
Á síðastliðnum 35 árum hefur ferðaþjónusta hægt og bítandi fest sig í sessi á svæðinu. Með mikilli elju hefur tekist að byggja upp tjaldstæði, gistiheimili, hótel, safn, handverksverslun, veitingastað, sleðaferðir, gönguleiðsagnir, Ferðafélagsskála og siglingar. Og þótt Krossneslaug sé eldri en öll þessi uppbygging er hún líklega sá áfangastaður sem flestir okkar gesta heimsækja og skildi engan undra.
Þrjá mánuði á ári iðar Árneshreppur af lífi. Þá er fólk í tæplega 60 húsum í hreppnum, mörgum þeirra skipta stórar fjölskyldur með sér yfir sumartímann. Á veturna er ljós í glugga á 12 heimilum.
Ferðaþjónustan er orðin að lífæð. Í það minnsta þrjá mánuði á ári. Hún byggist á sérstöðunni sem þetta litla samfélag á hjara veraldar býr yfir vegna þess að þar endar vegurinn og víðernin taka við. Vegna þess að þarna hafa tengsl sögu, náttúru og samfélags enn ekki rofnað.
En við skulum íhuga það saman, í það minnsta í augnablik, hvort forsvaranlegt sé að taka lífæð lítils sveitarfélags, arf kynslóðanna sem á eftir okkur koma, friðuðu náttúruna, heiðavötnin, fallvötnin, fossana og víðernin og breyta þeim í megavött.
Vestur Verk og HS orka lögðu mikið kapp á að koma Hvalárvirkjun á koppinn undanfarin ár. Fórnarkostnaðurinn átti að vera tæp 40% af landi Árneshrepps. Þrjár stórar ár, fossar, heiðavötn og ósnortin víðerni. Fyrir virkjun sem skapa átti ekkert starf á svæðinu. Til að veita verkefninu framgöngu var það sett upp með þeim hætti að aðal tilgangur þess væri að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum. Nú þegar fjarað hefur undan verkefninu eru aðal forsendur þess sagðar allt aðrar. Stóriðju og rafmynt vantar ekki eins mikið af orku og áður og forsendur fyrir virkjun því brostnar. Hvergi er einu orði minnst á Vestfirði – hvað þá Árneshrepp.
Engu að síður ætla fyrirtækin ekki að sleppa því heljartaki sem þau hafa á Árneshreppi heldur halda áfram að lesa af vatnsmælum svo hægt sé að halda virkjuninni á teikniborðinu. Hver tilgangur þeirra er ætla ég ekki að gefa mér. En meðan fyrirtækin marka sér þetta svæði með því að halda áfram með verkefni, sem þeir segja allar forsendur fyrir brostnar, stoppa þeir framþróun sem gæti orðið á þeim tíma sem þeir ætla sér að bíða og sjá til.
Það sjá allir sem vilja sjá það að Árneshreppur hefur ekki tíma til að bíða og sjá til – og til hvers? Það er ljóst að þjóðgarður eða aðrar þær leiðir sem færar eru til að efla atvinnulíf í Árneshreppi, vernda sérstæða náttúruna og snúa að einhverju leyti við þeirri þróun sem verið hefur á svæðinu eru í ákveðinni biðstöðu meðan aðal- og deiliskipulag hreppsins snúa að því að leggja náttúru svæðisins, kannski, einhvern tímann, að veði fyrir stóriðju og rafmynt.
Þjóðgarður er til þess fallinn að gera hvoru tveggja: Að skapa störf innan ferðaþjónustunnar og vernda sérstæða náttúru svæðisins til framtíðar. Innan þjóðgarðs blómstra allskyns atvinnugreinar og menning. Tillögur um verndun Drangajökulsvíðerna hafa þegar verið sendar umhverfisráðherra og liggja því á hans borði. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN meta þjóðgarð sem besta kostinn fyrir svæðið. Við höfum séð hvílík lyftistöng þjóðgarður getur verið fyrir samfélög, til dæmis á Snæfellsnesi, og höfum enga ástæðu til að ætla að annað væri uppi á teningnum á Ströndum.
Sveitarfélögin á Vestfjörðum virðast vera sammála þessu því þjóðgarður samrýmist vel sameiginlegri stefnu sem þau undirrituðu nýverið um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti því þar segir: Sveitarfélögin á Vestfjörðum „samþykkja sameiginlega stefnu um að Vestfirðir verði umhverfisvænt og sjálfbært samfélag þar sem áhersla er lögð á að vernda umhverfi, minjar, sögu og landslag fyrir komandi framtíð. Sveitarfélögin einsetja sér að vinna stöðugt í átt að sjálfbærni í starfsemi sinni og horfa til náttúru- og landverndar“.
Með þessari stefnu hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum tekið skýra afstöðu með náttúruvernd og sjálfbærni – svæðinu öllu til heilla.
Því hann er verðmætur þessi leikvöllur forfeðranna, okkar sjálfra, barnanna okkar og ef við berum til þess næga gæfu, barnanna þeirra. Skilum honum til þeirra ríkari, en ekki rýrari. Skilum auði Árneshrepps óskertum áfram til næstu kynslóða.
Mig langar að enda þetta á tilvitnun í fyrrnefnda þingsályktunartillögu: „Það er því ljóst, að bregðast þarf skjótt við, ef takast á að koma í veg fyrir algjöra eyðingu byggðarinnar. Fari svo mun sú menning, sem þar hefur dafnað, hverfa algjörlega og verður aldrei endurvakin. Þar með yrði þjóðin öll fyrir óbætanlegu tjóni, því að slík endalok eru ekki fyrst og fremst áfall fyrir fólkið, sem býr þar enn, heldur íslenska menningu og sögu.“
Höfundur er þjóðfræðingur og stjórnarformaður náttúruverndarsamtakanna Rjúkanda.