Vitræn umræða um efnahagsmál: Átta atriði sem Samtök atvinnulífsins mættu hafa í huga

Drífa Snædal segir Alþýðusambandi Íslands bæði ljúft og skylt að standa að vitrænni umræðu um efnahagsmál. Hún svarar framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem sagði í gær að ASÍ væri á góðri leið með að stimpla sig út úr slíkri umræðu.

Auglýsing

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins steig fram í fréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld og lýsti því yfir að ASÍ væri „á góðri leið með að stimpla sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál”. Sennilega eru þessi ummæli til marks um rökþrot, enda hefur forystu atvinnurekenda ekki tekist að sýna fram á það með raungögnum að ráðlegt sé að slíta kjarasamningum til þess eins að knýja fram launafrystingar þvert á atvinnugreinar. Þar virðast pólitískar kenningar ráða mestu og eru fengnir bæði fyrrverandi og núverandi talsmenn SA til að halda þeim á lofti.  

Okkur í ASÍ er bæði ljúft og skylt að standa að vitrænni umræðu um efnahagsmál og höfum því tekið saman nokkur atriði sem gæti verið gott fyrir forystu Samtaka atvinnulífsins, þá og nú, að kynna sér. 

1. Hagfræði er ekki raunvísindi

Hagfræði telst til félagsvísinda. Hún fjallar um mannlegt samfélag en ekki náttúrulögmál. Þetta á sérstaklega við þegar hagfræðin reynir að spá fyrir um óorðna hluti, enda getur spáin farið að hafa áhrif á framvinduna, ekki síst ef spámennirnir eru í þeirri stöðu að geta haft slík áhrif sjálfir. Að líkja gengis- og verðbólguþróun við þyngdarlögmálið, eins og einn talsmanna sjónarmiða atvinnurekenda hefur gert á opinberum vettvangi, er því fráleitt. Þær breytur sem eru að verki í hagkerfinu verða ekki færðar undir grunnhugtök eðlisfræðinnar. 

Auglýsing

2. Verðbólga er margþætt fyrirbæri 

Verðbólga telst heldur ekki til náttúrulögmála. Helstu áhrifavaldar á verðbólgu eru nú einmitt mannfólkið og það væri hægt að lista margar óðaverðbólguspár sem ekki hafa gengið eftir. Seðlabankar og ákvarðanir um ríkisfjármál hafa áhrif á verðbólgu, líkt og á gengismál, en þar geta fjársterkir aðilar líka haft áhrif. Á alþjóðavettvangi er sífellt verið að þróa áfram kenningarramma um verðbólgu en af hálfu SA er alltaf spiluð sama gamla platan þar sem verðbólguógninni er beitt sem refsivendi gagnvart almenningi og þá sérstaklega láglaunafólki. Hér má til dæmis vitna í nýlega grein í breska tímaritinu the Economist þar sem bent er á að sambandið milli verðbólgu og atvinnuleysis hafi breyst. 

3. Kjaraskerðingar munu dýpka kreppuna

Forystumenn SA telja það úrræði henta best á þessum erfiðu tímum að falla frá umsömdum launahækkunum með tilheyrandi hótunum um atvinnuleysi og óðaverðbólgu. Hið rétta er að verði ekki staðið við gerða samninga munu umsvif dragast saman í hagkerfinu og þannig lengja og dýpka kreppuna. Við blasir að samdráttur í útgjöldum almennings mun einnig verða til þess að auka atvinnuleysi og þannig gera kreppuna enn erfiðari en ella. Lækkun launakostnaðar stuðlar ekki sjálfkrafa að framleiðniaukningu, en það er framleiðniaukningin sem ætti að einblína á. Enn fremur verður fyrirtækjum ekki bjargað frá gjaldþroti með því að lækka launakostnað, vandinn til frambúðar er stærri en svo. 

4. Hækkun lægstu launa er góð fyrir samfélagið

Hækkun lægstu launa er góð fyrir samfélagið og sérstaklega góð fyrir hagkerfið á erfiðleikatímum. Launahækkanir þeirra sem minnst bera úr býtum renna beint út í hagkerfið og skila sér m.a. í formi meiri umsvifa í verslun og þjónustu og virðisauka til ríkisins. Það er líka réttlætismál að vinnandi fólk fái sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu sína. Ef menn vilja lækka laun er nærtækast að byrja á þeim sem mestar áhyggjur af hafa launahækkunum almenns launafólks. Þeir telja laun sín í milljónum og eiga aldrei erfitt með að hækka þau um nokkra hundrað þúsund kalla ef á reynir. Almennt launafólk þarf hins vegar á þúsund köllum að halda til að geta haft efni á sömu matarkörfu áfram. 

5. Niðurskurður og samdráttur virkar ekki á krepputímum 

Fjölmörg ríki fóru þá leið í kjölfar fjármálahrunsins 2008 að draga saman seglin. Þar réði ekki síst pólitík þeirra sem vildu nýta tækifærið til að minnka hið opinbera og draga úr afkomuöryggi láglaunafólks til að geta náð í ódýrt vinnuafl hvar og hvenær sem er. Afleiðingarnar hafa verið skelfilegar og ríkin sem fetuðu þessa braut hafa orðið verst úti í heimsfaraldrinum, bæði efnahagslega og heilsufarslega. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar nú við því að nota kreppuna til að saxa niður og hvetur öðru fremur til að tryggja afkomuöryggi fólks. Niðurskurður og samdráttur er ótækur með öllu á krepputímum. Um þetta hefur myndast samstaða víðast hvar á Vesturlöndum. 

6. Það er ekki allt á vonarvöl

Kreppan vegna heimsfaraldursins hefur sannarlega komið illa við ákveðnar atvinnugreinar og landshluta. Launafólk hefur tekið mikinn skell í gegnum atvinnuleysi, hlutabætur, skert starfshlutfall og minnkaða yfirvinnu. Sum fyrirtæki standa einstaklega illa. En efnahagsþróun hefur engu að síður, enn sem komið er, verið hagfelldari en óttast var í fyrstu, ekki síst þar sem atvinnulífið hefur notið góðs af sterkri fjárhagsstöðu heimila og af sértækum úrræðum stjórnvalda. Góð eiginfjárstaða, vaxtalækkanir og úrræði stjórnvalda hafa gert heimilum kleift að halda lífi í hagkerfinu þrátt fyrir efnahagsáfallið. Með því að beita sértækum aðgerðum til að mæta þeim sértæka vanda sem nú er uppi er hægt að milda áhrifin af kreppunni og tryggja að við komumst í gegnum hana með sem minnstum skaða. 

7. Ójöfnuður er vondur fyrir hagkerfið og samfélagið 

Sífellt berast upplýsingar um vaxandi ójöfnuð á Íslandi. Nú síðast skýrði Hagstofan frá því að eignir 10% ríkustu Íslendinganna hefðu aukist um 40% á fjórum árum. Á sama tíma berast fréttir af því að 200 fjölskyldur á Suðurnesjum hafi þurft mataraðstoð fyrir helgi. Við þessar aðstæður býður forysta SA fólkinu í landinu upp á þann málflutning að standi samningar um hækkun launa þeirra sem minnst bera úr býtum verði efnahagslífi þjóðarinnar stefnt í áður óþekktan voða. Slíkar staðhæfingar minna einna mest á málflutning eftir hrun fjármálakerfisins 2008 þegar látið var að því liggja að almenningur bæri þar mesta sök vegna kaupa á flatskjám. Sú stofnanavædda brjálsemi sem leiddi til Hrunsins byggðist á hugmyndafræði, sérhagsmunum og siðleysi. Kreppur leiða oft til vaxandi ójöfnuðar og það er hlutverk okkar allra að tryggja að svo fari ekki núna. Þar stendur verkalýðshreyfingin sameinuð gegn sérhagsmunaöflunum. 

8. Nýfrjálshyggjan er dauð

Viðbrögð ríkisstjórna á Vesturlöndum við efnahagskreppunni eru öll á þann veg að beita stýritækjum ríkisins af fullum þunga til að lina hamfarirnar sem COVID-faraldurinn veldur. Nýfrjálshyggjan veitir ekki þau svör sem þarf til að mæta vandanum. Stjórnmálamenn sem áður reiddu sig á hana hika nú ekki við að beita inngripum og styrk ríkisins með tilheyrandi fjárútlátum. Þeir sem halda að markaðslausnir nýfrjálshyggjunnar komi nú til bjargar eru í undarlegu sambandsleysi við umheiminn.  

Að lokum má taka fram að óttist forysta SA að ASÍ hafi ætlað að láta þeim einum eftir sviðið í umræðum um efnahagsmál þá er það ekki rétt. ASÍ setur almannahag ofar sérhagsmunum í stefnumótun sinni og hlustar á þá hagspekinga sem hafa uppfært þekkingu sína síðustu ár. Kreddur og hugmyndafræði misskiptingar verða aldrei heppilegur grundvöllur fyrir „vitræna umræðu um efnahagsmál“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu
Sjálfbær þróun og umhverfismál eru grundvallarstef norðurslóðasamvinnu en mega þessi mjúku mál sín einhvers þegar Rússar eru að efla hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkjamenn bregðast við með aukinni viðveru, m.a. á Íslandi?
Kjarninn 16. maí 2021
Um það bil helmingur Dana afþakkar fjölpóst.
100 þúsund tonn af auglýsingapésum
Mánaðarlega fá Danir samtals átta til níu þúsund tonn af auglýsingapésum inn um bréfalúguna. Stór hluti pésanna fer ólesinn í ruslið. Nú ræðir danska þingið breytingar á reglum þannig að borgararnir þurfi að biðja um að fá pésana.
Kjarninn 16. maí 2021
Tony Blair segist vera með lausnir á vanda Verkamannaflokksins og raunar annarra stjórnmálaafla frá miðjunni og til vinstri.
Tony Blair segir að Verkamannaflokkurinn þurfi að fara alveg á byrjunarreit
Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands segir að sinn gamli flokkur eigi sér ekki viðreisnar von ef hann haldi áfram á sömu braut. Algjörrar endurræsingar sé þörf, bæði í efnahagsmálum og umræðum um samfélagsmál, þar sem þeir róttækustu vaði uppi.
Kjarninn 15. maí 2021
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
„Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað – frá Búrgundí í Bústaðahverfið“
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr hvers vegna íslensk stjórnvöld viðhaldi einokunartilburðum varðandi áfengissölu.
Kjarninn 15. maí 2021
Davíð Helgason, stofnandi og fyrrum forstjóri Unity.
Vorblað Vísbendingar er komið út
Vísbending hefur gefið út sérstakt vorblað þar sem nýsköpun er í brennidepli. Blaðið er opið öllum, en í því má meðal annars finna viðtal við Davíð Helgason, stofnanda Unity.
Kjarninn 15. maí 2021
Þótt almennt atvinnuleysi hafi dregist saman fjölgar í hópi langtímaatvinnulausra
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en tólf mánuði fjölgaði um 288 í síðasta mánuði þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ráðist í átak til að draga úr atvinnuleysi hópsins. Atvinnuleysi hjá þeim sem hafa verið án vinnu skemur en sex mánuði dregst saman.
Kjarninn 15. maí 2021
Jarðfræði á mannamáli
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá sjötti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 15. maí 2021
Hjarðónæmi sífellt fjarlægari draumur
Fjölmargar hindranir þyrfti að yfirstíga svo hjarðónæmi gegn COVID-19 verði að veruleika. Nýju og meira smitandi afbrigðin breyta jöfnunni og hækka nauðsynlegt hlutfall bólusettra til að ónæmi samfélags náist.
Kjarninn 15. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar