Kjaraviðræður grunnskólakennara hafa staðið yfir í 16 mánuði. Það sem hefur einkennt viðræðurnar er bið, eilíf bið. Þegar Félag grunnskólakennara (FG) stefndi sveitarfélögunum fyrir félagsdóm, vegna jafngildingar á prófgráðum til launa, var gert hlé á viðræðunum. Það stóð mjög lengi. Síðan átti að reyna samvinnu innan Kennarasambandsins og freista þess að fá eina launatöflu fyrir öll aðildarfélögin. Tók langan tíma og tókst ekki. Covid hefur haft sitt að segja og verður ekki tíundað hér.
Það sem hefur einkennt viðræður FG er upplýsingaskortur til félagsmanna. Viðræðunefnd félagsins hefur haldið spilunum mjög þétt að sér og hinn almenni félagsmaður lítið vitað hvað var í gangi. Almenn samningsmarkmið hafa kennarar þó sé sem er ekkert annað en yfirhugtak eins og virðing og ábyrgð. Hvað felst í hverju hugtaki er ekki vitað. Eitt samningsmarkmið náðist, hækka grunnlaunin (yfirhugtak), samkvæmt áðurgerðum samningum í þjóðfélaginu.
Eftir fáa fundi hjá sáttasemjara tókst að gera samning sem nú er í atkvæðagreiðslu. Lífskjarasamningurinn er í boði, allt í góðu með það. Grunnskólakennarar geta ekki krafist meira að sögn margra. Læt það liggja milli hluta. Alvarlegri þátturinn er að taka á upp starfsmat. Þetta útspil kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Kennarar höfðu ekki fengið kynningu um að ósk þeirra væri að fara í starfsmat né heldur hvað það felur í sér. Álit og vilji kennara liggur ekki fyrir. Útspil sem er óásættanlegt fyrir stéttina.
Um starfsmat má lesa á síðunni Starfsmat.is. Forystusauðir FG hafa hvatt félagsmenn til að kynna sér matið, lögðu ekki á sig vinnu við að gera það sjálfir. Á síðunni Starfsmat kemur hvergi fram að tiltekin sétt hafi val um taka matinu eða hafna, hafi verið samþykkt að taka það upp. Gildir heldur ekki um kennarar. Framkvæmdanefnd sem skipuð er fulltrúum samningsaðila sér um framkvæmdina. Sé einstaklingur ósáttur eða hópar má óska eftir endurmati með rökstuðningi.
Starfsmat hentar ekki grunnskólakennurum. Stór hluti starfsins er huglægur, álagsvinna og vinna með börn. Hvernig á að meta margra klst. vinnu við agabrot nemenda sem hefur meira í för með sér en bara spjall við nemendur. Ágreining í bekk þar sem íhlutun kennara er nauðsynleg. Huggun vegna sorgar nemanda. Hlustun vegna áhyggna nemenda af heimilisaðstæðum o.s.frv. Ekkert af þessu er metið í starfsmatinu. Þeir þættir sem snúa m.a. að verkstjórn undirmanna, verkefnaúthlutun (ekki til nemenda) og peningum eru fyrirferðamiklir í matinu. Allt hlutlægt gefur flest stig í matinu.
Hvet grunnskólakennara til að fella nýgerðan samning. Fá ákvæðið um starfsmat út. Ákvæðið kemur inn að ósk viðræðunefndar FG. Eftir það má hugsanlega samþykkja nýjan samning. Allt um starfsmat á vera bókun sem bindur ekki næsta kjarasamning.
Höfundur er grunnskólakennari.