Árni Jensson skrifar um nýja stjórnarskrá, veggjakrot á eigum stjórnarráðsins og segist viss um að í sál forsætisráðherra leynist neisti hugsjónar. Hann hvetur Katrínu Jakobsdóttur til að skrifa undir áskorun um að lögfesta nýju stjórnarskrána.
Þú viðhafðir það orðalag í fjölmiðlum að þú fylgdist ekki með einstaka veggjakroti á eigur stjórnarráðsins. Til áréttingar, var gjörningurinn ekki krot, heldur málaður listgjörningur í þrívídd með fallegu inntaki sem á stóð: Hvar er Nýja Stjórnarskráin?
Í þessum ummælum talaðir þú niður til ungra skapandi listamanna og hugsjónafólks sem brenna fyrir því réttlæti að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu í lýðræðisríki verði virt. Þú sýndir listsköpun þeirra og höfundarrétti einnig vanvirðingu með því að láta spúla vegginn á fyrsta virka degi eftir verklok án nokkurs samráðs við þau.
Þér til upplýsingar þá er veggmyndlist eða mural art eitt elsta listform mannsins sem nær aftur árþúsundir og má finna víða í hellum, hamraveggjum og pýramídum svo fátt eitt sé nefnt. Veggmyndlist er þannig hluti af sögu mannsins.
Skilgreining Wikipedia á veggmyndlist er eftirfarandi:
„Veggmynd er hvaða listaverk sem er málað eða borið beint á vegg, loft eða annan varanlegan flöt. Það sem einkennir veggmálverk er að byggingarþættir viðkomandi rýmis eru samofnir myndinni.”
Það er því óþarfi að tala niður til unga listafólksins sem er að reyna að ná athygli þingheims sem og annarra á þessu mikilvæga málefni sem það brennur fyrir.
Af hverju breytir þú ekki um betur og styður frumvarp annara flokka á Alþingi um lögfestingu tillagna Stjórnlagaráðs og virðir rétt og vilja þjóðar í atkvæðagreiðslu? Nú eða flytur sama frumvarpið sjálf? Af hverju virðir þú ekki rétt og vilja þessa unga fólks sem tjáir svo fallega hug sinn gegnum listina? Ég skil að þú situr í þríhöfða ríkisstjórn með XD og XB svo stuðningurinn við vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu getur farið á skjön við hagsmuni þeirra skjólstæðinga, kvótafólksins. En þetta vissir þú í upphafi þegar þér var boðinn stóll forsætisráðherra í skiptum fyrir hugsjónina. Það er einfaldlega þannig, að stjórnmálamaður sem framselur hugsjón sína, glatar um leið hreinleika sálarinnar.
Aðeins um stjórnmál:
Sæki einstaklingur í völd í umboði fjöldans á það að vera hans helga markmið að þjóna fjöldanum en ekki að koma fyrir meðal lamba sem úlfur í sauðargæru. Það er þjóðinni engin fróun lengur að sjá stjórnmálamenn í viðtölum fjölmiðla, iða í skinninu, svitna og ranghvolfa augum við að fara með hálfsannleik eða ósannindi sem allir sjá í gegnum. Þjóðin er nefnilega glöggskyggnari í dag en hún var fyrir 12 árum síðan þegar hún var rænd sjálfsvirðingu sinni og afkomu. Tímabil óheiðarleika og sérhagsmunastjórnmála á að vera lokið á Íslandi og við eiga að taka tímar heiðarleika, hugsjóna og andagiftar. Það þarf að gefa röddum góðra stjórnmálamanna gaum. Þær eru til, en eru ekki margar, þær heyrast, en eru ekki háværar. Hinir valdsæknu sérhagsmuna aðilar verða að vitja síns tíma og víkja af því sjónarsviði sem lýtur valdsvettvangi almennings.
Nýja Stjórnarskráin snýst ekki um skoðanir vinstri og hægri manna. Hún snýst um grunnlög, mannréttindi og lýðræði. Öfugt við sundurþykk skilaboð úr áróðursmaskínu sérhagsmunaaðila, vill þjóðin að hagsæld ríki, útgerð blómstri, eldisfyrirtæki vaxi, orkufyrirtæki hagnist og fjármálastofnanir og fyrirtæki dafni að verðleikum. En þetta þarf að vera á þeim forsendum að sjálfstæðinu sé ekki storkað og allrar sanngirni sé gætt, og að hvorki verði illa gengið um auðlindir, né arðrán heimilt eða mannréttindi fótum troðin. Það er einfaldlega brot á andlegum, siðferðilegum og lýðræðislegum mannréttindum okkar og afkomenda að virða ekki auðlindir og sanngjarnt afgjald þeirra. Þennan sannleik þurfa kjörnir fulltrúar okkar, alþingismenn að meðtaka, ætli þeir að eiga framtíð í stjórnmálum.
E.t.v. er glíma andans við efnið dagleg áskorun þeirra einstaklinga, sem fara með völd og fjármuni almennings. Einstaklingur sem t.a.m. er eingöngu knúinn áfram af græðgi, verður henni ofurseldur og glatar gjarnan tengingu við annan veruleika en þann sem færir honum arð eða völd. Lífið í sinni fjölbreyttu dýrð og litum verður honum einsleitt að öðru leiti en þröng sýn á takmarkaða þætti veruleikans, sem mynda mögulegan farveg fyrir fjár-og eignamyndun. Peningar og völd verða hið ráðandi gildismat lífsins. Tengsl vina, fjölskyldu og vinnufélaga verða hagsmunatengsl, eða lítil sem engin ella. Lífshlaupið verður lítið annað en holur námagröftur eftir völdum, peningum og eignum af þeim toga sem takmörkuðum sálarþroska eða æðri auð skila. Sá gráðugi nýtur t.a.m. ekki lista nema gildi sköpunarinnar sé mælanleg í peningum eða ásókn annarra til verksins, en ekki vegna næmi hans og hrifningar á listsköpuninni sjálfri. Í huga þess gráðuga taka dauðir hlutir á sig líf og hið eiginlega líf deyr anda sínum.
Valdið er vandmeðfarið og mikilvægt að einstaklingar í valdastöðum, geti auðsýnt kærleika í garð fjöldans og verið einskonar lifandi hugsjón réttlætis og göfugmennsku. Eftir þessu er óskað. En valdið í eðli sínu bjagar sjálfsvitund þess sem valdið fer með, tímabundið eða til langframa. Sú áskorun til stjórnmálamanna að fara með umboð sitt af auðmýkt og virðingu í þágu heildarhagsmuna þjóðar, er raunveruleg og aðkallandi. Þjóðin hefur ekki langlundargeð til frekari rangbreytni, tafa eða trassaskapar af hálfu kjörinna fulltrúa. Störf ráðamanna snúast um það að vera góðir valdsherrar eða vondir. Fyrir tólf árum þraut þolinmæði þjóðar gagnvart þeim vondu, af orsökum sem öllum ætti að vera ljóst.
Nýja stjórnarskráin snýst um þjóðina en ekki fulltrúana. Hún snýst um auðlindir, náttúru, mannréttindi, dýravernd, gegnsæja stjórnsýslu og síðast en ekki síst virkara lýðræði. Hún snýst um það, að þjóðin njóti skilnings, heiðarleika og friðar til að vaxa og þroska lýðræðisvitund sína og sjálfsvirðingu. Þetta er ekki flókið. Það eina sem við förum fram á er að niðurstaða lýðræðislegrar þjóðaratkvæðagreiðslu sé virt. Því að sjálfstæði okkar er vegið þegar lýðræðisbjögun og sundurþykkja verður skoðanamyndandi þjóðfélagsafl. Við þær aðstæður molnar borgríkið innan frá og hætta steðjar að lýðræði og réttarríki. Þessi þróun á sér þegar stað á Íslandi.
Katrín,
Nú eru liðin átta ár frá því að þjóðin samdi og samþykkti sér tillögur að nýrri stjórnarskrá og mál að töfum linni. Í stjórnskipun Íslands er þjóðin stjórnarskrárgjafinn því uppruni valdsins í lýðræðisríki getur eingöngu átt sér uppsprettu hjá þjóðinni. Þetta er eðli lýðræðisins og um þennan rétt almennings er enginn vafi. Það er hins vegar Alþingis að lögfesta breytingarnar því Alþingi er fyrir þjóðina en ekki þjóðin fyrir Alþingi. Þú sem forsætisráðherra, ert t.a.m. launaður fulltrúi unga listafólksins sem þú kallar veggjakrotara og ert því í embætti fyrir þau en ekki þau fyrir þig.
P.s.
Katrín, þar sem ég þykist þess fullviss að enn leynist neisti hugsjónar í sál þinni, þá vek ég athygli á að þú getur skrifað undir áskorunina um lögfestingu Nýju Stjórnarskrárinnar án þess að nafn þitt birtist öðrum, t.a.m. Sigurði Inga eða Bjarna Ben.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.