Bók Kjartans Ólafsson um íslenska kommúnista og sósíalista hefur vakið mikla athygli í haust og hlaut verðskuldaða tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna í byrjun þessa mánaðar. Margir hafa fjallað um vinstriróttækni fyrri áratuga hér á landi, en enginn af sama innsæi, skilningi og þekkingu á vinstrihreyfingunni og Kjartan (það er rétt að taka það fram strax að þar sem ég hef unnið með Kjartani að nokkrum þáttum í bakgrunni verksins á undanförnum árum þekki ég það vel).
Það er því óneitanlega skondið – jafnvel grátbroslegt – að lesa geðvonskulegan ritdóm Hannesar H. Gissurarsonar í Morgunblaðinu í síðustu viku, fullan af smásmygli og dylgjum sem kannski er nærtækast að skýra sem öfund. En ritdómurinn kallaði líka fram gamlar minningar. Þegar ég var í Menntaskólanum í Hamrahlíð var Hannes þegar orðinn þekktur vísdómsmaður, sem vílaði ekki fyrir sér að boða fagnaðarerindi frjálshyggjunnar á ólíklegustu stöðum – þar á meðal norðurkjallara MH sem á þessum árum – fyrri hluta níunda áratugarins – var iðulega vettvangur pólitískra málfunda.
Á slíkum fundum kryddaði Hannes ræður sínar með tilvitnunum í kennisetningar marxismans og hafði ævinlega blaðsíðutöl á reiðum höndum. Hins vegar vildi svo einkennilega til að þegar samviskusamir menntaskólanemar fóru að leita uppi tilvitnanirnar þá reyndist erfitt að finna þær. Það var ekki fyrr en löngu síðar að einhver benti mér á að hversu snjallt þetta mælskubragð væri – að nefna blaðsíðutöl út í loftið – því þannig fengju áheyrendur á tilfinninguna að ræðumaðurinn gjörþekkti textana sem hann vitnaði í eftir minni. Og þótt einhver færi að grufla í bókunum á eftir, þá breytast fyrstu hughrif ekki svo auðveldlega.
Árið 1992 gerði ég sjónvarpsþætti og fréttainnslög um sovéttengsl íslenskra kommúnista og sósíalista eftir að hafa, eins og fleiri vestrænir fjölmiðlamenn á þeim tíma, komist í heimildir um þetta sem höfðu verið leynilegar í marga áratugi. Fréttir og dagskrárgerð urðu að áhugamáli og seinna skrifaði ég bók um sama efni sem fékk titilinn Kæru félagar. Hún kom út 1999. Þá voru fleiri farnir að nýta sér sömu hluti (Árni Snævarr, Þorleifur Friðriksson og Arnór Hannibalsson höfðu allir kynnt sér heimildirnar að einhverju leyti og fjallað um þær), en Kæru félagar var fyrsta verkið þar sem þetta efni var sett í heildarsamhengi og tengslin rakin yfir nokkra áratugi. Kæru félagar stendur að flestu leyti fyrir sínu ennþá, þótt á þeim tuttugu árum sem liðin eru hafi margt fleira komið fram og margt hefði á sínum tíma mátt vinna og kanna betur.
En það sem einkenndi andrúmsloftið og samræður sem ég átti við fjölda fólks sem hafði lifað þá tíma þegar Sovétríkin voru raunverulegt afl í heiminum var að fólk skiptist algjörlega í andstæðar fylkingar. Langflestir gamlir vinstrimenn voru fullir tortryggni gagnvart því sem ég var að gera. Sumir vildu eiga við mig ritdeilur eða stimpla mig sem málsvara heimskapítalismans. Hægrimenn voru hins vegar mjög áfjáðir, margir hverjir, í að benda mér á hvernig þeir hefðu alla tíð vitað um undirferli og svik „kommanna“ og gert sér grein fyrir því að þeir hefðu verið á mála hjá miðstjórn Kommúnistaflokksins í Moskvu. Þetta ætti ég nú að sanna með skjölum. Vinskapurinn súrnaði hins vegar hratt þegar ég var ekki nógu leiðitamur, þó að vinstrimennirnir fengju nú ekki mikið traust á mér heldur fyrir bragðið – enda voru þeir auðvitað hlutdrægir líka þótt með öðrum hætti væri.
Einn maður skar sig þó úr, alveg frá upphafi. Það var Kjartan Ólafsson. Hann þekkti ég bara sem gamlan Þjóðviljaritstjóra og þingmann í stuttan tíma. Kjartan var þá og alla tíð síðan áhugasamur um það eitt að finna út hvað væri rétt um sovéttengslin. Ef það reyndist rétt að Þjóðviljinn hefði fengið fjárstuðning frá Sovétríkjunum vildi hann vita það. Og ef staðreyndin væri sú að sjálfur hefði hann lifað í blekkingu um áhrif sovéska kommúnistaflokksins á starf sósíalista vildi hann vita það líka. Hann gerði sér grein fyrir því – og stundum fannst mér reyndar að hann væri eini maðurinn sem skildi það – að kalda stríðinu og öllu sem því fylgdi var lokið.
Þess vegna er bók hans Draumar og veruleiki – að öðrum verkum ólöstuðum – langáhugaverðasta og mikilvægasta verkið sem komið hefur út um vinstrihreyfinguna hér á landi. Hún er skrifuð af manni sem er svo nátengdur þessari hreyfingu að það mætti nánast líta á bókina sem sjálfsævisögu hennar. Hún beinist auðvitað að þáttum sem varða ævi og störf höfundarins og er að því leyti ekki rannsóknarit, þótt unnið sé með heimildir sem í mörgum tilfellum eru að koma fram í fyrsta skipti. Bókin er ekki tilraun til að segja sögu hreyfingarinnar eða flokkanna í heild sinni, heldur mótast hún af reynslu höfundarins af vettvangi þeirra og áhuga hans á að gera upp fortíðina. Viðleitni Kjartans til að komast að hinu sanna skín í gegn frá upphafi til enda. Það þýðir að skrif hans eru á köflum óvægin og hann dregur oft upp nýjar og óvæntar myndir af þekktum persónum.
Þetta verk á því betra skilið en geðvonsku og smásmygli – þótt öfundin sé vissulega skiljanleg. Það varpar engu ljósi á verkið að telja upp stafsetningarvillur eða dylgja um fullyrðingar og niðurstöður í bókinni sem í flestum tilfellum eru byggðar á traustari heimildum en höfundar fyrri verka um svipuð efni – þar á meðal Hannes sjálfur – hafa haft aðgang að.
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.