Áhugi Íslendinga á flugi er eftirtektarverður í jafn litlu samfélagi og landið er. Allar tegundir flugs virðast stundaðar hérlendis og eru flugskólar þéttsetnir. Útfærslur flugherma til heimabrúks eru mismunandi. Allt frá fullkomnustu tegundum hreyfanlegra herma niður í sérhannaðar leikjatölvur, heimilistölvur og þeir enda í símanum. Já þú last rétt, þú getur flogið flughermi í síma. Fyrirtækið Laminar research, sem hefur þróað flugherminn X plane í áratugi hefur gefið út símaútgáfu.
Flughermafélag Íslands var stofnað á síðasta ári. Það er félagsskapur einstaklinga á öllum aldri og stigum flughermaflugs. Markmið og tilgangur félagsins er að kynna flughermaflug, kenna það og tæknina, njóta þess saman, efla það, en síðast en ekki síst að vera einstaklingum innan handar, sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu stórkostlega áhugamáli.
Næstu tvær myndir eru innan úr stjórnklefa Svandísar flughermis fyrir flugtak.
Félagið var stofnað að frumkvæði Böðvars Eggertssonar, vélfræðings og flugáhugamanns. Böðvar er jafnframt einn af stofnendum Hollvinasamtaka um dráttarbátinn Magna, fyrsta stálskip smíðað á Íslandi. Þá hefur hann smíðað og er með í þróun eigin flughermi af King air gerð, all nákvæma eftirlíkingu af flugstjórnarklefa t.d. King air flugvélar Mýflugs. Á meðal annarra öflugra brautryðjenda í flughermasamfélaginu má nefna útlærða atvinnuflugmanninn Eirík Waltersson. Hann hefur líklega mesta reynslu á Íslandi á farþegaþotur, einkum Boeing, og skráða nærri 4000 flugtíma í miðlægum heimsgagnarunni, sem heldur utan um, fyrir þá sem kjósa svo, flogna flugtíma flughermamanna.
Næstu þrjár myndir eru frá Reykjavík og Reykjavíkurflugvelli og sýnir listavel gert handverk Jóns Ketilssonar.
Löngu áður en félagið var stofnað þekktust margir núverandi félagar og stungu saman nefjum í þessu áhugamáli. Með stofnun félagsins var komin vettvangur til að sameinast enn frekar.
Áhugamálið felst í því að menn hafa aðgang að flestum tegundum flugvéla, sem til eru í raunveruleikanum, hannaðar af þriðja aðila, fyrir stýrikerfi flughermana, og fljúga þeim með aðstoð tölvu þar sem mælaborð og umhverfi birtast í allskyns útfærslum á skjá, einum eða fleiri, jafnvel skjávörpum sem varpa landslagi í skýjum á vegg. Þá sjáum við flugvélar, sem aðrir eru að fljúga. Til eru flugvélar, sem hafa náð mjög háu þróunarstigi, lausleg ágiskun ca 90% af kerfisdýpt og flugeiginleikum raunverulegrar flugvélar. Einungis fagmenn og mjög langt komnir einstaklingar í flughermaflugi sjá þann 10% mun, sem upp á vantar. Markmið margra framleiðenda er 100% flugkerfis, landslags- og veðureftirlíking. Nokkrir eru á góðu skriði í þá átt.
Algengustu flughermarnir í dag eru þrír, X plane, sem er sá elsti, og Prepared 3D, sem tók við af Microsoft flightsimulator hinum eldri og svo hinn ný útgefni hermir Microsoft flightsimulator 2020, sem er ennþá að slíta barnsskónum en í hraðri þróun með yfir eina milljón skráð leyfi skv. Microsoft. Þróun þessara flugherma er svo langt komin að mjög margir atvinnuflugmenn og flugnemar nota þá til blindflugs- og viðbragðsæfinga við bilunum. Hægt er að fá tvo fyrst nefndu hermana í dýrari útgáfu vottaða af viðkomandi flugmálayfirvöldum. Flugstjórnarklefa (cockpit) í raunverulegri eftirlíkingu 1:1 með alla eiginleika slíks klefa og virk tæki er hægt að kaupa í mörgum útgáfum af Boeing og Airbus þotum.
Bæta má fjölda viðbóta (add on/plug in) við hermana, með lágum viðbótarkostnaði. Vinsælastu viðbæturnar eru þróuðustu flugvélarnar og veðurhermarnir. Þróuðustu flugvélarnar, af Boeing og Airbus tegundum, er ævintýri líkast að nota, svo nákvæmar eru þær hinum raunverulegu loftförum. Þá er hægt að fá fjöldan allan af minni flugvélum með ljómandi kerfisdýpt og góða flugeiginleika.
Jafnframt eru elstu gerðir af flugvélum fáanlegar og margar tegundir þar á milli allt til nýjustu flugvéla. Þróuðustu flugvélarnar í dag eru flestar Boeing farþega og vöruflutningaþoturnar og Airbus A319-320-321. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þá má nefna mjög fullkomnar eftirlíkingar af DC 3, DC 6 og Boeing 727 og Fokker F 27 og F 50, flugvélar sem þjónuðu Íslendingum í áratugi, svo eitthvað sé nefnt úr þeirri átt, jafnvel í litum íslensku flugfélaganna. Úrvalið af eins hreyfils vélum er næstum jafn mikið og framleitt hefur verið í raunveruleikanum.
Þá eru veðurhermarnir ómissandi hluti viðbótanna en þeir herma af mjög mikilli nákvæmni eftir staðarveðri (metar) frá upplýsingum veðureftirlitsstöðva alls heimsins. Fyrir þá allra áhugasömustu er síðan hægt að nota þjónustu flugumferðarstjóra, sem virkar nákvæmlega eins og í raunveruleikanum. Dæmi um það er í tengli á myndband hér fyrir neðan. Þú hefur talstöðvarsamskipti við áhugamenn um flugumferðarstjórn í gegnum hugbúnað sem er samhæfður flughermunum. Flugumferðarstjórarnir er yfirleitt mjög flinkir og notast er við sömu flugreglur og í raunveruleikanum. Öll þeirra þjónusta fer fram í gegnum ratstjárhermi og notuð eru sömu flugkort og í raunveruleikanum en í rafrænu formi. Uppruni þeirra er hjá Jeppesen með sérstöku leyfi og eru þau sett a markað gegn áskrift í gegnum þriðja aðila, Navigraph.
En þjónusta flugumferðarstjóra er ekki eina þjónustan fyrir flugmenn. Allt svokallað ground service er til fyrir margar gerðir vinsælla farþegaþota. Þ.m.t. það mikilvægasta, push back, áfylling eldsneytis o.m.fl. Aðstoðarflugmaðurinn er líka fáanlegur og munnleg samskipti möguleg með aðstoð gervigreindar. Í mjög einfaldri framsetningu þá svarar hann þér, framkvæmir skipanir þínar og þú svarar honum. Hann les yfir gátlista o.fl. o.fl.
Svo mikilla vinsælda hefur þetta áhugamál notið s.l. ár að meðal launamanni er nú gert kleift að kaupa nákvæma eftirlíkingu af fullvirkum lokuðum stjórnklefum algengra farþegaþota frá Boeing og Airbus. Einn slíkur Airbus A320 hermir, sem mun fá EASA vottun, er nú á lokametrunum í uppsetningu á Íslandi. Þá eru margir mjög flinkir við að smíða svona hermi annað hvort frá grunni eða að hluta. Tengslanet félaga við færustu sérfræðinga á þessu sviði er svo öflugt að við rekumst orðið sjaldan á hindranir. Félagar búa t.d. yfir þekkingu til að breyta raunverulegum stjórnklefa yfir í flughermi. Þá eru slíkir stjórnklefar venjulega fengnir úr flugvélum, sem lagt hefur verið til niðurrifs. Margir slíkir klefar eru t.d. í notkun í Þýskalandi allt upp í Boeing 747, enda framboðið nægt á svokölluðum flugvélakirkjugörðum. Framboð sumra flugvéla er meira en eftirspurn skv. mínum upplýsingum. Félagið hefur mikinn áhuga á að hrynda slíku verkefni af stað, að varðveita afskráð íslensk loftför, sem markað hafa spor sín í flugsögu landsins. Endurnýja lífdaga þeirra, sem herma af virðingu og alúð og gera þá ódauðlega.
Tveir slíkir óvirkir stjórnklefar munu vera í eigu Flugminjasafnsins á Akureyri.
Að lokum er vert að geta þess sem blasir við flughermaflugmönnum þegar þeir horfa út um gluggana í stjórnklefanum. Við blasir nákvæm og undurfögur eftirlíking af öllu landslagi og skýjamyndunum af nákvæmustu gerð og miklu meiri fullkomnun heldur en í flughermum flugfélaga, sem nota herma til reglubundinnar þjálfunar flugmanna sinna.
Líkt er eftir vindi, úrkomu og fleiru þannig að t.d. ef mjög slæmt eða gott veður er á okkar stærsta flugvelli, í Keflavík þá líkir hermirinn nákvæmlega eftir því ef menn kjósa svo. Það sama á við um alla flugvelli heims. Blindflugsaðstæður við erfiðust skilyrði er semsagt hægt að æfa eða njóta útsýnisflugs í sjónflugi t.d. í Ölpunum, vinsælu sjónflugssvæði. Þróun, útsýnisflugs í sjónflugi er líklega lengst komin í nýjasta herminum, þó höfundur hafi þar takmarkaða reynslu.
Hægt væri, að skrifa um þetta mjög svo spennandi og fjölbreytilega áhugamál í löngu og ítarlegu máli en hér verður látið staðar numið. Áhugasamir er hvattir til að kynna sér Flughermafélag Íslands t.d. á facebook síðu þess Flughermafélag Íslands / The Icelandic flight sim community og síðar vefsíðu félagsins sem er í smíðum og verður auglýst síðar. Á facebook síðunni er flestum spurningum svarað á skömmum tíma af vel upplýstum meðlimum, flestir með áralanga reynslu og sérhæfingu á hinum ýmsu sviðum flughermaflugs. Grunnkostnaður við að koma sér upp tölvu og lágmarkshugbúnaði er, lauslega giskað, kringum krónur 200-400 þús. þ.m.t. tölva og hugbúnaður. Sem skjá má nota sjónvarp eða tölvuskjá.
Að lokum eru hér svo smá upplýsingar fyrir áhugasama.
Svandís flýgur framhjá Reykjavík í næturflugi:
Svandísi lent í Reykjavík. Landslag, byggingar og völlur hannað af Jóni Ketilssyni:
Í næsta myndbandi getið þið kynnst tvennu, samskipti flugumferðarstjóra við flugvélar og í myndbandinu kemur Eiríkur Walterson fyrir á mín. 4:
Áhugaverðir tenglar:
Flughermafélag Íslands á facebook
Jón Ketilsson hönnuður
Myndband frá þýsku fyrirtæki sem kemur að fyrsta lokaða flughermisstjórnklefanum á Íslandi:
Breskt fyrirtæki sem kemur að fyrsta lokaða flughermisstjórnklefanum á Íslandi:
Heimasíður helstu flughermanna:
Prepar 3DX plane
Microsoft flightsimulator 2020
Heimasíða vinsælasta landslagshönnuðarins, ORBX.
Og að lokum heimasíður þróuðustu framleiðenda Boeing, Airbus og McDonnell Douglas þotanna.
Njótið og góða skemmtun.
Höfundur útskrifaðist 1982 með réttindi frá Flugmálastjórn Íslands, sem atvinnuflugmaður og flugkennari og hefur lagt stund á flughermaflug í tölvum frá upphafi slíkra herma, líklega fyrir um þremur áratugum. Hann er félagsmaður í Flughermafélagi Íslands. Allar ljósmyndir eru skjáskot eftir greinarhöfund. Þrjár ljósmyndir eftir Jón Ketilsson eru birtar með leyfi hans.