Í skilnaðarmálum hefur margt breyst á síðustu áratugum bæði í löggjöf og þjónustu. Um 1980 þegar skilnaðartölur á Íslandi tóku að stíga, fór samfélagsumræða að opnast um skilnaðarmál. Fagfólk og fræðimenn hófu að fræða og rannsaka, birta greinar og miðla fræðslu til almennings. Ein fyrsta íslenska rannsóknin beindist að sameiginlegri forsjá (Áfram foreldrar, 2000). Í kjölfarið fylgdu fleiri, m.a. um jafna búsetu, kynslóðasamskipti og rétt barna (Eftir skilnað, 2013). Félags- og fjölskylduráðgjafar héldu fyrstu námskeiðin sem höfðu það markmið að styðja foreldra í skilnaði, móta viðhorf til að setja hagsmuni og vellíðan barnanna í fyrirrúm, og leiðbeina í því efni. Löggjafinn var seinn að taka við sér, sem er of langt mál að rekja hér, en í dag búum við að löggjöf sem skapar foreldrum betri forsendur til að vinna saman að því að setja vellíðan barnanna í fyrsta sæti. Mikilvægt framfaraskref í því efni er efld þjónusta sveitarfélaga fyrir skilnaðarforeldra.
Covid ógnar vellíðan og jafnvægi í fjölskyldum
Vel er þekkt, bæði úr rannsóknum og reynslu, að pör og fjölskyldur ráða misjafnlega vel við álag og ógnir. Styrkleikaþættir eins og aðlögunarhæfni, seigla og samstaða, ásamt traustu baklandi, geta skipt sköpum við áföll og kreppuástand. Þegar álag dregst á langinn, eins og reyndin er með covid-ógnina, reynir enn frekar á þessa þætti. Upp kemur aukin þörf fyrir haldreipi og aðstoð utanfrá. Eitt birtingarform óöryggis og ráðaleysis er kvíði, reiði, stuttur þráður í samskiptum og skert hæfni til að halda mörk. Þegar dagleg tilvist raskast, bakland er veikt og skortur er á stuðningi getur orðið stutt í stjórnleysi, uppgjöf eða vanmáttar viðbrögð eins og andlegar og líkamlegar ógnanir, jafnvel ofbeldi. Undirliggjandi ósátt hjóna getur blossað upp og minningar um fyrri vonbrigði, svik og samstöðuleysi rifjast upp. Þau geta tengst fyrstu árum sambúðar og barnsfæðinga, en stundum líka sárri reynslu frá bernsku og upprunafjölskyldu. Af því leiðir að skekkja í samskiptum og umgengni getur magnast í fjandskap og stríð milli foreldra. Börn á heimilinu fara ekki varhluta af þessari ógn við daglegt öryggi sitt og jafnvægi, og þau geta farið að sýna einkenni vanlíðunar og ótta um sinn hag.
Það er allra hagur að styrkja það sem heilt er, stækka hlutfall órofinna fjölskyldna með börn, en líka að koma í veg fyrir skaðsemi skilnaðar og vinna að bættum hag einstæðra foreldra og barna þeirra, hverjar sem forsendur þeirrar fjölskyldugerðar eru.
Nýtt verkfæri og vinnulag – Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna
Fyrirliggjandi lagaákvæði um skyldu sveitarfélaga skv. 17. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 til að veita skilnaðarforeldrum stuðning, ráðgjöf og fræðslu hefur endurlífgast með nýju verkfæri, framfaraskrefi sem skapar sóknarfæri til að vernda börn í skilnaði foreldra. Þetta nýja verkfæri er háþróað, rannsóknagrundað og gagnreynt þjónustuúrræði í skilnaðarmálum, SES, samvinna eftir skilnað -- barnanna vegna.
SES-verkfærið er þróað af dönskum sérfræðingum. Umsjón með innleiðingu þess á Íslandi hafa greinarhöfundar, sem einnig hafa komið að þýðingu og staðfæringu fræðsluefnisins , þjálfun fagfólks, skráningu og mati á árangri. Sjá nánar á www.samvinnaeftirskilnad.is. Hugmyndafræðilegur grunnur úrræðisins felst í rétti barnsins til beggja foreldra, fyrir sem eftir skilnað, og í réttindum og skyldum beggja foreldra til ábyrgðar á uppeldi barnsins, tilfinningalegu öryggi þess og framfærslu frá fæðingu til sjálfræðis. Í úrræðinu, sem er með þrískiptri áherslu, beinist fræðsla og stuðningur fyrst og fremst að því að styðja barnið gegnum skilnaðarferlið; í öðru lagi að bæta samskipti og samvinnu foreldranna, og í þriðja lagi að foreldrinu sem einstaklingi. Þannig fá þeir fullorðnu styrk og verkfæri til að ná betri tökum á sjálfum sér og verða hæfari til foreldrasamstafs, en umfram allt sáttari sem einstaklingar í skilnaðarkreppunni, með traustari tök og uppbyggilega framtíðarsýn fyrir sig og börnin.
Mat á árangri þessa úrræðis sem lesa má um í fjölda fræðigreina, sýnir ótvíræðan ávinning fyrir bæði foreldra og börn. Sá ávinningur snýr að betra tilfinningalegu jafnvægi og líðan barnanna, betri heilsu og atvinnuþátttöku foreldra í skilnaðarkreppunni og færni foreldra til að stilla saman strengi sína í jákvæðu samstarfi kringum barnið til að leiða það áfram við breyttar aðstæður.
SES skapar tækifæri fyrir íslenskar fjölskyldur á tímum veirunnar
Tímabært var að koma á slíku úrræði fyrir fjölskyldur á Íslandi þar sem gera má ráð fyrir að um 40% hjónabanda ljúki með skilnaði. Undanfarið -- og ekki síst nú við fordæmalausar aðstæður fyrir fjölskyldur á þessu ári -- er sérstaklega mikil þörf á að huga að forvarnargildi þess að styðja við það sem heilt er og draga sem mest úr skaða barnanna af skilnaði með átökum. Af þeim uþb. 1200 börnum sem árlega þurfa að aðlagast breyttu lífi vegna skilnaðar foreldra sinna er meirihluti enn á unga aldri. Vaxandi hluti barna á Íslandi hefur notið umhyggju og umönnunar beggja foreldra frá fæðingu, þökk sé virkri fæðingarorlofstöku feðra. Það hefur styrkt tengslamyndun feðra og barna og skapar þannig góðar forsendur fyrir ábyrgu og virku foreldrasamstarfi -- fyrir sem eftir skilnað.
SES-þjónustulíkanið hefur nú, fyrir tilstuðlan félags-og barnamálaráðherra, verið innleitt samkvæmt samningi í tveimur reynslusveitarfélögum á Íslandi, Hafnarfirði og Fljótsdalshéraði. Covid hefur vissulega hamlað framþróun framkvæmdarinnar en til að mæta því er nú stefnt að framlengingu reynslutímans í þessum sveitarfélögum. Þrátt fyrir skakkaföllin í innleiðingarferlinu vegna covid hefur kynningarstarfi verið fylgt eftir. Þannig sækjast nú sífellt fleiri sveitarfélög eftir að geta gerst aðilar að samningi við íslenska félagsmálaráðuneytis, um stuðning við innleiðingu og framkvæmd þessa fjölskylduúrræðis þar sem hag barnsins og líðan er skipað í öndvegi. Til þess þarf pólitískan vilja og samstöðu þeirra sem vilja treysta velferð barna í samfélagsumróti og upplausn tengsla á okkar tímum.
Sjá nánar upplýsingar á www.samvinnaeftirskilnad.is.
Gyða Hjartardóttir er félagsráðgjafi MA, aðjúnkt við HÍ og sérfræðingur í málefnum barna og sáttameðferð hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Sigrún Júlíusdóttir er prófessor emeritus, félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og fjölskylduþerapisti hjá Meðferðarþjónustunni Tengsl/Samskiptastöðin.