Jóhann Páll Jóhannsson birti grein í Kjarnanum undir titlinum „Ósannfærandi málamiðlunartillaga”. Í greininni gagnrýnir Jóhann tillögu okkar Stefáns Más Stefánssonar um framtíðarfyrirkomulag gjaldeyrismála á Íslandi. Hér er farið yfir athugasemdir Jóhanns.
Því ber mjög að fagna að málefnaleg umræða eigi sér stað um gjaldeyrismál Íslands. Um mjög stórt hagsmunamál er að ræða fyrir þjóðina. Ég fagna því grein Jóhanns. Í greininni setur Jóhann fram efasemdir um tillöguna. Er þeim svarað hér:
„Krónan er nauðsynleg“
Jóhann setur fram þá skoðun sveigjanleiki gengis sé mikilvægur og að tenging við evru henti íslensku efnahagslífi illa. Færa má rök fyrir því að sveigjanlegt gengi geti betur endurspeglað samkeppnisstöðu hagkerfisins á hverjum tíma og sértæk skilyrði í hagkerfinu. Þessi skilyrði séu síbreytileg gagnvart okkar helstu viðskiptalöndum, s.s. evru ríkjunum. Þetta rökstyðji sjálfsæða mynt.
Ef sveigjanleiki er svona mikilvægur hvers vegna völdu evrópuþjóðirnar að taka upp sameiginlega mynt? Staða hagkerfa einstakra landa og landssvæða innan evrusvæðisins getur vikið verulega frá stöðu svæðisins í heild. Væri þá ekki nær að hafa mun fleiri gjaldmiðla, fyrir hvert land og jafnvel landsvæði eða borgir? Þessu virðist heimurinn hafa hafnað. Skýringin er sú að þó sveigjanleiki hafi kosti hefur hann líka kostnaðarsama galla. Þeir eru hærri viðskiptakostnaður, óvissa um gengisþróun og minni virk samkeppni.
Um þetta hefur mikið verið fjallað í hagfræði m.a. kenningar Mundells um hagkvæm myntsvæði (sjá t.d. skýrslu Seðlabanka Íslands, Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum). Samkvæmt kenningu Mundells eru færanlegir framleiðsluþættir skilyrði þess að hagkvæmt sé að tvö svæði tilheyri sama myntsvæði. Til viðbótar styður umfang viðskipta milli svæðanna og samleitni hagsveiflna slíkt fyrirkomulag.
Með þátttöku Íslands í evrópska efnahagssvæðinu hefur Ísland einmitt stuðlað að slíkum færanleika framleiðsluþátta. Íslenska hagkerfið er mjög opið, þ.e. umfang utanríkisviðskipta er mjög mikið og stærsta viðskiptablokkin er evrusvæðið. Samantekið mat Seðlabankans í fyrrnefndri skýrslu var að OAE (Optimal Currency Area) vísitala Ísland gagnvart evrusvæðinu væri svipur vísitölu Spánar og Ítalíu og betri en Írlands.
„Ekki er hægt að tryggja varanleika gjaldeyrissamstarfs“
Jóhann telur að ekki sé hægt að tryggja varanleika samstarfs við Evrópusambandið í gjaldeyrismálum. Hann nefnir þessu til stuðnings dæmi um samstarfs sem hefur brostið. Þetta er þörf ábending hjá Jóhanni. Engin mannanna verk eru í eðlinu varanleg. Tvennt skal þó nefnt í þessu samhengi. Frumástæða þess að slíkt samstarf getur brostið eru meiriháttar atburðir, eins og sameining þýsku ríkjanna reyndist fyrir ERM fyrirkomulagið, eða að forsendur samstarfsins hafi verið byggðar á of veikum grunni. Ljóst er að hvorki ég né nokkur annar getur lofað því að nokkurt fyrirkomulag verði alveg varanlegt. Verði alvarlegur brestur á forsendum gæti það leitt til þess að aðilar slíti samstarfinu. Auðvitað er mögulegt að slík skilyrði gætu komið upp. Það hefur þó ekki gerst enn í samstarfi Dana við Evrópusambandið í gjaldeyrismálum. Bent skal á að skilyrði Íslands til að tryggja stöðugleika í samstarfi í gjaldeyrismálum með þann verulega gjaldeyrisvaraforða sem Ísland á eru mög góð.
„Veruleg aðhaldskrafa yrði á íslenskum stjórnvöldum“
Jóhann bendir einnig á að samstarfi gæti fylgt krafa um harðari aðhald í fjármálum hins opinbera. Það er mögulegt. Ólíklegt er hins vegar að sú krafa yrði mikið harðari en Evrópusambandið beitir evrulöndin, sem öll hafa fengið svigrúm til mótvægisaðgerða sem eru hliðstæð því sem Íslensk stjórnvöld hafa sett fram í fjármálaáætlun, að teknu tilliti til góðrar skuldastöðu Íslands.
Ábending um annan ágalla
Jóhann nefnir hins vegar ekki þann ágalla sem ég persónulega hef mestar áhyggjur af. Fast gengi gagnvart evru mundi setja mjög stífan ramma fyrir kjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins yrðu að virða. Ef farið yrði í að skoða betur tillögu okkar Stefáns Más yrði einnig að endurvekja vinnu um samhæfða aðferðafræði og ramma fyrir kjaraviðræður því ekki yrði lengur mögulegt að leiðrétta mistök á þeim vetvangi með því að leyfa krónunni að gefa eftir og leiðrétta raunlaun. Afleiðingar mistaka í kjarasamningsgerð í framtíðinni mundu því leiða til atvinnuleysis. Slíkt þarf að forðast. Á hinn bóginn má færa rök fyrir því að slíkar endurbætur á aðferðafræði við gerð kjarasamninga séu bæði tímabærar og nauðsynlegar.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar.