Það skyldi þó ekki vera að þessi dimmi nóvember marki þáttaskil í alþjóðastjórnmálunum? Á milli stórhríða og veðurviðvarana er gott að hugleiða hvernig stærstu fréttir mánaðarins geti breytt heiminum til hins betra.
Vestanhafs kaus meiri fjöldi en nokkru sinni fyrr forseta sem ætlar að vinna með öðrum þjóðum, taka mark á vísindum, byggja brýr en ekki múra og fjárfesta í grænni framtíð.
Þótt viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessum merku tíðindum sem munu skipta sköpum fyrir íslenskt alþjóðastarf og áherslumál okkar í alþjóðamálum, hafi verið fremur máttlaus, og sérfræðingar varað við því að búast við of hröðum breytingum, er engum vafa undirorpið að áferð og yfirbragð alþjóðasamskiptanna munu taka stakkaskiptum.
Lýðskrumarar og valdníðingar munu ekki lengur fá skjól frá voldugasta ríki heims og talsmenn alþjóðasamstarfs, mannréttinda og lýðræðis fá sterka bandamenn í baráttunni fyrir aukinni samvinnu og aðgerðum fyrir loftslagið. Val á ráðherrum í nýja stjórn Bandaríkjanna sýnir líka vilja til að nýta fólk með fjölbreyttan bakgrunn og sögur um hvernig hægt er að brjótast til metorða af takmörkuðum efnum í því áhugaverða landi.
Næsti utanríkisráðherra er alinn upp af manni sem flúði útrýmingarbúðirnar í Dachau og Auschwitz og var sá eini af 900 nemendum úr sínum barnaskóla í Póllandi sem lifði Helförina af. Næsti sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum ólst upp hjá ólæsum foreldrum í fátækt í Suðurríkjunum, fyrsta konan sem fór í háskóla úr þeirri fjölskyldu. Næsti innanríkisráðherra kom með foreldrum sínum sem flóttamaður frá Kúbu, og þekkir því stöðu innflytjenda af eigin raun.
Nú þegar tækifærunum hefur ört fækkað fyrir hæfileikaríkt fólk að komast áfram af litlum efnum, eru þetta mikivæg skilaboð um viljann til að breyta því.
En aðrar fréttir vöktu líka bjartsýni og sýndu hvernig fjölbreytt og opin vestræn samfélög eru besta fyrirkomulag sem enn hefur verið fundið upp.
Þegar þetta er skrifað hafa komið fram þrjú bóluefni við Covid-19 sem munu virka til að stöðva faraldurinn innan ekki of margra mánuða. Fyrsta bóluefnið byggir á uppfinningu tyrkneskra innflytjenda í Þýskalandi, hjóna sem helga sig vísindum og berast ekki á. Sýna hvað hæfileikaríkt fólk fær áorkað ef því eru gefin tækifæri. Til þess að ná árangri í þróun bóluefnisins ræktuðu þau samstarf við lyfjafyrirtækið Pfizer og grískan forstjóra þess og á einhvern skemmtilegan hátt fundu þessir einstaklingar tóninn og sýndu að fólk frá þjóðum sem eiga í erjum, getur vel unnið saman að góðum málum, tæknin, rannsóknirnar og peningarnir fundu sér samleið.
Annað bóluefnið varð til úr samstarfi Moderna og heilsustofnunar Bandaríkjanna (NIH). Moderna er stýrt af frönskum forstjóra sem naut háskólamenntunar í Bandaríkjunum en frumkvöðullinn á bakvið fyrirtækið er armenskur maður sem fæddist í Beirút og flúði borgarstyrjöldina þar á níunda áratugnum. Komst til Bandaríkjanna og fékk fyrsta flokks menntun sem hann hefur nýtt til að koma á fót og fjármagna sprotafyrirtæki í líftækni. Til að ná árangri í þróun bóluefnisins þurfti Moderna mikla opinbera fyrirgreiðslu og fjármuni úr opinberum sjóðum.
Þriðja bóluefnið er þróað af Jenner stofnuninni í Oxford í samvinnu við Astra-Zeneca. Vísindateymið þar er að mestu leyti sett saman af breskum og írskum sérfræðingum. Aðalvísindamaðurinn er þó Sarah Gilbert sem hefur unnið að bóluefnarannsóknum samhliða því að ala upp þríbura. Fjármunirnir til rannsóknanna koma frá einkasjóðum, Wellcome Trust og Bill and Melinda Gates sjóðnum en líka frá opinberum sjóðum og Evrópusambandinu.
Og hvað segir þessi einfaldaða mynd af flókinni sögu okkur? Hún sýnir að til að leysa flóknustu vandamál samtímans er það samvinna einkaframtaksins og opinberra aðila sem dugar best. Að fólk sem fær tækifæri til að þróa hæfileika sína í frjálsu, opnu samfélagi, getur náð mestum árangri. Að fjölbreytni skiptir sköpum þegar búa þarf til sigurlið. Að það er á Vesturlöndum sem þekking og hæfni er til að leysa svona vandamál.
Þetta færir okkur líka heim sanninn um að við verðum að varðveita þessi gildi og fjárfesta í því að tækifærin verði áfram til staðar. Að landamærum verði ekki lokað á fólk sem er að flýja stríð og vonlausar aðstæður. Að menntakerfin verði opin fyrir fólk óháð efnahag. Að menntun og rannsóknir eru bestu fjárfestingarnar sem samfélög geta ráðist í. Að samvinna er það sem skiptir máli – milli fólks með ólíka hæfileika og ólíkan bakgrunn, milli einkaframtaksins og opinbera geirans, að samfélögin leggi til hreyfiafl til breytinga. Að jöfn tækifæri fólks til að blómstra og rækta hæfileika sína sé það sem öllu máli skiptir.
Þetta á ekki síður við í samfélagsumræðuna á Íslandi.
Höfundur kennir alþjóðastjórnmál í Háskóla Íslands.