„Vertu nú jákvæður“ sögðu vinnufélagarnir þegar ég labbaði burt, á leið í Covid-próf. Satt að segja var ég ekki alveg viss hvernig ég átti að taka því. Varla voru þau að óska þess að ég væri veikur? Kannski var þetta eins og þegar leikurum er sagt að margbrotna á fæti fyrir leiksýningu. Reyndar hef ég aldrei skilið það almennilega og efast jafnvel um að ég sæi mikinn mun á góðum leikara, hvort sem hann væri margbrotinn eða stórbrotinn. Það er sögð ákveðin list að oftúlka allt sér í óhag, en ætli það sé list að ofhugsa allt og ef svo er, hvernig sæki ég um listamannalaun?
Ég rölti í átt að bílnum, hugsi. Jákvætt er neikvætt og neikvætt er jákvætt. Þýðir þá rautt ljós áfram og grænt ljós stopp? Er allt orðið öfugt núna, ekki bara ég? Reyndar er það ekkert nýtt þegar heilbrigðisstarfsfólk leggur fyrir okkur próf, að þar viljum við oftast fá neikvæðar niðurstöður. Söngur Sigrúnar Evu og Siggu Beinteins ómaði í kollinum: „Nei eða já, af eða á, erfitt er oft að finna svarið.“
Einfaldar flækjur
Aftur og aftur heyrir maður um mikilvægi jákvæðs hugarfars og hvað heilinn getur haft mikil áhrif á líkamsstarfsemina. En hvað ef ég verð of jákvæður í hugsun, ætli ég fái þá jákvæðar niðurstöður úr prófinu í kófinu? Við það að fá niðurstöðurnar hlýt ég þó skjótt að verða mun neikvæðari og veiran þá vonandi helst ekki skæðari, eða hvað? Þetta er allt of flókið.
Er ekki bara lífið orðið allt of flókið undanfarið? Fréttir dynja á okkur um hræðilega hluti víða um heim, ekki síður en hér heima. Undanfarið ár hefur svo fjandans farsóttin haldið okkur í heljargreipum. Fegurðin sem áður var er kannski bara að hverfa? Hvar er fallega einfalda veröldin? Veröldin sem var ekki svona íþyngjandi, ekki svona grimm, ekki svona flókin.
Við nánari umhugsun féll ég auðvitað þarna í einföldunar gildruna. Við eigum það jú til að einfalda hlutina í minningunni. Muna að mestu það góða og fegra það sem eftir er.
Er grasið raunverulega grænna „hinum megin“? Það fer ekki síst eftir því hversu duglegir nágrannarnir eru að bera á. En litatónarnir skipta ekki öllu. Við fórum frá því að hafa ekkert gras, yfir í að taka því sem sjálfsögðu að græni liturinn blasi alltaf við. „En Kristján, hvernig gátum við búið undir torfþökum ef við höfðum ekkert gras?“
Úff. Ekki ofhugsa samlíkinguna. Ég segi bara þetta: „Hverjum þykir sinn fífill fagur“ og því er ráðið augljóslega að sleppa grasinu og halda sig við ræktun túnfífla!
Litlaust myrkur
Göngutúr í náttúrunni á þessum árstíma getur stundum virkað hálf niðurdrepandi. Haustlitirnir farnir. Flestar plöntur við það að hverfa í vetrardvala, eða komnar þangað nú þegar. Skammdegið eykst. Hvað gerir maður þá? Jú, maður hugsar til liðinna stunda og einbeitir sér að því jákvæða. Blómin sem glöddu okkur vor, sumar og haust. Eftir veturinn kemur annað vor, fullt af slíkri gleði og fegurð á ný. Við hugsum því líka til bjartrar framtíðar. Fram hjá óvissu dagsins í dag. Ég geng um skóglendið við Hvaleyrarvatn, innan um tré sem hafa séð tímana tvenna og halda ótrauð áfram. Allir þurfa smá hvíld til að hlaða batteríin og mæta svo aftur fílefldir til leiks.
Ég geng upp á hóla, hæðir, fell og fjöll og horfi um víðáttuna. Jarðsagan og náttúruöflin blasa svo víða við á þessu landi. Ég geng í kringum Vífilsstaðavatn og upp að vörðunni Gunnhildi. Vörðunni sem berklasjúkir gengu áður fyrr upp að, ef þeir höfðu til þess krafta. Berklarnir, já. Þeir snerta sálina meira þetta árið en flest önnur. Vífilsstaðir voru teknir í notkun sama ár og áðurnefnd amma fæddist. Hún missti börn og aðra ættingja í hendur berklanna. Hendur sem slepptu allt of sjaldan því sem þær höfðu gripið.
Berklafaraldur veitir okkur ágætis speglun milli 20. og 21. aldar. Einangrun og sóttkví var mikilvæg þá, ekki síst þar sem um ræddi ólæknanlegan sjúkdóm og engin viðeigandi lyf í boði á þeim tíma. Fyrir flest okkar eru þó yfirstandandi sóttkví ekkert í líkingu við það sem áður var. Framfarir í læknavísindum, farsóttarfræðum, tölvunarfræðum, svo eitthvað sé nefnt, gera okkur – nei, flestum okkar - kleift að halda lífinu gangandi í sóttkví sem utan. Berklafaraldurinn riðlaði að sjálfsögðu lífi fólks þá og erum við vægast sagt heppin hversu lítið þarf að breyta út af vananum í dag. Það er kannski einna helst félagslegi hlutinn sem þjáist. Þó tæknin geri okkur kleift að minnka það vandamál töluvert, frá því sem áður var. Suma vini hefur maður varla hitt á þessu ári, af varúðarástæðum. Verst er þó að heyra af foreldrum og börnum sem mega ekki hitta hvort annað, eða hjónum sem fá ekki að vera saman. Jafnvel ekki á hinstu stundu.
Að sama skapi er auðvitað erfiðara að halda í jákvæðnina á vinnustöðum. Vinnan í dag verandi full af takmörkunum, óvissu og jafnvel auknu álagi. Sumir hittast yfir höfuð ekkert, því allt fer fram í fjarvinnu. Nema vinnustaðurinn sé hreinlega lokaður eða vinnan ekki lengur til staðar. Kannski lausnin þar sé bara að fara á sínum reglulegu tímum að kaffivél heimilisins og taka myndrænan fjarfund með núverandi eða fyrrverandi vinnufélögum?
Í stóra samhenginu verður þetta ekki nema eitt lítið sandkorn í stundaglasi lífsins. Varla greinanlegt frá öllu hinu, þegar yfir er staðið. Við eigum jú til að gleyma því hvað við erum heppin og höfum það gott hér á landi. Verst að við getum ekki í þetta skiptið bara gleymt því sem neikvætt er í staðinn.
Með skynsemina að vopni sinnum við okkar mikilvæga hlutverki til almannavarna samfélagsins. Það kann að taka á og jafnvel virðast endalaust. En með kjánaskapinn að vopni, höldum við geðheilsunni öllu nær réttu róli á meðan. Óneitanlega leiðir maður stundum hugann að því hvort mörg börn sem fæðast á þessu ári hljóti nafnið Haraldur, því yfir stendur jú faraldur.
Nú eða þá?
Treystum því að okkur beri gæfa áfram til að lágmarka áhrif núverandi faraldurs. Höldum í jákvæðnina og stuðlum þannig sem best að neikvæðni í samræmdum pinnaprófunum. Því varla kemst jákvæðnin í pinnaprófin, ef við höldum henni nógu fast hjá okkur.
Þraukum skammdegið eins og vanalega, með jákvæðu hugarfari um það sem áður var og bráðum aftur verður. Við höfum það rosalega gott á flest alla mælikvarða og það sama á við um flest lönd heimsins, miðað við liðna tíð. Ef við sjáum ummerki um hið gagnstæða, þá erum við augljóslega bara að nota rangan mælikvarða.
Til að týna okkur ekki í neikvæðni, er gott að snúa dagatalinu til baka að júlí og geyma það bara þannig þar til júlí kemur aftur á næsta ári. Má svo sem taka sér tímabundna pásu um jól og páska, ef maður er sérlega mikið jólabarn eða páskakanína.
Að ganga í gegnum yfirstandandi tímabil getur verið erfitt, jafnvel fyrir þau okkar sem sigla hvað auðveldast í gegnum þetta. Sannleikurinn er þó sá að þetta er auðvitað bara hluti af fjölbreytileika lífsins og aðgerðir okkar til að takast á við vandann, eru gott dæmi um hugvitssemi mannfólksins. Kannski verður þetta áhugaverð saga sem ungt fólk í dag getur sagt barnabörnum einn daginn og jafnvel borið saman við sögurnar sem (lang) ömmur og afar þeirra sögðu þeim af berklum og öðrum erfiðum tímum.
Höfundur er tölvunarfræðingur.