Mér er minnisstæð dæmisaga Sigurðar Nordal, „Ferðin, sem aldrei var farin“. Hún segir frá ungum manni, sem borinn er til æðstu metorða og ríkidæmis, en hafði misst föður sinn, góðvin keisarans. Forsendur piltsins eru að öðru leyti allar hinar bestu. Í stað þess að nýta þroskakosti sína dvelur hann daga og nætur við hjóm og ólifnað. Hinum góða keisara, Markúsi Árelíusi, rennur þetta háttalag unga mannsins til rifja, enda þess fullviss, að í pilti sé góður efniviður. Því kallar Markús Árelíus piltinn fyrir sig, segist ætla að senda hann í hættulegan leiðangur, sem krefjist allra hans bestu eiginleika, aukinnar kunnáttu og hæfni jafnt á andlegu sem og líkamlegu sviði. Til að búa sig undir ferðina breytir ungi maðurinn lífi sínu og býr sig undir hið erfiða og krefjandi hlutskipti. Hann snýr baki við fyrra lífi, kallar til sín færustu kennara og einkaþjálfara fyrir líkama og sál. Árin líða, hann kvænist, eignast börn, fer að líka vel sinn nýi lífsstíll og verður farsæll maður. Ferðin boðaða var hins vegar aldrei farin. Aðferðafræði keisarans hafði lukkast.
Við þekkjum tónlistarsigra hljómsveitarinnar, Sigurrós. Við könnumst við göngugarpinn Vilborgu Örnu Gissurardóttur , sem varð fyrsta íslenska konan til þess að klífa hæsta tind veraldar, Everest og gekk ein á Suðurpólinn. Við erum meðvituð um frægð Bjarkar. Tónlist hennar tengist þeirri miklu virðingu, sem Björk hefur fyrir náttúrunni. Stundum köllum við slíkar persónur góðar fyrirmyndir. Hvað rekur einstaklinga til þess að nýta hæfileika sína, stefna að einhverju marki? Hvaðan fá þeir kraftinn, áhugann, þrautseigjuna? Hvernig stuðlum við að jákvæðri uppbyggingu? Á Íslandi eru hugtök eins og þjóðarframleiðsla, verðbólga, viðskiptajöfnuður og hagvöxtur vel þekkt, en meira hlýtur að koma til. Við austurlandamæri Nepal liggur landið Bhutan. Þar miðast staðlar við: Landsheildar-hamingjuverkefnið –, en það byggist á fjórum hornsteinum; náttúruvernd, fyrirmyndar stjórnarháttum, varðveislu menningarverðmæta og auknum þroska einstaklinga og samfélags í átt að góðum, félagslegum gildum svo sem sjálfbærni og jafnrétti. Hornsteinarnir eru síðan notaðir sem viðmið í 9 ólíkum þáttum Bhutan-samfélagsins.
Persónulega dái ég forvarnir. Ég vil sjá, að allir krakkar hafi verkefni við hæfi. Flest viljum við heildrænar lausnir, heilbrigði og hamingju. Mörg viljum við tileinka okkur trú á aðferðafræðina, sem felst í hinum góðu gildum, sem og þeim gildum, sem nefnd hafa verið Þjóðgildin. Hin forngríska speki um „hið góða, fagra og sanna“ stendur alltaf fyrir sínu. Hjá öðrum er kærleikurinn mestur og bestur – fylgt eftir af samkennd og réttlæti. Mikilvægt er að elska sjálfan sig, öðlast færni, sníða af sér vankanta, kalla fram vilja, sýna staðfestu , mynda orð sem síðan leiða til athafna. Við erum andlegar verur með sál eða vitund. Okkur er gefið innsæi og við skynjum, þegar hjartað talar. Við höfum heila, erum meðvituð um, að við hugum og hvað við hugsum, sem svo verður að viðhorfum, séu upplýsingarnar samþykktar af okkur. Tungumálið er kóðinn, túlkun viðhorfanna, hvað við segjum eða skrifum. Líkaminn, musteri andans og hugsunarinnar, sér síðan um framkvæmdina, heldur jafnvægi og stjórn á öllum vefrænum þáttum.
Hvað ræður, hvernig við högum okkur á öllum þessum sviðum? „Ég lifi í draumi“, segir í söngnum. Hér áður fyrr áttu kynstofnar sér sameiginlegan samfélagsdraum, enn aðrir töluðu um heiminn sem tálsýn. Í uppeldi barnanna aðhæfum við barnið okkar reglum, hvað passi, hvað sé rétt og rangt, orðin eru kóðinn, barnið samþykkir og geymir í minninu á harða disknum og það verður síðan að sannfæringu, trú, viðhorfi og innrætingu.
Lúpínan er afskaplega falleg. Sjáið þessar fjólubláu breiður, binda sandinn og minnka fokið. En lúpínan dreifir sér líka hratt, kæfir stundum annan gróður. Öspin er yndislegt tré, fljótvaxandi, veitir gott skjól, en hún sendir út kröftugar rætur út um allt, lyftir malbiki, yfirborði lóða, ræðst inn í hús. Hvað kallast það, þegar rætur ryðjast inn? = > innræting. Með orðum okkar og gjörðum getum við haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif. Við þjálfum börnin líkt og við gerum við húsdýr með hrósi og verðlaunum; „Þú mátt fara í Ipadinn í 5 mínútur ef þú klárar matinn þinn.“ ellegar refsingum eins og : „Ég skil þig bara eftir, ef þú hagar þér svona!“ Börnin alast upp í hræðslu við refsingu og samtímis ótta við að ná ekki athygli foreldra og annarra. Þau reyna að þóknast öllum, hafa alla góða, hrædd um að vera hafnað – en þau læra fljótt orðið NEI.
Að lokum ölum við okkur upp sjálf, við refsum okkur: „Ég er ekki nógu falleg.“ „Svakalegt finnst mér að vera með þessa bumbu“. Þunglyndið á næstu grösum. Við leiðumst út í umbun, líður illa, leitum í ísskápinn, neytum áfengis, tóbaks eða annarra fíkniefna bara til þess að falla inn í hópinn, láta undan þrýstingi eða flýja vansælu. Orð eru tvíeggjað sverð. Þau geta virkað sem álög, sem eitur, verða veirur í sál og huga. Orð eru einnig sæði hins góða, fagra og sanna: „Sáðmaður fór út að sá, sum frjókornin lentu í grýtri jörð og önnur í frjósamri jörð“.
Þið þekkið öll tölvuveirur og hverju þær valda, allt fer í klessu. Okkar innri forrit geta orðið fyrir árás af veirum, sem rugla alla samhæfingu. Í gamalli dæmisögu er getið um tvennt, sem ekki er hægt að taka aftur: ör, sem skotið er af boga og orð, töluð, sögð og skrifuð, sem geti valdið niðurrifsstarfsemi á anda og huga viðkomandi. Kona, kom heim af verulega erfiðri vakt með dúndrandi hausverk. Heima hoppaði, dansaði og söng dóttir hennar með sinni yndisfögru, sterku rödd. Líðan konunnar fór versnandi, uns hún öskraði á hana: „Steinhættu þessum hávaða! Þú hefur hvort sem er ömurlega rödd!“ Þvílík stimplun innrætingar. Ummæli móðurinnar urðu til þess, að dóttirin söng aldrei aftur. Í samfélaginu fara hakkarar í gang. Þeir dreifa óhróðri með illu umtali, slúðri og Gróu-sögum. Við framköllum reiði, öfundsýki, hatur, afbrýðisemi. Hvert hneykslismálið rekur annað í stjórnmálunum, jafnt innanlands sem utan. Rannsóknir sýna stöðugt minnkandi traust í samfélaginu. Hver er ástæða þess? Lítum á nokkra þætti.
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir var ein fulltrúa á alþjóðlegu þingi 2017, sem tók blekkingastjórnmál (eða staðleysustjórnmál – e. post truth politics, til umræðu. Hún segir í blaðagrein: „Við fáum falskar fréttir, kerfisbundnar blekkingar, rangfærslur, dylgjur, hreinar og klárar lygar. Staðleysur eru notaðar kerfisbundið og hamrað á þeim – og við vitum að, sé lygin síendurtekin – upplifir fólk lygina sem „sannleika“. Að menntakerfið hefði brugðist þeirri grundvallarskyldu sinni að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun að ígrunda, áður en dæmt er, að forðast ómeðvitaða hlutdrægni og ekki síst – að efla siðvit nemenda. Þannig megi færa fyrir því rök að skólakerfið beri ákveðna ábyrgð á því að blekkingastjórnmál virki á almenning. Frummælendur sögðu hins vegar að kennarar væru að bregðast við, en þyrftu að efla menntun og samstöðu sín á milli svo að viðbrögðin yrðu kraftmeiri og alþjóðleg. Því var haldið fram, að menntun án siðferðis væri einskis verð. Þekking án tengsla við mennsku væri skaðleg. Efling borgaravitundar væri lykilatriði og allir kennarar, án tillits til þess fags sem þeir kenna, ættu að leggja áherslu á að fá nemendur til að skilja ábyrgð sína sem samfélagsþegnar. Heimsvæðing samkenndar væri nauðsynleg. Mannréttindafræðsla ætti að vera sjálfsögð – alls staðar.“
Á móti þessu berjast tveir aðilar, sem fara hamförum innra með okkur: Annar er dómarinn, sem ber allt saman við innrætt forrit, hefur ógnarstjórn, við hlýðum og tölum niður til okkar sjálfra: „Ég er nú meiri auminginn!“ „Andskotans asni get ég ævinlega verið.“ „ Þetta er skelfileg mynd af mér“, segir fegurðardísin trekk í trekk. Þá tekur hinn aðilinn við, fórnarlambið: „ Þetta er bara gott á mig.“ „Ég á ekkert betra skilið.“ Kvartar út af öllu, hefur allt á hornum sér, allt öðrum að kenna, allt ómögulegt. Í dómskerfinu er gert ráð fyrir því, að ekki sé hægt að dæma nema einu sinni fyrir sama brotið, en hvað gerum við? Við núum hvort öðru upp úr sama atriðinu trekk í trekk, þúsund sinnum, foreldrar, börn, makar, vinir, samferðamenn. Þessi „lögmálsbók“ er mestmegnis byggð á lygum, ef lagfærð, sæjum við ekki svona mikinn ótta, óréttlæti, ofbeldi og stríð í heiminum.
Draumar okkar, hvort sem við erum vakandi eða sofandi, verða að martröð. Vakandi þorum við varla að lifa, hrædd við álit annarra, á nálum við að þóknast öllum, reyna að vera fullkomin, getum ekki fyrirgefið okkur fyrir að vera ekki al-fullkomin. Við verðum sjálfum okkur verst. Höfnum eigin líkama, hugsunum og tilfinningum. Þess vegna setjum við á okkur félagslegu grímurnar / persónuleikana, leikum eitt hlutverk heima, annað í vinnunni, þriðja með félögunum – þorum ekki að vera við sjálf. Persónulegur styrkur okkar minnkar, krafturinn fer allur í að reyna að halda andlitinu eða öllu heldur grímunni.
- með eflingu tilfinningaþroskans geti ég fundið meiri hamingju, kærleika, gleði og frið, eflt samhug og samvinnu
- viðhorf mín skapi mitt líf, mína veröld
- ég geti breytt viðhorfum mínum, samrýmist þau ekki því lífi, sem ég vil lifa
Hvernig get ég þá náð þeim árangri?
- með þjálfun vitundarinnar
- nái betri tengingu við hið æðra innra með mér
- losi vitund mína við fordóma og þröngsýni
- efli samhug, samvinnu, kærleika, frið og hamingju
Hvert verður þá hlutverk hvers og eins í þeirri þróun? Breytingar hefjast ætíð hið innra. Því er áskorun mín til hvers og eins svohljóðandi: „ÞÚ skiptir máli“. Settu þér eftirfarandi markmið:
- að vera víðsýnn og sannur
- sýndu öllum samkennd og virðingu
- vertu heiðarlegur, djarfur en gefandi
- skiptu um skoðun, ef sú þjónar ekki markmiðum þínum í lífinu
- efldu samvinnu
- yfirgefðu dómarasætið
- forðastu að kasta skuld á aðra, vera fórnarlamb eða meðvirkur
- berðu ábyrgð á eigin lífi og sýndu samfélagslega ábyrgð
- fylgdu Gullnu reglunni
- leitaðu og þú munt finna þitt sanna – ég –
Í sögu Paulo Coelo kenndi Alkemistinn söguhetjunni Santiago að fylgja hjarta sínu, „því þar er fjársjóðinn þinn að finna“. Drengurinn lærir Allsherjarmál Heimsins, að skilja órjúfanlegt samhengi hlutanna, órofa tengsl manns og náttúru, mátt ástar og trausts, vindsins og trúarinnar á forsjón hins góða. „Sannarlega er lífið rausnarlegt við þann sem lifir samkvæmt Örlagakosti sínum“. Lát hjarta ráða för, fylgdu draumum þínum. Grunnurinn er sá, að maður á að vera heill og sannur í orðum sínum og gjörðum. Söguhetjan, Santíagó, fann síðan fjársjóðinn heima.
Elskulegi lesandi! Þín bíður þessi mikilvæga spurning: „ Mun vora í þinni vitund?“ Á meðan þú leitar svars í huga þínum og hjarta, bið ég þig að íhuga:
- boðskap Alkemistans um, að svarið felist í einfaldleikanum, hinu „fagra, góða og sanna“
- mikilvægi vitundar þinnar, samvistar við náttúruna og gjafir hennar
- hvað þú hugsar og hvernig þú vinnur úr tilfinningum þínum
- hvað þú borðar og frásogar eftir máltíð
- hvernig þú hreyfir þig
- hvernig þú hvílist og sefur
- hvernig þér tekst að forðast streitu
- hvernig þér tekst að sýna öllum samkennd, virðingu og kærleika
Vitundin og viljinn að framkvæma þessi atriði er:
- lykillinn að vellíðan mannkyns
- opnar okkur innsýn í hið flókna meistaraverk sköpunarinnar
- sýnir okkur, hvernig öll kerfin vinna saman til uppbyggingar, þroska og endurnýjunar
Þjálfum hugann, látum ekki innrætingu eða sjálfstýringu undirmeðvitundar stjórna lífshlaupi okkar. Sannfæring mín er sú, að þá muni „Vorið vaxa í Vitund okkar allra, er Vonglöð höldum Saman fram á veg.“ Lífið er dýrmætt, stórfengleg fegurð hjarta þíns, hæfileikar þínir óendanlegir.
Jónatan Livingstone Máfur var ósköp venjulegur máfur - en hann vildi eitthvað meira, fljúga betur, hærra, flottar, svífa lengra, stinga sér úr enn meiri hæð - og hann æfði sig þrotlaust og lengi. Hann setti sér markmið og náði því - en hann komst lengra - hann gat flutt sig um set með hugaraflinu einu saman - þá var hann klár fyrir æðri víddir – „Er ég á himnum? ", spurði hann. " Það er enginn slíkur staður, engin stund. Himnaríki er að ná fullkomnun, en fullkomnun hefur engan mælikvarða... þú getur flogið í fortíð og framtíð, en þá tekur það ánægjulegasta, erfiðasta, mikilvægasta verkefni við, verkefnið...að fljúga inn í tilgang góðmennsku og ástar", sagði gamli máfurinn. Hann virtist síðan leysast upp, en hans síðustu orð voru: " Haltu áfram að æfa þig í kærleika ". Jónatan tók að kenna flugkúnstina, kenna ungum óreyndum máfum af áfergju og list. Það eru engin takmörk - bara þrá eftir fullkomnun í kærleika, virkjun alls sem er. Bhutan-búar eiga sér fjóra samfélags-hornsteina. Jafnframt ætti sérhver einstaklingur að byggja á hinum fjóru hornsteinum Don Miguel Ruiz, en þeir hljóma svo:
- Vera sannur í tali, hreinskiptinn, með sannleika og kærleik í fyrirrúmi
- Taka ekkert persónulega - það sem aðrir gera og segja, því þeir spegla sinn veruleika og sína drauma - ekki útsetja sig með því móti fyrir óþarfa leiða og áhyggjum
- Taka engu sem sjálfsögðum hlut, kryfja til mergjar, spyrja sjálfan sig og aðra spurninga til þess að forðast misskilning og óróleika sálarinnar
- Gera alltaf sitt besta - það besta breytist vitaskuld, fer t.d. eftir heilsufari og aðstæðum hverju sinni. Sé ekki tekið tillit til þessa, er hætta á óvægnu sjálfsmati, sorg og eftirsjá
Því segi ég að lokum: ÞÚ skiptir máli. Stattu með þér. Martin Luther King sagði. „ I have a dream.“ Ég á mér líka draum líkt og hvert ykkar. Hann er bæði tileinkaður þér, lesandi góður og samfélaginu okkar. Draumur minn er, að við gerum nú saman góða súpu kærleika og samkenndar, kryddum hana með virðingu, hófsemi, réttlæti og hinum þjóðgildunum. Hvetjum hvert annað, hrósum fyrir góðar gjörðir, atorku, seiglu og þrautseigju, ekki síst á erfiðleikatímum. Þannig sköpum við enn betra samfélag. Einlægar óskir mínar til þín, fjölskyldu þinnar og vina um velfarnað í nútíð og framtíð. „Gleðilegt vor í vitund“.
Höfundur er læknir.