Frelsi, harðstjórn og 5.800 látnir Svíar

Hans Alexander Margrétarson Hansen segir að kórónuveiran hafi haft áhrif á stjórnmálaskoðanir sínar og breytt honum í miðjumann.

Auglýsing

Þessi veira er búin að hafa áhrif á líf mitt á svo marga ólíka vegu. Sumar breyt­ing­arnar voru fyr­ir­sjá­an­leg­ar; ég ferð­ast minna, djamma minna, þvæ mér meira um hend­urn­ar. Aðrar breyt­ingar komu á óvart. Til að mynda hef ég aldrei verið dug­legri við að þvo þvott, en það er óvænt afleið­ing þess að þurfa reglu­lega að þvo fjöl­nota grím­ur. Nýjasta óvænta breyt­ingin er að veiran hefur haft áhrif á stjórn­mála­skoð­anir mínar og breyta mér í miðju­mann. Ekki mis­skilja mig, ég er alveg jafn mik­ill kommi og öfga­femínisti og ég var fyrir ári síð­an, en hvað sótt­varnir varða er ég í miðj­unni.

Nýlega birt­ust tvær greinar í Morg­un­blað­inu, en höf­undar þeirra eru á önd­verðum meiði hvað sótt­varnir varð­ar. Sú fyrri er eftir Hauk Arn­þórs­son stjórn­sýslu­fræð­ing, en í henni gagn­rýnir hann sótt­varn­ar­að­gerðir íslenskra stjórn­valda og kallar eftir því að snúið verði til hinnar svoköll­uðu „sænsku leið­ar“, þ.e.a.s. að veirunni verði leyft að geisa um landið til þess að byggja upp hjarð­ó­næmi og að efna­hags­lífið kom­ist aftur af stað. Þá lýsir Haukur einnig áhyggjum af því að gengið sé á mann­rétt­indi og frelsi og að hér sé búið að setja á lagg­irnar „lög­reglu- og eft­ir­lits­rík­i“. 

Seinni greinin er eftir Ólaf Jóhann Ólafs­son rit­höf­und. Þar ræðir hann hve var­huga­vert það sé að Íslend­ingar séu ekki eins dug­legir að hlýða þrí­eyk­inu og þeir voru í apr­íl. Hann varar við hætt­unni sem fylgir því að fara nú að ræða hug­myndir um frelsi ein­stak­lings­ins áður en plágan er gengin yfir.

Ég held að báðir þessir menn hafi sitt­hvað til sín máls, en taki hug­myndir sínar allt of langt. Ég held að það sé rétt hjá Ólafi að það sé mik­il­vægt að fara eftir sótt­varn­ar­reglum og ég held að það sé rétt hjá Hauki að við megum ekki gefa frelsi og mann­rétt­indi upp á bát­inn í bar­átt­unni við veiruna. Mis­tök þeirra beggja eru hins vegar að láta eins og þetta séu ósam­rým­an­leg mark­mið. Þau eru það alls ekki.

Í heim­speki er stundum talað um nei­kvætt og jákvætt frelsi. Nei­kvætt frelsi er frelsi í þeim skiln­ingi að maður sé lát­inn í friði, að manni sé hvorki bannað né til neiddur til þess að gera eitt­hvað. Jákvætt frelsi er frelsi í þeim skiln­ingi að maður sé sinn eig­inn herra; að maður hafi stjórn á sínu eigin lífi og geti hagað því eins og maður vill. Það er vert að taka fram að þó að not­ast sé við orðin jákvætt og nei­kvætt, þá er ekki átt við að annað sé gott og hitt sé slæmt. Þessi aðgrein­ing getur verið mjög mik­il­væg þegar við ræðum hvað það felur í sér að vera frjáls. Ein­stak­lingur getur verið full­kom­lega frjáls í nei­kvæða skiln­ingi orðs­ins ef engin afskipti eru höfð af hon­um, en á sama tíma verið ófrjáls í jákvæða skiln­ingi orðs­ins. Jákvætt frelsi gerir grein fyrir því að þó að hömlur rík­is­ins séu fjar­lægð­ar, þá getur ýmis­legt ann­að, svo sem fátækt, fötl­un, for­dómar og svo fram­veg­is, verið frels­is­skerð­andi.

Auglýsing
Jákvæða frelsið er lyk­il­at­riði þegar við ræðum frelsi á tímum heims­far­ald­urs­ins. Þegar við tölum um jákvætt frelsi er það ekki bara ríkið sem er ógn við frelsið, heldur veiran líka. Ég er ekki frjáls ef ég er far­lama af veik­ind­um. Ég er ekki frjáls á meðan ég er í önd­un­ar­vél. Ég er alls ekki frjáls ef ég dey. Ef ég fæ veiruna en veik­ist ekki alvar­lega, gæti ég samt smitað aðra og þar með gengið á frelsi þeirra. Til þess að við getum verið raun­veru­lega frjáls þurfum við að verj­ast veirunni.

Til þess að við getum talist frjáls frá veirunni er sænska leiðin ekki nóg. Það sem Haukur gleymir að minn­ast á er að sænsku leið­inni fylgja 5.800 látnir Sví­ar. Miðað við höfða­tölu er það á við að 200 Íslend­ingar hefðu orðið veirunni að bráð, tutt­ugu sinnum fleiri heldur en við höfum í raun misst. Þessir 5.800 látnu Svíar eru ekki frjáls­ir. Þeirra mann­rétt­indi, réttur þeirra til lífs, til örygg­is, til að njóta heilsu að hæsta marki sem unnt er, til mann­legrar reisn­ar, var ekki virt­ur. Frelsi eins á aldrei að vera á kostnað frelsis ann­ars, og frelsi og efna­hags­legur ávinn­ingur sem kosta 5.800 manns­líf er ein­skins virði.

Nú kunna tals­menn sænsku leið­ar­innar að segja að hér sé ég ekki að tala fyrir frelsi, heldur að afbyggja það. Að með því að tala um að sótt­varnir stuðli að jákvæðu frelsi sé ég að rétt­læta tak­mörkun nei­kvæðs frels­is. Isaiah Berl­in, heim­spek­ing­ur­inn sem setti fyrst fram hug­tökin nei­kvætt og jákvætt frelsi, benti líka á þetta vanda­mál. Með því að tala ein­göngu um jákvætt frelsi og ekk­ert um nei­kvætt er hægt að verja alls kyns for­ræð­is­hyggju og harð­stjórn. 

Eitt dæmi um þessa hættu er í Frakk­landi, en þar eru lög gegn fatn­aði sem hylur and­lit á almanna­færi. Þessi lög eru sett fyrst og fremst til þess að banna and­lits­slæður sem sumar múslima konur klæð­ast. Rökin fyrir þessum lögum eru meðal ann­ars að konur klæð­ist and­lits­slæðum sjaldn­ast af fúsum og frjálsum vilja og jafn­vel að þær sem segj­ast gera það af eigin vilja séu í raun heila­þvegnar af feðra­veld­is­hug­myndum trú­ar­inn­ar. Ætl­unin er sem sagt að veita þessum konum jákvætt frelsi frá fjötrum trú­ar­inn­ar. Nú ætla ég ekki að greina sann­leiks­gildi þess­ara rök­semda, en jafn­vel ef við föll­umst á að þær gangi upp þá getum við ekki sagt að þessi lög séu í raun að frelsa umræddar kon­ur. Lögin ganga á trú­frelsi, tján­inga­frelsi og per­sónu­legt frelsi mann­eskj­unnar til að klæð­ast eins og hún sjálf kýs. Nei­kvætt frelsi er fótum troðið fyrir meint jákvætt frelsi. Til að bæta gráu ofan á svart er nú grímu­skilda á mörgum svæðum í Frakk­landi af sótt­varnar­á­stæðum á meðan and­lits­slæður eru ennþá bann­að­ar.

Sótt­varnir eru alls ekki lausar við þessa hættu. Í Evr­ópu­sam­bands­rík­inu Ung­verja­landi hefur lýð­ræðið verið lagt til hliðar og for­sæt­is­ráð­herr­anum Viktor Orbán gefið nær ótak­markað vald til þess að takast á við veiruna. Í skjóli þessa nýfundna valds hefur Orbán nýtt tæki­færið til að grafa undan rétt­indum trans fólks. Sama hvað Ólafi Jóhanni Ólafs­syni og öðrum tals­mönnum hlýðni finn­st, þá er Ísland ekki ónæmt fyrir sam­bæri­legri lýð­ræð­is­hnignun í krafti sótt­varna.

Þannig að sótt­varnir eru nauð­syn­legar til þess að tryggja jákvætt frelsi en við verðum að hafa varan á svo að við fórnum ekki svo miklu nei­kvæðu frelsi að frelsandi máttur sótt­varna verði einskis virði. Þá er rétt að spyrja, höfum við fórnað grund­vallar frelsi okkar í nafni sótt­varna? Hafa kosn­ingar verið lagðar nið­ur? Hafa fjöl­miðlar verið rit­skoð­að­ir? Hefur ríkið komið í veg fyrir frjálsa umræðu um sótt­varn­ir? Hefur ástandið verið notað til þess að grafa undan rétt­indum minni­hluta­hópa? Svarið er bless­un­ar­lega nei, alla­vega ekki enn­þá. Það er ekki þar með sagt að svarið muni ekki breyt­ast. Það er full ástæða til þess að hafa var­ann á. Haukur minn­ist sér­stak­lega á að sam­komu­frelsi hafi verið skert. Það er vissu­lega rétt að það eru fjölda­tak­mark­an­ir, en ég vil vekja athygli á því að í þau skipti sem blásið hefur verið til mót­mæla síðan að far­ald­ur­inn skall á, til að mynda mót­mælin gegn brott­vísun Khedr fjöl­skyld­unnar og sam­stöðu­fund­ur­inn með Black Lives Matter mót­mæl­unum í Banda­ríkj­un­um, hafa yfir­völd ekki reynt að koma í veg fyrir mót­mælin á grund­velli sótt­varna. Hann minn­ist reyndar líka á að tján­ing­ar­frelsi hafi verið skert og gagn­rýn­is­raddir þagg­að­ar, en að því sem ég fæ best skilið bygg­ist það á mis­skiln­ingi hans að það sé þöggun og brot á tján­ing­ar­frelsi að fólk á Inter­net­inu segi honum að hætta þess­ari þvælu.

Hins vegar eru hlutir sem mættu betur fara. Í ágúst fékk lög­reglan síðan heim­ild til að sekta þau sem ger­ast upp­vís að brotum á sótt­varn­ar­reglum háum fjár­hæð­um, en þar getur sekt ein­stak­lings sem notar ekki and­lits­grímu verið að hámarki 100.000 kr. Þetta eru tölu­verðar refsi­heim­ildir sem yfir­völdum eru gefnar í þessum efnum og við ættum að setja spurn­ing­ar­merki við hvort þær eigi rétt á sér. Þá eru dæmi um að útlend­ingum hafi verið vísað úr landi vegna brota á sótt­varn­ar­lög­um, en ég veit ekki til þess að svo hörðum við­ur­lögum hafi verið beitt gagn­vart íslenskum rík­is­borg­ur­um. Hér er um að ræða fólk sem er til­tölu­lega nýkomið til lands­ins en það er ekki óhugs­andi að hin brott­vís­a­naglaða Útlend­inga­stofnun muni nýta þetta sem for­dæmi þegar hún reynir að vísa fólki sem hefur verið hér lengur úr landi á grund­velli sótt­varn­ar­laga. Og þó að reglur um fjölda­tak­mark­anir hafi enn ekki verið mis­not­að­ar, þá er ekki þar með sagt að þær verði það ekki í fram­tíð­inni eða það sé ekki hægt. Þá hafa vissu­lega verið gerðar til­raunir til þess að afbyggja lýð­ræðið í nafni almanna­varna. Í apríl reyndi for­seti Alþingis Stein­grímur J. Sig­fús­son að nota almanna­varnir og sína eigin tregðu við að sína lið­leika í skipu­lagi þings­ins sem afsökun fyrir því að koma í veg fyrir umræðu um umdeilt mál á þingi. Í for­seta­kosn­ing­unum í sumar stóð upp­runa­lega til að fólk í sótt­kví fengi ekki að nýta atkvæð­is­rétt sinn. Okkur ber vissu­lega að hafa var­ann á, bæði gagn­vart veirunni og gagn­vart sótt­varn­ar­yf­ir­völd­um.

Tím­inn til að ræða frelsi ein­stak­lings­ins er ekki, eins og Ólafur seg­ir, þegar plágan er yfir­stað­in. Tím­inn til að ræða frelsi ein­stak­lings­ins, mann­rétt­indi og lýð­ræði er hér og nú. Raunar hefur þörfin á þeirri umræðu aldrei verið meiri. Við þurfum að ræða hversu langt má ganga, hvað sé boð­legt og hvað ekki. Við þurfum að vera til­búin að stíga á brems­una þegar yfir­völd fara yfir lín­una og til þess að geta gert það þurfum við ræða fyr­ir­fram nákvæm­lega hvar línan er.

Höf­undur er heim­spek­ing­ur.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hygge
Hvað þýðir danska hugtakið hygge? Er það stig sem nær hærra en bara að hafa það kósí? Nær eitthvað íslenskt orð yfir það? Eða er um að ræða sérstaka danska heimspeki?
Kjarninn 9. ágúst 2022
Eitt og annað ... einkum danskt
Eitt og annað ... einkum danskt
Hygge
Kjarninn 9. ágúst 2022
Rúmlega þriðjungur heimila á ekkert eftir í veskinu í lok mánaðar
Næstum átta af hverjum tíu í lægsta tekjuhópnum ná ekki að leggja neitt fyrir, ganga á sparnað eða safna skuldum í yfirstandandi dýrtíð. Hjá efsta tekjuhópnum geta næstum níu af hverjum tíu enn lagt fyrir, sumir umtalsvert.
Kjarninn 9. ágúst 2022
Eilífðarefnin finnast í regnvatni alls staðar um heiminn. Uppruni þeirra er oftast á vesturlöndum en það eru fátækari íbúar heims sem þurfa að súpa seyðið af því.
Regnvatn nánast alls staðar á jarðríki óhæft til drykkjar
Okkur finnst mörgum rigningin góð en vegna athafna mannanna er ekki lengur öruggt að drekka regnvatn víðast hvar í veröldinni, samkvæmt nýrri rannsókn.
Kjarninn 8. ágúst 2022
Fleiri farþegar fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júlí síðastliðinum en í sama mánuði árið 2019.
Flugið nær fyrri styrk
Júlí var metmánuður í farþegaflutningum hjá Play og Icelandair þokast nær þeim farþegatölum sem sáust fyrir kórónuveirufaraldur. Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll var meiri í júlí síðastliðnum en í sama mánuði árið 2019.
Kjarninn 8. ágúst 2022
Verðfall á mörkuðum erlendis er lykilbreyta í þróun eignarsafns íslenskra lífeyrissjóða. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Eignir lífeyrissjóðanna lækkuðu um 361 milljarða á fyrri hluta ársins
Fallandi hlutabréfaverð, jafn innanlands sem erlendis, og styrking krónunnar eru lykilþættir í því að eignir íslensku lífeyrissjóðanna hafa lækkað umtalsvert það sem af er ári. Eignirnar hafa vaxið mikið á síðustu árum. Í fyrra jukust þær um 36 prósent.
Kjarninn 8. ágúst 2022
Uppþornað stöðuvatn í norðurhluta Ungverjalands.
Enn ein hitabylgjan og skuggalegur vatnsskortur vofir yfir
Það er ekki aðeins brennandi heitt heldur einnig gríðarlega þurrt með tilheyrandi hættu á gróðureldum víða í Evrópu. En það er þó vatnsskorturinn sem veldur mestum áhyggjum.
Kjarninn 8. ágúst 2022
Þrjár af hverjum fjórum krónum umfram skuldir bundnar í steypu
Lektor í fjármálum segir ekki ólíklegt að húsnæðisverð muni lækka hérlendis. Það hafi gerst eftir bankahrunið samhliða mikilli verðbólgu. Alls hefur hækkun á fasteignaverði aukið eigið fé heimila landsins um 3.450 milljarða króna frá 2010.
Kjarninn 8. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar