„Lofthreinsiver á Bakka gæti skapað allt að 500 störf”, stendur á vef RÚV 30. október. Í fréttinni segir svo: „Fyrirtækið hyggst nú reisa loftorkuver á Bakka við Húsavík, sem gerir kleift að hreinsa og binda eina milljón tonna af koltvísýringi úr andrúmslofti. „Og svo ætlum [við] að nýta það til að framleiða afleiddar afurðir og hugmyndin er að vera með CO2 til matvælaframleiðslu og síðan að framleiða grænt eldsneyti,“ segir Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Carbon Iceland.”
Eru stjórnvöld eða aðrir sem eru ábyrgir fyrir ráðstöfun fjármuna almennings ginnkeyptir fyrir þessu „tilboði”?
Lítum fyrst á fjármálin í grófum dráttum. Með þessari aðferð er kostnaður við að framleiða hvert tonn af CO2 a.m.k. $200. Markaðsverð er aftur á móti á bilinu $25 til $50 á tonn og flutningskostnaður getur verið annað eins. Þetta gengur ekki upp nema með verulegum stuðningi í gegnum styrki og afskrifað fjármagn. Það virðist því langt frá að útflutningur á CO2 frá Bakka geti orðið hagkvæmur.
Um hvað snýst tæknin og hver er ávinningurinn fyrir umhverfið? Ætlunin er að fanga CO2 sem að öðrum kosti dreifðist um andrúmsloftið og ylli hlýnun. Í Bakkaverinu á að fanga CO2 beint úr venjulegu andrúmslofti þar sem styrkur CO2 er mjög lágur (0,04%). Til samanburðar er CO2 fangað úr hveralofti hjá Carbon Recycling í Svartsengi en þar getur styrkur CO2 numið tugum prósenta. Aukinn styrkur eykur skilvirkni, verulega.
Lítum aðeins á framleiðslu afleiddra afurða, sem kostar að sjálfsögðu heilmikla fjárfestingu í viðbót, en gæti skapað miklu fleiri störf en „lofthreinsiverið”.
CO2 til matvælaframleiðslu: Hér er væntanlega átt við hækkun á CO2 styrk til að nota við ylrækt og til íblöndunar í drykkjarvöru. Þeim þörfum má fullnægja á hagkvæman hátt með vinnslu CO2 úr heitum uppsprettum líkt og gert er í Hæðargarði í Grímsnesi, og þar er fangað CO2 sem annars sleppur út.
CO2 til að framleiða grænt eldsneyti: Einfaldast er að gera þetta með því að bæta við vetni og framleiða þannig metanól líkt og gert er hjá Carbon Recycling í Svartsengi. Vetnið fæst með rafgreiningu á vatni líkt og gert var í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Ekki er hægt að sjá að verksmiðja á Bakka geti keppt við verksmiðjuna í Svartsengi, eða verksmiðjur sem myndu nýta háan styrk CO2 sem kemur frá iðjuverunum í Hvalfirði og Reyðarfirði. Og svo er hagkvæmast að setja rafmagnið beint á farartækin!
Á heimsvísu er stór hluti fangaðs CO2 nýttur til framleiðslu á köfnunarefnisáburði, þar sem CO2 er bundið ammoníaki til að mynda þvagefni (urea). Við notkun áburðarins losnar ammoníakið og er nýtt af gróðri, en CO2 losnar út í andrúmsloftið. Miklu nærtækara er að framleiða ammoníum nítrat áburð (kjarna), líkt og gert var í Gufunesi, en til þess þarf ekki CO2.
Í stuttu máli: Það virðast hvorki efnahagsleg eða umhverfisrök fyrir „lofthreinsiveri” á Bakka.
Höfundur er lífefnafræðingur og áhugamaður um umhverfisvernd.