Árið 1886 skrifaði Páll Briem, þá nýútskrifaður lögfræðingur og fræðimaður í Kaupmannahöfn, grein í Þjóðólf sem bar yfirskriftina „Um lagaþekking og laganám“. Í greininni færir Páll sannfærandi rök fyrir því að á Íslandi ætti að vera starfrækt lagadeild á háskólastigi, en á þessum tíma þurftu Íslendingar sem hugðust leggja stund á laganám að fara utan. Páll kemur einnig inn á almenna lagaþekkingu í grein sinni, sem hann telur að verði sífellt mikilvægari samhliða auknum tæknibreytingum og flóknari samfélagsgerð.
Páli varð að hluta til að ósk sinni því lagadeild var komið á fót við stofnun Háskóla Íslands árið 1911. Hvað almenna lagaþekkingu varðar, þá er erfitt að fullyrða hvort henni hafi fleytt fram, nú rúmlega 130 árum síðar. Það er í hverju falli ljóst að umræða um málefnið hefur ekki verið fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi frá því að Páll vakti athygli á því.
Hugtökin lagalæsi og lögfærni lýsa þekkingu og skilningi almennra borgara á lögum og rétti. Í stuttu máli sagt þekkir lagalæs einstaklingur rétt sinn og lagalegar skyldur, kemur auga á lagalegan ágreining og getur fundið leiðir til þess að forðast hann, veit hvar er hægt að nálgast upplýsingar um lög og rétt og áttar sig á hvenær og hvort þörf sé á að sækjast eftir lögfræðiráðgjöf. Lagalæs einstaklingur þarf alls ekki að búa yfir yfirgripsmikilli og nákvæmri lögfræðiþekkingu. Honum nægir ákveðin lágmarksþekking sem gerir honum kleift að taka virkan þátt í samfélagi sem er gegnsýrt af lögum og reglum.
Mikilvægt að þekkja eigin réttindi
Rökin fyrir lagalæsi eru margþætt. Til dæmis má nefna að í íslensku réttarkerfi, líkt og reyndar víðast hvar, getur einstaklingur sem hefur verið ákærður eða stefnt ekki beitt þeirri málsvörn að honum hafi ekki verið kunnugt um lögin sem hann er sakaður um að hafa brotið. Í þessari reglu, að vanþekking á lögunum leysi ekki undan ábyrgð, er í rauninni fólgin krafa um ákveðna lágmarksþekkingu á löggjöfinni.
Sömuleiðis hefur verið bent á að lagalæsi geti stuðlað að heilbrigðara lýðræði, enda auðveldara fyrir lagalæsa kjósendur að átta sig á störfum löggjafans og taka þátt í málefnalegri stjórnmálaumræðu.
Jaðarsettir hópar, lagalæsi og aðgangur að réttarkerfinu
Rannsóknir sýna að jaðarsettir hópar standa gjarnan höllum fæti þegar kemur að lagalæsi. Hér á landi er ýmislegt sem bendir til þess að fólk sem talar ekki íslensku geti raunar ekki með góðu móti aflað sér upplýsinga um lög og rétt. Nærtækt dæmi er nýleg samantekt sem gerð var á vegum Samtaka um kvennaathvarf en samkvæmt henni skortir konur af erlendum uppruna sem búsettar eru hér á landi upplýsingar um réttindi sín. Í samantektinni kemur sömuleiðis fram að gerendur í ofbeldi gegn konunum nýttu sér þekkingarskort þeirra, til dæmis með hótunum um að börn yrðu tekin af þeim eða þær sendar úr landi ef þær lytu ekki vilja þeirra. Einnig má nefna álit umboðsmanns Alþingis frá því í sumar, en samkvæmt því er ekki kveðið nógu skýrt á um í lögum hvaða skyldum stjórnvöld gegna í samskiptum við fólk sem skilur ekki íslensku, til dæmis hvort það eigi rétt á túlkaþjónustu eða leiðbeiningum á tungumáli sem það skilur.
Þýðing laga hefur heldur ekki verið forgangsmál hjá stjórnvöldum en sem dæmi má nefna að útlendingalögin voru ekki þýdd á ensku fyrr en síðla árs 2018, eða tæpum tveimur árum eftir að þau tóku gildi. Þeir einstaklingar sem lögin áttu helst erindi við gátu því fæstir kynnt sér lögin á tungumáli sem þeir skildu um margra mánaða skeið.
Vanræksla stjórnvalda á að hlúa að íbúum hér á landi sem tala ekki íslensku skerðir möguleika þeirra á að verða læs á íslensk lög og hindrar jafnframt aðgang þeirra að réttarkerfinu (e. access to justice).
Hvað er til ráða?
Árið 2009 var gerð skýrsla um fjármálalæsi á vegum nefndar sem skipuð var af viðskiptaráðherra. Niðurstöður hennar voru meðal annars að fjármálalæsi Íslendinga væri ábótavant og að börn og unglingar fengju ekki fullnægjandi kennslu um fjármál. Full ástæða er að skoða stöðu lagalæsis á svipaðan máta, en hér á landi hefur staða lagalæsis og lögfærni meðal almennings ekki verið könnuð með markvissum hætti líkt og gert hefur verið víða annars staðar.
Í Bretlandi voru til að mynda gerðar ítarlegar kannanir á árunum 2010 og 2012 á almennri lagaþekkingu og reynslu almennings af réttarkerfinu. Kannanirnar sýndu ekki aðeins fram á almennt laka lagaþekkingu, heldur gáfu niðurstöður þeirra einnig vísbendingu um hvaða hópar stóðu höllum fæti og á hvaða réttarsviðum þekkingunni var ábótavant. Í kjölfarið gátu stjórnvöld og félagasamtök mótað stefnu sína í fræðslu um lögfræði fyrir almenning. Fræðsla af þessu tagi hefur sótt í sig veðrið í Bretlandi og fer fram með ýmsu móti, meðal annars í gegnum netið, með ókeypis fyrirlestrum, fræðslumyndböndum og bæklingum.
Hægt er að ímynda sér ýmsar fleiri leiðir til þess að efla lagalæsi, til dæmis með því að finna lögfræði farveg í menntakerfinu en hún er hvorki skyldufag í grunnskólum né framhaldsskólum hér á landi. Með því móti væri hægt að efla grunnskilning á lögum og stuðla að því að ungt fólk verði óhræddara við að afla sér þekkingar þegar á reynir.
Erfitt er þó að gera markvissar úrbætur á meðan lítið er vitað um stöðu lagalæsis hér á landi. Það væri því kjörið fyrsta skref að kanna lagalæsi meðal almennings og leita svo skynsamlegra leiða til þess að efla það ef þörf krefur, til dæmis með úrbótum á menntakerfinu, fullorðinsfræðslu og stuðningi við viðkvæma hópa. Bætt lagalæsi stuðlar að upplýstara samfélagi, virkari réttindum, valdeflingu almennings og heilbrigðara lýðræði. Eftir hverju erum við að bíða?
Höfundur er nemi við Oxford-háskóla og einn stofnmeðlima Réttvísrar. Réttvís er félagsskapur laganema og nýútskrifaðra lögfræðinga með þann tilgang að miðla þekkingu um lögfræðileg álitaefni á mannamáli.