Fórnir unga fólksins

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar um hagsmuni ungs fólks á tímum COVID-19 og bendir á að þeir séu samofnir hagsmunum samfélagsins okkar til framtíðar.

Auglýsing

Það er sívaxandi þungi í umræðu um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana. Tíminn mun leiða í ljós hvort ráðstafanir stjórnvalda á þessum sérkennilegu tímum samræmast áskilnaðinum um meðalhóf í ákvarðanatöku, sérstaklega þeim sem skerða tilfinnanlega frelsi fólks til ferða, athafna og einkalífs. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur af því tilefni ítrekað bent á mikilvægi þess að við festumst ekki í farinu um hvað þessar núverandi aðgerðir stjórnvalda valdi miklum skaða, heldur hvað gerist ef við missum tökin. Einmitt þess vegna er að mínu mati mikilvægt að stjórnvöld séu vel með á nótunum og leiti allra leiða til að draga úr skaðlegum langtímaafleiðingum þeirra sóttvarnaaðgerða sem gripið hefur verið til. 

Að þessu sögðu er ljóst að aðstæður ólíkra hópa fólks hafa fengið mismikla athygli stjórnvalda. Athygli hefur eðlilega beinst að frelsi fólks til vinnu, enda dyljast engum neikvæðar afleiðingar af því að skerða það frelsi auk þess sem þær koma mjög fljótt fram. Okkur ber hins vegar einfaldlega skylda til að líta lengra í viðbrögðum okkar.  

Þess hefur verið gætt að skólastarf barna sé því sem næst órofið, en við vitum að allar takmarkanir á því eru til þess fallnar að hafa áhrif á tækifæri þessa hóps í framtíðinni; lífsgæði, getu til frekara náms, félagsþroska og almenns heilbrigðis. Þess vegna hefur til dæmis Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lagst alfarið gegn því að grunnskólum sé lokað. 

Tímar sem koma ekki aftur

Hingað til hefur þó ekki verið nægilegur fókus á sömu sjónarmið þegar kemur að unga fólkinu okkar, sem hefur lokið grunnskóla, og afleiðingum COVID-ráðstafana á þann stóra hóp. Það verður að segjast að fórnir þess hóps hafi ekki verið metnar að verðleikum. Viðbrögð stjórnvalda sem snúa að kennslu í framhaldsskólum og háskólum hafa verið ómarkviss og misvísandi og enn ekki ljóst hvort og hvenær staðnám hefst á ný, hvernig próftöku jólaprófa verður háttað og hvaða forsendur eru að baki ólíkra inngripa á milli skólastiga.

Auglýsing
Hjá háskólum, líkt og hjá framhaldsskólum, hefur mikill tími og orka farið í það að bregðast við síbreytilegum aðstæðum og aðgerðum vegna sóttvarnaaðgerða. Af hálfu stjórnenda hefur verið kallað eftir því að stjórnvöld tryggi festu til lengri tíma svo hægt sé að setja hagsmuni nemenda framar í forgangsröðina. Fyrirsjáanleiki og gegnsæi eru lykilorð hér sem og annars staðar þegar kemur að getu okkar til að bregðast við faraldrinum á besta mögulegan hátt. Við erum ekki lengur að kljást við fordæmalausa tíma. 

Með fullri virðingu fyrir mikilvægi fjarnáms, þá er það ekki síst félagslegi þátturinn sem reynir mest á núna. Nemendur í framhaldsskólum og háskólum eignast þar vini sem endast út ævina. Takmarkanir á tækifærum nemenda til að sitja saman í kennslustund eða hittast á milli kennslustunda og á skemmtunum utan kennslu eru til þess fallnar að svipta þennan hóp tíma og tækifærum sem koma ekki aftur. Við útskrifumst bara einu sinni úr framhaldsskóla. Útskriftir úr háskóla eru líka stórmál. Eins er það með fyrstu skrefin í framhaldsskóla. Spennan og tilhlökkunin er eitthvað sem við munum flest. Þetta eru tímar sem koma ekki aftur. Upplifun sem verður ekki endursköpuð síðar. 

Risavaxnar áskoranir

Kannanir sýna að nemendur eru ekki beinlínis óánægðir með það sem verið er að gera, en þeim líður almennt illa í þessum aðstæðum. Það hefur komið fram í fjölmiðlum, í samtölum við skólastjórnendur og námsráðgjafa skólanna að nemendur hafi sýnt mikla seiglu og dugnað en farið sé að bera á „zoom-þreytu“ meðal þeirra. Hér spilar svo auðvitað líka inn í að aðstaða nemenda til að vinna heima er mjög mismunandi. Því má ekki gleyma. Það er einfaldlega lykilatriði að finna leiðir til að opna dyr skólanna fyrir þessum hópi eins fljótt og auðið er. Og tryggja aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu samhliða vegna þess að auk félagslega þáttarins þurfum við að hlúa þeim sálræna. 

Eftir því sem núverandi aðstæður dragast á langinn, eykst hættan á því að hópur nemenda gefist einfaldlega upp. Verði það raunin á sama tíma og litla sem enga vinnu er að fá, þá er það uppskrift að týndri kynslóð. 

Við vissum fyrir tíma COVID að unga kynslóðin stæði frammi fyrir risavöxnum áskorunum, ekki síst þegar litið er til umhverfismála. Nú vitum við að þessi hópur mun stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu í heimi sem verður líklega töluvert frábrugðinn heiminum fyrir heimsfaraldurinn. Það má færa rök fyrir því að áhersla á að svara þessum aðstæðum, sé of neðarlega í forgangsröðuninni. Við þurfum líka að meta áhrif lokana og nálægðartakmarkana á kaffihús, skemmtistaði og bari, íþróttaiðkun og annað slíkt með tilliti til aðstæðna ungs fólks sem þessar aðgerðir bitna á. Fjarkennsla ein og sér getur ekki komið í staðinn fyrir tækifæri nemenda til að efla félagsþroska, tengjast vináttuböndum, slíta vináttu, skemmta sér, eignast kærasta og kærustur, vinna og svo ótal margt fleira.

Það þarf stór og ákveðin skref

Síðast en ekki síst þarf að meta áhrif sóttvarnaráðstafana og í kjölfarið efnahagsráðstafana á tekjumöguleika stúdenta. Aukið atvinnuleysi leggst þungt á samfélag þeirra þar sem vinna með námi er ekki bara algeng, heldur er normið, sérstaklega á háskólastiginu. Nú eru tekjumöguleikarnir skertir hjá þessum hópi og lítið hefur verið gert til að bæta þeim tapið. Það hefur hvorki verið gripið til þess ráðs að hækka grunnframfærslu námslána né að hækka frítekjumörkin, sem gæti nýst sumum þeirra vel. Þá hefur ekki verið gengið í að tryggja námsmönnum tímabundin réttindi til atvinnuleysisbóta til að bæta fyrir vinnutap þeirra eða auka að ráði svigrúm fólks til vinnu meðfram atvinnuleysisbótum. Þar þurfum við að gera betur. 

Við  megum ekki bara að bíða af okkur ástandið núna, í von um að allt færist í fastar skorður innan skamms. Að skekkjurnar sem myndast við núverandi aðstæður réttist af sjálfu sér. Við verðum þvert á móti að finna svör við því hvernig við getum stutt sérstaklega við ungt fólk – núna og ekki síður í þeim heimi sem tekur við. Skrefin þurfa að vera markviss og nægilega stór til þess að gagnast réttum hópi á réttum tíma.  Það er án nokkurs vafa það skynsamlegasta sem við getum gert. Hagsmunir ungs fólks eru ekki léttvægir og það sem meira er, hagsmunir ungs fólks eru samofnir hagsmunum samfélagsins okkar til framtíðar. Það verður ekki slitið úr samhengi. 

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar