Þessi veira er búin að hafa áhrif á líf mitt á svo marga ólíka vegu. Sumar breytingarnar voru fyrirsjáanlegar; ég ferðast minna, djamma minna, þvæ mér meira um hendurnar. Aðrar breytingar komu á óvart. Til að mynda hef ég aldrei verið duglegri við að þvo þvott, en það er óvænt afleiðing þess að þurfa reglulega að þvo fjölnota grímur. Nýjasta óvænta breytingin er að veiran hefur haft áhrif á stjórnmálaskoðanir mínar og breyta mér í miðjumann. Ekki misskilja mig, ég er alveg jafn mikill kommi og öfgafemínisti og ég var fyrir ári síðan, en hvað sóttvarnir varða er ég í miðjunni.
Nýlega birtust tvær greinar í Morgunblaðinu, en höfundar þeirra eru á öndverðum meiði hvað sóttvarnir varðar. Sú fyrri er eftir Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing, en í henni gagnrýnir hann sóttvarnaraðgerðir íslenskra stjórnvalda og kallar eftir því að snúið verði til hinnar svokölluðu „sænsku leiðar“, þ.e.a.s. að veirunni verði leyft að geisa um landið til þess að byggja upp hjarðónæmi og að efnahagslífið komist aftur af stað. Þá lýsir Haukur einnig áhyggjum af því að gengið sé á mannréttindi og frelsi og að hér sé búið að setja á laggirnar „lögreglu- og eftirlitsríki“.
Seinni greinin er eftir Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund. Þar ræðir hann hve varhugavert það sé að Íslendingar séu ekki eins duglegir að hlýða þríeykinu og þeir voru í apríl. Hann varar við hættunni sem fylgir því að fara nú að ræða hugmyndir um frelsi einstaklingsins áður en plágan er gengin yfir.
Ég held að báðir þessir menn hafi sitthvað til sín máls, en taki hugmyndir sínar allt of langt. Ég held að það sé rétt hjá Ólafi að það sé mikilvægt að fara eftir sóttvarnarreglum og ég held að það sé rétt hjá Hauki að við megum ekki gefa frelsi og mannréttindi upp á bátinn í baráttunni við veiruna. Mistök þeirra beggja eru hins vegar að láta eins og þetta séu ósamrýmanleg markmið. Þau eru það alls ekki.
Í heimspeki er stundum talað um neikvætt og jákvætt frelsi. Neikvætt frelsi er frelsi í þeim skilningi að maður sé látinn í friði, að manni sé hvorki bannað né til neiddur til þess að gera eitthvað. Jákvætt frelsi er frelsi í þeim skilningi að maður sé sinn eiginn herra; að maður hafi stjórn á sínu eigin lífi og geti hagað því eins og maður vill. Það er vert að taka fram að þó að notast sé við orðin jákvætt og neikvætt, þá er ekki átt við að annað sé gott og hitt sé slæmt. Þessi aðgreining getur verið mjög mikilvæg þegar við ræðum hvað það felur í sér að vera frjáls. Einstaklingur getur verið fullkomlega frjáls í neikvæða skilningi orðsins ef engin afskipti eru höfð af honum, en á sama tíma verið ófrjáls í jákvæða skilningi orðsins. Jákvætt frelsi gerir grein fyrir því að þó að hömlur ríkisins séu fjarlægðar, þá getur ýmislegt annað, svo sem fátækt, fötlun, fordómar og svo framvegis, verið frelsisskerðandi.
Til þess að við getum talist frjáls frá veirunni er sænska leiðin ekki nóg. Það sem Haukur gleymir að minnast á er að sænsku leiðinni fylgja 5.800 látnir Svíar. Miðað við höfðatölu er það á við að 200 Íslendingar hefðu orðið veirunni að bráð, tuttugu sinnum fleiri heldur en við höfum í raun misst. Þessir 5.800 látnu Svíar eru ekki frjálsir. Þeirra mannréttindi, réttur þeirra til lífs, til öryggis, til að njóta heilsu að hæsta marki sem unnt er, til mannlegrar reisnar, var ekki virtur. Frelsi eins á aldrei að vera á kostnað frelsis annars, og frelsi og efnahagslegur ávinningur sem kosta 5.800 mannslíf er einskins virði.
Nú kunna talsmenn sænsku leiðarinnar að segja að hér sé ég ekki að tala fyrir frelsi, heldur að afbyggja það. Að með því að tala um að sóttvarnir stuðli að jákvæðu frelsi sé ég að réttlæta takmörkun neikvæðs frelsis. Isaiah Berlin, heimspekingurinn sem setti fyrst fram hugtökin neikvætt og jákvætt frelsi, benti líka á þetta vandamál. Með því að tala eingöngu um jákvætt frelsi og ekkert um neikvætt er hægt að verja alls kyns forræðishyggju og harðstjórn.
Eitt dæmi um þessa hættu er í Frakklandi, en þar eru lög gegn fatnaði sem hylur andlit á almannafæri. Þessi lög eru sett fyrst og fremst til þess að banna andlitsslæður sem sumar múslima konur klæðast. Rökin fyrir þessum lögum eru meðal annars að konur klæðist andlitsslæðum sjaldnast af fúsum og frjálsum vilja og jafnvel að þær sem segjast gera það af eigin vilja séu í raun heilaþvegnar af feðraveldishugmyndum trúarinnar. Ætlunin er sem sagt að veita þessum konum jákvætt frelsi frá fjötrum trúarinnar. Nú ætla ég ekki að greina sannleiksgildi þessara röksemda, en jafnvel ef við föllumst á að þær gangi upp þá getum við ekki sagt að þessi lög séu í raun að frelsa umræddar konur. Lögin ganga á trúfrelsi, tjáningafrelsi og persónulegt frelsi manneskjunnar til að klæðast eins og hún sjálf kýs. Neikvætt frelsi er fótum troðið fyrir meint jákvætt frelsi. Til að bæta gráu ofan á svart er nú grímuskilda á mörgum svæðum í Frakklandi af sóttvarnarástæðum á meðan andlitsslæður eru ennþá bannaðar.
Sóttvarnir eru alls ekki lausar við þessa hættu. Í Evrópusambandsríkinu Ungverjalandi hefur lýðræðið verið lagt til hliðar og forsætisráðherranum Viktor Orbán gefið nær ótakmarkað vald til þess að takast á við veiruna. Í skjóli þessa nýfundna valds hefur Orbán nýtt tækifærið til að grafa undan réttindum trans fólks. Sama hvað Ólafi Jóhanni Ólafssyni og öðrum talsmönnum hlýðni finnst, þá er Ísland ekki ónæmt fyrir sambærilegri lýðræðishnignun í krafti sóttvarna.
Þannig að sóttvarnir eru nauðsynlegar til þess að tryggja jákvætt frelsi en við verðum að hafa varan á svo að við fórnum ekki svo miklu neikvæðu frelsi að frelsandi máttur sóttvarna verði einskis virði. Þá er rétt að spyrja, höfum við fórnað grundvallar frelsi okkar í nafni sóttvarna? Hafa kosningar verið lagðar niður? Hafa fjölmiðlar verið ritskoðaðir? Hefur ríkið komið í veg fyrir frjálsa umræðu um sóttvarnir? Hefur ástandið verið notað til þess að grafa undan réttindum minnihlutahópa? Svarið er blessunarlega nei, allavega ekki ennþá. Það er ekki þar með sagt að svarið muni ekki breytast. Það er full ástæða til þess að hafa varann á. Haukur minnist sérstaklega á að samkomufrelsi hafi verið skert. Það er vissulega rétt að það eru fjöldatakmarkanir, en ég vil vekja athygli á því að í þau skipti sem blásið hefur verið til mótmæla síðan að faraldurinn skall á, til að mynda mótmælin gegn brottvísun Khedr fjölskyldunnar og samstöðufundurinn með Black Lives Matter mótmælunum í Bandaríkjunum, hafa yfirvöld ekki reynt að koma í veg fyrir mótmælin á grundvelli sóttvarna. Hann minnist reyndar líka á að tjáningarfrelsi hafi verið skert og gagnrýnisraddir þaggaðar, en að því sem ég fæ best skilið byggist það á misskilningi hans að það sé þöggun og brot á tjáningarfrelsi að fólk á Internetinu segi honum að hætta þessari þvælu.
Hins vegar eru hlutir sem mættu betur fara. Í ágúst fékk lögreglan síðan heimild til að sekta þau sem gerast uppvís að brotum á sóttvarnarreglum háum fjárhæðum, en þar getur sekt einstaklings sem notar ekki andlitsgrímu verið að hámarki 100.000 kr. Þetta eru töluverðar refsiheimildir sem yfirvöldum eru gefnar í þessum efnum og við ættum að setja spurningarmerki við hvort þær eigi rétt á sér. Þá eru dæmi um að útlendingum hafi verið vísað úr landi vegna brota á sóttvarnarlögum, en ég veit ekki til þess að svo hörðum viðurlögum hafi verið beitt gagnvart íslenskum ríkisborgurum. Hér er um að ræða fólk sem er tiltölulega nýkomið til landsins en það er ekki óhugsandi að hin brottvísanaglaða Útlendingastofnun muni nýta þetta sem fordæmi þegar hún reynir að vísa fólki sem hefur verið hér lengur úr landi á grundvelli sóttvarnarlaga. Og þó að reglur um fjöldatakmarkanir hafi enn ekki verið misnotaðar, þá er ekki þar með sagt að þær verði það ekki í framtíðinni eða það sé ekki hægt. Þá hafa vissulega verið gerðar tilraunir til þess að afbyggja lýðræðið í nafni almannavarna. Í apríl reyndi forseti Alþingis Steingrímur J. Sigfússon að nota almannavarnir og sína eigin tregðu við að sína liðleika í skipulagi þingsins sem afsökun fyrir því að koma í veg fyrir umræðu um umdeilt mál á þingi. Í forsetakosningunum í sumar stóð upprunalega til að fólk í sóttkví fengi ekki að nýta atkvæðisrétt sinn. Okkur ber vissulega að hafa varann á, bæði gagnvart veirunni og gagnvart sóttvarnaryfirvöldum.
Tíminn til að ræða frelsi einstaklingsins er ekki, eins og Ólafur segir, þegar plágan er yfirstaðin. Tíminn til að ræða frelsi einstaklingsins, mannréttindi og lýðræði er hér og nú. Raunar hefur þörfin á þeirri umræðu aldrei verið meiri. Við þurfum að ræða hversu langt má ganga, hvað sé boðlegt og hvað ekki. Við þurfum að vera tilbúin að stíga á bremsuna þegar yfirvöld fara yfir línuna og til þess að geta gert það þurfum við ræða fyrirfram nákvæmlega hvar línan er.
Höfundur er heimspekingur.