Þegar stór mál reka á fjörurnar skiptir miklu hvernig á móti þeim er tekið. Farsæl framvinda og hagfelld niðurstaða getur einmitt oltið á því að það takist að hemja umræðuna og halda staðreyndum og góðviljaðri leit að bestu lending í forgrunni. Yfirveguð rökræða getur farið fram, þótt heitar tilfinningar og sterk og jafnvel ástríðufull afstaða, haldi mörgum við efnið.
Því miður virðist það ekki vera þannig með málefni Hálendisþjóðgarðsins. Miðhálendi Íslands, með jöklum, eldfjöllum, fljótum og hitasvæðum, auðnum og vinjum, er ótvírætt það verðmæti sem dregur fólk til sín og er einna mikilvægasti drifkraftur ferðaþjónustu. Hálendið er þannig ótvírætt mikils virði, auðlind með sínum náttúruperlum sameign okkar allra og algerlega óháð því hvort dómstólar valdakerfisins hafa lýst tiltekin landsvæði „þjóðlendur” eða ekki.
Frumvarp umhverfisráðherra um þjóðgarð á miðhálendi Íslands er hiklaust eitt markverðasta málefni sem sitjandi ríkisstjórn setti á dagskrá í stjórnarsáttmálanum, og raunar eitt af fáum sem virðist halda fram almannarétti gagnvart sérhagsmunum valdastéttar, umsvifamanna eða fjárfesta.
Þess vegna er ég sérstaklega áhugasamur um að þetta mál fái jákvæðan framgang og vinnslu í Alþingi. Frumvarpið er búið að fara í gegnum býsna langt undirbúnings- og samráðsferli, þar sem sveitarstjórnir aðliggjandi sveitarfélaga og fjölmargir hagsmunaaðilar hafa fengið tækifæri til að leggja að mörkum. Búið er að taka tillit til mjög margra athugasemda og „krafna” af hálfu meintra hagsmunaaðila.
Málamiðlun hefur þegar verið gerð
Í fyrsta lagi er til að mynda búið að heimila að umsvif Landsvirkjunar á þegar röskuðum svæðum verði nánast ótakmörkuð ef ég les þetta rétt og þjóðgarðurinn skilur þau eftir utan að mestu. Það tel ég reyndar mikið óráð enda skerðir það augljóslega mjög verndargildi heildarinnar. Á sama hátt er ekkert sem knýr á akkúrat núna að sækja inn í aukna orkuöflun á hálendinu. Rétt er að halda því til haga að háværustu kröfugerð virkjunaraðila er mætt með þessu, þótt þeim sé ekki sjálfkrafa heimilað að ganga inn á ný svæði nema með vönduðum undirbúningi og víðtæku samráði og samþykki.
Öskurkeppni
Í þriðja lagi fer nú fram afar hávær hópur sem gefur sig út fyrir að vera fulltrúar jeppamanna, veiðimanna, bænda og ferðaþjónustuaðila – og útivistarfólks – jafnvel alls í senn. Samt á þessu hópur lítið sameiginlegt í málflutningi sínum annað en að fara fram með hávaðasömum fullyrðingum og dylgjum; jafnvel beinum ósannindum, og með köflum verulega ruddalegri orðræðu ma. í garð hins kurteisa og hógværa umhverfisráðherra.
Þessum hópi gerði Steingrímur J Sigfússon óvæntan greiða með ótrúlega heimskulegum málflutningi sínum úr ræðustól Alþingis. Skíta-skætingur þingmanns NA-kjördæmis, sem þaulsætnastur hefur verið á Alþingi, varð skyndilega að sameiningartákni hinna sundurleitu hópa. Þannig varð gamalkunnur öskurtaktur þingmanns fortíðarinnar til þess að soga til sín alla athygli og alls konar skringi-sjónarmið þyrluðu upp moldviðri og umluktu sig háreisti og ósönnum fullyrðingum og dylgjum.Í hópi þeirra sem öskra hæst á móti Steingrími virðist mest lagt út af þeirri lygi; að umferð verði bönnuð; bæði akandi og ríðandi, bændum gert ókleift að nýta beit og veiðihlunnindi, og alveg sérstaklega „að hreyfihömluðum” verði varanlega gert ómögulegt að heimsækja náttúruperlurnar á hálendinu.
Aðilar í ferðaþjónustu, sem sumir hverjir hafa gert út á hálendisperlurnar án þess að leggja nokkra einustu krónu á móti – hvorki til að sinna þjónustu né til mótvægisaðgerða eða afgjalds – dylgja nú um að það „sé verið að búa til bákn” og ekki verði nokkur leið að komast upp á hálendið með ferðahópa nema „með löngu og kostnaðarsömu umsóknarferli” (já og væri það ekki einmitt bara gott – að menn geti ekki gert út á náttúruperlurnar án undirbúnings og án skipulags eða endurgjalds?) Og svo enn og aftur er klifað á því að skort hafi á samráð við undirbúning, og að ekki sé tekið tillit til ábendinga og hugmynda, þegar hið gagnstæða er raunveruleikinn.
Það blasir svo sem við að mestu hávaðabelgirnir treysta því fjölmiðlarnir endurvarpi hæstu öskrunum, og því varð hið mjög svo óheppilega innlegg Steingríms þeim afar kærkomið. Já; og það er orðið einhvers konar „sameiningartákn.“ Það reyndist kærkomið ef til vill og ekki síst af því að þol almennings gagnvart þrásetu Steingríms er orðið takmarkað og eins er ferill hans þannig að fleiri og fleiri átta sig á að hans pólitík hefur lengst af skort trúverðugleika. Hann „er hvorki svo mikið vinstri eða græn” en miklu heldur einkennst af Morfísstælum, stóryrðum og sjálfsupphöfnum yfirlýsingum. Þar hefur Steingrímur kallast á við það versta af íslenskri pólitískri orðræðu og vissulega á hann stóran þátt í að spilla fyrir málefnalegri vinnslu og góðviljaðri rökræðu. Jafnvel má halda því fram að hann sé enn að skeytast við Davíð Oddsson og Morgunblað hans, og þeir kumpánarnir njóta þess að fjölmiðlavaðallinn hjálpar þeim. Þar taka þeir undir Björn Bjarnason og Guðni Ágústsson, og alls konar minni spámenn stjórnmálanna, eins og Jón Gunnarsson og Lilja Alfreðsdóttir, sigla í kjölfar öskur-orðræðunnar og reyna að fiska í grugginu.
Ferðaþjónustan mun þurfa mest á óspilltu hálendinu að halda
Ekki virðist nokkur vafi á að óspillt náttúra hálendisins; kyrrð og víðátta fáfarinna svæða, jöklar, eldstöðvar og gróðurvinjar eru mjög mikil verðmæti. Slík verðmæti á þjóðin öll og þau verðmæti ber okkur að vernda til framtíðar, fyrir börnin okkar og barnabörnin og fyrir kynslóðir heimsborgara. Okkur ber einnig að virða menningararfinn, og það jákvæða í ferðafrelsi þeirra sem vilja fara með friði og lúta hófsömu skipulagi. Bændur og útivistarfólk eiga hefðbundinn nytjarétt sem þarf að virða en um leið að halda innan þeirra marka að ekki feli í sér hættu á ofnýtingu eða yfirgangi sem valdið getur skemmdum. Vissulega eru enn staðfest merki um ofbeit á viðkvæmum svæðum, sem eru engum til sóma.
Á sama hátt er mikilvægt að halda aftur af þeim sem vilja fara um hálendið með sáningu og gróðursetningu og gerbreyta ásýnd og aðkomu, að því er virðist nánast án undirbúnings og skipulags. Þeir hinir sömu „öskra” gjarna á þá sem vilja varkára nálgun og vilja sjá náttúrlegri framvindu og þróun gróðurfars og kalla þá „formælendur svartrar náttúruverndar” eins og það sé eitthvað sem er slæmt eða jafnvel afbrigðilegt. Auðvitað vilja menn ekki vernda „sandstorminn” eða öskurokið og auðvitað verða jafnvel formælendur lúpínusáninganna að viðurkenna að einn hluti af verðmæti Sprengisands felast einmitt í hrjóstrinu, sem speglar samspil „eldvirkni og jökultíðar” miklu fremur en ánauð mannvistar síðustu 12 hundruð ára.
Stuðningur við hálendisþjóðgarð yfirgnæfandi meðal almennings
Nýlega tók Kjarninn saman yfirlit um þróun viðhorfa til hálendisfriðunar eins og skoðanakannanir hafa mælt það sl. 10 ár. Þar blasir við að stuðningur við þjóðgarðshugmyndir er margfaldur á móts við minniháttar andstöðu. Raunverulega má líta svo á að andstaða við hálendisfriðun sé „jaðarskoðun“ innan við 10% landsmanna. Slíkt felur auðvitað ekki sjálfkrafa í sér umræðubann eða neitt slíkt, en eins og hér er að ofan rakið þá er búið að taka röksemdir háværustu andstöðuhópanna til yfirvegunar, og taka í mörgum tilfellum fullt tillit til þeirra sjónarmiða og svara öðrum með málefnalegum rökum í greinargerðum. Einnig má vitna í nýlega meistarritgerð Michael Bishop til vitnis um efnislega orðræðu og undirstrikun átakapunkta, en um leið til vitnis um víðtækan stuðning við meginhugmyndina um þjóðgarð á hálendinu.
Það er heiðarlegt að taka sérstaklega fram að undirritaður er í öllum atriðum fylgjandi víðtækri friðun hálendisins og þar með takmörkun á umsvifum framkvæmdaaðila. Ég tel m.a. rétt að setja öllum virkjanaframkvæmdum inni á miðhálendinu afar þröng takmörk og ég tel einnig að þörf sé að taka upp virka stýringu á umferð um viðkvæmustu svæðin, en bæta um leið ferðaleiðir. Ég tel að nauðsyn sé að koma í veg fyrir að einstakir umsvifa-aðilar geti gert út á náttúruperlurnar án þess að sæta skipulagi og gjalda fyrir afnot nægilega til að reka þjónustu og vernda svæðin, um leið og fénýting sameiginlegra auðlinda á alltaf undir öllum kringumstæðum að skila afgjaldi til þeirra landsvæða/sveitarfélaga sem taka á móti heimsóknargestum eða eru lögð undir orkuvinnslu.
Þar af leiðandi er ég í meginatriðum fylgjandi frumvarpi umhverfisráðherra um Miðhálendisþjóðgarð og vil sjá að frumvarpið fái málefnalega meðferð á Alþingi næstu vikurnar og verði afgreitt sem lög fyrir þinglok.
Jafnframt leyfi ég mér að gera þá kröfu fyrir hönd allra sæmilegra Íslendinga að menn haldi sig við hófsemi í orðræðunni og beiti rökum og fari rétt með staðreyndir. Umhverfisráðherrann Guðmundur Ingi er klárlega þekktur að því að vera sjálfur kurteis og almennt vammlaus í orðræðustíl og afar sannfærður umhverfisverndarsinni, og með tilliti til þess er sanngjörn krafa að honum séu ekki borin á brýn önnur eða annarleg sjónarmið. Verst er þó þegar einhvers konar rasískum óþverra er blandað í upphrópanirnar sem á honum ganga eða stuðningsmönnum hálendisfriðunarinnar.
Flestir vilja jú finna ásættanlegan og varanlegan ramma fyrir verndun og farsæla nýtingu hálendisins í þágu framtíðarinnar. Nægilega margar skoðanakannanir hafa staðfest jákvætt viðhorf til stofnunar hálendisþjóðgarðs á umliðnu árum þar sem stuðningur er yfirgnæfandi og því er ekki málefnalegt að hlaupa eftir sértækum kröfum mjög fámennra og sundurleitra hópa, sama hvað menn öskra hátt.
Klárum málið til jákvæðrar niðurstöðu
Fordæmum skítkast og róg. Stöðvum yfirgang og innihaldslausan hávaða, en vinnum málefni hálendisfriðunar til jákvæðrar niðurstöðu.
Við vitum að það verður ekki öllum gert til hæfis; en endilega reynum að halda þeim sem hæst öskra í takmörkuðum „bergmálshelli“ þar sem þeir mæta einkum eigin hávaða, en fá ekki að rugla í þeim sem vilja finna bestu lendinguna fyrir heildarhagsmuni fjöldans og framtíðarinnar.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri.