Ísland hefur tilkynnt fyrstu uppfærslu landsmarkmiðs (NDC) til Parísarsáttmálans, nú þegar 5 ár eru liðin frá samþykkt hans, en landsmarkmið eiga m.a. að innihalda töluleg markmið um samdrátt í losun sem ríki stefna á að ná, á tímabilinu 2021-2030. Ísland hefur verið hluti af sameiginlegu markmiði aðildarríkja ESB og Noregs um að ná 40% samdrætti í losun árið 2030, fyrir svæðið sem heild, m.v. upphafsárið 1990. Samkvæmt nýjustu tillögu Leiðtogaráðs ESB má gera ráð fyrir að markmiðið muni hækka úr 40% í 55%. Þrátt fyrir að markmiðið sé sameiginlegt, er hverju ríki úthlutað mismunandi skuldbindingum og fylgir skiptingin m.a. þremur undirflokkum markmiðsins (ESR, ETS og LULUCF). Ef gert er ráð fyrir óbreyttri uppsetningu og reiknireglum mun Íslandi vera úthlutað 40-45% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands (ESR) frá 2005-2030 (þ.e. losun frá vegasamgöngum og skipum, orkuframleiðslu, landbúnaði, úrgangi og F-gösum). Losun frá iðnaðarferlum í stóriðju og flugi innan Evrópu fellur undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir (ETS) og hefur því ekki sérmarkmið fyrir hvert ríki. Hvað varðar losun frá landnotkun og skógrækt (LULUCF) má Ísland ekki auka nettólosun frá flokknum miðað við ákveðin viðmiðunartímabil.
Ísland hefur tilkynnt í uppfærðu landsmarkmiði að það hyggst taka þátt í sameiginlegu markmiði ESB og Noregs um a.m.k. 55% samdrátt, og setja eigið markmið um að binding og samdráttur frá landnotkun og skógrækt verði jöfn losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030.
Einungis 18% samdráttur í heildarlosun Íslands
Til að skoða raunveruleg áhrif slíks markmiðs er nauðsynlegt að líta á heildarlosun Íslands með landnotkun, þ.e. losun sem myndi flokkast sem losun á beinni ábyrgð Íslands, losun frá stóriðju og losun frá landnotkun og skógrækt.
Sé gert ráð fyrir að:
- Losun Íslands vegna stóriðju haldist óbreytt fram að 2030,
- Ísland nái úthlutuðu landsmarkmiði um 45% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands frá 2005-2030 og
- Ísland nái eigin landsmarkmiði um að samdráttur og binding í landnotkun og skógrækt verði jöfn losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030
mun uppfært landsmarkmið Íslands einungis orsaka 15% samdrátt í heildarlosun með landnotkun frá 2005-2030. Sé miðað við nýjustu losunartölur, þ.e. upphafsárið 2018, verður samanburðurinn aðeins hagstæðari eða 18% samdráttur frá 2018-2030.
Ungt fólk krefst róttækari aðgerða
Slíkur samdráttur gengur ekki nógu langt, sér í lagi í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Ekki er enn búið að lögfesta, né skilgreina, hvað felst í markmiði Íslands um kolefnishlutleysi, en ljóst er að línuleg þróun frá 2020 að raunverulegu kolefnishlutleysi árið 2040 gerir ráð fyrir helmingssamdrætti í heildarlosun með landnotkun fyrir 2030. Einnig ber að hafa í huga að ríki heims þurfa í sameiningu að helminga kolefnislosun fyrir 2030 til að eiga möguleika á að standast 1,5 gráðu markmið Parísarsáttmálans. Sá samdráttur Íslands sem ekki næst á fyrri hluta tímabilsins (fyrir 2030) þarf að bæta upp á þeim seinni (frá 2030-2040), og rúmlega það. Markmið stjórnvalda sem hljóða uppá lægri samdrátt en 50% fyrir 2030, varpa því meirihluta ábyrgðarinnar (og verstu afleiðingum loftslagsbreytinga) á komandi kynslóðir.
Þó að Ísland sé formlega aðili að sameiginlegu markmiði ESB, Íslands og Noregs er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að Ísland taki fram í sínu landsmarkmiði eigin áform um samdrátt í losun. Hér hefði því verið kjörið tækifæri að senda inn landsmarkmið sem skuldbyndi Ísland til a.m.k. 47% samdráttar í heildarlosun með landnotkun árið 2030, m.v. upphafsárið 1990 (jafngildir 50% samdrætti frá 2020-2030). Slíkt markmið hefði verið í samræmi við kröfur Ungra umhverfissinna, LÍS, SHÍ, fulltrúa ungs fólks í Loftslagsráði og fulltrúa Íslands á Loftslagsráðstefnu ungmenna, Mock COP26. Þó er ekki öll von úti því stjórnvöld hafa enn tækifæri til að koma raunverulega til móts við kröfur ungs fólks. Lögfestið 50% samdrátt í heildarlosun með landnotkun fyrir 2030 í komandi frumvarpi umhverfisráðherra um kolefnishlutleysi. Framtíð okkar er í ykkar höndum!
Höfundur er varaformaður Ungra umhverfissinna og Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærar þróunar.
Heimildir:
Evrópuþingið og Ráð Evrópusambandsins. (2020). European Council, 10-11 December 2020.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (2020). Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Stjórnarráð Íslands. (2020). Ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum kynnt.
Útreikningar unnir í samvinnu við Sigurð Thorlacius, umhverfisverkfræðing og fulltrúa ungs fólks í Loftslagsráði. Stuðst var við eftirfarandi gögn:
- Umhverfisstofnun. (e.d.). Losun Íslands.
- Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (2020). Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
- Stjórnarráð Íslands. (2020). Ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum kynnt.
Loftslagsráð. (2020). Kolefnishlutleysi – Samantekt frá Loftslagsráði.