Þórólfur Matthíasson ritar andsvar við grein minni Viðskiptafrelsi og skynsamleg tollastefna.
Í grein sinni fellst Þórólfur á það meginatriði í grein minni að innflutningstakmarkanir og tollar geti bætt þjóðarhag. Hins vegar telur hann að þessi almenna niðurstaða hagfræðinnar „eigi ekki með neinum hætti við um íslenskan landbúnað“ (en meinar væntanlega innflutning á landbúnaðarafurðum til Íslands). Mikilvægt er að átta sig á því að hér er um að ræða skoðun Þórólfs, en ekki hagfræðilega niðurstöðu. Það er ekkert í hagfræði sem segir að niðurstöður hennar um að tollar geti bætt þjóðarhag eigi ekki við um landbúnaðarvörur eða smá þjóðríki og enn síður Ísland.
Þessi skoðun Þórólfs á þjóðhaglegu gagnsleysi tolla á innflutning landbúnaðarafurða vekur hins vegar spurningu hvers vegna nánast öll vesturlönd leggja tolla á og takmarka með öðrum hætti innflutning á landbúnaðarafurðum. Þetta á jafnt við um stórar ríkjaheildir eins og Bandaríkin og Evrópusambandið tiltölulega lítil ríki eins og Noreg og Sviss. Er Þórólfur virkilega þeirrar skoðunar að öll þessi lönd með sitt öfluga stjórnkerfi og herskara af vel menntuðum hagfræðingum séu að gera sömu mistök og Þórólfur segir að Ísland sé að gera?
Staðreyndin er auðvitað sú, eins og ég rakti í grein minni, að þjóðir heims eiga í langvarandi togstreitu um tolla í því skyni að bæta hag sinn. Tollasamningar fela í sér að þjóðir lækka vissa tolla gegn því að gagnaðilinn lækki sína tolla. Hvað Ísland og Evrópusambandið snertir sækist Ísland eftir lækkunum á tollum ESB á sjávarafurðir en ESB eftir lækkunum á tollum á landbúnaðarafurðir. Þótt ekki komi meira til er þegar í því ljósi óskynsamlegt af Íslandi að lækka tolla á landbúnaðarafurðum nema gegn samsvarandi lækkun tolla af sjávarafurðum.
Höfundur er prófessor emeritus í hagfræði.