Um þessar mundir eru 20 ár frá því að gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett. Þá var feðrum í fyrsta sinn tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs. Ekki leið langur tími þar til krafan um að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf varð almenn. Nú hefur sú áralanga barátta skilað sér í frumvarpi til nýrra heildarlaga sem félags- og barnamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Fyrir utan langþráða lengingu orlofsins felur frumvarpið í sér ýmsar jákvæðar breytingar sé miðað við gildandi lög. BHM styður frumvarpið en lýsir vonbrigðum með að þar sé ekki lögð til hækkun á hámarksgreiðslu til foreldra í fæðingarorlofi. Mjög brýnt er að hækka þetta hámark til að stuðla að því að lögin nái markmiði sínu.
BHM hefur um árabil barist fyrir lengingu fæðingarorlofsins, hækkun hámarksgreiðslna og öðrum umbótum á kerfinu. Á undanförnum árum hefur BHM einnig tekið virkan þátt í samráði stjórnvalda og haghafa um stefnumótun á þessu sviði. Undirritaður sat fyrir hönd BHM í starfshópi sem félags- og barnamálaráðherra skipaði á síðasta ári til að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof í heild sinni. Afrakstur þeirrar vinnu birtist í frumvarpi því sem hér um ræðir.
Réttindi barns og réttindi foreldra fara saman
BHM hefur lagt áherslu á þá grunnforsendu laganna að réttur til launa í fæðingarorlofi er einstaklingsbundinn réttur sem fólk aflar sér með þátttöku á vinnumarkaði. Einnig hefur bandalagið ávallt talið að tvíþættu markmiði laganna – að barn njóti samvista við báða foreldra og að foreldrar geti samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf – yrði best náð með því að orlofið skiptist sem jafnast milli foreldra. Jöfn skipting tryggir bæði réttindi barnsins og réttindi foreldranna. Því styður BHM þá skiptingu sem kveðið er á um í frumvarpinu, þ.e. að báðir foreldrar hafi sex mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs en að heimilt sé að framselja einn mánuð til hins foreldrisins.
Komið til móts við ólíkar þarfir
Í frumvarpinu er kveðið á um ýmis tilvik sem leitt geta til lengingar fæðingarorlofs eða heimildar til aukins framsals eða tilfærslu á réttinum milli foreldra. Í sumum tilvikum getur foreldri þannig átt rétt á tólf mánaða fæðingarorlofi. Þessi ákvæði eru ítarlegri en í gildandi lögum og taka til fleiri tilvika.
Hækkun þaksins er jafnréttismál
Ekki er lögð til hækkun á hámarksgreiðslu fæðingarorlofsgreiðslna í nýju frumvarpi og veldur það töluverðum vonbrigðum. Hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi nú, 600 þúsund krónur á mánuði, er um 50% lægri að raungildi en hámarksgreiðsla var árið 2007.
Hámarksgreiðsla fæðingarorlofs er nú um 65% af meðalheildarlaunum karlkyns sérfræðinga með háskólamenntun en 80% af meðalheildarlaunum kvenna í sama flokki.
Það má ekki vera þannig að fjölskyldur verði fyrir miklu tekjufalli við það að nýta rétt sinn samkvæmt lögunum. Hallar þar verulega á feður í sambúð vegna þess launamunar sem enn er milli kynjanna í íslensku samfélagi. Það beinlínis vinnur gegn markmiði laganna.
Hornsteinn jafnréttis í íslensku samfélagi
Fyrirkomulag fæðingar- og foreldraorlofs er hornsteinn jafnréttis í íslensku samfélagi. Það þjónar hagsmunum barna og foreldra og framtíðarinnar að gera nauðsynlegar umbætur á löggjöfinni og afgreiða frumvarp félags- og barnamálaráðherra sem fyrst svo að 12 mánaða fæðingarorlof taki gildi 1. janúar 2021.
Höfundur er lögmaður BHM.