Of margir boltar á lofti eru einkennandi fyrir ofurkonuna. Hún gerir allt til þess að halda þeim öllum fullkomlega á lofti, en hversu lengi endist það? Endalausar kröfur samfélagsins beinast að henni, allt frá því hvernig hún klæðir sig og yfir í það hvernig manneskja hún er. Þessar óraunhæfu kröfur gera það að verkum að ofurkonan upplifir hvorki að hún geri nóg, né að hún sé nóg. Hún þarf alltaf að gera betur.
Í desember 2018 varð ég mamma, þá 22 ára gömul. Óumbeðnum athugasemdum og ráðleggingum rigndi yfir mig þegar fólk frétti að ég væri ólétt. Ekki bara úr mínu nánasta umhverfi heldur einnig á samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlarnir setja mikla pressu á fullkomnun og láta það líta út eins og fullkomnun sé raunhæft markmið og að fullkomnun eigi að vera markmið allra, því annars ert þú ekki nóg. Fáir á mínum aldri voru að eignast börn á þessum tíma í kringum mig og þess vegna var auðvelt að leita í fullkomnar fyrirmyndir sem eru búnar til í netheimum. Af fenginni reynslu finnst mér vanta fjölbreyttari úrræði fyrir unga foreldra. Það er margt vel gert sem styður við bakið á foreldrum en með auknum stuðningi væri hægt að draga úr einangrun sem getur fylgt því að feta önnur spor en jafnaldrar þínir.
,,Mömmviskubit” er hugtak sem ég kynntist þegar ég varð móðir en það er að hafa samviskubit yfir því að sinna móðurhlutverkinu ekki nægilega vel. Það virðist vera ástand sem margar mæður þekkja enda eru kröfur hinnar fullkomnu móðir alltof háar. Hvað er það að vera ofurmamma? Jú, þú þarft að vera með uppeldisráð á hreinu, hafa barnaherbergið fullkomið og uppfylla allar mögulegar óskrifaðar reglur samfélagsins. Ég persónulega upplifði mikla pressu að fylgja öllum uppeldisráðum og það var eins og himnarnir opnuðust þegar ég áttaði mig á því að ég væri nóg ef ég fylgdi eigin innsæi. Ég fattaði að til þess að vera ofurmamma þyrfti ég ekki að fylgja nýjustu uppeldisráðunum, sem þó auðvitað geta hjálpað, heldur treysta á sjálfa mig. Einnig upplifði ég mikla pressu af samfélagsmiðlum um að hafa barnaherbergið fullkomið. Svona geta óraunhæfu kröfurnar verið ólíkar en þær birtast á öllum sviðum móðurhlutverksins. Það fylgir því svo mikið frelsi að átta sig á því að það er enginn fullkominn, það eru bara allir að gera sitt besta. Ofurmamman þarf að passa sig að ofnota ekki ofurkrafta sína því annars gæti hún klárað þá alla.
Mín upplifun sem ung móðir er að samfélagið ætlist til að við þurfum að velja á milli þess að vera móðir eða sinna starfsferlinum og ná frama því annars lendum við í kulnun. Er það samfélagið sem við viljum búa í? Búum til fjölskylduvænt starfsumhverfi sem ýtir ekki undir kulnun og þá sérstaklega hjá konum en þær eru líklegri til að upplifa kulnun eins og kom fram í grein á RÚV eins og sjá má hér. Við ættum sem samfélag að endurskilgreina hvað einkennir ofurkonu. Minnkum kröfurnar og lærum að meta okkur fyrir þær ofurkonur sem við allar erum. Hættum að setja óraunhæfar kröfur á ofurkonur og leyfum okkur að vera sáttar með okkur eins og við erum.
Við erum allar ofurkonur.
Ég hlakka til að hlusta á og læra af þeim ofurkonum sem verða með erindi á viðburðinum Ofurkonan þú, þann 20. október næstkomandi sem er á vegum Ungra athafnakvenna og geðfræðslufélagsins Hugrúnu. Ég hvet alla til að gera slíkt hið sama og fylgjast með viðburðinum. Endilega deildu mynd/reynslu af ofurkonu á instagram eða twitter undir #ofurkona @ungarathafnakonur @gedfraedsla
Höfundur situr í stjórn Ungra athafnakvenna (UAK).