Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, ritar grein í Kjarnann þann 1.1. sl. Í grein þessari, sem og nokkrum fyrri greinum, talar hann fyrir tollfrjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum til landsins. Í þessum málflutningi virðist hann ekki hafa komið auga á ýmis lykilatriði málsins sem nauðsynlegt er að halda til haga sé ætlunin að komast að þjóðhagslega skynsamlegri niðurstöðu.
Innflutningstakmarkanir geta verið þjóðhagslega hagkvæmar
Það er vel þekkt niðurstaða í hagfræði (sjá t.d. The New Palgrave Dictionary of Economics, 2008 og heimildir sem þar er vísað til) að skynsamlega valdir tollar á innflutning og aðrar innflutningstakmarkanir bæti þjóðarhag. Þessi niðurstaða stendur óhögguð jafnvel þótt útflutningslandið bregðist við með samsvarandi tollum á innflutning til sín. Það er því misskilningur hjá Ólafi að tollar og aðrar viðskiptahindranir skaði ætíð hag borgara viðkomandi lands.
Tollaleikurinn mikli
Ofangreindar niðurstöður hagfræðinnar um alþjóðaviðskipti eru auðvitað grunnástæðan fyrir því að upplýstustu þjóðir heims, þeirra á meðal Evrópusambandið og Bandaríkin, hafa kosið að koma upp og viðhalda margþættu kerfi tolla og annarra viðskiptahindrana. Jafnframt útskýra þær hvers vegna það hefur reynst svo torvelt að ná samkomulagi um algerlega frjáls viðskipti í heiminum, þrátt fyrir að flestar þjóðir styðji slíkt í orði og taki þátt í alþjóðasamstarfi í því skyni.
Kjarni málsins er sá að með snjöllum tollum og öðrum viðskiptahindrunum geta þær þjóðir sem mesta og besta þekkingu hafa á alþjóðlegum viðskiptum og hagfræði þeirra bætt hag sinn á kostnað hinna sem ekki eru eins vel að sér á þessu sviði. Þetta er orsökin fyrir tollaleiknum mikla sem öflugustu þjóðir og þjóðablokkir heims hafa verið að spila í a.m.k. heila öld ef ekki lengur. Á meðan snjöllustu þjóðirnar geta hagnast á þessum leik mun hann halda áfram. Sá hagnaður er tekinn af fákænu þjóðunum sem trúa fagurgalanum um frjáls viðskipti og svokallaða óhefta alþjóðlega samkeppni.
Heimsviðskipti með landbúnaðarafurðir eru ekki frjáls
Í þessu ljósi kemur það ekki á óvart alþjóðaviðskipti með landbúnaðarafurðir einkennast af tollum og margvíslegum öðrum viðskiptahindrunum.
Því fer fjarri að Ísland sé eina landið í heiminum sem takmarkar innflutning landbúnaðarafurða. Þvert á móti er erfitt að finna vestrænt ríki sem gerir það ekki. Ríki ESB og EES sem og Bandaríkin og Kanada takmarka öll innflutning landbúnaðarafurða með ýmsum hætti þar á meðal tollum. Það sama á við um hin miklu útflutningslönd landbúnaðarafurða, Ástralíu og Nýja Sjáland. Innflutningstakmarkanir á landbúnaðarafurðir eru hluti af hinum mikla tollaleik í heimsviðskiptum. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar móta á stefnu um innflutning landbúnaðarafurða til Íslands.
Hugmyndir Ólafs
Hugmyndir Ólafs um óheftan innflutning á landbúnaðarafurðum frá ESB virðast ekki nægilega vel hugsaðar. Þær jafngilda því að Ísland gefist upp í tollatogstreitunni við ESB og feli ESB sjálfdæmi um viðskiptakjör landsins gagnvart ESB. Það getur ekki verið í samræmi við íslenska hagsmuni. Þá virðist Ólafur gleyma því að viðskiptasamningar Íslands og ESB eru kaup kaups. Þannig takmarkar ESB innflutning á sjávarafurðum frá Íslandi til að vernda eigin sjávarútveg. Fráleitt virðist að lækka innflutningshindranir á landbúnaðarafurðum án þess að fá eftirgjöf varðandi sjávarútveg. Margt annað er athugavert við hugmyndir Ólafs sem hér er ekki rúm til að ræða.
Höfundur er prófessor emeritus í hagfræði.