Ríkisstjórnin kynnti margvíslegar aðgerðir nýlega til að mæta efnahagsáfallinu sem kófið hefur í för með sér. Ég ætla ekki að fjalla um þær allar, heldur eingöngu þá aðgerð að hækka grunnatvinnuleysisbætur í 307þkr. á mánuði.
Í stuttu máli: gott og blessað, en það má efast alvarlega um áhrifamátt slíkra aðgerða sem og er rétt að hafa í huga að það eru til miklu betri leiðir til að bregðast við atvinnuleysi en hærri atvinnuleysisbætur.
Er 307þkr. á mánuði nóg?
Fyrst má spyrja sig hvort það sé nóg til að lifa á því að vera með 307þkr. á mánuði í atvinnuleysisbætur. Það má efast alvarlega um það.
Á myndinni hér að neðan má sjá neðri fjórðungsmörk launa eftir starfi árið 2019 (gögn: Hagstofa Íslands). Ég hef einnig bætt við metnum framfærslukostnaði að ákveðnum gefnum forsendum, atvinnuleysisbótum og launum innan atvinnuframboðstryggingar (e. job guarantee) væri hún sett á laggirnar líkt og ég lagði til í Vísbendingu í sumar.
Rétt er að taka fram hverjar forsendurnar eru að baki framfærsluviðmiðinu:
- 1. Barnlaus einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu, án bíls, á leigumarkaði. Ég nota reiknivél fyrir neysluviðmið 2019 til að finna út að viðkomandi er með 131þkr. heildarútgjöld á mánuði fyrir húsnæðiskostnað.
- 2. Húsnæðiskostnaður er metinn út frá meðal leiguverði á höfuðborgarsvæðinu fyrir 40-60fm íbúð, skv. gögnum Þjóðskrár Íslands: 160þkr. á mánuði, samtals 291þkr. á mánuði eftir skatta.
- 3. Reiknivél staðgreiðslu RSK er notuð til að finna út mánaðarlaun fyrir skatta (enginn séreignarsparnaður) til að fá 291þkr. útborgað m.v. fullnýttan persónuafslátt. 380þkr. á mánuði.
- 4. Metnar húsaleigubætur (32þkr.) eru dregnar frá framfærsluviðmiðinu en þær eru mjög háðar tekjum og eignum viðkomandi. Hér er miðað við að viðkomandi sé með lágmarkslaun, þ.e. 335þkr. á mánuði svo hann fær hámarkshúsaleigubætur. Við endum því á tölunni 348þkr. að gefnum forsendum fyrir nauðsynleg heildarlaun fyrir skatta.
Ég geri mér grein fyrir að þetta er slumpreikningur hvers niðurstaða verður mismunandi eftir aðstæðum hvers og eins en ég leyfi mér að efast um að þetta framfærsluviðmið – 348þ.kr. á mánuði fyrir skatta – sé ofmetið.
Er hægt að gera betur? Já!
Við sjáum að 307þkr. virðast ná skammt miðað við framfærsluviðmiðið. Meira að segja virðast launin innan atvinnuframboðstryggingar hrökkva skammt en þegar ég stakk upp á atvinnuframboðstryggingu til að bregðast við atvinnuleysinu miðaði ég við lágmarkslaun. Ef fólk vill miða við metin framfærsluviðmið er það líka hægt, svo lengi sem fullur skilningur er á því hvort slíkt myndi t.d. leiða til verðbólgu eða ekki.
Það eru ansi margir einstaklingar sem eru búnir að missa tekjutengingu atvinnuleysisbóta og komnir í tekjuvandræði. Atvinnuleysisbætur upp á 307þkr. eru ónægar fyrir marga af þessum einstaklingum til að hafa í sig og á. Og þetta er fólk sem finnur enga vinnu, jafnvel þótt það vildi það! Þess vegna á að bjóða upp á atvinnuframboðstryggingu.
Ein af ástæðum þess að atvinnuframboðstrygging er betri en atvinnuleysisbætur til að takast á við atvinnuleysi er að tekjur innan hennar eru hærri. Það er því minni hætta á að fólk hafi ekki í sig og á. Eftirspurn í hagkerfinu er einnig viðhaldið betur, sem þýðir hraðari efnahagsbati.
Framleiðsla í hagkerfi með atvinnuframboðstryggingu er líka meiri en í hagkerfi sem borgar atvinnuleysisbætur, sem dregur úr hættu á verðbólgu. Þetta er raunin jafnvel þótt tekjur innan atvinnuframboðstryggingar séu hærri en atvinnuleysisbætur.
Atvinnuframboðstrygging býður fólki líka upp á að viðhalda starfsreynslu sinni og -þekkingu, sem og að læra eitthvað nýtt: endurmenntunarnámskeið ýmis konar eru ein af grunnstoðum atvinnuframboðstryggingar. Þetta kemur einkageiranum hvað best sem og hagkerfinu öllu því fyrirtæki eiga þá auðveldara með að finna menntað og reynslumikið fólk þegar fyrirtækin vilja ráða fólk aftur.
Þá sér atvinnuframboðstrygging til þess að fólk hafi starf, hafi það áhuga á því, þar sem það hittir annað fólk: ein af skæðustu afleiðingum atvinnuleysis er félagsleg einangrun, einsemd og sálfræðileg vandamál. Kostnaður samfélagsins, t.d. beinn heilbrigðiskostnaður, verður því minni sé boðið upp á atvinnuframboðstryggingu.
Þá býður atvinnuframboðstrygging fólki upp á að nýta vinnuafl sitt til t.d. umhverfis- og samfélagslegra verkefna sem koma öllum vel: viðhald garða, hreinsun umhverfis, plöntun skóga. Slíkt myndi t.d. draga úr hættunni á því að Ísland þyrfti að borga milljarða í kostnað vegna óuppfylltra samninga um losun á gróðurhúsalofttegundum, fyrir utan að fegra landið og bæta náttúrulega fjölbreytni.
Kostirnir við atvinnuframboðstryggingu m.v. atvinnuleysisbætur eru ótvíræðir. Þess vegna á að bjóða upp á atvinnuframboðstryggingu til að mæta núverandi atvinnuleysi og tekjutapi hjá vinnandi einstaklingum.
Að lokum er rétt að hamra á því: vinna innan atvinnuframboðstryggingar er val. Það er enginn neyddur til þess að þiggja starf eða sitja endurmenntunarnámskeið, svo dæmi sé tekið, innan atvinnuframboðstryggingar vilji viðkomandi það ekki. Það er val einstaklingsins að þiggja annaðhvort atvinnuleysisbætur samkvæmt reglum á hverjum tíma (307þ.kr. plús hugsanleg tekjutenging) eða starf innan atvinnuframboðstryggingar (lágmark 335þ.kr.).
Höfundur er doktor í hagfræði.