Loksins tókst Bretum að fara úr ESB (les: annar helmingurinn dró hinn nauðugan með sér). Eftir mikið japl, jaml og fuður og klofning bresku þjóðarinnar í herðar niður hafa Bretar yfirgefiið ESB, sambandið sem hefur gefið breskum ríkisborgurum mesta ferða, athafna og atvinnufrelsi sem þeir hafa nokkurn tímann þekkt. En nú verður breyting þar á, og til hins verra að mati þess sem þetta ritar.
Boris Johnson, forsætisráðherra, reynir allt hvað hann getur til þess að telja Bretum trú um að þeir séu nú orðnir „frjálsir“ og loksins lausir undan meintu oki ESB. Samt vill hann vera „besti vinur ESB“ eins og hann segir sjálfur, svo liggur við smjaðri.
Gæfuspor Bretlands tekið til baka
Staðreyndin er engu að síður sú að fyrir hinn almenna Breta verður erfiðara en áður að sækja sér vinnu, menntun og að setjast að í öðru ESB-ríki, en áður. Ekki er það aukið frelsi. Hins vegar var samið um að Bretar fengju að njóta áfram ýmissa réttinda í öðrum ESB-löndum, t.d. heilsugæslu, svona til að milda höggið. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segir máltækið.
Almennt er viðurkennt að aðild Breta að efnahagssamvinnu Evrópuþjóða árið 1973 og síðar því sem varð að ESB dagsins í dag, sé eitt mesta gæfuspor sem þeir hafa tekið.
Í krafti aðildar varð breskur efnahagur mun samkeppnishæfari en hann hafði verið og á mörgum sviðum urðu Bretar leiðandi í Evrópu. Og ekki tók ESB af þeim olíuna, né önnur verðmæti.
Aðild Breta að ESB hefur einnig gulltryggt stöðu London á sviði fjármála og viðskipta, en hinn nýi samningur Bretlands og ESB er í raun mjög þögull um það mál og hvernig það þróast. Í raun er nánast ósamið um öll þjónustuviðskipti, sem eru um 80% af efnahag Bretlands.
Klofið land
Brexit hefur í raun klofið Skotland frá restinni af bresku þjóðinni. Enginn hluti Skotlands kaus með því að ganga úr ESB. Þess vegna eru taldar mjög auknar líkur á því að Skotar muni á næstu misserum krefjast atkvæðagreiðslu um sjálfstæði.
Var ESB vont við Bretland? Nei, aldeilis ekki. Fá lönd hafa fengið jafn hagstæðan aðildarsamning við ESB og Bretland, með ríflegum afslætti af aðildargjöldum til sambandsins, sem þeim sömdu sérstaklega um á sínum tíma. Um var að ræða margra milljarða punda afslátt á ári. Þetta breytti því þó ekki að Bretland greiddi meira til ESB en það fékk til baka, en aðildargjaldið er ákveðin prósenta af þjóðarframleiðslu aðildarlandanna og af tekjur af söluskatti. Hvernig menn meta þessa staðreynd er hinsvegar afstætt, þegar allt dæmið var reiknað.
Gríðarleg samkeppnishæfni
Bretland náði með ESB-aðild að verða eitt samkeppnishæfasta hagkerfi álfunnar og aðildin að Innri markaðnum kom sér mjög vel fyrir landið og íbúa þess. Framleiðniaukning vegna aðildar að ESB hefur verið mæld í tveggja stafa tölum í fjölmörgum greinum bresks atvinnulífs. Nú hefur verið samið um nánast sömu hluti og fólust í aðildinni að Innri markaðnum og til hvers var þá af stað farið?
Fiskveiðar = 0.18%
Jú, aðallega til að ráða fiskimiðum Bretlands, en breskur sjávarútvegur telur um 0.18% af þjóðarframleiðslu landsins. Heil 0.18%! Bretar flytja inn nánast tvöfalt meiri fisk en þeir sjálfir veiða (frá öðrum ESB-ríkjum). Árið 2019 veiddu þeir um 622.000 tonn, að verðmæti um 990 milljónir punda. Skip yfir 10 metrum að stærð eru aðeins um 4% af flota Breta, sem telur um 5900 skip. Vægi sjávarútvegs í Brexit-umræðunni var því í hróplegu ósamræmi miðað við vægi greinarinnar í bresku efnahagslífi. Einnig vildu fylgismenn Brexit losna unda meintri „kúgun“ Evrópudómstólsins. Þeir telja sig einnig gera miklu betri lög en koma frá ESB, sem samt sem áður hafa valdið og leitt til áður óþekktrar hagsældar í landinu. Þetta er svo skrýtið allt saman.
Michael Gove, ráðherra í ríkisstjórn Bretlands sagði í viðtali á BBC að „vegurinn framundan yrði holóttur.“ Til hvers voru Bretar að fara af beinu brautinni yfir á holóttan malarveg? Það er mér fyrirmunað að skilja.
Bretar í samkeppni við ESB?
Bretar segjast nú hafa nýtt „frelsi“ til þess að gera fullt, fullt af nýjum viðskiptasamningum, en samt sem áður er ESB með gríðarlegan fjölda viðskiptasamninga við fjölda ríkja í nánast öllum heimsálfum. Nú er ESB t.d. í samningaviðræðum við Kína. Og ætla þá Bretar í samkeppni við ESB um gerð nýrra viðskiptasamninga? Hefði ekki betra að vera saman, sem stærri og öflugri heild?
Bent hefur verið á að mögulega muni Brexit efla samvinnu og mátt Þýskalands og Frakklands, nú þegar Bretar eru farnir.
En brotthvarf Bretlands skilur líka eftir sig tómarúm á vestur-væng ESB. Gott væri að í framtíðinni myndi Skotland og Ísland fylla upp í það skarð. Gott væri að hafa Noreg með.
Virkið Evrópa
Það þarf nefnilega að byggja raunverulegt virki í Evrópu, virki, þar sem frjálslyndi, virðing fyrir mannréttindum og lýðræði ræður ríkjum.
Mikilvægi þessa sést einmitt vel þegar pólitísk stórslys verða, eins og kjör Donald Trumps, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, hefur sýnt sig vera. Það hefur til að mynda þurft að „staðreyndatékka“ nánast allt sem hann lætur út úr sér. Alls ekki er útilokað að í framtíðinni geti vanhæfur einstaklingur aftur hlotið kosningu sem forseti Bandaríkjanna. Aðgerðir Donald Trumps eftir tap hans gegn Joe Biden hafa grafið undan bandarísku lýðræði á þann hátt að það tekur mögulega fleiri ár, jafnvel áratugi, að bæta þann skaða sem Trump hefur unnið. Og atburðir þann 6. Janúar síðastliðinn, þegar trylltur Trump-skríll réðist á bandaríska þinghúsið, sýndi umheiminum að forseti Bandaríkjanna, valdamesti maður heims, er nánast viti sínu fjær. Því þarf sterka Evrópu, virki lýðræðis, frjálslyndis og almennrar skynsemi, sem getur staðið gegn ruglinu og brjálseminni.
Andstæðingar og í sumum tilfellum hatursmenn ESB hér á landi, hafa nýtt tækifærið til þess að hefja umræðu um endurskoðun (og jafnvel uppsögn) á EES-samningun. Sjálfsagt að skoða samninginn, uppfæra og betrumbæta, en uppsögn er algjör firra. Enginn samningur sem Íslendingar hafa gert sem fullvalda ríki hefur gefið landi og þjóð jafnmikið, á nánast öllum sviðum þjóðlífsins. Það er almennt viðurkennd staðreynd.
Það er hinsvegar ástæða til þess að fara að ræða aftur möguleikann á því að taka upp á ný aðildarviðræður við ESB og huga að þeim möguleika, sem var ýtt út af borðinu vegna sérhagsmuna fárra (sjávarútvegs/landbúnaðar), á kostnað fjöldans og almannahagsmuna.
Ísland gæti í framtíðinni orðið áhrifamikið smáríki á vesturjaðri ESB og N-Atlantshafinu.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.