Við landamæri Bæjaralands og Austurríkis er að finna borgina Salzburg. Nafn borgarinnar má beinþýða yfir á íslensku sem einfaldlega Saltvirkið. Nafnið er tilkomið vegna auðugura saltnáma í nágrenni virkisins sem sköpuðu jafnframt helstu tekjulind þess og byggðarinnar sem síðan myndaðist í kringum það. Salzburg er ekki mikið stærri en Reykjavík en þar búa rúmlega 150 þúsund manns. Samt sem áður virðist hún töluvert stærri bæði vegna sögulegs mikilvægis síns sem og barokkháhýsa. Helsta virki hennar, Festung Hohensalzburg, sem sömuleiðis má beinþýða yfir á íslensku sem Hásaltvirkiskastali, var byggður við lok elleftu aldar og stækkaði síðan jafnt og þétt á komandi öldum en helsta stækkunin varð síðan í byrjun sextándu aldar. Virkið er jafnframt einn stærsti miðaldakastali í Evrópu sem varðveist hefur algjörlega og situr efst á Festungsberg, eða Kastalafjalli, í rúmlega 500 metra hæð.
Festungsberg er eitt þriggja fjalla er liggja innan borgarinnar, þó sumir myndu eflaust kalla þau aðeins hæðir. Hin tvö fjöllin eru annars vegar Kapuzinerberg, sem hljómar í talmáli eins og það sé skýrt í höfuðið á ítölskum kaffidrykk; og hins vegar Mönchsberg, þar sem finna má annan – þó töluvert minni – miðaldakastala. Hann kom þó til með að gegna mikilvægu hlutverki í styrjöldum líkt og Þrjátíu ára stríðinu. Á Kapuzinerberg er einnig að finna fyrrum villu rithöfundarins Stefans Zweig. Hann flutti til Salzburgar árið 1919 en neyddist þó til að flýja heimili sitt fjórtán árum síðar sökum ofsókna austurrískra fasista. Undir lok tíma síns í Salzburg hófst hann meðal annars handa við skrif á sjálfsævisögu sinni, Veröld sem var.
Þegar horft er til norðvesturs í átt að Festung Hohensalzburg á tindi Festungsberg sést síðan hið rúmlega 2000 metra háa Untersberg sem liggur í aðeins 16 km fjarlægð frá miðborginni og gnæfir „endanlega“ yfir öllu nærliggjandi svæði. Untersberg er jafnframt hluti af Berchtesgaden-Ölpunum sem bjóða upp á allskyns útivistartækifæri nánast í göngufæri frá borginni.
Þó myndu sumir halda því fram að helsta aðdráttarafl Salzburgar sé fyrst og fremst fæðingarstaður tónskáldsins Wolfgang Amadeus Mozarts, sem fæddist á Getreidegasse 9 árið 1756 og ólst þar upp. Í dag er þriðja hæð hússins, þar sem Mozart-fjölskyldan bjó, skýrt merkt með orðunum „Mozart Geburtshaus“, eða „Fæðingarstaður Mozarts“, og má þar finna safn, sem snýr þó að miklu leyti að föður hans, Leopold Mozart. Árið 1773 flutti Mozart-fjölskyldan síðan í íbúð á Marketplatz 8, þar sem finna má safnið „Mozart Wohnhaus“, eða „Íbúð Mozarts“. Það safn fjallar með talsvert ítarlegri hætti um líf tónskáldsins þar til hann flutti til Vínarborgar árið 1781. Salzburg er jafnframt þekkt fyrir tónlistarlíf sitt og þá sérstaklega hina árlegu tónlistarhátið sína sem nú í sumar fagnaði 100 ára afmæli sínu. Hátíðin fer fram fyrir opnum himni á dómkirkjutorgi borgarinnar þar sem leikarar og söngvarar koma fram á dómkirkjutröppunum. Ár hvert er flutt verkið sem opnaði hátíðina í fyrsta sinn árið 1920, Jedermann eftir Hugo von Hofmannsthal.
Þannig má segja að þótt hér búi einungis 150 þúsund manns virðist borgin töluvert fjölmennari árið um kring undir venjulegum kringumstæðum. Þar að auki eru starfræktir fjórir háskólar í borginni sem laða að sér þúsundir nemenda og bæta enn frekar í flóru mannfólks. Þar á meðal er að finna tónlistarháskólann Mozarteum en þó nokkrir íslenskir óperusöngvarar hafa stundað þar nám og enn í dag er að finna íslenska upprennandi söngvara sem nema við skólann. Mozarteum liggur við Mirabell-garðana og Mirabellhöll þar sem frægustu atriði bandarísku söngleikjakvikmyndarinnar The Sound of Music frá árinu 1965 voru tekin upp. Þetta skapar enn einn ferðamannaaðsóknarkraftinn fyrir aðdáendur kvikmyndarinnar en Salzburg er jafnframt aðal sögusvið hennar. En þrátt fyrir háskóla sína hefur Salzburg ekki kannski beint verið þekkt sem mikil „stúdentaborg“ og er öllu heldur kennd við íhaldssemi sína, sterka trú og mikinn auð – sem ekki er þó viðhaldið með saltnámum líkt og forðum.
Ef til vill má segja að íbúar Reykjavíkur kannist við það að lifa með gífurlegum fjölda ferðamanna árið um kring þar sem þeir hafa sótt borgina af miklum ákafa síðastiliðin ár. Jafnvel mætti ganga svo langt að segja að Reykjavík eigi sér hliðstæðu í Salzburg ef horft er út frá aðsókn ferðamanna að borgunum tveimur sem jafnframt skapa þeim báðum lífsnauðsynlega innkomu. Þó ætti slíkur samanburður kannski aðeins rétt á sér ef Dómkirkjan og Fríkirkjan í Reykjavík yrðu margfaldaðar bæði í fjölda og stærð ásamt því að Hallgrímskirkja yrði dregin úr minimalisma sínum yfir í skrautlegri barokkstíl. Sömuleiðis þyrfti Esjan að teygja sig töluvert hærra, rúmlega 1000 metra, til að ná Untersberg.
Samt sem áður eiga báðir þessi ferðamannaáfangastaðir það sameiginlegt að núverandi heimsástand hefur haft veruleg áhrif á umsvif þeirra. Þó er enn talsvert mannlíf hér í Salzburg nú að hausti til þrátt fyrir að minna beri á alþjóðlegum ferðamannaþvögum sem hringsnúast um kirkjur borgarinnar og tilbiðja fæðingarstaði tónskálda. Það sem veldur því að mannlíf virðist að mestu leyti enn lífrænt er að öflugar sóttvarnir eru við lýði í borginni og í öllu Austurríki, sem felast fyrst og fremst í strangri grímuskyldu. Ekki er leyfilegt að fara inn í almenningsrými, svo sem verslanir, veitingastaði, söfn og skóla án þess að bera grímu fyrir vitum. Þessu fylgja allir borgarar hér í Salzburg með þeim einstöku undantekningum þegar fólk kemst upp með að teygja hlýraboli sína yfir vit sín eftir að hafa líklega gleymt grímunni heima. Vanagangur mannlífsins hér og hlýðni við grímskylduna ber ef til vill merki um sterkan samfélagssáttmála hér í Austurríki sem byggist á trausti milli borgara og yfirvalda. Hér heldur lífið áfram rétt eins og áður að mestu leyti fyrir borgara, sem hlýða í staðinn skilyrðislaust fyrirmælum yfirvalda. Leyfilegt er að taka af sér grímu sína á meðan setið er til borðs á veitingastöðum og börum svo hægt sé að neyta matar og drykks.
Raunar er merkilegt að hugsa til þess að Salzburg liggur í aðeins þriggja tíma akstursfjarlægð frá skíðabænum Ischgl. Bærinn hefur það sem af er ári einna helst verið þekktur fyrir þá fótfestu sem kórónuveiran náði þar í byrjun faraldursins. Rekja má að minnsta kosti 2000 smit í Austurríki, Þýskalandi og á Norðurlöndum þangað, en eins og flestir vita er ansi líklegt er að fyrstu kynni okkar Íslendinga við veiruna hafi orðið í gegnum þennan skíðabæ. Ástandið þar, og í Tyrol-héraði öllu, er ennþá „rautt“ samkvæmt smitvarnarvef Evrópu, á meðan Salzburg er í þessum töluðu orðum „appelsínugul“ en verður þó stundum „gul“ inni á milli.
Hér í Salzburg fara íþróttaviðburðir þó að mestu leyti fram en þó án áhorfenda líkt og annars staðar í heiminum. Hér er að finna knattspyrnuliðið FC Red Bull Salzburg sem dregur nafn sitt frá orkudrykkjaframleiðandanum sem á sér heimkynni hér í borg. Í apríl árið 2005 festi stórfyrirtækið Red Bull GmbH kaup á knattspyrnuliðinu SV Austria Salzburg, sem stofnað var árið 1933 og var á þeim tíma helsta flaggskip borgarinnar í íþróttinni. Ekki voru allir stuðningsmenn SV Austria Salzburg ánægðir með nýlega yfirtöku orkudrykkjaframleiðandans, sem breytti ekki einungis nafni félagsins, heldur einnig var hefðbundnum litum liðsins, hvítum og fjólubláum, skipt út fyrir þann rauða og hvíta, í stíl við vörumerki orkudrykksins fræga. Um það leyti sem yfirtakan átti sér stað ákváðu hópur af stuðningsmönnum að taka sig saman og stofna „nýtt“ knattspyrnufélag á grunni þess eldra og halda þannig uppi arfleið þess.
Bæði liðin eigna sér sögu þess liðs sem varð árið 2005 að tveimur liðum, hið „nýja“ FC Red Bull Salzburg gerir slíkt gegn sínum vilja eftir tilmæli frá austurríska knattspyrnusambandinu á meðan að sú saga er að mörgu leyti helsta uppistaða SV Austria Salzburg. Hið fyrrnefnda er auðugur Austurríkismeistari og leikur í Meistaradeild Evrópu ásamt bestu liðum heims fyrir framan rúmlega 30 þúsund heimaáhorfendur, hið síðarnefnda stærir sig af rótgróinni stuðningsmannahreyfingu sinni og leikur í þriðju deild fyrir framan rúmlega 1500 heimaáhorfendur. Ekki er þó alls staðar greið leið fyrir það markaðslíkan sem Red Bull hefur tileinkað sér fyrir knattspyrnufélög. Sökum reglna í Meistaradeild Evrópu heitir félagið þar einungis FC Salzburg og sömuleiðis eru nautin tvö, sem venjulega stangast á fyrir miðju á merki þess, fjarlægð. Ásamt Red Bull Salzburg eru einnig til knattspyrnuliðin Red Bull Leipzig, sem heitir tæknilega séð RB Leipzig vegna kostunarreglna í Þýskalandi svipuðum þeim og í Meistaradeild Evrópu; New York Red Bulls, Red Bull Brasil og Red Bull Ghana. Að sama skapi má einnig finna Red Bull í titli helsta íshokkíliðs Salzburg.
Enn í dag eru starfræktar þrjár saltnámur í nágrenni Salzburgar, í Hallstatt, Hallein og Altaussee. Þær eru þó helst starfræktar í þeim tilgangi að laða að sér ferðamenn en saltnáman í Hallstatt er talin vera 7000 ára gömul og sömuleiðis sú elsta í heimi. Það sem skapar borginni helst auð í dag er þess vegna ekki verslun með salt, heldur frekar orkudrykkir, arfleið gagnsiðbótarinnar í bland við tímalausa tónlistarsköpun og ferðamenn. Jafnframt er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða óperur og verk stórskáldið Mozart hefði mögulega samið til viðbótar hefði hann sopið Red Bull-orkudrykk á meðan á skrifum stóð og öðlast þá „vængi“ sem drykkurinn er sagður veita.
Höfundur er sagnfræðingur.