Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar og hagfræðiprófessor, brást við skrifum mínum um gjaldeyrismál í gær með grein í Kjarnanum þar sem hann eignar mér sjónarmið sem ég hef hvergi sett fram. Raunar gekk hann svo langt að birta þrjár fullyrðingar – innan gæsalappa! – sem hvergi var að finna í grein minni og svara þeim líkt og um væri að ræða beinar tilvitnanir í mig („athugasemdir Jóhanns“ sem væri „farið yfir”). Þetta eru vinnubrögð sem sæma hvorki varaformanni stjórnmálaflokks né fræðimanni við Háskóla Íslands og Daði hlýtur að biðjast afsökunar á þeim.
Lesa
Þýðir þetta endilega að sjálfstæð fljótandi króna sé „nauðsynleg“ fyrir Ísland? Nei. Ókostina þarf einfaldlega að vega og meta með hliðsjón af kostum og göllum núverandi fyrirkomulags. Þá þarf til dæmis að taka með í reikninginn viðskiptakostnað af sjálfstæðri mynt, áhrifin á utanríkisviðskipti og fjárfestingar og það hvernig örmynt getur undir vissum kringumstæðum orðið sjálfstæð uppspretta sveiflna og efnahagslegs óstöðugleika eins og við Íslendingar þekkjum af biturri reynslu. Ég fullyrti ekki að krónan væri „nauðsynleg“ og það var heldur ekki ég sem skrifaði að upptaka evru væri „fjarlægari kostur“ fyrir Ísland og að Evrópusinnar ættu að sætta sig við málamiðlanir – það var varaformaður Viðreisnar sem skrifaði þá grein!
Daði saknar þess að ég nefni þann ágalla sem hann hefur sjálfur mestar áhyggjur af, að „fast gengi gagnvart evru mundi setja mjög stífan ramma fyrir kjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins yrðu að virða“. Ég tæpti samt á þessu í fyrstu athugasemd greinar minnar og benti á að fastgengisstefnu fylgir sú hætta að aðlögun þjóðarbúskaparins þurfi að eiga sér stað í gegnum atvinnustig og lækkun nafnlauna frekar en með lækkun raunlauna vegna gengisveikingar. Þarna eru afdrif Miðjarðarhafslandanna víti til að varast, áminning um að gengisbinding eða aðild að myntbandalagi knýr ekki sjálfkrafa á um umbætur á vinnumarkaði.
Höfundur er MSc. í sagnfræði og evrópskri stjórnmálahagfræði og starfar nú við ráðgjöf fyrir þingflokk Samfylkingarinnar.