Í fréttum Arnars Þórs Ingólfssonar í Kjarnanum þann 23. og 24. október sl. er vönduð umfjöllun um tillögur að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem nú eru komnar í formlega kynningu.
Ljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í breytingarnar og á Reykjavíkurborg og ráðgjafar hennar heiður skilið. Þá sérstaklega fyrir metnaðarfull markmið sem eru sett í þágu lýðheilsu og lífsgæða. Í nefndum kynningargögnum segir:
„Við skipulagningu og hönnun íbúðarbyggðar verði gæði húsnæðisins og nærumhverfis þess í fyrirrúmi. Í því samhengi þarf m.a. að horfa til stærða íbúða fyrir mismunandi fjölskyldugerðir og sambýlisform, birtuskilyrða, hljóðgæða og loftgæða í íbúðum, sem og inngörðum og nærumhverfi húsnæðisins, hæð bygginga og fjarlægða milli þeirra, dýpt húsbygginga og hlutfall útisvæða til leiks og dvalar þar sem sólar nýtur bróðurpart dags.“
Greinarhöfundar taka heils hugar undir þessi markmið og fagna þeim. Þeir eru samt áhyggjufullir í ljósi reynslu síðustu ára. Það á eftir að sjá hvernig þessi fallegu markmið skila sér í hverfaskipulagi, deiliskipulagi og endanlegri byggð. Hættan er sú að fjárhagslegir hagsmunir ráði of miklu og byggt verði of mikið og of þétt. Í þessu efni er rétt að nefna mikilvægar niðurstöður fræðimanna:
„Félagsleg vandamál og streituþættir í umhverfi eru að jafnaði meiri og útbreiddari í borgum en úti á landsbyggðinni. Hverfi með miklum þéttleika byggðar einkennast af hærri glæpatíðni, dánartíðni, félagslegri einangrun, loftmengun og hávaða.(Freeman H. Mental health and the environment. 1st ed. London: Churchill Livingstone, 1984.)
Á sviði hljóðvistar er áhyggjuefni að verið er að teikna nýja íbúðabyggð þétt við stofnæðar umferðar. Miklu nær væri að byggja skrifstofubyggingar og atvinnuhúsnæði næst stofnæðum og leyfa íbúabyggðinni að vera í skjóli til þess að tryggja góða hljóðvist og ótruflaðan svefn. Benda má á leiðbeiningar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar í þessu efni. Vandinn er sá að við stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins er glugginn sem bílaumferð dettur niður einungis frá u.þ.b. 01:30 til 04:30 að nóttu. Það er of stuttur svefn. Þung ökutæki sem fara hjá á leyfilegum hraða stofnbrauta vekja fólk upp af svefni. Þetta þekkja íbúar sem búa í nágrenni stofnbrauta. Eru allir búnir að gleyma átökunum við breikkun Reykjanesbrautar í gegnum Garðabæ?
Hér ráða oft sjónarmið fjárfesta og byggingaraðila sem segja ekki markað fyrir atvinnuhúsnæði og vilja byggja íbúðir sem gefa meira í aðra hönd. Það er ómögulegt að láta slík sjónarmið koma niður á lýðheilsu og lífsgæðum með heilsuspillandi íbúðarhúsnæði. Um þetta er m.a. fjallað í grein Lárusar og Ólafs sem ber nafnið Sefur þú nógu vel; ef ekki hvað veldur? sem birtist þann 16.03.2018 í Morgunblaðinu. Í meðfylgjandi töflu sjást alvarleg áhrif svefnleysis af völdum umhverfishávaða á lýðheilsu:
Það er mjög ánægjulegt að Evrópusambandið hefur tekið baráttuna við stigvaxandi hávaða í umhverfinu upp á sína arma. Við Íslendingar erum því skyldug til þess að kortleggja hávaða við helstu umferðaræðar og flugvelli og birta útreiknuð hávaðakort opinberlega. Sérstök ákvæði eru um upplýsingaskyldu gagnvart almenningi. Lesendur eru hvattir til þess að kanna rétt sinn í þessu efni. Aðildarþjóðir eru jafnframt skyldugar til þess að stuðla að fækkun íbúða sem standa í of miklum hávaða með aðgerðaáætlunum. Ný íbúðabyggð þétt við stofnbrautir fer í þveröfuga átt.
Greinarhöfundar sjá ekki betur en að helsta verkfærið hér á landi til þess að skoða aðkomu dagsljóss inn í byggingar við skipulagsvinnu sé notkun skuggavarps. Það er notað til þess að meta aðkomu sólar að ytri skel bygginga og umhverfis þeirra. Skuggavarp er afhent með skipulagsuppdrætti fyrir jafndægur og sumarsólstöður. Ekki er tekið tillit til þeirrar dýrmætu kvöldsólar sem við njótum á Íslandi að sumri til. Sama gildir um takmörkun á dagslýsingu við skýjaðan himinn eða þegar sólar nýtur ekki við. Af þessum sökum hafa greinarhöfundar ásamt fleirum sent inn athugasemdir vegna deiliskipulags nýs Skerjafjarðar. Rannsóknir hafa sýnt að sólarljós stuðlar að aukinni myndum serótóníns sem lyftir geði, þrótti og hækkar kjarnahita líkamans; sem annars er lækkaður að nóttu til. (Turner PL, Van Someren EJ, Mainster MA. The role of environmental light in sleep and health: effects of ocular aging and cataract surgery Sleep Med Rev 2010 Aug;14(4):269-80). Rannsóknir hafa einnig sýnt að betri aðkoma dagsljóss tengist auknum afköstum, betri námsárangri, betri einbeitingu og auknum þægindum; eins og að sjá hluti og umhverfi betur. (Edwards, L., Torcellini, P. (2002) A Literature Review of the Effects of Natural Light on Building Occupants, National Renewable Energy Laboratory, U.S. Department of Energy.)
Þegar lagt er upp með að byggja hátt og þröngt fá efstu hæðirnar bestu skilyrðin. Þar er ávallt góð aðkoma dagsljóss; þegar þess nýtur. Dagsljós nýtist u.þ.b. 4 m inn í íbúðir frá gluggaflötum. Þegar bygging er 15 m djúp er nýtanlegt dagsljós í rétt liðlega helmingi íbúða á efstu hæðum; þar sem gluggar eru í tvær áttir. Þegar dýptin eykst í 20 m eða meira takmarkast nýting dagsljóss líka á efstu hæðum. Allt aðra sögu er að segja um íbúðir á neðstu hæðum. Í þéttri byggð hefur umhverfið mikið að segja um aðkomu dagsljóss þar. Bæði nálægð, lega og hæð nálægra bygginga; sem og svalir og tegund glerja, getur takmarkað aðkomu dagsljóssins sbr. meðfylgjandi ljósmyndir. Gott skipulag og fullnægjandi ákvæði í byggingarreglugerð verða að stuðla að góðri aðkomu dagsljóss inn í íbúðir eigi að tryggja lýðheilsu og lífsgæði íbúa.
Í breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem nú liggur til kynningar, kemur fram að tekið sé tillit til hnattstöðu landsins og umhverfisaðstæðna. Þannig er mikil áhersla lögð á aðkomu dagsljóss; sérstaklega sólarljóss, inn í íbúðir og á græn svæði. Þessu taka greinarhöfundar fagnandi eins og áður segir. Við nánari lestur kemur þó í ljós alvarlegt vandamál sem er gefin viðmið fyrir leyfilega hæð bygginga. Skilgreind eru stór svæði með að hámarki 5 hæðum, önnur svæði eru tilgreind með 5 til 8 hæðum. Þriðji flokkurinn er byggingar hærri en 9 hæðir. Leyfð frávik frá þessu eru -1 til +2 hæðir með rökstuðningi.
Það sem vekur sérstaka athygli í þessu sambandi er að í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá árinu 1966 liggja nákvæmlega sömu lýðheilsu markmið til grundvallar: Vitnað er í hnattstöðu og umhverfisaðstæður. Lögð er mikil áhersla á aðkomu dagsljóss; þar með talið sólarljóss, inn í byggingar. Sérstaklega er tekið fram mikilvægi aðkomu sólar að leiksvæðum barna. Aðferðin árið 1966 til þess að ná þessum markmiðum aðalskipulags er hinsvegar gjörólík því sem áður er greint: Byggja á 1. til 3. hæða íbúðahverfi til að tryggja vistvæna byggð. Mögulega var nálgunin árið 1966 heldur íhaldsöm. Hún tryggir mjög gott dagsljós í íbúðum; mögulega að einhverju leyti á kostnað götulífs. Það má þó á milli vera.
Framangreind markmið aðalskipulags um lýðheilsu og lífsgæði eru ekki tölusett og hafa verður í huga að byggingarreglugerð tryggir ekki þessi gæði. Það er vonandi að almenningur, yfirvöld, Reykjavíkurborg og fjölmiðlar styðji okkur ráðgjafana í að bæta regluverkið til þess að tryggja umrædd markmið. Við mætum gjarnan þögninni þegar við leitum til viðkomandi stofnana um úrbætur í þágu þjóðar. Það tók til að mynda heil 12 ár að fá endurbætur á byggingarreglugerð með tilliti til hljóðvistar. Hún er alls endis ófullnægjandi þegar dagslýsing á í hlut; þ.e. í skipulagi byggðar m.t.t. sólarljóss og dagsbirtu. Nú liggja formlegt erindi og tillögur til úrbóta á borði nýs forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hann hefur ekki staðfest móttöku erindisins þrátt fyrir vinsamlega beiðni þar að lútandi. Óskandi er að forstjórinn og hans fólk einhendi sér í verkið. Ef reynslan lýgur ekki gætum við þurft víðtækan stuðning almennings og fjölmiðla til þess að koma góðu til leiðar. Það væri ómögulegt að þurfa aftur að bíða í 12 ár eftir sjálfsögðum endurbótum á regluverkinu. Við getum litið til nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum í þessu efni.
Hér með hvetja greinarhöfundar sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eindregið til þess að endurskoða þéttingaráform sín í þágu lýðheilsu og lífsgæða. Förum varlega og forðumst að nýjar íbúðir standi í óbærilegum hávaða og skugga. Tryggjum að götumyndir veiti birtu og yl í okkar kalda landi.
Dr. Ásta Logadóttir er verkfræðingur hjá Lotu, Dr. Lárus S. Guðmundsson er dósent við Háskóla Íslands og Ólafur Hjálmarsson er verkfræðingur hjá Trivium ráðgjöf.
Myndatexti 2: Í þéttri byggð stela svalir dýrmætu dagsljósi þegar þær eru staðsettar yfir gluggum neðri hæða