Kórónuveiran er ógn við heilsu og lífsgæði. Landsframleiðsla hefur dregist saman, mesti samdráttur sem mælst hefur síðan slíkar mælingar hófust hér á landi. Það er komin enn ein kreppan. En hvað er hægt að gera? Núna er tími til að staldra við og athuga sinn gang, grænar og stafrænar lausnir gætu hjálpað okkur út úr kreppunni, og inn í hringrásarhagkerfið, það sem koma skal.
Mun eitthvað breytast eftir kórónukreppuna?
Á því tæpa ári sem liðið er síðan kórónuveiran fór á stjá er líkt og hamfarir hafi gengið yfir heimsbyggðina: Tæplega milljón manns er látin, fólk er víða enn læst inni hjá sér, vinnustaðir lokaðir, fólk er hætt að ferðast, markaðir hafa hrunið, fólk misst vinnu sína og viðurværi. Það hefur sýnt sig síðustu ár að markaðir og viðskiptakerfi heims eru máttvana þegar kemur að óvæntum og ófyrirsjáanlegum atburðum.
Við höfum þó lært ýmislegt. Fjarvinnu. Þvo okkur um hendurnar. Þau ríki sem bjóða upp á félagslegt jafnrétti og almenna heilbrigðisþjónustu eru betur í stakk búin að takast á við heimsfaraldur en önnur. Mikilvægasti lærdómurinn er samt efalaust þessi: Samvinna. Aukin samvinna, jafnt innan lands sem milli landa, er brýn til þess að takast á við útbreiðslu veirunnar, sem virðir engin landamæri; samvinna almennings, stjórnvalda og atvinnulífs í hverju landi og samvinna vísindamanna, þvert á öll landamæri, er nauðsynlega til þess að rannsaka eiginleika veirunnar og þróa bóluefni.
Breytingar eru orðnar hið venjubundna ástand
COVID 19 hefur afhjúpað hversu varnarlaus við erum á mörgum sviðum. Á þessum stutta tíma höfum við séð hrikalegar afleiðingar: dauðsföll, veikindi, og mestu efnahagslægð og kreppu sem mælst hefur. Vel stæð fyrirtæki voru allt í einu komin í gjörgæslu. Stjórnvöld hafa gripið inn í með fordæmalausum aðgerðum.
Þetta ástand sem nú varir er ákall um endurskoðun á skipan vestræns hagkerfis. Við verðum að byggja upp hagkerfi sem getur betur brugðist við óvæntum aðstæðum. Við þurfum vistvænna og stöðugra kerfi.
Hringrásarhagkerfi er framtíðin
Nýjar grænar leiðir og stafrænar lausnir eru leiðin út úr kórónukreppunni. Við þurfum að innleiða hringrásarhagkerfi sem miðast við að hlífa auðlindunum en hámarka verðmætin, auka endurnotkun og endurvinnslu. Það kallar á ný viðskiptalíkön sem byggja meira á samnýtingu, eða kaupleigu, og að öll vöruhönnun miðist við betri endingu og nýtingu. Stærsti þátturinn í þessu kerfi er svo almenn flokkun á úrgangi og endurvinnsla þar sem reynt er eftir fremsta megni að halda efnislegum vörum og verðmæti þeirra og innihaldi inni í hagkerfishringnum eins lengi og mögulegt er.
Umhverfisvænna, hagkvæmara og stöðugra kerfi. Hringrásarhagkerfi er nú þegar að ryðja sér til rúms víðsvegar um heim og er að skapa ný störf og tækifæri. Við lesum fréttir af breytingum í Svíþjóð, Ástralíu og víðar. Aðstæður í heiminum kalla á breytingar. Það er ekki bara knýjandi þörf, heldur felast í því mikil tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki. Við þurfum að sjá tækifærin, skynja kall tímans, að hafa hugrekki til að breytast. Þau fyrirtæki sem ekki hafa þá þegar innleitt græna stefnu munu deyja út. Þeim fyrirtækjum, sem ekki minnka kolefnissporið, auka endurvinnsluhlutfallið og draga úr umhverfisáhrifum, verður hafnað af neytendum. Skammtímalausnir og allt hálfkák er dæmt til að mistakast.
Kórónukreppan knýr á um að taka upp hringrásarhagkerfið. Kreppan hefur afhjúpað vankanta og getuleysi í núverandi hagkerfi. Víða hefur orðið vart við vöru- og lyfjaskort. Lausnin við því er að keyra í gegn hringrásarlausnir; að hlutir og tæki séu þannig hönnuð að hægt sé að gera við þau, endurnýta og endurvinna. Til að mynda er talið að aukning í endurvinnslu í lyfjaiðnaði eigi eftir að aukast um 10% á næstu fimm árum. Þetta þýðir fjöldamörg ný tækifæri, en á sama tíma mun eflaust draga eitthvað úr frumframleiðslu, sem á eflaust eftir að koma niður á einhverjum framleiðendum. Spítalar hafa reynt að draga úr lyfjakostnaði með því að flokka sérstaklega lyfjaafganga og reyna endurnýta lyf og lyfjaumbúðir.
Endurvinnsla og endurnýting í stað sóunar
Matvæla- og umbúðaframleiðendur hafa verk að vinna. Yfirleitt þegar við förum að versla er meira af umbúðum en mat í innkaupakerrunni. Byrjum á að hanna umhverfisvænni umbúðir sem er hægt að endurnýta og endurvinna. Við kaupum appelsínur frá Ástralíu og ananas frá Hawaii sem er búið að margvefja í plast og flytja þvert yfir hnöttinn með tilheyrandi kolefnisspori. Við ættum að stórauka innlenda framleiðslu á grænmeti og ávöxtum og nota okkar góðu, grænu orku til þess að innleiða íslenska hringrás í matvælaframleiðslu. Með því að kaupa og borða mat úr nærumhverfinu fáum við bæði hollari, umhverfisvænni og með tímanum ódýrari mat. Við þurfum að fara rækta garðinn okkar, eins og gert í Suður-Kóreu, þar sem heimarækt hefur vaxið fiskur um hrygg. Fólk er hvatt dyggilega til þess að rækta grænmeti í görðum og almenningsrýmum.
Það er sorglegt að sjá að víða um Evrópu eru bændur að henda ógrynni af mat vegna þess að ekki fæst fólk í uppskeruvinnu vegna COVID. Það stefnir í matarskort en samt er allt fullt af mat! Góðu fréttirnar af evrópskum landbúnaði eru þær að það dregur úr notkun á skordýraeitri og tilbúnum áburði; samdrátturinn er talinn verða um 50% á næstu 10 árum samkvæmt Ellen MacArthur-vísindastofnuninni. Í stað þess nota bændir lífrænan áburð og moltu. Þetta hefur leitt til 12% sparnaðar og skilar sér síðan í bæði ódýrari og betri vörum, en ekki síst umhverfisvænni landbúnaði. Hringrásarhagkerfi í landbúnaði á heimsvísu myndi minnka losun á CO2 út í andrúmsloftið um 5,6 milljarða tonna. Það sést því glögglega hvað þetta kerfi er bæði mun hagkvæmara og umhverfisvænna.
Það er því ánægjulegt að sjá að í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að flýta orkuskiptum í vegasamgöngum, auka landgræðslu og skógrækt, bæta úrgangsstjórnun og talað er um að hraða innleiðingu hringrásarhagkerfis. Þetta er góð byrjun og nú gildir að fylgja þessum aðgerðum vel eftir á öllum sviðum.
Höfundur er samskiptastjóri Terra.