Það var fagur morgun í höfuðborginni. Þessi. Er það enn og komið hádegi. Ég var að leita uppi villur í nýútkominni bók, Fyrir augliti. Hún er um allt mögulegt, byggð upp sem dagatal. Þar las ég þennan texta:
16-593 (16. ágúst 2019)
10-11° hiti, vindsperringur. 10-11° hiti. Í dag berast fréttir af því að menntamálaráðherra hafi í hyggju að vega að tekjustofni Ríkisútvarpsins með því að taka það af auglýsingamarkaði - banna öllum þeim sem þurfa að láta vita af sér að nota áhrifamesta auglýsingamiðil landsins. Væri slík gjörð ekki brot á stjórnarskrárvörðu frelsi einstaklingsins? Að baki liggur krafa „frjálsu” fjölmiðlanna sem vilja hirða auglýsingatekjurnar. Ein augljós afleiðing þessa yrði sú að Ríkisútvarpið verður háðara fjárveitingum frá alþingi en nokkru sinni, og þegar ástmenn „frjálsu” fjölmiðlanna fá meirihluta á þinginu mun útvarpið verða svelt í öngvit.
Við lesturinn datt ég inn í samtímann því þeir eru enn að féndur Ríkisútvarpsins 15.11.2020. Þeir hafa myndað tríó. Það skipa Björn Bjarnason, fyrrverandi opinber starfsmaður með meiru, ritstjóri Morgunblaðsins og loks þræll gróðahyggjunnar, Óli Björn Kárason, opinber starfsmaður. Þeir syngja nýtt lag við gamlan texta; leggjum Rúv í rúst. Dag eftir dag og birta hann með örlitlum tilbrigðum á bloggsíðum og í Mogganum. Og vitna hver í annan.
Þetta er skrifað til þeirra sem vilja að til sé gott útvarp, heiðarlegt og vitrænt, fræðandi og skemmtilegt; hvatning til þeirra að þeir haldi vöku sinni. Þeir þurfa að vera á verði gagnvart þessum söngfuglum. Alveg stöðugt.