Að þvælast fyrir eigin getu

Svavar Guðmundsson fjallar um samskipti sín við Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu.

Auglýsing

Það getur oft fylgt því óþarfa streita að búa við hindrun hverskonar sem er hamlandi að einhverju leyti í daglega lífinu. Við fjölyrkjarnir sem notumst við ýmis konar hjálpartæki erum auðsjáanlega úrræðagóð þegar við þurfum að komast á milli staða, eins og t.a.m. að heimsækja stofnanir.

Óþarflega oft hef ég rekið mig harkalega á vegg þegar kemur að samskiptum við sumar opinberar stofnanir auk þess sem að hjá þeim hef ég mætt fordómum. Álagið og streitan sem skapast við slík samskipti er fjarri því að einfalda daglegt líf manns, þvert á móti gerir hún það enn erfiðara. Gæti ég nefnt þó nokkrar sem dæmi en ætla bíða með það fram yfir bóluefni og jól, bólujól. 

Ég er svo sem engin undantekning, við lesum um raunir margra einstaklinga og atvinnulífið varðandi samskiptum við ýmsar stofnanir sem oft þvælast ansi mikið fyrir sjálfum sér. Oft les maður að hjá fyrirtækjum sé margra mánaða bið eftir hinum einföldustu svörum og svo þvælist stór hópur einstaklinga og fyrirtækja um alla borg og bý með kærubréf á milli allra kærunefndanna með öll krúttlegu nöfnin. Kæra Ísland!

Að þvælast fyrir eigin getu

Við getum aldrei alveg skilið þjáningu annarra, því við göngum ekki í þeirra skóm. En það er alger lágmarkskrafa að stofnanir sem eiga aðstoða fólk sem til þeirra leitar skuli ekki sífellt vera með „stæla“ með ítrekuðu svar- og sinnuleysi gagnvart sumum skjólstæðingum sínum. Ég myndi t.d. kæra eina stofnun til Umboðsmanns Alþingis og fleiri stofnana ef ekki tæki svo langan tíma að fá úrskurð frá þeim og því birti ég þessa grein hér í staðinn og sem víðast. En ég tel að Umboðsmaður Alþingis beri af á málshraðameðferðum engu að síður. Ætli ég sendi honum þetta ekki bara, þó ég viti að hann sé að drukkna í kærum, blessaður.

Stofnunin á þann vafasama heiður að bera lengsta stofnanaheiti á Íslandi. Og nafnið þvælist í raun jafnmikið fyrir stofnuninni sjálfri og ráðuneyti þess, því ítrekað ruglast þau á heitinu, sem greint er frá hér að neðan. Já, og heiti þessarar tilteknu stofnunar, sem ætlað er að þjónusta blinda og sjónskerta, er þeim alger tungubrjótur þar sem þau sjá ekki nafnið, því finnst stofnunin eðlilegt að hafa það svona.

Tækniframfarir í í þróun hjálpartækja sem auðvelda blindum og sjónskertum daglegt líf eru á mikilli siglingu og ég fylgist mikið með þeirri þróun svo ég eigi möguleika á bæta lífsgæði mín. Hver myndi ekki gera það? Ég var t.a.m. eini Íslendingurinn sem fór fyrra á stærstu blindratæknisýningu í heimi sem haldin er ár hvert víða í evrópu, og hafði ég mikið gagn og gaman af.

Í lok síðasta árs lagði ég í víking til London þar sem ég keypti mér snjallgleraugu en þau minna frekar á skíðagleraugu í útliti en venjuleg gleraugu; þau eru samt fislétt og afar einföld í notkun. Gleraugun kostuðu 600.000.- krónur fyrir utan ferðakostnað en ég fór út í tvígang með aðstoðarmanni (vini) til þess að kynna mér ólík gleraugu af þessari gerð. 

Þessi gleraugu virka vel á 6 ólíkar tegundir augnsjúkdóma fyrir lögblinda og mjög sjóndapra og þau gagnast mér á margan hátt þó ég geti ekki gengið með þau úti, né keyrt bíl o.s.frv.. Ég get m.a. lesið öll bréf með þeim, get horft á kappleik í sjónvarpi úr venjulegri fjarlægð, séð stúlkurnar, horft dreyminn til hafs og fylgst með fuglum og skipum, en ekkert af þessu gat í 5 ár þar á undan.

Þessi gleraugu eru það besta sem til er á markaðnum í dag í blindratækni. Ég bauðst til þess að kynna gleraugun fyrir lögblindum og sjónskertum einstaklingum innan Blindrafélagsins en þeirri beiðni hefur aldrei verið svarað af forráðamönnum þess og ekki er hægt að kenna Covid -19 um; því ég bauð þeim það áður en faraldurinn skall á. 

Auglýsing
Já, það er sárt að segja það og því nauðsynlegt, að ég hef ekki orðið var við miklar framfarir í málefnum blindra og sjónskertra hérlendis síðan ég kynntist félaginu fyrir um 6 árum. Félagið minnir mig að mörgu leyti á stjórnlaust skemmtiferðaskip með óþarfa mörgum laumufarþegum um borð. Og aðrir undirmenn mótmæla foringjanum aldrei því þá eiga þeir raunverulega hættu á að missa starfs sitt og íverustað innan félagsins eins og við sem dæmin þekkja.. Stjórnunarstíllinn er ekki ósvipaður og andinn á Júlíusi Geirmundssyni, með sjálflæga kallinn í brúnni. 

Einföld spurning borin upp

Í mars á þessu ári hafði ég samband við Sjúkratryggingar til að kanna hvort þær tækju einhvern þátt í kaupum á gleraugunum. Eftir smátíma komst ég í samband við deildarstjóra sem benti mér á Sjúkratryggingar tækju ekki þátt í þessu en sagði svo orðrétt:

„Þú átt að tala við stofnunina, æ nú get ég ómögulega munað nafnið á henni, eitthvað þjónusta, æ, það er svo langt að ég get aldrei munað það,“ sagði hún, ég skal bara segja þér það sagði ég við hana. Hún heitir Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu, og hún hló og sagði svo já, einmitt hún. En stofnunin kallar sig þess á milli einfaldlega Miðstöðin. Hún á að sjá um hluta endurgreiðslna á gleraugum skv. lögum, sagði þessi starfsmaður að lokum við mig.

Það er náttúrlega stórmerkilegt þegar deildarstjóri Sjúkratrygginga getur ekki borið fram nafn á stofnun sem ætla mætti að væri hluti af heilbrigðiskerfinu. Bókstafirnir eru jú 95.

Ég hafði því samband við Miðstöðina með langa nafnið í mars síðastliðnum.

Það er ekki auðvelt að vera stuttorður þegar kemur að samskiptum við stofnun með svo mikið nafn, og hef ég í tvígang þurft að reka erindi mín í fjölmiðlum vegna sinnu- og getuleysis sumra starfsmanna hennar, og hef ég þegið mikinn fýlupokasvip í staðinn, þó ég sjá hann ekki, en auðvelt að skynja hann með lokuð augun, og gæti mér ekki verið meira sama. En á fýlusvipur þeirra að bitna á mér, nei. Frá árinu 2017 hafa 4 einstaklingar gengt starfi forstjóra stofnunarinnar. Það geti verið doktorsverkefni að rannsaka fyrir einhvern stjórnsýslufræðinginn, hvað veldur. Margir góðir starfsmenn hafa verið reknir af þessum stoppistöðvarforstjórum. 

Og ég hef ekkert sérstaklega gaman af að standa í þessum skrifum og kvörtunum opinberlega því tími minn er dýrmætur og jafnvel dýrmætari en annarra því ég þarf að hafa meira fyrir hlutunum vegna sjóndepru minnar. Auk þess á ég engan vin sem nennir að hlusta á þessa þvælukenndu baráttu mína við þessa umbúðamiklu stofnun.

Að mismuna skjólstæðingum

Ef þú ætlar að hlaupa hratt - skaltu gera það einn. Sinnu- og svarleysið hefur verið gegnumgangandi frá því ég bar upp erindið. Spurningin var einföld, sú sama og ég hafði spurt Sjúkratryggingar stuttu áður. Svar barst stuttu síðar þess efnis málið þyrfti skoðun. Ég get skilið það þar sem gleraugun keypti ég að mínu frumkvæði. Því enda vissi ég það hefði aldrei þýtt að byrja á hinum endanum, sem sagt að biðja Miðstöðina að kaupa svona gleraugu til landsins til að leyfa prófun á þeim. Þá leið prófaði ég árið 2017 sem endaði með blaðagrein sem heitir „gleraugun í kassanum“. Ekki ætla ég að rekja feluleikinn og svarleysið næstu mánuðina, það skín í gegn annarsstaðar.

Ég fékk loksins eitthvað áþreifanlegt svar tæpum 4 mánuðum síðar frá forstjóra stofnunarinnar, í júlí. Þar kom hann fram með afsökunarbeiðni, eina ferðina enn. Hann kom þá með tillögu að stofnunin keypti helminginn í gleraugunum í stað þess að veita styrk til kaupa á þeim, fyrst þau vildu ekki styrkja kaupin beint því það ætti víst að vera of flókið fyrir mig skattalega. Kaupin yrðu með því fororði að ég myndi leyfa þeim lögblindu sem það vildu að prófa þau. 

Ég sagðist skyldi hugsa málið en tók það skýrt fram að ég myndi alltaf eiga meirihlutann í gleraugunum, já, já ekki málið sagði núverandi settur forstjóri, Bjarni Grímsson. Í framhaldinu hugsaði ég með mér, ekki er öll vitleysan eins, að stofnun úti í bæ ætli að eiga helming í gleraugum á móti lögblindum manni, þeir eigi hægra glerið og ég það vinstra.. Já, og það tók virkilega um 4 mánuði að taka þessa ákvörðun. Skyldi Sjálfsbjörg eiga helming í einhverjum hjólastólum notenda þeirra, t.d. annað dekkið.? 

Að hjálpa öðrum „getur“ gefið fordæmi

Nokkrum dögum síðar tilkynnti ég að ég væri til í þetta, þ.e. að kenna ný-lögblindum og öðrum með þannig sjón á gleraugun þar sem ekki er um stóran hóp að ræða. Ég myndi glaður hjálpa þeim sem vildu prófa og þar með bæta lífsgæði sín þó gleraugun henti ekki öllum. Ég myndi eiga 51% í gleraugunum og Miðstöðin 49 % og ég hefði þau í minni umsjá og væri ávallt með yfirráð. Þannig lauk okkar samtali, samþykkt af beggja hálfu.

Dregst nú málið á langinn, forstjórinn tók upp á því að láta hvorki ná í sig í gegnum skiptiborðið né svara tölvupóstum næstu tvo mánuði eða svo. Stofnanaþolinmæði, stofnanabiðlund, stofnanaskilningur og stofnanaþreyta, allt eru þetta orð sem eru á hraðri leið inn í tungumálið okkar.

Líkleg skýring á því gæti verið sífellt styttri vinnuvika samhliða allri fjölda háskólagráðuvæðingunni, sem leiðir af sér menntunarákvarðanafælni sem leiðir af sér að ð einföldustu mál verða að risavandamálum. Þess á milli virðast menn alltaf á verkferlagreiningafundum um hvernig leysa eigi hin einföldustu mál, og áður búið er að afreka nokkuð er vinnudagurinn skyndilega búinn. Matseljan fer síðan síðust úr húsi því kaffibollauppvaskið var óvenju mikið þennan dag.

Aulaskapurinn er úti um allt, enn eina ferðina. Ég stór efast um að setti forstjórinn gæti tekið skyndiákvörðun um að kaupa nýja tegund öryggishjálma handa sjómönnum og það væri sólarhringur í brottför.

Stofnanastælar

Mér barst síðan afsökunarbréf um hvað málið hefði dregist á langinn, eða þann 6. okt. síðastliðinn, ásamt samkomulagi um aðkomu Miðstöðvarinnar að þessum gjörningi. Samkomulagið var aðeins 8 línur. Já, Það tók forstjórann semsagt 6 mánuði að skrifa 8 línu samkomulag og það um notkun á gleraugum fyrir lögblinda og sjóndapra. Það ætti að veita slóðaorðuna fyrir svona frammistöðu en mér skylst að Vegagerðin veiti hana árlega fyrir sérlega skapandi slóðagang.

og hér eftirfarandi eru aðalatriði þess: (3 af 8 línunum) 

„Svavar mun reyna tækið og deila reynslu sinni til starfsmanna Miðstöðvarinnar eftir samráði og samkomulagi a.m.k. sem svarar um 50 vinnutímum. Svavar mun einnig verða tilbúinn til að leiðbeina og kenna öðrum notendum Miðstöðvarinnar á þessi tæki“.

Þetta svokallaða samkomulag er ekkert annað en hræsni, hroki og stælar því aldrei áður hafði verið talað um einhvern tímafjölda. Sjái hver sem vill sjá! Sjálfur fékk ég hálftíma kennslu á gleraugun úti í London og hefur það dugað mér vel. Hvað á ég þá að fara kenna starfsmönnum stofnunarinnar í 50 klst., en einungis tveir sjóntækjafræðingar starfa þarna en ekki 100 og eru þeir einu sem á tækið þyrftu að læra. Það sér það hver sem vill sjá, persónuleg óvild í minn garð þar sem ég hef gagnrýnt stofnunina opinberlega og ekki vanþörf á, og nægu er af taka í þeim málum.

Alsjáandi manneskja lærir á Iris Vision gleraugun á 10 mínútum (Youtube). Það tók stofnunina sem sagt hálft ár að komast að þessari niðurstöðu. Og auðvitað eiga þessi vinnubrögð ekki að koma mér á óvart í ljósi fyrri greinaskrifa minna um starfsemi stofnunina. Það er eðlilegt að stofnanir læri af gagnrýni notenda hennar í stað þess að vígbúast af gremju.

Á þessum tímapunkti ákvað ég að eiga gleraugun einn og standa ekki í þessum fíflaskap, við stofnun sem er með vandlætingu og stæla við skjólstæðing sinn. Í raun ætti að reka sitjandi forstjórann og yfirsjóntækjafræðinginn fyrir ömurleg vinnubrögð, ekki bara þessi heldir líka eldri vinnubrögð sbr. Gleraugun í kassanum þar sem það tók mig og aðra hálft ár að prófa gleraugu sem lágu ofan í skúffu hjá sjóntækjafræðingnum. Þessi tegund af framkomu er einhverskonar fötlun.

Ég ákvað engu að síður að svara til baka svona til þess að sjá hvort einhver glóra væri í þessu forstjóra greyi og yfirsjóntækjafræðingum, þó ég væri búinn að taka mína ákvörðun. 

Svar mitt var einfalt: fækkið í 25 tíma í stað 50. Kveðja Svavar 

Mér hefur reyndar ekki borist svar frá því 6. október við tillögu minni þrátt fyrir ítrekun þess í tvígang.. Ég segi við alsjáandi: þið eruð heppin að þurfa ekki að eiga við þessa stofnun því hún er í raun streituvaldur í stað hins óskrifaða orð sem þjónusta er. Það er til skammar hvernig svona starfsmenn fara með tíma fólks og fjármuni skattgreiðenda. 

Á þessum tíma sem málið hefur þvælst á milli lappana á þeim misstu vafalítið einhverjir skjólstæðingar stofnunarinnar tækifæri á að bæta lífsgæði sín með því að prófa gleraugun, en það er auðsjáanlega ekki forgangs- eða hagsmunamál forstjórans og sjóntækjafræðingana. Auðvitað er ágætis starfsfólk þarna inn á milli, en þeir forstjórar sem þarna hafa verið meira uppteknir af skjalastjórnun, að gluggarnir séu hreinir og því að fægja langa nafnið á stofnuninni.

Til fróðleiks hefur verið úthlutað nokkrum blindrahundum í ár og er það vel. Nokkrir starfsmenn Blindrafélagsins hafa fengið úthlutað leiðsöguhund. Ég og þeir sem hafa fengið hundana úthlutað erum allri skilgreindir lögblindir en leiðsöguhundur hentar ekki öllum og hefur það ekki einungis með lögblindu að gera. Blindrahundur hentar mér t.d. ekki.

Kostnaður við kaup og þjálfun á blindrahundi er á bilinu 8-10 milljónir . Gleraugun umræddu kostuðu aðeins kr. 600.þúsund kr. Semsagt brot af kostnaði við hund. Þessi félagi minn sem er starfsmaður Blindrafélagsins sótti um hund í janúar og fékk hann í september já, allt á þessu ári. Og hann þarf ekki að borga krónu í honum, né vera með hann á 50 tíma tískusýningu hjá stofnuninni með langa nafnið sem fæstir geta borið rétt fram. Já, það eru ekki allir jafnir fyrir stofnanasykursýkinni.

Auglýst eftir nýjum forstjóra

Nú er enn á ný verið að auglýsa eftir forstjóra stofnunarinnar en hún heyrir undir Félagsmálaráðuneytið. Ég veit ekki mikið um starfsgetu þeirrar manneskju sem skrifaði auglýsinguna en nafnið á stofnuninni er tiltekið í þrígang í auglýsingunni en einungis einu sinni rétt en í hin tvö skiptin kolrangt og í raun vantar 24 bókstafi í nafnið svo það komi rétt fram í auglýsingunni. 

Stofnunin breytti um nafn árið 2017 og það er algerlega magnað að ráðuneytisstjórinn sem skrifar undir auglýsinguna skuli ekki vita betur eða sjá svo afgerandi og fáránlega augljósa framsetningu. Sá sem fær ekki starfið hlýtur örugglega að kæra þegar hann áttar sig á því að hann hafi sótt um hjá vitlausri stofnun og kærir síðan öll vinnubrögðin til kærunefndar í loftslagsmálum því bréfið fór inn um ranga bréfalúgu.

Að kunna ekki sitt eigið nafn

Stofnunin virðist nú vart vita um sitt eigið rétta nafn heldur, því t.a.m. á samfélagsmiðlum og annarsstaðar notar hún enn nafnið sem var aflagt fyrir rúmum 3 árum, og ef komið er inn í anddyri hennar í Hamrahlíð 17, er áberandi skilti sem vísar á starfsemi stofnunarinnar þá er þar einn notast við gamla nafnið, þetta er alveg frábærlega framúrskarandi framtakssemi hjá yfirmönnum þessarar stofnunar. Nú þegar Creditinfo er að birta lista yfir þá sem borga reikningana sína á eindaga og kallar þau framúrskarandi fyrir skilvísi sína, væri ekki úr vegi að taka upp nýja keppni meðal íslenskra fyrirtækja sem gæti heitið „Að standa undir eigin nafni“. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum hver yrði sigurvegari.

Það er ekki eins og það vanti bara einhverja kommu eða þvíumlíkt, nei, nei, í gamla nafninu voru 71 bókstafur en 95 bókstafir í nýja nafninu sem tekið var upp 1. janúar, 2018, og því hefur ekki enn verið breytt í anddyri stofnunarinnar né víða annarsstaðar.

Auglýsing
Einhverjum kann að finnast þetta óþarfa smámunasemi í mér, en ef maður getur ekki haft nafnið sitt á hreinu, hvað er þá í lagi? Já, og sjálft ráðuneytið sem stofnunin heyrir undir er ekki með nafnið á hreinu eins og má lesa í starfsauglýsingunni. Og flækjustigið í hæstu hæðum varðandi aðkomu að einföldum hjálpartækjum að manni fer að gruna matseljuna um græsku.

Það skyldi þó ekki vera að matseljan sé með grugg í poka þá daga sem hún fer síðust úr húsi, þá daga sem kaffidrykkjan fer úr böndunum. það hlýtur að vera skýring á orkuleysi forstjórans og sumra starfsmanna á hrollvekjandi seinagangi og fádæma framtaksleysi.

Í raun þyrfti að gera stjórnsýslu- og vandræðagangsúttekt á starfseminni og kanna hvað veldur öllu þessu framtaksleysi og kanna þessi tíðu forstjóraskipti en engin af fyrri forstjórum hefur haft grunnþekkingu á málaflokknum áður en til starfans var komið og ekki ósennilegt að þar liggi metnaðarleysið grafið.

Í núverandi starfsauglýsingu sem rann út í gær, þann 10. nóvember 2020, var eftirfarandi skilyrða krafist: 

  1. Þekking og reynsla af þeim málaflokkum sem heyra undir stofnunina.
  2. Metnaður og vilji til að ná árangri.
  3. Frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og skipulagshæfni.

Engum af þessum eiginleikum hef ég kynnst í fari núverandi og undangenginna forstjóra því miður, og er ég ekki einn á þeim sorgarbáti.

Það væri óskandi að sá forstjóri fyndist nú sem fellur að ofangreindir hæfileikalýsingu svo bjarga megi jólunum þetta árið og þeim næstu. Það væri mun skemmtilegra að skrifa stofnuninni fallegt jólakort á næstu jólum í stað þessa bréfs og senda þeim um leið mandarínukassa. 

Það getur tæpast verið svo flókið að finna réttu manneskjuna í starfið og ráðuneytið ætti að girða sig í brók og einbeita sér örlítið að því sem það er að gera. Blindur maður sá meira að segja þessa fáránlega illa skrifuðu auglýsingu. 

Ps. Ég býðst til að prófarkarlesa allt sem ráðuneytið sendir út frá sér fyrir ánægjuna eina. Þannig væri hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir sem nýta mætti til að kaupa ólík hjálpartæki handa skapandi og úrræðagóðum fjölyrkjum þessa lands.

Höfundur er fjölyrki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skriður á rannsókn saksóknara og skattayfirvalda á meintum brotum Samherja
Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hafa yfirheyrt stjórnendur Samherja. Embættin hafa fengið aðgang að miklu magni gagna, meðal annars frá fyrrverandi endurskoðanda Samherja og úr rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi fyrirtækisins.
Kjarninn 23. júní 2021
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar