Þann 4. maí síðastliðinn braut Hæstiréttur Bandaríkjanna blað þegar málflutningur við réttinn var fyrst sendur út í beinni útsendingu á netinu. Til þessa var gripið vegna sóttvarna. Lögmenn fluttu því mál í gegnum fjarfundarbúnað og dómararnir skráðu sig inn að heiman. Dómur í þessu fyrsta rafræna máli var kveðinn upp þann 30. júní 2020. Örlögin hafa hagað því svo að um var að ræða síðasta dóminn þar sem Ruth Bader Ginsburg samdi meirihlutaatkvæði í Hæstarétti Bandaríkjanna.
Málið sem um ræðir verður seint talið til stærstu eða frægustu mála þar sem hún samdi meirihlutaatkvæði á sínum 27 ára ferli sem dómari við réttinn. Það segir hins vegar ýmislegt um áhrif hennar og frægð að Teen Vogue og Cosmopolitan eru meðal þeirra fjölmörgu miðla sem tekið hafa saman lista yfir hennar mikilvægustu dóma á síðustu dögum.
Um afrek Ruth Bader Ginsburg er víða fjallað og óhætt að benda áhugasömum til dæmis á einn af þáttum hlaðvarpsseríunnar More Perfect . Raunar er alveg óhætt að mæla með því hlaðvarpi í heild sinni fyrir þá sem hafa áhuga á Hæstarétti Bandaríkjanna.
Síðasta málið sem Ruth Bader Ginsburg skrifaði meirihlutaatkvæðið í var vörumerkjamál. Deilt var um lagaheimild til skráningar á vörumerkinu BOOKING.COM eða hvort sú afstaða bandarísku hugverkastofunnar (USPTO) að synja því vörumerki skráningar stæðist lög. Synjun skráningarinnar byggði á kröfu vörumerkjalaga um sérkenni. Eitt af skráningarskilyrðum vörumerkja er að vörumerki sé ekki lýsandi fyrir þá vöru eða þjónustu sem því er ætlað að auðkenna. USPTO hélt því fram að BOOKING fyrir bókunarþjónustu væri almennt heiti og það jafnvel þó að „generic“ lén-endingu væri bætt við (.com).
Ruth Bader færði fyrir því rök að ekki væri unnt að marka almenna reglu með þeim hætti sem USPTO óskaði eftir heldur yrði alltaf að meta hvernig neytendur upplifa vörumerkið. Niðurstaða dómsins, meðal annars með vísan til gagna málsins, var sú að neytendur myndu ekki upplifa BOOKING.COM sem almennt heiti heldur sem vörumerki sem bendi á ákveðin viðskiptalegan uppruna. Samandregin niðurstaða dómsins var:
That should resolve this case: Because “Booking.com” is not a generic name to consumers, it is not generic.
Þess má geta að vörumerkið BOOKING.COM er skráð á Íslandi. Merkinu var synjað í upphafi en skráning síðar samþykkt á grundvelli gagna sem staðfestu svonefnt áunnið sérkenni.
Síðasta álit Ruth Bader Ginsburg var nokkuð lýsandi fyrir ævilanga baráttu hennar.
Málið var frekar tæknilega flókið en fjallaði í grunninn um tiltekna undanþágu frá þeim reglugerðum og lögum sem oft eru nefnd einu nafni Obamacare. Þær reglur lögðu m.a. þá skyldu á vinnuveitendur eða tryggingarfélög þeirra að taka þátt í kostnaði starfsmanna sinna við getnaðarvarnir. Undanþágan sem um ræðir var að finna í reglugerð sem sett var eftir að Trump komst til valda og veitti vinnuveitendum heimild til að komast undan þeirri skyldu á grundvelli trúar- og siðferðisskoðana (religous and moral exemptions). Lægri dómstig höfðu þegar hafnað undanþágunni en Hæstiréttur snéri því. Því var Ruth Bader ósammála og taldi að með slíkri niðurstöðu væri verið að veita trúarlegum réttindum of mikið vægi. Hún sagði m.a. í minnihlutaáliti sínu:
In accommodating claims of religious freedom, this Court has taken a balanced approach, one that does not allow the religious beliefs of some to overwhelm the rights and interests of others who do not share those beliefs.
[…]
Today, for the first time, the Court casts totally aside countervailing rights and interests in its zeal to secure religious rights to the nth degree.
Í málflutningi fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna er ekki óalgengt að dómarar við réttinn spyrji spurninga og oft skapast þar nokkur umræða milli dómara og lögmanna. Þær spurningar sem Ruth Bader beindi til lögmanns ríkisins í þessu máli gáfu til kynna afstöðu hennar. Frá sjúkrarúmi sínu í Maryland sagði Ruth Bader við lögmann ríkisins:
You have just tossed entirely to the wind what Congress thought was essential, that is, that women be provided these service -- services, with no hassle, no cost to them. Instead, you are shifting the employer's religious beliefs, the cost of that, on to these employees who do not share those religious beliefs.
Atkvæði í málinu skiptust þannig að Sonya Sotomayor studdi minnihlutaálit Ruth Bader. Hinir dómararnir sjö voru í meirihluta.
Algengt er að atkvæði við réttinn skiptist eftir hugmyndafræðilegum línum milli íhaldssamra og frjálslyndra dómara eins og þau hugtök eru notuð þar í landi. Skiptist þannig eftir sömu línum og repúblikanar vilja dýpka enn frekar með tilnefningu dómara fyrir kosningar í nóvember. Slík tilnefning yrði sú þriðja í valdatíð Trump.
Höfundur er lögmaður sem sérhæfir sig m.a. í hugverkarétti.