Okkur er tamt að hugsa um Ísland sem friðsælt land og samfélag laust við átök á borð við þau sem fylla fréttatíma og dagblöð. Og vissulega er Ísland laust við hernaðarátök og börn alast ekki upp við þá hugmynd að þau þurfi að vera tilbúin til að fórna sér í hernaðarátökum, eins og börn sums staðar í heiminum gera.
Við lærum þannig vissa tvíhyggju um frið, að hann sé hér heima en ekki jafn mikill úti í löndum. Í COVID höfum við þó heyrt og lesið fréttir um það hvernig fjarar undan friði hjá mörgum hér heima – tilkynningum um ofbeldi gagnvart börnum og heimilisofbeldi hefur fjölgað og við vitum að ekki hafa öll sömu tækifæri til að dafna í þessum nýju aðstæðum. Þetta kallar á það að hugsa um frið á annan máta en eingöngu sem andstæðu við stríð.
Í friðarfræðum, sem eru ein grein alþjóðasamskipta, er meðal annars fjallað um jákvæðan og neikvæðan frið. Neikvæður friður felst í því að ríki séu ekki í stríði sín á milli. Þau kunna að verja drjúgum hluta þjóðarframleiðslu sinnar í hergögn, vígbúast og reyna að efla varnir sínar í því ástandi. Jákvæður friður er hins vegar það ástand sem skapast þegar traust ríkir á milli aðila, þegar félagsleg kerfi þjóna þörfum allra íbúa og átökum er lokið á uppbyggilegan hátt. Þessi nálgun á frið gefur aðra sýn og tækifæri til að auka skilning okkar á þessu fyrirbæri, sem er svo oft sett fram sem óraunhæf draumsýn.
Höfundur er prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Greinin er birt í tengslum við friðardaga í Reykjavík. Umræðan í ár fer alfarið fram á netinu, með hlaðvarpsþáttaröð og völdum greinum sem birtar verða dagana 12. - 16. október á www.fridarsetur.is