Þýska fyrirtækið Fraunhofer hefur skilað skýrslu sinni um samkeppnisstöðu stóriðju á Íslandi m.t.t. orkuverðs. Almenna niðurstaðan vegna álvera er að álverksmiðjurnar á Íslandi njóta samkeppnishæfs verðs í alþjóðlegu samhengi (aluminium producing industries have relatively competitive electricity prices in Iceland when compared at a global level). Þessi niðurstaða Fraunhofer kemur engum á óvart, enda hefur Ísland um langt skeið verið töluvert langt undir meðalverði til álvera í heiminum og nokkrir orkusamninganna hér kveða á um verð sem er með því alla lægsta sem þekkist í áliðnaði heimsins.
Í samanburði sínum leit Fraunhofer sérstaklega til þriggja landa sem eru með umtalsverðan áliðnað og er þar um að ræða Kanada, Noreg og Þýskaland. Samanburðurinn við Kanada á vel að merkja einungis við um álverin í Québec-fylki, en þar er jú vagga kanadíska áliðnaðarins og átta af níu kanadískum álverum eru staðsett í fylkinu frönskumælandi. Það hefði reyndar verið áhugavert ef Fraunhofer hefði haft samanburðinn aðeins breiðari og t.a.m. líka skoðað orkuverð til álvera í Bandaríkjunum, en það var ekki gert í þetta sinn.
Niðurstaða Fraunhofer í þessum samanburði var eftirfarandi:
- Álverin á Íslandi greiða lægra verð fyrir orkuna en álverin í Þýskalandi.
- Álverin á Íslandi greiða að meðaltali aðeins lægra verð (slightly lower) fyrir orkuna en álverin í Noregi, en munurinn er ekki meiri en svo að Fraunhofer segir að samkeppnishæfni álveranna á Íslandi og þeirra í Noregi sé svipuð.
- Álverin á Íslandi greiða að meðaltali aðeins hærra verð (slightly higher) fyrir orkuna en álverin í Québec í Kanada, en munurinn er ekki meiri en svo að Fraunhofer segir að álverin á Íslandi séu almennt samkeppnishæf við álverin í Kanada (competitive in average terms). Bæði er til dæmi um álver á Ísland sem greiðir lægra verð en meðalverðið í Québec og dæmi um álver á Íslandi sem greiðir hærra verð en meðalverðið í Québec.
Samkvæmt Fraunhofer er meðalverð á orku til álvera á Íslandi sem sagt lægra en í Noregi og Þýskalandi, en hærra en meðalverðið í Kanada. Af þessum löndum er orkuverðið til álvera hagstæðast í Kanada (Québec), enda hefur lengi verið alþekkt að álver í Kanada njóta og hafa lengi notið lægsta orkuverðs í heimi. Um leið er mikilvægt að hafa í huga að nýjum álverum býðst ekki þetta lága meðalverð í Kanada. Samanburður við kanadíska botnverðið segir því í reynd lítið um samkeppnisstöðu álvera í öðrum löndum. Þar þarf að horfa til breiðara hóps álframleiðsluríkja og þá sést að auk álveranna í Kanada eru álver á Íslandi og í Noregi í hópi samkeppnishæfustu álvera heimsins.
Það er viss galli á skýrslu Fraunhofer að þar kemur ekki fram orkuverð einstakra álvera og þar er heldur ekki svarað hvort eða hvaða meðalverð telst samkeppnishæft í alþjóðlegu tilliti miðað við tiltekið álverð. Hafa ber í huga að í heiminum öllum eru vel á þriðja hundrað álver. Þar af er rúmlega helmingur framleiðslunnar innan Kína og því einungis tæplega helmingurinn utan Kína, en Kína hefur um skeið verið hlutfallslega yfirgnæfandi í álframleiðslu heimsins.
Álver á Íslandi og samanburðarlöndunum þremur (Kanada, Noregi og Þýskalandi) eru samtals einungis um tíundi hluti allra álvera heimsins. Samanburður Fraunhofer á álverum í þessum fjórum löndum nær því í reynd aðeins til lítils hluta álvera heimsins. Um leið er vert að nefna að í skýrslu sinni tiltók Fraunhofer að meðalverðið á orku til álvera í Kína árið 2019 var um 47 USD/MWst (sem fyrr segir er þar um að ræða meira en hundrað álver). Öll íslensku álverin þrjú eru að greiða miklu lægra orkuverð en þetta kínverska meðalverð.
Þegar samanburðurinn á orkuverði er skoðaður er augljóst að ekki eru sterk rök til að kenna of háu raforkuverði um það ef rekstrarafkoma álvers á Íslandi reynist slök. Vandi álvera á Íslandi um þessar mundir, sem og víða annars staðar á Vesturlöndum nú á óvissutímum með tilheyrandi fremur lágu álverði, liggur einkum í því að þau eru fæst mjög nýleg. M.ö.o. þá eru álverin á Vesturlöndum að meðaltali tæknilega ófullkomnari en almennt gerist í áliðnaði í Kína og fleiri Asíuríkjum; hátt hlutfall álveranna þar eystra eru mjög nýleg og búin tækni sem heldur raforkuþörf pr. framleitt tonn í lágmarki. Á þetta er einmitt bent í umræddri skýrslu Fraunhofer.
Að öllu samanteknu þá er staðreyndin sú að í alþjóðlegu tilliti er samkeppnisstaða álveranna hér á Íslandi sterk m.t.t. orkuverðs. Það er sem sagt svo að orkuverð til álvera á Íslandi er almennt séð prýðilega samkeppnishæft þegar miðað er við álver í umræddum viðmiðunarlöndum og víðar um heim. Engu að síður eru álverin þrjú hér á landi mis samkeppnishæf, því raforkuverðið til þeirra er nokkuð mismunandi. Til að varpa skýrara ljósi á það hvar álverin á Íslandi standa í samanburði Fraunhofer á orkuverði, vísast til eftirfarandi yfirlits.
Eins og sjá má er ISAL, þ.e. álver Rio Tinto í Straumsvík, að greiða hæsta orkuverðið af álverunum þremur á Íslandi. Miðað við orkuverð til álvera í Þýskalandi og Noregi er ISAL sannarlega ekki að greiða lágt verð, en heldur ekkert mjög hátt verð því orkuverðið þar er mjög svipað eins og meðalverðið til álvera í Noregi og Þýskalandi. Það er því nokkuð sérkennilegt ef einhver heldur því fram að orkuverðið til Straumsvíkur sé ekki samkeppnishæft í samhengi við t.d. evrópskan eða alþjóðlegan áliðnað, þó svo vissulega megi finna álver sem greiða talsvert lægra orkuverð en Rio Tinto í Straumsvík.
Þegar litið er til talnanna í grafinu hér að ofan ætti líka öllum að vera ljóst að Landsvirkjun stefnir að því að orkuverðið til Norðuráls (Century Aluminum) í Hvalfirði og þó einkum til Fjarðaáls (Alcoa) á Reyðarfirði hækki umtalsvert við næstu endurskoðun á orkuverðinu. Þar með munu náttúruauðlindirnar sem Landsvirkjun nýtir loksins fara að skila bærilegum arði til eigandans; íslenska ríkisins og þar með til íslensku þjóðarinnar.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.