Það má fara langt aftur í aldir til að finna upphaf fjölmiðlunar. Leikhús í fornöld voru líklega fyrstu dæmin um að verk væru flutt fyrir fjölda fólks samstundis. Bækur hafa, svo vitað sé, verið prentaðar í Kína frá 868 eftir Krist. Það má þó gera ráð fyrir að saga prentmiðla sé enn lengri en þetta gefur til kynna. Í Evrópu var ritað mál prentað frá því um 1400 en það hefur ekki mikið varðveist. Jóhannes Gutenberg fann upp prentverkið með hreyfanlegum stöfum og prentaði fyrstu Biblíuna á latínu árið 1453. Uppfinning Gutenberg breytti heiminum og gerði það að verkum að ritað mál varð mun aðgengilegra og fjölbreyttara eftir því sem frá leið og tækninni fleytti fram. Dagblöð hófu göngu sína fyrst um 1612 og fyrstu dagblöðin komu út á ensku um 1620 en þau dagblöð komust ekki í hendurnar á almenningi fyrr en á 18. öldinni. Vinsælasta dagblaðið sem komst í almenna dreifingu á þessum tíma var The Times sem var ritað og prentað í London og er enn gefið út. Hraðvirkar prentsmiðjur og járnbrautir gerðu það að verkum að hægt var að dreifa dagblöðum á milli landshluta. Þetta hafði mikil áhrif á fréttaflutning og aðrar upplýsingar sem blöðin birtu. Það var augljóst að almenning þyrsti í fréttir og þróunin var hröð.
Enn þann dag í dag er einn áhrifamesti fjölmiðillinn útvarp. Saga þess er ekki löng og það var um 1894 að ítalski uppfinningamaðurinn Guglielmo Marconi hannaði og smíðaði fyrst þráðlausa senditækið. Það tók nokkur ár áður en útvarp, eins og við þekkjum það núna, kæmist í almenna notkun og margir vísindamenn höfðu komið við sögu áður en það varð að veruleika. Á meðal þeirra voru Edison, Tesla, Hertz, Lodge, Muirhead, Popov og auðvitað Marconi sjálfur. Þessi tækni var fyrst notuð í hernaði og á farþega- og farskipum. Uppfinningin hafði mikil áhrif og til að nefna dæmi þá eiga þeir 700 farþegar Titanic, sem lifðu af þegar skipið sökk, lífsbjörgina væntanlega að þakka senditæki Marconi. Hann setti á fót verksmiðju í Englandi 1898 þar sem hann smíðaði senditækin og seinna útvarpsviðtæki. Marconi fékk Nóbelsverðlaunin fyrir uppfinningar sínar árið 1909.
Árið 1900 endurvarpaði brasilíski presturinn Roberto Landell de Moura fyrstur manna rödd með þráðlausum tækjabúnaði sem sendi merkið yfir 8 km leið. Hann vann að þessu verkefni hörðum höndum en hafði ekki mikið fjármagn. Með hjálp vina hannaði hann og fékk einkaleyfi á senditæki sem var undanfari útvarpssenda, þráðlausra síma og símskeyta.
Aðfangadagur 1906 var stór dagur í sögu útvarps og fjölmiðla í raun. Fendsen nokkur lék Heims um ból á fiðlu og kafli úr Biblíunni var lesinn, þessari dagskrá var endurvarpað frá Ocean Bluff-Brant Rock í Masschusetts. Sjófarendur heyrðu útsendinguna og var þetta líklega fyrsta útvarpssendingin í sögunni sem ætluð var almenningi.
Fyrsta útsending frétta fór fram hjá stöðinni 8MK (WWJ Newsradio 950) í Detroit fyrir 100 árum síðan og er þessi stöð enn að senda út fréttir og er nú í eigu Entercom og tengist CBS. Þróun og dreifing útvarps var mjög skjót og það átti hug fólks allan þangað til almennar útsendingar sjónvarps hófust í Bandaríkjunum og Bretlandi eftir seinni heimsstyrjöldina.
Mynd og hljóð inn á hvert heimili
Útsendingar hófust í raun áður en styrjöldin hófst en þeim var hætt af öryggisástæðum. Útvarp var hinsvegar mikið notað bæði af bandamönnum og öxulveldunum til að koma fréttum og áróðri til þeirra sem handan víglínanna voru. BBC World Service var mjög mikilvæg stöð til að koma fréttum og skilaboðum til hernumdra þjóða og til þeirra sem vildu heyra það sem bandamenn vildu sagt hafa.
Eftir stríðið var útbreiðsla sjónvarps mjög hröð og margir spáðu því að útvarp yrði úrelt á skömmum tíma. Það hefur hinsvegar ekki orðið og útvarp er enn mikilvægt. Undanfarið hafa hlaðvörp komið til og hefur það haft mikil áhrif á dreifingu útvarps efnis. Ýmsar útvarpsstöðvar hafa gert tilraunir með að setja mynd við útsendingar sínar. KEXP í Seattle til dæmis sem hefur komið mörgum tónlistarmanninum á kortið og á meðal þeirra Of Monsters of Men. NRK hefur einnig verið framarlega í flokki og fleiri eru með svipuð verkefni í farvatninu.
Með tilkomu sjónvarps gafst áhorfendum kostur á því að sjá og heyra fréttir af atburðum sem áttu sér stað bæði nær og fjær. Ríkisstjórnum varð fljótt ljóst hversu öflugur miðill sjónvarp er og settar voru leikreglur sem stjórnuðu því hver gat sent út og hver ekki. Það þurfti leyfi og það gaf þeim sem hrepptu hnossið færi á að senda út á ákveðinni bylgjulengd. Það sama hafði verið upp á teningnum varðandi útvarp. Auglýsingar og kostanir voru seldar til þess að fjármagna reksturinn og skapa arð fyrir eigendurna. Ástæðan fyrir því að sápur eru kallaðar sápur er einfaldlega sú að sápuframleiðendur studdu fyrst þáttagerð með leiknu efni í útvarpi og síðar í sjónvarpi.
Netvæðingin
Með tilkomu internetsins breyttist fjölmiðlaumhverfið mikið. Á skömmum tíma hefur upplag prentaðra blaða minnkað og fréttaveitur hafa sprottið upp á netinu og dagblöðin hafa einnig nýtt sér þessa tækni. Þær síður sem eru hvað vinsælastar eru oft tengdar dagblöðum og sjónvarpsstöðvum sem hafa orðið að aðlaga sig að breyttu umhverfi á tiltölulega skömmum tíma. BBC, Aljazeera, CNN, Sky News og Reuters eru öflugar fréttastöðvar sem eru í eigu fjársterkra aðila fyrir utan BBC sem er í almannaeigu og er það talið vera einn áreiðanlegasti fréttamiðill í heimi. Þessum stöðvum er dreift út um allan heim í gegnum gervihnetti og 24 tíma sjónvarpsútsending gerir það að verkum að þegar nótt er í Evrópu er dagur annars staðar í heiminum. Þar af leiðandi eru alltaf áhorfendur til staðar.
Eðli fréttaflutnings hefur breyst mikið undanfarin ár. Hraðinn er mikill og það að birta „nýjar“ fréttir og halda í þá sem eru að horfa eða eru á ferð á netinu er það sem öllu skiptir. Klikkin sanna fyrir auglýsendum að þeir eigi að setja auglýsingar á vefsíðuna. Aðalbreytingin er sú að neytendur hafa stöðugan aðgang að efninu sem á netinu er. Það var auðvitað svipaður kvarði sem var notaður til að sannfæra auglýsendur um að auglýsa á einni sjónvarps- eða útvarpsstöð frekar en annarri. Þær mælingar voru þó ekki nándar nærri eins nákvæmar og þær upplýsingar sem netmiðlar geta safnað. Snjallsímar og tölvur eru alls staðar og við berum þessi móttökutæki með okkur hvert sem við förum. Fréttastöðvar senda út allan sólarhringinn og netveiturnar gefa kost á aðgangi hvenær sem er. Ef þetta er borið saman við það sem áður var þá eru fréttatímar enn í sjónvarpi á ákveðnum tímum eins og við þekkjum á RÚV og Stöð 2. Þessir fréttatímar eru mikilvægir og eiga sér sinn stað á vefsíðu miðlanna ef vera kynni að áhorfendur vilji sjá fréttirnar aftur eða hafa misst af frumsýningunni. Netið hefur á mjög skömmum tíma breytt þörfum áhorfenda sem vilja sjá og lesa fréttir þegar það hentar þeim en ekki á tilsettum tíma sem er ákveðinn af stöðvunum sjálfum. Þetta er þróun sem hefur gert það að verkum að miklar breytingar hafa átt sér stað og með tilkomu Facebook og annara samfélagsmiðla. Þegar litið er til baka var fjölmiðlaumhverfið mun einfaldara á árum áður og það má segja að miðað við það er reglufestan sem áður var er ekki lengur til staðar. Nú er talað um falsfréttir og að óprúttnir aðilar noti sér þetta umhverfi oft í annarlegum tilgangi eða til að koma áróðri sínum á framfæri.
Davíð og Golíat í nútíðinni
Það er augljóst að aðgangur að sterkum fjölmiðli getur haft úrslitaáhrif ef selja á vöru og þjónustu eða reyna að komast á þing, verða forseti og svo framvegis. En nú er staðan sú að fréttastofur eru oftar en ekki í eigu fjölþjóðafyrirtækja. Hér má nefna Sky sem er í eigu Murdoch fjölskyldunnar sem hefur byggt fjölmiðlaveldi sem á líklega enga samsvörun í sögunni. Það er augljóst að þeir stjórnmálamenn sem ætla að komast áfram og eiga hauk í horni hjá slíku apparati eiga meiri möguleika á kosningu en þeir sem ekki eiga stuðning vísan. Hér má nefna sögusagnir sem voru á kreiki þegar Verkamannaflokkurinn í Bretlandi vann stórsigur í þingkosningum árið 1997 með Tony Blair í broddi fylkingar. Þá er talið að ein af ástæðum velgengni þeirra hafi verið stuðningur sem fjölmiðlaveldi Murdoch veitti þeim. Það er vitað að Tony Blair hitti Murdoch fyrir kosningarnar og að þeir hafi gert með sér einhverskonar samkomulag sem meðal annars skiluðu Verkamannaflokknum þeim árangri sem þeir náðu.
Nú styttist óðum í forsetakosningar í Bandaríkjunum þar sem sitjandi forseti, Donald Trump, mun takast á við fyrrum varaforseta Joe Biden. Það verður spennandi að fylgjast með hverju fram vindur og hvort spár um hatrama kosningabaráttu verði að veruleika. Síðust kosningar voru litaðar af ásökunum um óeðlileg afskipti Rússa af kosningunum. Þetta er enn rætt og líklega á þetta einhverja stoð í raunveruleikanum. Áður fyrr voru það dagblöð, útvarp og sjónvarpsstöðvar sem voru vettvangur þeirra sem fóru í framboði. Flest lýðræðisríki settu leikreglur sem fjölmiðlar urðu að fara eftir. Þetta breyttist þegar sjónvarpsstöðvarnar fóru að senda út í gegnum gervihnetti á heimsvísu. Þegar það átti sér stað þurftu þær stöðvar ekki endilega að hlýða svæðisbundnum reglum þar sem þær höfðu allan heiminn í sigtinu.
Tilgangurinn helgar meðalið
Það er oft talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið. Það er að segja að skylda fjölmiðla sé að skoða það sem ríkisvaldið aðhefst með gagnrýnum augum. Þetta á auðvitað við um aðra þætti þjóðfélagsrýni og er ekki einskorðað við það sem gerist í ranni ríkisins heldur hafa fjölmiðlar mun víðari skyldum að gegna. Þegar umhverfi fjölmiðla getur talist heilbrigt er samkeppnisstaða þeirra sem eru á frjálsum markaði er tryggð. Það er að stjórnvöld hvers tíma eða fyrirtæki hafi ekki færi á að hafa óeðlilega mikil áhrif á fréttaflutning. Ef fjölmiðlar eru í almannaeigu þarf að tryggja það að ekki sé mögulegt að hafa óeðlileg afskipti af þeim eða að þessir fjölmiðlar geti haft að engu þær skyldur sem þeim ber að sinna. Ekkert kerfi er fullkomið og hér á landi er mikið deilt um það hvort að RÚV sé að sinna skyldum sínum eða hvort að eignarhald einkarekinna fjölmiðla sé í höndum aðila sem geta haft óeðlileg áhrif á þjóðfélagsumræðu. Það er ekki hægt að segja að þessi mál séu í góðu lagi, það þarf að setja ákveðnari leikreglur sem tryggja betur lýðræðislegt starfsumhverfi fjölmiðla í landinu. Þetta er mjög mikilvægt fyrir þjóð sem telur sig á meðal elstu og sterkustu lýðræðisþjóða í heiminum.
Að drepa blaðamann og annan
Þeir sem segja fréttir, skrifa greinar og stunda rannsóknarblaðamennsku hafa lengi vel verið í hættu er þeir sinna störfum sínum. Á hverju ári deyja blaðamenn á átakasvæðum. Þeir eru einnig í hættu annarsstaðar þar sem upplýsingarnar sem þeir birta geta komið við kaunin á þeim sem fjallað er um. Þekkt dæmi um þetta eru mál Julian Assange, Edward Snowden og Chelsea Manning sem eru og voru sakaðir um að hafa brotið lög um upplýsingaleynd. Snowden hefur verið landflótta lengi og Manning sat í fangelsi fyrir að hafa birt upplýsingar. Assange bíður þess í Belmarsh fangelsinu í Englandi að mál hans verði tekið fyrir í dómsal í Englandi í þessum mánuði. Hann á yfir höfði sér að verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem ákæruvaldið gæti sakfellt hann og sett hann á bak við lás og slá í allt að 170 ár.
Hér heima ganga kærumál vegna rannsóknar sem átti sér stað hjá RÚV í máli tengdu Útgerðarfélagi Akureyrar sem teygði sig alla leið til Namibíu. Starfsmenn og eigendur útgerðarfélagsins hafa ásakað fréttamanninn Helga Seljan um óheilindi og hafa einnig sakað RÚV um að flytja ósannindi um málið. Þetta getur auðvitað átt sér stað og blaðamenn hafa auðvitað gert mistök. Hitt er svo annað mál að hægt er að kæra mál sem þetta til blaðamannafélagsins og einnig á öðrum vettvangi. Blaðamannafélagið hefur sínar siðareglur. Slóðin hér er á síðuna sem geymir þær siðareglur.
Alþjóðlegar siðareglur blaðamanna eru einnig til og blaðamenn fara eftir þeim eftir bestu getu og sannfæringu.
Fjórða valdið
Það þarf að halda umræðunni um hlutverk fjölmiðla á lofti. Hvernig þeir eru reknir, hvaðan rekstrarféð kemur og hvernig það er notað. Margir fjölmiðlar eru ófeimnir við að taka afstöðu og styðja einn stjórnmálamann eða -flokk fremur öðrum. Sums staðar eru fjölmiðlar ritskoðaðir og stjórnvöld ráða miklu um hvað fjallað er um og hvernig. Það þarf ekki að hugsa um þetta lengi áður en lönd eins og Kína, Rússland, ýmis Asíu- og Afríkuríki og jafnvel Bandaríkin koma upp í hugann. Þessar þjóðir, hver á sinn hátt, eiga við vanda að glíma hvað varðar flutning frétta og það aðhald sem fjölmiðlar eiga að hafa þegar kemur að ríkisstjórnum. Það er einnig augljóst að fjölþjóðafyrirtæki hafa oft færi á að hafa óeðlileg áhrif á umræðuna í skjóli auðvalds.
Að starfa sem blaðamaður hefur ekki verið talin hættuleg iðja en þegar betur er að gáð benda tölulegar staðreyndir til annars. Á síðustu tíu árum hafa að minnsta kosti 554 blaða- og fréttamenn verið drepnir víðsvegar í heiminum. Þetta fólk hefur verið drepið í sjálfsmorðsárásum, skotið af glæpagengjum, orðið fyrir skoti í hernaði og það hefur jafnvel verið ráðist á fréttamenn í beinum útsendingum. Menn hafa gert að því skóna að um hundrað í viðbót hafi fallið en ekki hefur tekist að færa óyggjandi sönnur á það hvernig dauða þeirra bar að.
Eins og hefur verið fjallað um áður er brotalöm hvað varðar fjölmiðlaumhverfi á heimsvísu og. Þeim er dreift um víðan völl og hafa óæskileg áhrif á sjálfsagða lýðræðislega umræðu. Stórfyrirtæki leggja frammámönnum í stjórnmálum til mikla fjármuni sem tryggja þeim svo oft velvild téðra stjórnmálamanna þegar þeir hafa komist til valda. Risa samsteypur eiga fjölmiðlastórveldin sem áður voru nefnd og geta haft óeðlileg áhrif á það sem er fjallað um og hvernig það er framreitt fyrir almenning. Þetta er heimsvandamál en það má ekki gleyma því að ástand fjölmiðlunar er ekki með besta móti hér heima. RÚV sætir oft mikilli gagnríni sem er í flestum tilvikum óvægin. Regluverkið í kringum stofnunina er ekki skýrt og það má segja að það sé orðið löngu tímabært að breyta því og færa í betra horf. Aðalatriðið er ekki hvort RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaði þar sem fyrirtækið keppir við aðra fjölmiðla um auglýsingatekjur heldur þarf að tryggja því rekstrargrundvöll svo að það geti sinnt þeim skyldum sem því ber að sinna. Ef það fjármagn sem þarf til að reka stofnunina væri öruggt og búið þannig um hnútana að stjórnvöld hverju sinni gætu ekki haft áhrif á fréttaflutning eða aðra framleiðslu og að regluverk stofnunarinnar sjálfrar væri þannig úr garði gert að það leiðbeindi um hlutleysi og það hlutverk sem RÚV skuli gegna væri málum betur komið.
Hvert stefnir?
Með tilkomu netsins varð það enn augljósara hvert stefndi. Stærri markaðssvæði og fyrirtæki sem ekki eru endilega bundin því nærumhverfi sem þau starfa í hafa enn meiri áhrif. Miðlar sem eru á netinu vita nú nákvæmlega hversu margir sjá efnið sem var boðið upp á. Hverskonar tæki þeir notuðu og hvenær þeir horfðu.
Enn hafa orðið miklar breytingar hvað varðar það hvernig fólk nálgast það efni sem það vill horfa á. Fyrirtæki eins og Netflix og Amazon bjóða upp á efni sem viðskiptavinurinn getur notið hvenær sem er dags í gegnum streymi á internetinu. Þetta hefur í för með sér að dagskrársett sjónvarp mun hugsanlega heyra sögunni til innan nokkurra ára. Þetta mun ekki eiga við um fréttir, íþróttir og annað efni sem höfðar til áhorfendanna vegna þess að það er í beinni útsendingu. Leikið efni, heimildarmyndir, barnaefni og þessháttar mun færast yfir á streymisveiturnar. Þetta hefur nú þegar átt sér stað hjá BBC og öðrum stöðvum. Það má einnig geta þess að hlaðvörp útvarpsstöðvanna eru hluti af þessari þróun. Þar af leiðandi mun dagskrársett sjónvarp og útvarp að vissu marki eins og við þekkjum það heyra sögunni til innan skamms.
Það sem eftir stendur er að fjölmiðlar eru mikilvægur þáttur í lífi okkar allra bæði hvað varðar skemmtun, fréttir og fræðslu. Þegar streymisveiturnar komu til spáðu margir fjölmiðlarýnar fyrir um dauða heimildarmynda. Það hefur ekki orðið orðið og heimildarmyndir eru í betri markaðsstöðu nú en þær voru. Það má segja það að áhorfandinn hefur meiri stjórn núna en nokkurn tímann áður. Þau fyrirtæki sem framleiða efni og koma því á framfæri við neytendur hafa mun meiri upplýsingar en áður lágu fyrir og enn og aftur kemur það í ljós að almenning þyrstir í efni sem er ekki endilega bara „léttmeti“ heldur vilja áhorfendur efni sem kemur þeim til að hugsa og er ekki endilega það sem þeir búast við hverju sinni. En þess þarf að gæta að það umhverfi sem fjölmiðlar vinna í sé þannig úr garði gert að þegar um fréttir og heimildaefni er að ræða þá geti þeir sem það vinna gert það af heilindum án óæskilegra áhrifa. Almenningur, sem er við öll, hefur rétt á því að þjóðfélagsumræða fram á þann hátt að við getum treyst því að það sem við heyrum, sjáum og lesum séu fréttir og dagskrárefni sem ekki er sett fram í þeim tilgangi að villa okkur sýn.
Höfundur er kennari/kvikmyndagerðarmaður.