Fyrir nokkrum dögum uppfærðu íslensk stjórnvöld markmið sín um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og stefna nú að 55% minni losun árið 2030 miðað við 1990 en ekki um 40% samdrátt í losun eins og búið er að vera markmiðið undanfarin ár.
Þetta er gott og mjög nauðsynlegt skref.
En. Þetta eru ekki sérstök markmið ríkisstjórnar Íslands, heldur afrakstur samtals Íslands, ESB og Noregs og er því ekki sérstök ákvörðun Íslands, heldur hluti af samkomulagi í takt við markmið framkvæmdastjórnar ESB sem nær bara að hafa markmiðið í 55% til að halda öllum ríkjum innan ESB góðum. Ríkjum á borð við Pólland. Þetta er því ekki í takt við kröfur Evrópuþingsins, sem vill draga úr losun árið 2030 um 60%.
Ísland nær því hvorki að fylgja markmiðum Evrópuþingsins, né toppa framkvæmdastjórn ESB, eins og mörg önnur Evrópuríki hafa gert með því að kynna metnaðarfyllri markmið en framkvæmdastjórn ESB ákvað. Dæmi um þetta er Bretland, sem undir forystu Boris Johnson, stefnir á 68% samdrátt. Svíþjóð hefur sett stefnuna á 63% samdrátt og Danmörk er með 70% markmið miðað við 1990.
Íslensk yfirvöld eru því miður of svifasein og fylgja lágmarksmarkmiðum 28 ríkja ESB, sem sum hver eru mun „grárri" ríki en Ísland sem hefur gríðarlega mikið samkeppnisforskot á önnur lönd með allar sínar hreinu orkuauðlindir.
Engin skýr mynd um uppfærðar aðgerðir
Og enn á eftir að kynna aðgerðir Íslands og útfæra þær til að ná þessu nýja markmiði, því ef við ætlum okkur að ná þessum uppfærðu viðmiðum þarf að kynna og útfæra nýjar aðgerðir. Alveg eins og það á eftir að útfæra nákvæmlega tíma – og markmiðssetningar á mörgum aðgerðum í núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftlagsmálum.
Það er ekki góður samanburður fyrir Ísland að ESB með 27 ríki innanborðs, nái samt að gera útlistaða aðgerðaáætlun með sínu „Green Deal" plani en ekki íslensk stjórnvöld.
Og það er ekki nóg að áformin um aðgerðir í takt við uppfærð markmið Íslands séu mjög óljós um að eitthvað gerist einhvern tíma í vor, heldur vill forsætisráðherra og ríkisstjórnin alls ekki taka undir áskorun Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra S.Þ. frá 12. desember sl. um að öll ríki heims lýsi yfir neyðarástandi í loftlagsmálum þar til kolefnishlutleysi næst. Jafnvel þó að 38 ríki heims hafi lýst yfir neyðarástandi og hundruð borga og sveitarfélag víða um heim. Ástæðan ? Jú, orðum verða að fylgja aðgerðir segir forsætisráðherra.
Nauðsynlegar aðgerðir til að ná uppfærðum markmiðum
Til að mynda þarf að:
- útiloka jarðefnaeldsneyti og notkun þess í raunhæfum áföngum
- koma á heildstæðu og stighækkandi gjaldi á alla losun gróðurhúsalofttegunda, binda skýr markmið um samdrátt losunar í lög
- samhæfa ALLAR opinberar áætlanir ríkisins þannig að þær stuðli að minni losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
- að lögbundin markmið og aðgerðir verði sett á atvinnugreinar landsins
- að fjármunum veðri aukið til muna til þess að takast almennilega á við loftlagsvandann sem er okkar stærsti vandi og framtíðarkynslóða. Það þýðir líka að efnahagsleg viðspyrna út úr Covid-19 kreppunni þarf að vera raunverulega umhverfisvæn og vinna raunverulega gegn loftslagsbreytingum um leið.
Það er nefnilega svo að orðum verða að fylgja gjörðir.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar.